Fimmhurðafarsinn Bót og betrun hjá Leikfélags Kópavogs hefur verið í fríi um skeið en snýr aftur nú í maí. Þrjár aukasýnignar verða miðvikudag, fimmtudag og sunnudag í þessari viku. Bót og betrun er hefðbundinn farsi með misskilningi og flækjum af öllu tagi og pínlegum aðstæðum eins og efnið ber með sér. Er því óhætt að lofa gestum góðri skemmtun. Þá spillir það ekki fyrir að verkið er nú frumflutt á Íslandi en óvenjulegt er að áhugafélög ríði þannig á vaðið. Hörður Sigurðarson þýddi verkið úr ensku og er hann jafnframt leikstjóri.

 

Bót og betrun segir frá bótasvindlaranum Eric Swan sem grípur til svika þegar hann missir vinnuna. Svindlið fer hins vegar úr böndunum og Eric kemst að því að það er stundum einfaldara að komast á bætur en af þegar boltinn er einu sinni farinn að rúlla. Að endingu er hann rígfastur í eigin lygavef, fulltrúar Félagsmálastofnunar sækja að honum úr öllum áttum og eiginkonan er full grunsemda. Til að höggva á hnútinn þarf Eric að losa sig við upplogna bótaþega sína en vandinn vex bara með hverri viðleitni hans til að snúa við blaðinu.

Um sviðsmynd og lýsingu sjá félagar úr fjöllistahópnum Norðanbáli. Tíu leikarar fara með hlutverkin, þeir eru: Erna Björg Hallbera Einarsdóttir, Héðinn Sveinbjörnsson, Víðir Örn Jóakimsson, Bjarni Magnús Erlendsson, Örn Alexandersson, Guðlaug Björk Eiríksdóttir, Bjarni Rúnar Guðmarsson, Andri Freyr Sigurpálsson, Þórdís Sigurgeirsdóttir og Sigríður Björk Sigurðardóttir.

Leikfélag Kópavogs er áhugamannafélag í Kópavogi og öllum opið. Félagið var stofnað árið 1957 og hefur æ síðan verið í fremstu röð. Margar uppfærslur félagsins hafa hlotið metaðsókn og metnaður og áræði jafnan verið einkenni starfsins. Sýnt er í Leikhúsinu, Funalind 2.

Kópavogsbúar og nærsveitamenn eru hvattir til að lyfta sér upp á Bót og betrun í Leikhúsinu – miðaverði er stillt í hóf en auki fylgir svonefnd hláturtrygging hverjum miða, þ.e. þeir sem ekki kannast við að hafa tekið bakföll, skellt upp úr, brosað út í annað eða bæði, glott eða fundið að minnsta kosti eins og fiðring ofan við þindina fá miðann endurgreiddan.

Aukasýningarnar verða miðvikudag 4. maí, fimmtudag 5. maí og lokasýning sunnudaginn 8. maí. Miðaverð 1.800 kr. / 1.200 kr. fyrir hópa. Miðasala: midasala@kopleik.is / s. 554 1985.