Áhrifa efnahagslægðar á Íslandi er farið að gæta í starfi sjálfstæðra leikhúsa. Á komandi leikári munu færri uppsetningar líta dagsins ljós miðað við fyrri ár, meðal annars vegna húsnæðisskorts hafa fleiri atvinnuleikhópar sótt á náðir stofnanaleikhúsanna með uppsetningar sínar og leikhópar sækja í auknum mæli til útlanda.

Einungis um 12 verkefni á vegum sjálfstæðra atvinnuleikhópa njóta árlega stuðnings frá ríki og borg fyrir því sem nemur helmingi af uppsetningakostnaði. Önnur verkefni hafa verið fjármögnuð með litlum styrkjum frá fyrirtækjum og eigin fé eða lántöku aðstandenda atvinnuleikhópanna. Tveir síðar nefndu kostirnir hafa horfið á liðnu ári sem hefur ollið því að færri sýningar á vegum sjálfstæðra leikhópa munu líta dagsins ljós á komandi leikári.

Stærsti styrktaraðili sjálfstæðra atvinnuleikhópa hafa þó ávallt verið áhorfendur. Innkoma af sýningum hefur oftast verið megin uppistaða í rekstri sjálfstæðra atvinnuleikhópa. Því er erfitt fyrir þá nú að taka þátt í því verðstríði sem ríkir um þessar mundir á leikhúsmarkaðinum.

braedurReykjavík dans festival brá þó á það ráð að bjóða dansunnendum á sýningar sínar gegn frjálsum framlögum til styrktar dansinum á Íslandi. Var þetta virðingarvert framtak til að koma til móts við efnahagsástandið í þjóðfélaginu. Hins vegar var öll vinna á vegum listamannanna í sjálfboðavinnu.

Um 400 manns starfa árlega hjá sjálfstæðum atvinnuleikhópum fyrir tiltölulega lítinn kostnað af hálfu ríkis og bæja. Það væri óheppileg þróun ef þessi stóri hópur listamanna myndi gefast upp og hætta að framleiða mikilvægan arð fyrir þjóðina.

Þessa listsköpun hafa sjálftæðir sviðslistamenn og atvinnuleikhópar selt úr landi og eflt gjaldeyrisforða þjóðarinnar. Á síðasta leikári sáu fleiri áhorfendur sýningar sjálfstæðra atvinnuleikhópa erlendis en á Íslandi. Íslensk sviðslist var á sviði í Kóreu, Ástralíu, Danmörku, Kanada, Bandaríkjunum, Frakklandi, Rússlandi, Svíþjóð, Ítalíu, Litháen, Lúxemborg, Króatíu, Skotlandi, Þýskalandi, Sviss, Kína, Tasmaníu, Írlandi og Finnlandi. Sjálfstætt starfandi sviðslistamenn hafa í auknu mæli sótt í fjármagn úr erlendum sjóðum til að setja upp sýningar hér heima og erlendis. Í öllu tali um niðurskurð er eitt sem gleymist oft en það er að frum forsenda fyrir fjárstuðning úr erlendum sjóðum er sú að viðkomandi hafi innlent fjármagn á bak við sig.

ponnukakanÖnnur bágborin þróun hefur átt sér stað með fækkun æfinga- og sýningarýma fyrir sjálfstæða atvinnu-leikhópa. Nú er staðan sú að erfitt getur verið fyrir leikhópana að finna hentugt húsnæði þar sem nýlega hafa húsnæði á borð við Möguleikhúsið, Austurbæ (sem er hús unga fólksins) og Skemmtihúsið lokað og óvissa ríkir um framtíð Hafnarfjarðarleikhússins þar sem samningar við það eru lausir. Endurbætur á Tjarnarbæ eru í uppnámi vegna aukins kostnaðar vegna verðlagshækkana á markaði og óvíst hvenær og hvort húsið opnar. Önnur hús eru of dýr til leigu fyrir sjálftæðan atvinnuleikhóp með mjög takmarkað fjármagn að baki.

Þróunin hefur því orðið sú að í ár munu 8 af 10 verkum sem hlutu styrk frá menntamálaráðuneytinu vera sýnd í samstarfi við Leikfélag Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsið. Hinir þurfa að æfa inn í stofum og bílskúrum í veikri von um að sýningarhúsnæði við hæfi líti dagsins ljós.

boluhjalmarSökum efnahagsástandsins hafa helstu fjölmiðlar landsins ákveðið í sparnaðarskyni að gagnrýna ekki leiksýningar sjálfstæðra leikhópa. Þrátt fyrir að nánast allar sýningar þeirra séu ný íslensk verk. Slíkt hefur í för með sér að sýnileiki sjálfstæðra hópa verður minni sökum skorts á fjármagni til auglýsinga kaupa. Slík ákvörðun fjölmiðla gæti stuðlað að því að enn fleiri hópar leiti á náðir stofnanna til að ná athyggli og umfjöllun um sín verk. Völd leikhússtjóranna eru því orðin mikil þar sem þeir stjórna ekki aðeins verkefnavali síns leikhúss heldur líka sjálfstæðra atvinnuleikhópa.

Heildaráhorfendafjöldi leikárið 2008-2009: 151.606
Innanlands: 70.740
Erlendis: 80.866
Áhorfendur innanlands: 68.589 – Sýningar: 681
Áhorfendur erlendis: 5.330 – Sýningar 17
Áhorfendur á gestasýningar: 2.151 – Sýningar: 25
Áhorfendur eingöngu erlendis: 75.536 – Sýningar 165

Aino Freyja Järvelä
Formaður SL

{mos_fb_discuss:3}