Leikfélag Verkmenntaskólans á Akureyri frumsýnir í kvöld söngleikinn Bjart með köflum eftir Ólaf Hauk Símonarson.

Bjart með köflum er söngleikur með tónlist frá hippatímabilinu. Í sýningunni eru lög á borð við; Leyndarmál, Glugginn, Dimmar rósir, Ég elska alla, Undarlegt með unga menn og fleiri lög frá því tímabili.

Sögusviðið er líka frá þeim tíma. Jakob er 17 ára strákur sem kemur úr Reykjavík og ræður sig í vinnumennsku á Gili. Sá sveitabær er frekar ástand en heimili. Ekkert rafmagn, ekkert klósett og amman á bænum sefur í líkkistu. Á bænum býr m.a. ung stúlka, Gunnvör og henni líst vel á Jakob. Á næsta bæ hinsvegar, Hvammi er ástandið gjörólíkt ástandinu á Gili. Þar er nóg rafmagn, kók og prins póló eins og menn geta í sig látið og allt miklu nútímalegra. Dóttir hjónanna þar, hún Ausa er á svipuðum aldri og staðráðin í að ná í Jakob, enda vön að fá það sem hún vill fá. Svo nú þarf Jakob að velja á milli þessara stúlkna.

Um 40 manns koma að sýningunni sem er lífleg og býður upp á gleði, spennu, hlátur og grát í bland við þekkta tónlist.
Leikstjóri er Pétur Guð.

Sýningar á Bjart með köflum fara fram í Freyvangi.

Frumsýning er fimmtudaginn 25. febrúar. Aðrar sýningar eru 26., og 27. febrúar, 3., 4. og 5. mars.
Miðasala er í síma 461 1212, alla daga á milli 17 & 19, í Eymundsson Akureyri og á tix.is