Hugleikur og Leikfélag Kópavogs hafa nú hafið samstarf í annað sinn. Hafnar eru æfingar á verkinu Bingó eftir Hrefnu Friðriksdóttur. Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir. Þetta er frumuppfærsla verksins.

Í leikritinu Bingó sameinast fimm manneskjur við þá heimsþekktu dægradvöl að spila bingó. Þau bregðast við þeim tölum sem koma upp og rifja upp lífið sitt. Spurningin er: Ef þú vandar þig eins og þú getur muntu þá örugglega vinna – eða skiptir engu máli hvað þú gerir? Dreymir ekki alla um að vinna stóra vinninginn?

Um tónlist í verkinu sjá Sváfnir Sigurðarson og Ágústa Eva Erlendsdóttir og áætluð frumsýning er um miðjan apríl.

Árið 2004 hófu Hugleikur og Leikfélag Kópavogs samstarf í fyrsta skipti. Úr varð sýningin Memento mori en þar voru einnig að verki sami handritshöfundur og leikstjóri. Sú sýning hefur unnið til ýmissa verðlauna, var m.a. valin besta sýningin á alþjóðlegu leiklistarhátíðinni Leikum núna sem haldin var á Akureyri 2005. Einnig fór hún sem framlag Íslands á hátíð NEATA, norður-evrópsku áhugaleikhussamtakanna árið 2006 og hefur verið valin til þátttöku á hátíð IATA, alþjóðasamtaka áhugaleikhúsa, sem haldin verður í Suður-Kóreu núna í sumar.