Það var með nokkuri eftirvæntingu sem ég fór á sýningu á 30 ára afmælissýningu Hugleiks sem er fremst í flokki áhugaleikhúsanna í Reykjavík og sýnir alltaf ný íslensk verk á hverju ári. Ég hef í gegnum tíðina séð mörg verka þeirra sem hafa oftar en ekki leitað fanga í sögu þjóðarinnar og verið sett fram með gárungaskap og góðum skammti af söng og tralli. Það er skemmt frá því að segja að ég varð aldeilis ekki fyrir vonbrigðum með Stund milli stríða sem er tvímælalaust besti söngleikurinn sem hefur verið sýndur í höfuðborginni á síðustu árum. Og hann er alíslenskur nota bene. 

 

Þórunn Guðmundsdóttir sem er bæði höfundur texta og tónlistar stígur nú fram sem besti söngleikjahöfundur Íslands og það verður spennandi að fylgjast með henni á næstu árum. Henni tekst í verki sínu þar sem lítill húsmæðraskóli í Reykjavík á millistríðsárunum er miðpunkturinn að fjalla á ótrúlega skemmtilegan hátt  um öll helstu ásteitingsmál þess tíma, eins og kreppuna, gúttóslaginn, geðveikan ráðherra og nasisma . Um leið á verkið skýra og sterka skírskotun til nútímans í afbökun stjórnmálamanna á sannleika og lygi og í óhugnanlegri samsvörun sögunnar til nútímans.  Ástin og gleðin er einnig sterk í verkinu og fallegustu söngatriðin í verkinu rímuðu vel við það. Sagan rann vel og persónurnar skýrar og hver annari skemmtilegri.

Tónlistin í verkinu er alveg frábær og maður trúir því algerlega að maður sé staddur á Hótel Borg árið 1935. Sagan og tónlistin fylgdust vel að og skipt var áreynslulaust  milli angurværra ástarsöngva og kraftmikilla baráttuljóða. Textinn í lögunum er órjúfanlegur hluti verksins og þjónar vel bæði framvindu, tíðaranda og hugblæ söngleiksins.  Bannlagabandið skilaði síðan tónlistinni óaðfinnanlega og af miklu öryggi. 

Leikstjóranum Jóni Stefáni Kristjánssyni tekst vel að stýra stórum hópi leikara og söngvara um krákustigu söngleiksins og flæðið var gott í verkinu. Margir góðir söngvarar  og leikarar eru í hópi Hugleiks eins og venja er og þeir voru vel nýttir.  Það var augljóst að hópurinn skemmti sér konunglega við að koma sýningunni til skila og það skilaði sér svo sannarlega til áhorfenda. Vert er að nefna þá Sigurð H. Pálsson og Stefán Geir Jónsson sem voru ískrandi skemmtilegir í gervi lögregluþjónanna tveggja. Eins voru stelpurnar í húsmæðraskólanum í góðum höndum og Magnea skólastjóri og Björg móðir hennar voru túlkaðar af fimi af þeim Ástu Gísladóttur og Huldu B. Hákonardóttur. Stúdentarnir eru síðan túlkaðir af hæfilegum gárungaskap og gaman var að sjá Jóhann Vilhjálmsson sem lék blaðamanninn Jónas á mikilli kímni.  Öll umgjörð verksins er til fyrirmyndar, leikmynd látlaus og búningar falla vel að tíðaranda og sögu. 

Það er Hugleik til mikils sóma að fagna 30 ára afmæli sínu með svona metnaðarfullri  og góðri sýningu sem bæði vísar til langrar hefðar í frumflutningi nýrra íslenskra verka og notkun  félagsins  á tónlist og hæfilegum dáraskap í sýningum sínum. Eins og ég segi í byrjun þá er Stund milli stríða besti söngleikurinn í borginni og ég hvet alla sem vettlingi geta valdið að drífa sig, hlæja dátt og dilla sér. Þessi sýning fær fimm stjörnur frá mér.Lárus Vilhjálmsson