Berserkur er nýtt verk skrifað og þróað af Spindrift Theatre sem sameinar raunveruleika okkar og skáldskap Lísu í Undralandi. Frásagnarlist Carrolls skapar áhugaverðan grunn fyrir áþreifanlegan og tilraunakenndan leikstíl leikhópsins. Hópurinn nýtir sér galsafull og ryþmísk skrif Carrolls, „bulltexta“ hans í bland við þulur og álíka norræna frásagnalist. Frumsýning er 9. apríl kl. 20.00

Lísa gengur í gegnum sjálfsþekkingarleit þar sem hún stendur í sjálfsmyndarkreppu. Í gegnum söguna stækkar Lísa og minnkar þegar hún þarf að standa frammi fyrir ólíkum og ófyrirsjáanlegum verum og atburðum úr eigin lífi.

Atburðirnir, spurningar um samfélagsleg gildi og verurnar eru endurspeglaðar á gamansaman hátt í ýktum persónum Carrolls. “Við tengdum söguna við okkar eigin sjálfsmynd og atburði úr eigin lífi til að segja sögur af mismunandi Lísum“.

Sýningin Carroll: Berserkur er gagnvirkt þátttökuleikhús sem umleikur áhorfandann og virkjar hann á annan máta en hefðbundið leikhús gerir. Áhorfandinn gengur inn í draumaheim þar sem töfrar leikhússins skapa ævintýralega veröld með óvanalegum uppákomum.

Aðstandendur:
Spindrift Theatre er norrænn leikhópur sem hefur verið starfandi síðan árið 2013. Hópinn skipa fjórar ungar konur, Bergdís Júlía Jóhannsdóttir (Íslandi), Sólveig Eva Magnúsdóttir (Íslandi), Henriette Kristensen (Noregi) og Anna Korolainen (Finnlandi). Meðlimir hópsins lærðu og útskrifuðust úr breska leikhússkólanum Rose Bruford College árið 2013. Spindrift Theatre er tilraunagjarn og framsækinn leikhópur sem leggur áherslu á að skapa út frá forvitni leikarans á eðli mannsins og lífinu sjálfu.

Spindrift sýndi fyrst á Íslandi árið 2013 sýninguna Þríleikur í Gaflaraleikhúsinu og Frystiklefanum í Rifi. Hópurinn sýndi fyrstu þróun að Carroll: Berserk í Drayton Arms Theatre í London á síðasta ári.

Athugið að sýningin er fyrir 15 ára og eldri.

Sýningin fer fram á íslensku.

Gengið er í gegnum Tjarnarbíó í 90 mínútur svo ekki er ráðlagt að taka með sér bakpoka, verðmæti eða miklar yfirhafnir.

Miðasala