Leikfélag Akureyrar leitar að börnum á aldrinum 7–14 ára til að leika við hlið atvinnuleikara í fyrstu frumsýningu haustsins 2007. Þar er á ferðinni fjölskylduleikritið Óvitar eftir Guðrúnu  Helgadóttur í leikstjórn Sigurðar Sigurjónssonar. Jón  Ólafsson semur nýja tónlist fyrir sýninguna og stýrir hljómsveit. Skráning í áheyrnarprufurnar fer fram í leikhúsinu á Akureyri, föstudaginn 20. apríl milli kl. 14 og 15. Áheyrnarprufur fara svo fram 5. og 6. maí n.k.

 

Gríðarlegur leikhúsáhugi á Norðurlandi
Ljóst er að mikill leikhúsáhugi er meðal ungra Eyfirðinga og nærsveitarmanna sem sést best á gríðarlegri þátttöku í leiklistarnámskeiðum sem boðið hefur verið upp á undanfarin misseri. Því má gera ráð fyrir mikilli þátttöku í prufunum. Leikfélag Akureyrar stóð fyrir samskonar prufum fyrir rúmum tveimur árum þegar 18 börn og unglingar voru valin til að taka þátt í uppsetningu leikhússins á söngleiknum Óliver!  Óhætt er að fullyrða að þátttaka barna í atvinnuleiksýningu er afar krefjandi, lærdómsrík en umfram allt skemmtileg lífsreynsla.  Kappkostað verður að þátttaka í prufunum verði ánægjuleg reynsla fyrir alla, hvort heldur sem viðkomandi hlýtur hlutverk í uppsetningunni á endanum eða ekki.

Óvitar í Þjóðleikhúsinu 1979: Barnastjörnur þá – atvinnuleikarar í dag!

Óvitar voru frumsýndir hjá Þjóðleikhúsinu árið 1979 og naut leikritið mikilla vinsælda og einnig þegar það var sett upp á ný í Þjóðleikhúsinu í lok níunda áratugarins. Leikritið er sérstakt fyrir þær sakir að þar leika börn fullorðna og fullorðnir atvinnuleikarar leika börnin í verkinu. Meðal barna sem tóku þátt í uppsetningu Þjóðleikhússins á sínum tíma en eru orðnir leikarar í dag eru Halldóra Geirharðsdóttir, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Benedikt Erlingsson og Helga Vala Helgadóttir.  Guðrúnu Helgadóttur er óþarfi að kynna enda á hún fjölda rómaðra skáldsagna og leikrita, s.s. Jón Odd og Jón Bjarna, Sitji Guðs englar og Páll Vilhjálmsson.

Nánari upplýsingar um prufurnar er að finna á vef LA: www.leikfelag.is

{mos_fb_discuss:3}