Frumsýning á hinum frábæra gamanleik Bar par eftir Jim Cartwright verður föstudaginn 23. febrúar kl. 20 á Nasa við Austurvöll. Sögusvið verksins er ónefndur bar sem er frægur fyrir ,,að annað hvort kemur fólk í pörum eða það fer í pörum".

Áhorfendur fá tækifæri til að sjá og upplifa eina kvöldstund í lífi hjónanna sem eiga og reka staðinn en einnig koma við sögu fjöldi gesta á öllum aldri. Hjóninn virðast við fyrstu sín hata hvort annað – hún daðrar skammlaust við alla gestina og drekkur út gróðann á meðan hann reynir að hafa stjórn á hlutunum. Skrautlegir og óvæntir gestir setja strik í reikninginn og hafa mikil áhrif á þau hjóninn. Þegar kemur að lokun bresta allar stíflur með óumflýanlegu uppgjöri hjónanna á skuggalegum harmleik fortíðarinnar.

Öll hlutverkin fjórtán eru leikin af Steini Ármanni Magnússyni og Guðlaugu Elísabetu Ólafsdóttur en þau eru með vinsælustu og fyndnustu gamanleikurum þjóðarinnar. Eins órtúlegt og það hljómar, þá er þetta í fyrsta skipti sem þau leika saman á sviði en saman hafa þau tekið þátt í Stelpunum á Stöð tvö. Leikstjóri sýningarinnar er Gunnar I. Gunnsteinsson.

Leikritið Bar par var fyrst sett upp á Íslandi fyrir tæplega 15 árum hjá LA og varð strax gríðarlega vinsælt. Stuttu síðar frumsýndu Guðmundur Ólafsson og Saga Jónsdóttir Bar par í kjallara Borgarleikhússins. Ekkert lát var á vinsældum sýningarinnar og var það sýnt fyrir fullu húsi í nokkur ár ásamt því að ferðast um land allt .
Jim Cartwright er ekki bara vinsæll höfundur út um allan heim heldur líka á Íslandi. Meðal verka sem hafa verið sett upp eftir hann á Íslandi eru Stræti, Stone Free og Taktu lagið Lóa.

Leikmyndahönnuður er Vignir Jóhannsson og búningahönnuður er María Ólafsdóttir. Umsjón með förðun hefur Kolbrún Birna Halldórsdóttir. Framleiðendur eru Jóhann Sigurðarson og Hilmir Snær Guðnason / Tölt ehf.

Eins og áður sagði verður frumsýnt föstudaginn 23. febrúar kl. 20 en næstu sýningar verða sunnudaginn 25. og miðvikudaginn 28 febrúar.
Miðasala verður á Nasa frá kl. 13-16 alla virka daga í síma 511-1302 en einnig verður hægt að kaupa miða á nasa.is og midi.is.

Húsið opnar kl. 19.00 alla sýningardaga.