Föstudaginn 10.02 frumsýnir Leikfélag Reyðarfjarðar nýtt íslenskt verk, Baðstofuna eftir Gunnar Ragnar Jónsson. Í litlu koti í afskekktum dal húkir fjölskylda og lifir á litlu. Eftir að morð er framið á bæ í nágrenninu ber förumann að garði. Við það færist fjölbreytni í líf fjölskyldunnar og undarlegir atburðir fara að gerast. Hér er á ferðinni gamansamur leikur að þjóðsagnaarfi þjóðarinnar með tilheyrandi drunga og spennu.

Formaður Leikfélags Reyðarfjarðar, Gunnar Ragnar Jónsson, setti verkið saman eftir mikla hugmyndavinnu leikhópsins. Þetta átti þó aldrei að verða leikrit. Upphaflega átti að vera á ferðinni stutt skemmtidagskrá í tilefni menningarhátíðarinnar Dagar Myrkurs. Fljótt var þó ljóst að efniviðurinn vatt upp á sig og úr varð heildstætt leikverk. Gunnar hefur áður skrifað leikrit fyrir leikfélagið og þá í samstarfi við Þórð Vilberg Guðmundsson. Var það Í hers höndum sem leikfélagið setti upp sl. sumar í tilefni Hernámsdagsins á Reyðarfirði.

Eins og svo oft áður var ekki um eiginlegan leikstjóra að ræða við uppsetningu verksins. Þó nutum við krafta tveggja kjarnamanna.  Jakob Jónsson, leikstjóri, veitti góðan stuðning við uppsetningu verksins með ráðgjöf á æfingarferlinu. Þá kom Pétur Ármannsson austur og ýtti sýningunni upp á hærra og ferskara plan. Báðum þessum mönnum er þakkað fyrir ómetanlegt framlag til sýningarinnar en án aðkomu þeirra væri hún ekki svipur hjá sjón.

Leikmyndagerð var í höndum Unnar Sveinsdóttur og Jóns Grétars Margeirssonar. Þuríður Haraldsdóttir stýrði búningahönnun og ljósahönnun var í höndum þeirra Bóasar Inga Jónassonar og Guðmundar Y. Hraunfjörð.

Alls verða sex sýningar á verkinu og verða þær sem hér segir:
Frumsýning – 10. 2. kl. 20.30
2. sýning – 12. 2. kl. 16.00
3. sýning – 16. 2. kl. 20.00
4. sýning – 17. 2. kl. 20.00
5. sýning – 18. 2. kl. 20.00
6. sýning – 19. 2. kl. 16.00

Leikarar í sýningunni eru Guðmundur Hraunfjörð, Jón Páll Helgason, Jón Vigfússon, Thelma Rún Magnúsdóttir, Almar Blær Sigurjónsson, Viktor Páll Magnússon og Þórður Vilberg Guðmundsson sem öll hafa leikið með Leikfélagi Reyðarfjarðar áður. Síðan eru Unnur Sveinsdóttir, Anna Björk Hjaltadóttir og Bryndís Guðmundsdóttir að stíga sín fyrstu spor á sviðinu í Félagslundi.

Miðaverð er 2000 kr. en 1500 kr. fyrir börn undir 12 ára aldri, eldri borgara og öryrkja. Miða má fá í forsölu í síma 865-5216 og með því að senda tölvupóst á leikfelagreydarfjardar@gmail.com

{mos_fb_discuss:2}