Skemmtileg og fróðleg kynning á starfsemi áhugaleikfélaganna er þessar vikurnar og mánuðina á síðum Bændablaðsins. Óumdeilt er hve áhugaleikfélögin eru mikilvægur hluti af menningarlífi landsmanna ekki síst í hinum dreifðu byggðum. Enda þykir þeim á Bændablaðinu fullt tilefni til að kynna hið frjóa og öfluga starf sem þar fer fram. Bændablaðið hefur löngum verið þekkt fyrir að miðla fróðleik og efni sem oft er afskipt á öðrum fjölmiðlum og bregst ekki bogalistin hér. Blaðinu er dreift ókeypis víða um land en einnig má finna efni þess á vefnum bbl.is.