Axlar-Björn, nýtt rammíslenskt verk úr smiðju Vesturports verður frumsýnt í Borgarleikhússins á miðvikudagskvöld kl. 20. Axlar-Björn rekur öðrum þræði sögu þessa eins kaldrifjaðasta morðingja Íslandssögunnar en veltir einnig upp sígildum spurningum um þá brenglun sem leiðir til óhæfuverka. Björn Hlynur Haraldsson skrifar verkið og leikstýrir en þeir Alti Rafn Sigurðarson og Helgi Björnsson fara með hlutverk Axlar-Björns.

Í Axlar-Birni er sögð saga eins kaldrifjaðasta morðingja Íslandssögunnar. Móðir hans var sólgin í mannablóð þegar hún gekk með hann og faðir hans blóðgaði sig reglulega til að svala þorsta eiginkonu sinnar. Því má segja að óhugnaðurinn í eðli Axlar-Björns hafi hafist þegar í móðurkviði. Axlar-Björn myrti átján manns áður en upp um hann komst. Fyrsta fórnarlambið dysjaði hann í flórnum á Knerri en hinum sökkti hann í Ígultjörn. Axlar-Björn var á endanum tekinn höndum og þau Steinunn, kona hans, dæmd til dauða á Laugarbrekkuþingi árið 1596. Brotið skyldi í Birni hvert bein og þau Steinunn síðan bæði hálshöggvinn.

Axlar-Björn rekur öðrum þræði sögu þessa ógnvekjandi morðingja en veltir einnig upp sígildum spurningum um þá brenglun sem leiðir til óhæfuverka. Björn Hlynur Haraldsson (1974) hefur getið sér gott orð bæði sem höfundur og leikstjóri, hann skrifaði t.a.m. leikritið Dubbeldusch auk þess að skrifa leikgerð Faust og Húsmóðurina ásamt félögum sínum í Vesturporti. Kjartan Sveinsson (1978) úr Sigurrós undirstrikar óhugnaðinn með tónlist og hljóðmynd.

Axel Hrafnkell Jóhannesson hannar leikmynd og Mundi búninga. Höfundur tónlistar og hljóðmyndar er Kjartan Sveinsson úr Sigurrós. Kjartan Þórisson annast lýsingu.

{mos_fb_discuss:2}