Leikfélag VMA frumsýnir Ávaxtakörfuna eftir Kristlaugu Maríu Sigurðardóttur og Þorvald Bjarna Þorvaldsson í Menningarhúsinu Hofi 11. febrúar nk.
Hið sígilda barnaleikrit Ávaxtakarfan fer á fjalirnar í Hofi í febrúar. Leikfélag Verkmenntaskólans á Akureyri hefur síðustu ár verið með metnaðarfullar uppsetningar og er þessi sýning sú stærsta til þessa.
Nokkrar áherslubreytingar verða í sýningunni, miðað við fyrri uppfærslur á verkinu, og má þar nefna að grænu bananarnir eru tveir og auk þeirra eru fimm mandarínur sem langar óskaplega mikið að vera með öllum hinum í ávaxtakörfunni.
Fimmtán leikarar koma fram í sýningunni en alls koma um sextíu manns að henni með einum eða öðrum hætti.
Leikstjóri er Pétur Guðjónsson og honum til aðstoðar er Jokka G. Birnudóttir. Tónlistina í sýningunni hefur höfundur hennar, Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, unnið. Söngstjóri er Sindri Snær Konráðsson, raddþjálfun annast Þórhildur Örvarsdóttir, Ívar Helgason sér um hreyfingar, Harpa Birgisdóttir um útlit og Soffía Margrét Hafþórsdóttir hannar búninga. Þá eru ónefndir allir þeir fjölmörgu nemendur VMA sem hafa lagt hönd á plóg við uppfærsluna.
Sem fyrr segir verður Ávaxtakarfan sýnd í Menningarhúsinu Hofi, nánar tiltekið í Hamraborg.
Sýningarnar verða eftirfarandi: 11. febrúar kl. 14:00 og 17:00, 18. febrúar kl. 14:00 og 17:00.
Miðasala er á mak.is