Á Íslandi er enga stefnu að finna hjá opinberum aðilum í málefnum barna og unglingaleikhúss nema ef vera skyldi kvöð á Þjóðleikhúsi að setja upp barnasýningar. Það er enginn sérstakur sjóður sem styður barnaleikhús og lítill stuðningur opinberra aðila við Íslandsdeild ASSITEJ, alþjóðasamtaka um barna- og unglingaleikhús. Í gegnum tíðina hafa sjálfstæðir leikhópar verið duglegastir við að sinna börnum og unglingum og hefur þeim verið vel tekið í grunn- og leikskólum. Kreppan hefur að miklu leyti kippt fótunum undan þeirri starfsemi því kaup skóla á leiksýningum voru eitt af því fyrsta sem lenti undir niðurskurðarhnífnum og komið hefur berlega í ljós að það er ekkert öryggisnet fyrir leikhópana og því óljóst nú hvort þeir lifi eða deyi. Á sama tíma hefur dregið jafnt og þétt úr opinberum stuðningi við sjálfstætt starfandi barnaleikhús. Á Íslandi er sú goðsögn lífseig að allir fari í leikhús, óháð stétt og stöðu. Eflaust er sannleikskorn í þessu enda hafa öll íslensk börn haft einhvern aðgang að leikhúsi fram til þessa. Það er þó stórhætta á að það breytist nú og það verði forréttindi þeirra efnameiri að stunda leikhús.
Á alþjóðlegum leikhúsdegi barna, 20. mars, sjá Samtök um barna og unglingaleikhús á Íslandi því miður fáar ástæður til fagnaðar. Fjárveitingar til sjálfstæðra barnaleikhúsa eru nærri núllinu, það eru fáar barnaleiksýningar á fjölunum og leikhópar þeir sem hafa hingað til sinnt börnum eru að draga saman seglin eða hætta. Í alþjóðlegu samhengi erum við snauð þjóð því við höfum ekki efni á að gera vel við börn. Samt erum við alveg ógizzlega rík í alþjóðlegu samhengi og því er þetta ráðslag okkur til lítils sóma. Það fer ágætlega á þvi að enda þetta fátæklega ávarp með nokkrum ljóðlínum úr Kardimommubænum:
Og því Kardemommuborg ég bjó
hin bestu lög í raun
og í þessa góðu lögbók letrað var:
Engum sæmir aðra að svíkja
allan sóma stunda ber
annars geta menn bara lifað og leikið sér.
Samtök um barna- og unglingaleikhús á Íslandi
{mos_fb_discuss:3}