Aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga
Félagsheimilinu á Seltjarnarnesi 6.-7. maí 2006

1.
Guðrún Halla Jónsdóttir formaður bauð fundargesti velkomna. Hún stakk upp á Grétari G. Guðmundssyni, Leiklistarf. Seltjarnarness, og Ingólfi Þórssyni, Freyvangsleikhúsinu, sem fundarstjórum, það samþykkt. Halla stakk jafnframt upp á Ármanni Guðmundssyni, starfsmanni skrifstofu, og Dýrleifi Jónsdóttur, Leikf. Hafnarfjarðar, sem fundarriturum. Það samþykkt.

2.
Regína Sigurðardóttir, Leikf. Húsavíkur, formaður kjörnefndar afgreiddi kjörbréf og afhenti atkvæðaspjöld. Atkvæði alls 23. Staða framboða kynnt. Júlíus Júlíusson, Hörður Sigurðarson og Lárus Vilhjálmsson áttu að ganga úr stjórn og Ármann Guðmundssson og Margrét Tryggvadóttir úr varastjórn. Lárus gaf kost á sér til endurkjörs en ekki Hörður og Júlíus. Ármann gaf kost á sér til aðalstjórnar og Margrét til varastjórnar.

3.
Júlíus las Menningarstefnu. Fundurmenn kynntu sig.

4.
Lárus greindi frá hvaða félög hefðu sótt um að ganga í Bandalagið. Leikfélagið Baldur, Bíldudal, og Leikklúbburinn Krafla, Hrísey, höfðu sótt um og voru samþykkt. Ofleikur, Reykjavík, Ultima Thule, Kaupmannahöfn, og KEX, Osló,  sögðu sig úr Bandalaginu.

5.
Fundargerð síðasta aðalfundar borin upp til samþykktar. Hún samþykkt.

6.
Guðrún Halla flutti skýrslu stjórnar:

Ársskýrsla stjórnar Bandalags íslenskra leikfélaga fyrir starfsárið 2005-2006

Lögð fram á aðalfundi á Seltjarnarnesi 6. maí 2006.

Stjórn Bandalagsins er þannig skipuð:
Guðrún Halla Jónsdóttir, Akureyri, formaður
Lárus Húnfjörð Vilhjálmsson, Álftanesi, varaformaður
Þórvör Embla Guðmundsdóttir, Reykholtsdal, ritari
Hörður Sigurðarson, Reykjavík, meðstjórnandi
Júlíus Garðar Júlíusson, Dalvík, meðstjórnandi

Í varastjórn eru:
Margrét Tryggvadóttir, Hvolsvelli
Ármann Guðmundsson, Reykjavík
Ólöf Þórðardóttir, Mosfellsbæ
Hrund Ólafsdóttir, Kópavogi
Ingimar B. Davíðsson, Noregi

Framkvæmdastjóri Bandalagsins er Vilborg Árný Valgarðsdóttir og ritari skrifstofu er Sigríður Lára Sigurjónsdóttir. Hún hefur verið í barneignarleyfi frá 1. janúar og hefur Ármann Guðmundsson gegnt hennar starfi á meðan.

Stjórnarfundir:
Stjórnin hefur komið saman til 6 reglulegra stjórnarfunda frá síðasta aðalfundi. Þeir hafa verið haldnir í Stykkishólmi, Grjóteyri í Borgarfirði og í þjónustumiðstöðinni í Reykjavík.
Þar hefur verið fjallað um m. a. úthlutun styrkja, málefni Leiklistarskóla BÍL, fjármál BÍL, rekstur Leiklistarvefsins, NAR og NEATA samstarfið, alþjóðlega starfið sem og starfið í NUTU og hlutverk íslenska fulltrúans þar, ritun sögu BÍL sem og undirbúning Margs smás sem fram fór í gær.
Fundargerðir stjórnar má finna í ársriti BÍL og á leiklist.is undir Bandalagið/Fundir. Fundirnir eru yfirleitt líflegir, enda þar rætt um allt sem viðkemur starfseminni.

Leikfélögin:
Aðildarfélögin voru eftir síðasta aðalfund 64 talsins. Starfandi leikfélög á leikárinu hafa verið 31 eftir okkar bestu vitund og hafa þau sett upp samtals 81 verkefni, þar af eru 21 íslenskt og 20 erlend leikrit í fullri lengd auk  40 styttri verka og einþáttunga. Líklega er þessi tala þó ekki endanleg og verður ekki fyrr en unnið hefur verið úr styrkumsóknum leikfélaganna, sem berast eiga þjónustumiðstöðinni fyrir 10. júní n.k.  Umsóknareyðublöð eru kominn á vefinn og verða send formönnum og gjaldkerum í pósti á mánudaginn. Styrkur  fyrir verk í fullri lengd á síðasta leikári  var 297.400 og álag frá 10% til 30% af þeirri upphæð. Vegna fækkunnar verkefna hækkaði styrkurinn úr 250.000 frá árinu áður, en heildarupphæð til úthlutunar hækkaði ekki milli ára.

Aðalfundur 2004 samþykkti eftirfarandi starfsáætlun fyrir leikárið 2005-2006:

Almenn starfsemi:

1. Rekstur þjónustumiðstöðvar í samræmi við lög BÍL
Í þjónustumiðstöðinni starfar framkvæmdastjóri í fullu starfi ásamt ritara í hálfu starfi, eins og verið hefur síðustu 13 ár. Verkefnin hafa verið þau sömu og fyrr, þ.e. þjónusta við aðlidarfélögin, félagasamtök, atvinnuleikhúsin og einstaklinga ásamt samskiptum við opinbera aðila á innlendum og erlendum vettvangi.
Sala á leikhúsfarða og tengdum vörum er aðaltekjulindin eins og fram kemur í ársreikningi sem lagður verður fram hér á eftir.

2. Rekstur fasteigna skv. viðhaldsáætlun
Framkvæmdir við byggingu þriggja hæða bílakjallara og fjögurra hæða verslunar- og íbúðahúsnæðis á  næstu lóð er í fullum gangi, með tilheyrandi óþægindum og ágangi á okkar eign. Viðhaldi utanhúss hefur verið frestað þar til þessum framkvæmdum verður lokið og sömuleiðis endurnýjun þaks á handritasal, en þar höfum við átt í linnulitlum lekavandamálum.

3. Útgáfa Ársrits fyrir leikárið 2004-2005.
Ársrit fyrir leikárið 2004-2005 kom út skv. áætlun í september á liðnu ári. Það var með svipuðu sniði og fyrri ársrit og því var dreift í einu eintaki til hvers aðildarfélags svo og til þeirra opinberu aðila sem málið varðar. Ársritið er á vefsíðu Bandalagsins, leiklist.is, og auðvelt fyrir hvern sem vill að prenta það út þaðan. Ritstjórn var á höndum aðalstjórnar Bandalagsins en efnisöflun og uppsetning var gerð af starfsmönnum. Fengin var utanaðkomandi aðstoð við prófarkalestur og var ritið ljósritað og bundið á ljósritunarstofu úti í bæ.

4. Starfsemi Leiklistarskóla BÍL skv. fyrirliggjandi námskeiðaáætlun.
Skólameistari mun gera grein fyrir starfsemi skólans hér á eftir undir liðnum skýrslur nefnda.

5. Viðhald vefsíðunnar leiklist.is skv. tillögum vefnefndar
Lénsherra vefsíðunnar mun gera grein fyrir þessum lið undir skýrslur nefnda.

6.  Leitað eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum til starfsemi áhugaleikfélaganna, skrifstofu Bandalagsins og Leiklistarskóla þess.
Formaður fór á fund fjárlaganefndar og útskýrði fyrir nefndarmönnum hver staða Bandalagsins og aðildarfélaga þess væri og óskaði eftir hækkun. Framlögin til félaganna voru hækkuð um 1 milljón.

7. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athygliverðustu áhugaleiksýningu ársins
Það samstarf er í fullum gangi og verður valið á athygliverðustu áhugasýningu ársins kynnt á þessu þingi eins og vani er.
Einnig fóru 2 fulltrúar stjórnar á fund með Þjóðleikhússtjóra í vikunni og ræddu framhald þessa samstarfs sem og stofnun búningaleigu/safns sem tæki yfir útlán saumastofu Þjóðleikhússins. Nánar verður farið í niðurstöður þess fundar undir öðrum málum.

Sérverkefni starfsársins:

1. Halda alþjóðlega leiklistarhátíð á Akureyri dagana 22.-26. júní 2005
Hátíðin Leikum núna! var haldin með prompi og pragt og sýndu alls 9 leikfélög 11 verk á hátíðinni, þar af 2 erlend félög. Hátíðin gekk vel en hefði að ósekju mátt vera fjölmennari en um 200 manns voru á Leikum núna! þegar mest var.
Sýnt var á 5 stöðum auk þess sem gagnrýni og hátíðarklúbbur voru tveimur stöðum til viðbótar. Því er óhætt að segja, að hátíðargestir hafi sett svip á bæinn, þá daga sem á hátíðinni stóð.

2. Stefna að útgáfu Sögu Bandalagsins 1950-2000 á leikárinu.
Ritun sögunnar er að mestu lokið, aðeins eftir að fínpússa og velja myndir í bókina. Næsta verkefni hlýtur að vera að leita að fjármagni til útgáfunnar. Ritstjórinn, Bjarni Guðmarsson, flytur skýrslu um gang verksins hér á eftir.

Erlent samstarf:

Hugleikur fór sem fulltrúi okkar á Alþjóðlegu leiklistarhátíðina í Mónakó í ágúst síðastliðnum, með sýninguna Undir hamrinum eftir Hildi Þórðardóttir í leikstjórn Ágústu Skúladóttur. Voru hátíðargestir yfir sig hrifnir og í framhaldinu bauðst félaginu að fara með sýninguna til Rússlands á tvær hátíðir nú síðar í þessum mánuði. Þetta boð var þegið og er þetta umtalsvert ferðalag, því fyrst er flogið til  Moskvu og þaðan farið með lest 600 km í aðra áttina og svo komið til baka og lagt í hann 600 km í hina áttina! Það er ýmislegt á sig lagt fyrir leiklistina.
Hátíðin í Mónakó tókst vel og var þar um 20 manna hópur frá Íslandi, þar á meðal var framkvæmdastjóri Bandalagsins sem sat NEATA og NAR fundi fyrir okkar hönd í forföllum formanns.
NEATA hátíð verður í Færeyjum í ágúst og verða Hugleikur og Leikfélag Kópavogs fulltrúar okkar þar með samstarfsverkefnið Memento mori eftir Hrefnu Friðriksdóttur í leikstjórn Ágústu Skúladóttur.
Sumarskóli NUTU var haldinn í Færeyjum síðasta sumar og voru þar 7 íslenskir nemendur. Meðal kennara í skólanum var margnefnd Ágústa Skúladóttir. NUTU skólinn í ár verður í Esbo í Finnlandi og þangað fara 10 nemendur auk Árna Grétars Jóhannssonar, sem er fulltrúi Íslands í stjórn NUTU. Einn íslenskur kennari kennir við skólann í sumar, það er Sigrún Sól Ólafsdóttir.
Formaður BÍL situr jafnframt í stjórn NAR, Nordisk Amatörteaterråd og NEATA, North European Amateur Theater Alliance. Helsta verkefni stjórnar NAR er að úthluta styrkjum til áhugaleikhópa sem sækja vilja leiklistarhátíðir eða heimsækja áhugaleikfélög á öðrum Norðurlöndum. Auk þess stendur NAR fyrir og styrkir ýmis verkefni, svo sem leiklistarhátíðir og námskeið. Á starfsárinu sótti formaður tvo fundi vegna þessa, í Ribe Danmörku og á Akureyri. Formaður og framkvæmdastjóri munu síðan fara til Færeyja á NEATA hátíðina og síðan mun formaðurinn, ef Guð lofar, fara til Helsinki í Finnlandi á NAR fund í september.

Lokaorð:

Starfsemi Bandalagsins er sem áður í föstum skorðum og samkvæmt starfsáætlun aðalfundar. Fjárhagsstaðan mætti vera betri. Aðsetur þjónustumiðstöðvarinnar við Laugaveg 96 orðin skuldlaus eign BÍL. Við búum við þá gæfu að hafa afar hæft og gott starfsfólk og er starfsmannavelta svo til engin. Leiklistarskólinn okkar fagnar sínu tíunda starfsári nú í sumar og er það jafnframt síðasta árið sem okkar dásamlegu skólastýrur stjórna skólanum, launalaust að venju. Það verður mikill missir að þeim stöllum Gunnhildi og Sirrý en vonandi skella þær sér bara í skólann sem almennir nemendur næsta sumar! Mig langar að biðja aðalfundarfulltrúa að standa upp og hylla þær vel og lengi!.
Að lokum langar mig að hvetja stjórnarmenn leikfélaganna til að nota nú tækifærið í aðdraganda kosninga og leggja hart að sínum frambjóðendum til sveitastjórna, að gera nú samstarfssamninga við leikfélögin og tryggja þannig starfsgrundvöll þeirra. Á sama hátt vil ég hvetja ykkur til að leggja hönd á plóg í baráttunni fyrir hækkuðum framlögum ríkisins með því að ræða við ykkar þingmenn og þó sérstaklega fjárlaganefndarmenn, nú er lag þegar eitt ár er til kosninga.

Stjórn BÍL þakkar sérstaklega framkvæmdastjóra og starfsmönnum samstarfið svo og skólastjórnendum leiklistarskóla BÍL, samstarfsaðilum í Þjóðleikhúsinu og forsvarsfólki hátíðarinnar Margt smátt í Borgarleikhúsi.

Akureyri 4. maí 2006,

Guðrún Halla Jónsdóttir,
formaður.

Guðrún Halla þakkaði Einari Rafni Haraldssyni fyrrverandi formanni kærlega fyrir frábærlega unnin störf í þágu Bandalagsins sl. 13 ár og baðst afsökunar á að það fórst fyrir á síðasta aðalfundi.

7.
Vilborg leggur fram reikninga síðasta árs og skýrir þá.
Tap á rekstrarreikningi kr. 565.699, tilkomið vegna leiklistarhátíðarinnar Leikum núna! en tap á henni var samtals um 1.200.000. Skuldir um áramót samtals 1.798.355. Eignir voru samtals 17.127.736 eða um 2 milj. hærri en árið áður sem skýrist af endurmati fasteignar skv. fasteignamati.

8.
Skýrsla stjórnar og reikningar samþykkt án frekari umræðu.

9.
a. Gunnhildur Sigurðardóttir, skólastýra, flutti skýrslu skólanefndar:

Skýrsla skólanefndar á aðalfundi BÍL 6.-7. maí 2006

Á síðasta ári voru 3 námskeið í boði á vegum skólans. Eftirtalin námskeið voru haldin í Svarfaðardal í júní 2005; Leikstjórn 1 kennari Sigrún Valbergsdóttir, Leiklist 2 kennari Árni Pétur Guðjónsson og framhaldsámskeið fyrir leikara kennari Rúnar Guðbrandsson. Alls sótti 31 nemandi þessi námskeið.

Helgina 1. – 2. október var svo haldin fyrirlestrarhelgi í húsnæði Leikfélags Hafnarfjarðar þar sem yfirskriftin var „Hinar þúsund þjalir leikstjórans“. Snorri Freyr Hilmarsson flutti fyrirlestur um vinnuferli við hönnun leikmyndar. Þórunn Elísabet Sveinsdóttir fræddi okkur um vinnuferli við hönnun búninga. Ásta Hafþórsdóttir flutti fyrirlestur um gerfi og förðun og Egill Ingibergsson um lýsingu leiksýningar og Sigrún Valbergsdóttir stjórnaði umræðum. Alls sóttu 25 manns þessa fyrirlestrahelgi og er skólanefnd sammála um að slíkir stuttir fyrirlestrar séu góð viðbót við starfsemi skólans.

Á þessu ári eru 5 námskeið í boði. Í júní verða 3 námskeið að Húsabakka. Námskeiðið „Hvernig segirðu sögu“, kennari Ágústa Skúladóttir. Þátttakendur þurfa ekki að hafa sótt grunnnámskeið leiklistarskólans en þó að hafa einhverja reynslu af leiklist. Þetta er námskeið sem hefur áður verið haldið og naut mikilla vinsælda og nú er fullbókað. Steinunn Knútsdóttir mun kenna á námskeiði sem ætlað þeim sem sótt hafa grunnnámskeið skólans eða hafa umtalsverða leikreynslu. Þar verður unnið með tvö ólík leikverk, eitt klassískt og annað nýtt verk til að skerpa skilning á þeirri grundvallartækni sem þarf til að greina og vinna með senur og karakter en um leið þeirri sérstöku tækni/leikstíl sem ólík verk kalla á. Þriðja námskeiðið er leikstjórn 2 kennari Sigrún Valbergsdóttir. Eins og áður var sagt er fullbókað á námskeiðið „Hvernig segirðu sögu“, en enn eru laus pláss á hin tvö námskeiðin.

Í haust verða svo tvö helgarnámskeið í förðun. Byrjendanámskeið 13.-15. október og framhaldsnámskeið 27. – 29. október. Kennari er Gréta Boða. Nánari upplýsingar um námskeiðskólans er að finna á leiklist.is.

Á árinu urðu mannaskipti í skólanefnd. Anna Jeppesen og Þorgeir Tryggvason létu af störfum. Þau hafa bæði unnið frábært starf í þágu skólans og þökkum við þeim fyrir afskaplega ánægjulegt samstarf. Í þeirra stað komu inn í nefndina, Dýrleif Jónsdóttir, og Herdís Þorgeirsdóttir. Einnig fengum við varanefndarmann Hrefnu Friðriksdóttur sem gegnir nú starfi aðalnefndarmanns í fjarveru Huldar Óskarsdóttur. Við bjóðum þær velkomnar í skólanefnd.

Í skýrslu skólanefndar höfum við oft varpað fram einhverjum málefnum fyrir fundarmenn til að velta vöngum yfir. Í ár verður leiklistarskólinn settur í 10. sinn og er okkur efst í huga sú staðreynd að enn er aðeins fullbókað á eitt námskeið þrátt fyrir það að umsóknarfrestur hefur verið framlengdur til 10. maí. Það verður að segjast eins og er að skólanefnd hefur talsverðar áhyggjur af þessari dræmu aðsókn og langar að biðja fulltrúa þeirra leikfélaga sem hér eru til að íhuga þetta með okkur. Við leggjum hér því fram til umræðu spurningar eins og:

Er markaðurinn orðinn mettur í bili?
Erum við með rangar áherslur hvað varðar námskeiðsframboð?
Er tímasetning námskeiðanna röng?
Höfum við verið of íhaldssöm?
Þurfum við að endurskoða starfsemi skólans á einhvern hátt?

Við vonum að hér skapist líflegar umræður um leiklistarskóla Bandalags Íslenskra leikfélaga.

Umræður:
Örn Alexandersson, Leikf. Kópavogs, lagði til að skólinn stæði að námskeiði þar sem kennd væri stjórnun leikfélaga.

Þorgeir Tryggvason, Hugleik, benti á að það vantaði sárafáa nemendur til að fylla tilskilinn fjölda og því ekki ástæða til að gera miklar breytingar

Guðfinna Gunnarsdóttir, Leikfélagi Selfoss, velti upp þeirri spurningu hvort að kynning á skólanum innan félaga væri nógu góð.

Sóley Axelsdóttir, Halaleikhópnum, sagði að skortur á aðgengi hamlaði þátttöku Halaleikhópsins í skólanum.

Lárus Vilhjálmsson taldi að það sem væri kannski helst vandamál væri aðgengi og svefnaðstaða sem er ekki sérlega góð. Nú væru blikur á lofti með skólann og horfa þyrfti til þessa mála ef skólinn skipti um stað. Hann sagði skólann vera helstu ástæðu öflugs starfs í sínu félagi.

Hrund Ólafsdóttir, Leikfélaginu Sýni, sagðist hafa verið spurð hvort Bandalagið gæti ekki bara keypt Húsabakka. Sagði það galla að ekki væri hægt að halda tækni- og förðunarnámskeið þar. Hún sagði að með aukinni menntun áhugaleikara hafi sumir innan atvinnuhreyfingarinnar fyllst óöryggi og óttist undirboð leikstjóra úr röðum Bandalagsfélaga. Hún hvatti félögin eindregið til að senda fólk í skólann og styrkja það til þess fjárhagslega.

Gunnhildur þakkaði góðar ábendingar. Hún sagði nauðsynlegt að halda umræðunni um skólann lifandi á hverju ári. Hún sagði skólanefnd vita upp á sig skömmina varðandi aðgengi.

b.
Bjarni Guðmarsson, söguritari Bandalagsins, flutti skýrslu Sögunefndar.

Sögurritun BÍL 2005–2006
 
Vinna við ritun sögu bandalagsins hefur haldið áfram á undangengnu ári og telst nú á lokametrum. Skrásetjari lauk handritsuppkasti sínu á fyrri hluta síðasta árs. Þá las sögunefnd handritið yfir í heild og gerði við það ýmsar athugasemdir. Eftir að unnið hafði verið úr ábendingum og athugasemdum nefndarmanna, í desember s.l., var handritið í nýrri gerð kynnt stjórn. Jafnframt fór sögunefndin yfir lokagerðina. Þá hófst vinna við að búa handritið endanlega til útgáfu.
 
Vegna þessa gekk Vilborg í að grófflokka ljósmyndasafn bandalagsins og í það hefur megnið af myndefni bókarinnar verið sótt auk þess sem leitað er til ýmissa safna og einkaaðila eftir atvikum. Ég vil nota tækifærið til að hvetja fundarmenn menn til að líta í kistur og handraða félaga sinna ef þar kynni að leynast ljósmyndir eða annað myndefni sem tengjast sögunni og lána okkur til eftirtöku.
 
Umbrotsvinna er komin vel áleiðis og gert er ráð fyrir að bókin verði öll komin á síður um mánaðmótin maí/júní eða þar um bil. Þá er eftir að lesa prófarkalestur og gera skrár en ráðgert er að verkið verði tilbúið til útgáfu í ágúst og gæti orðið að bók í september eða október.
 
Eins og áður hefur sögunefnd verið skipuð þeim Einari Njálssyni, Sigrúnu Valbergsdóttur og Þorgeiri Tryggvasyni auk Vilborgar Valgarðsdóttur . Öll hafa þau unnið ákaflega vel og tel ég samstarf nefndar og skrásetjara allt hið besta. Vil ég þakka kærlega fyrir hin ánægjulegu og gefandi samskipti sem ég hef átt við þau.

Umræða:

Vilborg benti á að ekki væri hafin fjáröflun til útgáfu en hvatti fólk til þess að gefa kost á sér til að vinna að henni.

c.
Hörður Sigurðarson flutti skýrslu vefnefndar:

Leiklistarvefurinn  – Skýrsla vefnefndar 2006
Lögð fram á aðalfundi BÍL á Seltjarnarnesi 6.-7. maí 2006

Um vefnefnd
Vefnefnd Leiklistarvefjarins skipa auk undirritaðs undirritaðs og starfsmanna
Þjónustumiðstöðvar þeir Lárus Vilhjálmsson og Ármann Guðmundsson. Ármann hefur reyndar verið í tímabundnu starfi á skrifstofunni síðan um áramót.   
 
Almennt  
Liðið ár hefur verið sviptingasamt fyrir Leiklistarvefinn. Eftir allnokkra erfiðleika með samstarf við Vefsýn sem verið hafði þjónustuaðili okkar frá upphafi, var tekin sú ákvörðun að skipta um vefkerfi og semja við nýjan aðila um hýsingu og rekstur. Síðsumars 2005 var skipt yfir í vefumsjónarkerfið Mambo sem er svokallað „open source“ kerfi sem byggir á opnum stöðlum og þarf ekki að greiða fyrir notkun á því.
Breytingin þýðir líka að nú er hægt að hýsa vefinn hvar sem er en sú var ekki raunin með fyrra kerfi. Samið var við fyrirtækið Cinq um hýsingu og rekstur. Gríðarleg vinna var því samfara að skipuleggja nýja vefinn og flytja efni yfir en blessunarlega urðu gestir á vefnum lítið varir við það og flutningurinn gekk að mestu snurðulaust fyrir sig. Síðastliðið haust var flutningnum að miklu leyti lokið en þá hófust erfiðleikar hjá hýsingaraðila. Ýmis erfiðleikar voru með vélbúnað og að auki lentu þeir í miklum árásum tölvuþrjóta sem settu vefmiðlarann á hliðina. Gekk þannig fram eftir hausti en það var ekki fyrr en um áramót sem menn komust yfir erfiðleikana og hefur reksturinn verið með með miklum sóma síðan. Samstarfið við þá Cinq-menn hefur verið gott og ekki yfir neinu að kvarta eftir að reksturinn komst á  beinu brautina eftir áramót.  
 
Breytingar
Þau tíðindi gerðust um það leyti sem nýtt kerfi var tekið í notkun að aðsókn að vefnum minnkaði og var það í fyrsta sinn síðan hann var opnaður haustið 2001. Að einhverju leyti má kenna það tíðu hruni á miðlara en ýmislegt annað hefur eflaust haft áhrif. Fréttir á vefnum voru með minna móti síðastliðið haust sem kom að einhverju leyti til af því að frumsýningar voru færri en oft áður. Heimsóknir á vefinn virðast gjarnan fylgja umfjöllun um þær. Þá var sú nýbreytni t.d. tekin upp við flutning á vefnum að krefjast skráningar ef gestir vildu taka þátt í umræðum og varð það til þess að þátttaka á spjallborði minnkaði umtalsvert. Í janúar var tekin sú ákvörðun að krefjast ekki lengur skráningar og opna spjallið og hefur lifnað nokkuð yfir því í kjölfarið. Þá hefur dunið yfir holskefla frumsýninga og annarra viðburða undanfarna mánuði og aðsóknin að vefnum hefur aukist mikið samhliða því.  

Skýrslu þessari fylgir tölfræði sem sýnir aðsókn að vefnum í ýmsum myndum. Þar sést það sem fram kom hér áðan að aðsókn datt nokkuð niður í haust en hefur tekið vel við sér eftir áramót. Má t.d. nefna að aðsókn í mars- og aprílmánuði hefur aldrei verið meiri en á þessu ári.  
 
Efnistök á Leiklistarvefnum
Eins og verið hefur sjá starfsmenn Þjónustumiðstöðvar að mestu um að setja inn efni á vefinn. Fréttir berast yfirleitt frá félögum þegar um frumsýningar og stórviðburði er að ræða en Þjónustumiðstöðin þarf stundum að ýta við mönnum og hefur verið mjög vakandi fyrir því í vetur. Það er einnig gömul saga og ný að myndefni fylgi ekki fréttum eða sé ófullnægjandi.  
Eitt vinsælasta efni á vefnum er gagnrýni á leiksýningar. Eins og undanfarin ár hefur vefnefnd skrifað mest af þeirri gagnrýni sem birst hefur en þó hafa einstaka utanaðkomandi ritað um sýningar og er þeim hér með þakkað fyrir þeirra framlag. Leiklistarvefurinn er ávallt á höttunum á eftir fólki sem vill og getur skrifað um leiksýningar og vill vefnefnd hér með ítreka það. Þá viljum við einnig benda á að oft birtist umfjöllun um sýnignar í héraðsfréttablöðum og vefjum og viljum við gjarnan fá að birta það efni eða í það minnsta vísa í það.  
 
Í vændum
Vefnefnd hefur fundað óreglulega enda eru starfsmenn Þjónustumiðstöðvar og
Lénsherra í nær daglegum samskiptum um eitt og annað sem að vefnum snýr. Vefnefnd átti þó fund fyrir skömmu þar sem hún setti niður áætlun um viðfangsefni á næsta leikári. Tekin var ákvörðun um að hrinda af stað annarri stuttverkasamkeppni svipaða þeirri sem fram fór fyrir þremur árum. Mun hún auglýst betur síðar en gert er ráð fyrir að handritum sé skilað inn snemma næsta haust. Þá er einnig ætlunin að eftir næstu áramót verði aftur efnt til keðjuleikrits eins og gert var fyrir tveimur árum.
Ýmsar aðrar hugmyndir hafa verið ræddar án þess að beinar ákvarðanir hafi verið teknar og má þar t.d. nefna gerð útvarps- eða réttara sagt hljóðleikrits sem birt yrði á vefnum í stuttum bútum. Þá hefur vefnefnd einnig rætt að skemmtilegt væri að birta stutta búta úr upptökum af sýningum á vefnum. Eins og ávallt er vefnefnd einnig galopin fyrir skemmtilegum hugmyndum frá öðrum. Vefurinn er í öllu betra horfi en hann var fyrir ári síðan og ekki ástæða til annars en bjartsýn með framhaldið.  
 
Fyrir hönd vefnefndar
Hörður Sigurðarson
 
Fylgiskjöl:
 
    1. Aðsókn að Leiklistarvefnum frá upphafi.  
    2-9. Aðsókn í tilteknum mánuðum með samanburði milli ára

Umræða:

Júlía Hannam, Hugleik, lýsti yfir ánægju með hugmyndir um mynd/hljóðbúta á vefnum. Hlakkaði til að taka þátt í stuttverkakeppni.

d.
Hrund og Ármann kynntu skýrslu um stuttverkahátíðina Margt smátt. Hrund flutti skýrslu undirbúningsnefndar:

Síðastliðið haust var ákveðið að  stofna nefnd til að kanna grundvöll fyrir stuttverkahátíð Bandalagsins í samvinnu við Borgarleikhúsið. Áður hafði verið rætt um að haustið væri ekki góður tími til stuttverkahátíðar, skv. reynslu frá árunum 2004 og 2005. Ásamt undirritaðri voru í nefndinni Ingvar Bjarnason og Embla Guðmundsdóttir en hún baðst svo undan fundahöldum vegna anna. Ingvar og undirrituð settu niður punkta fyrir stjórn BÍL að vinna út frá og ræddu við Guðrúnu Vilmundardóttur, fulltrúa Borgarleikhússins. Í ljós kom að leikhúsið leit á samstarfið  sem okkar frumkvæði og hafði alltaf gert og var til í áframhaldandi samstarf. Rætt var um að endurskoða þyrfti samstarfið í ljósi þess að Sigrún Valbergsdóttir sem átti upphaflegu hugmyndina og hafði boðið til leiks var hætt störfum hjá Borgarleikhúsinu.
Nefndin skilaði niðurstöðum sem voru eindregið í þá átt að halda hátíðina að vori og var 5. maí 2006 staðfestur með fyrirvara. Einnig að gera tilraun í þetta þriðja sinn að slá stuttverkahátíðinni saman við einþáttungahátíð í tengslum við aðalfund.

Ármann flutti skýrslu framkvæmdanefndar:

Þegar störfum undirbúningsnefndar lauk voru Ása Hildur Guðjónsdóttir, Ólöf Þórðardóttir og undirritaður skipuð í framkvæmdanefnd Margs smás. Að venju var Vilborg okkur innan handar. Skipulagning byggði að mestu leyti á reynslu af fyrri hátíðum. Fundað var með fulltrúa Borgarleikhússins, Steinunni Knútsdóttur, leiklistarráðunaut, og skilgreint hvað hvor aðili átti að sjá um. Öll skipulagning og all tsem snéri að leikfélögunum var á okkar höndum, Borgarleikhúsið lagði til húsnæði og starfsfólk og sá um miðasölu. Kynning á hátíðinni var sameiginlegt verkefni.

Áhugi leikfélaganna var svipaður og síðast þegar hátíðin var haldin, 8 félög sýndu 12 sýningar. Þær voru:

Bara innihaldið – Leikfélag Rangæinga
Dagur í lífi Mörthu Ernsdóttur – Freyvangsleikhúsið
Geirþrúður svarar fyrir sig – Leikfélag Selfoss
Það er frítt að tala í gsm hjá guði – Leikfélag Mosfellssveitar
Morð fyrir fullu húsi – Leikfélag Hafnarfjarðar
Súsanna baðar sig –  Leikfélag Hafnarfjarðar
Afi brenndur – Leikfélag Kópavogs
Aðgerð – Leikfélag Kópavogs
Friðardúfan – Leikfélagið Sýnir
Í öruggum heimi – Hugleikur
Kratavar – Hugleikur
Hannyrðir – Hugleikur

Ákveðið var að hafa ekki forvalsnefnd að þessu sinni heldur miða við að hátíðin tæki u.þ.b. 3 tíma með tveimur stuttum hléum. Ef ljóst væri að sá tímarammi héldi ekki yrði farið fram á það við þau leikfélög sem sæktu um að vera með flestar sýningar, að fækka þeim uns tímaramma væri náð. Þetta varð til þess að Hugleikur sýndi aðeins 3 sýningar af þeim 7 sem hann upphaflega sótti um að sýna. Hins vegar var ákveðið að fá gagnrýnendur hátíðarinnar, þá Þorvald Þorsteinsson og Þorstein Bachmann, til að fjalla um sýningarnar og biðja þá um að tilnefna þrjár sýningar sem bestu sýningu hátíðarinnar og útnefna svo eina. Sem bestu sýninguna völdu þeir sýningu Hugleiks, „Í öruggum heimi“ en auk hennar voru tilnefndar „Hannyrðir“ Hugleiks og „Geirþrúður svarar fyrir sig“ Leikfélags Selfoss.

Heilt yfir tókst hátíðin vel, fólk virðist almennt sáttara með hana heldur en fyrri hátíðir og engir hnökrar komu upp í samstarfinu við Borgarleikhúsið. Það sýndi sig líka að þrátt fyrir að ekkert forval væri fyrir hátíðina var metnaður félagana sá sami og gæði sýninga síst minni en á fyrri hátíðum. Þó má að sjálfsögðu alltaf gera betur og vissulega væri gaman að sjá fleiri félög taka þátt. En Margt smátt endurspeglar auðvitað þá áherslu sem aðildarfélögin leggja á stuttverk og svona hátíð, hvort sem hún er í Borgarleikhúsinu eða annars staðar, er hvatning bæði fyrir þau félög sem leggja rækt  við þetta form og hin að prófa að takast á við það. Og við megum ekki gleyma að stuttverk er form enginn annar en Bandalagsleikfélög leggur rækt við hér á landi, það gefur okkur sérstöðu sem er í senn dýrmæt og spennandi.

Umræður:

Hjalti Stefán Kristjánsson, Hugleik, lýsti yfir ánægju með hátíðina, taldi félögin hafa til þann metnað sem þyrfti til að gera góða hátíð. Vonaði að hún yrði sem oftast.

Þorgeir sagðist ánægður með hátíðina og þátttökuna á henni. Hann saknaði samt tilfinningarinnar fyrir því að þetta væri hátíð. Hann sagðist  ekki hafa neina patentlausn en vildi fá meiri hátíðarumgjörð.

Guðrún Halla þakkaði fyrir fyrir hátíðina. Hátíðin hafi reyndar verið svolítið hættuleg, leikþættir sumir ofbeldisfull og klúrir. Kvaðst ánægð með að ekkert forval var en lýsti yfir eindreginni andstöðu sinn við að velja ætti „bestu“ sýningar hátíðinnar.

Hörður sagðist alveg ósammála Höllu og vildi hafa slíka samkeppni sem víðast og oftast. Kvað þetta vera ekki ósvipað og val Þjóðleikhúsinss á athyglisverðustu áhugaleiksýningunni.

Júlíus lýsti ánægju sinni með hátíðina. Sagði að hún hefði verið afslöppuð og hæfilega löng. Sagði að löngunin til að vera með hafi vaknað og hann ætli að vera með næst…

Hrund kvaðst alveg ósammála Höllu og vildi fá rök fyrir svona sterkum skoðunum. Sagðist vilja almenna umræðu um val.

Guðrún Halla sagðist hafa átt við það að hún telji ekki hægt að keppa í leiklist.

Júlía sagði að sér hefði þótt leiðinlegt hve margir fóru strax að sýningum loknum. Hefði viljað að matur eftir sýningar hefði verið kynntur betur fyrir gestum.

Sigríður Lára Sigursjónsdóttir, Hugleik, sagði hún hefði gjarnant viljað sjá meira sýnishorn af því hvað leikfélög voru að gera. Jafnvel brot úr sýningum.

Þorgeir sagði að val fyrir hátíðina hefði farið fram. Hugleikur hefði borið fram 7 verk sem þau þurftu að skera niður. Valið hafi verið lengdarval, ekki gæða, en samt sem áður val. Hann kvaðst alls ekki hafa átt við að það yrði eitthvað galakvöld á hátíðinni. Hann sagði að við þyrftum að sýna hvað við værum skemmtileg. Við þyrftum að vera sýnileg! Hann vildi líka hafa hátíðina a.m.k. klukkutíma lengri.

María Guðmundsdóttir, Leikf. Mosfellssveitar, sagði að leikara hefðu þurft að tala skýrar og saknaði hátíðarbragsins sem var á fyrstu hátíðinni.

Hörður sagðist ekki endilega vera fylgjandi forvali, það væri  bara spurning um hvernig hátíð við vildum halda. Hins vegar kvaðst hann hlyntur því að það sem vel væri gert væri verðlaunað.

Lárus sagði frá umræðum stjórnar um það hvernig hátíð við vildum halda. Spurningin væri hvort við vildum halda hátíð þar sem kæmu sem flestir og leiðin til þess væri að hafa ekki forval.

Hrund vildi benda fólki á að það væri ekki vilji fyrir að hætta að hafa hátíðir í sambandi við bandalagsþing, það væri sitthvor hluturinn. Vildi kvarta yfir því hve sviðið í Borgarleikhúsinu var druslulegt, t.d. hefði mátt tjalda sviðið með svörtum leiktjöldum.

Margrét Tryggvadóttir sagðist hafa það á tilfinningunni að við vissum ekki fyrir hverja við værum að halda hátíð. Utanaðkomandi fólki hafi sennilega ekki liðið mjög vel þar sem hávaði í þátttakendum hafi verið umtalsverður.

Fundarhlé

Þorsteinn Backmann og Þorvaldur Þorsteinsson segja álit sitt á sýningum Margs smás.

Fundi haldið áfram

e.
Lárus og Vilborg flytja skýrslu framkvæmdanefndar Leikum núna!

1. Erlendir leikhópar
Strax og ákveðið var að halda sambærilega hátíð aftur og haldin var árið 2000 var ákveðið að bjóða til hennar allt að þremur erlendum hópum. Valið á þeim skyldi vera alfarið á okkar höndum og engum hóp boðið sem við þekktum ekki til. Var stjórnarmönnum og öðrum sem sækja myndu hátíðir á erlendri grund falið að vera með opin augun ef þeir rækjust á eitthvað spennandi. Fljótlega mælti Hörður með leikfélaginu Municipality Theatre frá Jonava í Litháen og Toggi og Hulda mæltu með Maneken leikfélaginu frá Chelyabinsk í Rússlandi. Bæði þessi félög þáðu boð okkar um þátttöku, rússarnir í maí 2004 og lítháar seinna á árinu. Á NEATA hátíðinni í Eistlandi í ágúst 2004 var svo þriðji hópurinn fundinn, Hammarteatern frá Svíþjóð, sem einnig þáði boðið. Öllum þessum hópum sendi ég formlegt boð fyrir hönd bandalagsins. Það var svo í febrúar 2005 að sænski hópurinn afboðaði sig og í apríl gerðu rússarnir það sama.
 
Nú voru góð ráð dýr, aðeins einn erlendur hópur eftir og lítil von til að Leikum núna! stæði undir nafni sem alþjóðleg leiklistarhátíð ef ekki yrði eitthvað að gert.
Toggi sendi okkur erindi þess efnis hvort við vildum að hann athugaði með sænskan leikhóp sem hann og fleiri höfðu séð til á Arosia hátíðinni í Vasterås, Cirkity Gravikus. Eftir að hafa borið það undir fleiri ákváðum við Lárus að bjóða þeim og þekktust þau boðið. Heldur var þetta nú orðið með seinni skipunum, lítill tími fyrir hópinn til að útvega sér ferðastyrki og endaði á að hingað komu 5 Svíar með sýningu sem hafði verið sérsmíðuð fyrir hátíðina okkar. Og Litháarnir komu eins og til stóð.

Sambandið við erlendu leikhópana og skipulagning veru þeirra hér og allur ferðamáti var á Vilborgar ábyrgð, þó í samráði við Lárus og aðra þá sem skipuðu framkvæmdanefnd hátíðarinnar.

Allir gistu á Hótel Eddu á Akureyri þar sem þjónustan var til mikillar fyrirmyndar.
Ákveðið var að báðir leikhóparnir notuðu innanlandsflugið í stað þess að fá langferðabíla til að flytja fólkið frá Keflavík til Akureyrar og til baka.
Snemma höfðu boðið sig fram sem leiðsögumenn erlendu hópanna þeir Hörður Sigurðarson sem leiðsögumaður Litháa og Gísli B. Gunnarsson sem leiðsögumaður Svía. Þegar leið að komu hópanna tóku þeir við ábyrgðinni og sáu hvor um sinn hóp frá komu þeirra til Keflavíkur og allan tímann til brottfarar þaðan aftur. Báðir leikhóparnir elskuðu sína leiðsögumenn enda stóðu þeir sig báðir með mikilli prýði. Það að erlendu hóparnir hafi sinn einka-leiðsögumann og hjálparhellu skiptir sköpum í að allt gangi vel og snuðrulaust fyrir sig. Gott hefði verið að íslensku hóparnir hefðu haft einhverja álíka til að sinna sér og sínum þörfum, alla vega fram yfir sýningar og frágang eftir þær.

Það er okkar mat að við höfum tekið vel á móti gestunum og okkar tilfinning er sú að þeir hafi farið heim með góðar minningar um okkur sem manneskjur og fundist íslenskt áhugaleikhús bara nokkuð gott. Sú snjalla hugmynd Harðar að bjóða gestum okkar í útsýnisferð til Mývatns strax eftir að hátíðinni var slitið var held ég punkturinn yfir i-ið hjá þeim.

2. Fjáröflun
Það er skemmst frá því að segja að fjáröflun fyrir hátíðina gekk illa. Vilborg sótti um styrki í alla sjóði sem hún fann hér á landi og eins til Nordisk kulturfond. Einu styrkirnir sem fengust voru frá Menntamálaráðuneyti, kr. 600.000, frá Akureyrarbæ, kr. 300.000 og Félagsheimilasjóði, kr. 200.000, eða samtals kr. 1.100.000. Einnig fengust loforð fyrir styrktarlínum og auglýsingum í leikskrá hátíðarinnar að upphæð kr. 105.000. Í dag eru kr. 85.000 af þessum loforðum greidd. Að auki fengum við eitthvað af matvöru frá fyrirtækjum á Akureyri, gefins að hluta og á afslætti að hluta, sem nýttust í mötuneytinu.

Kostnaður við hátíðina var kr. 3.197.563
Tekjur að meðtöldum styrkjum voru kr. 2.028.050
Tap á hátíðinni var kr. 1.169.513
Nánari sundurliðun á kostnaði og tekjum er að finna í ársreikningi.

Að mati Vilborgar er þetta með erfiðari verkefnum sem hún hefur tekið að sér, aðallega vegna þess hve árangurinn var lélegur þrátt fyrir að vandað væri til umsókna eins og framst var unnt. Eins reyndu Júlíus og Lárus að fá fyrirtæki á Akureyri til að styrkja hátíðina og Dýrleif fór í Bónus með sama árangri, þ.e.a.s. engum. Við verðum bara að viðurkenna að Bandalagið sem slíkt er ekki hátt skrifað í þjóðfélaginu þó hvert og eitt aðildarfélaganna séu það í sínum heimabæjum. Þessu þarf að breyta einhvern veginn…….

Lokaorð
Ef við horfum til baka og reynum að meta hvernig gekk, þá mundum við segja;  í heildina – bara nokkuð vel.

Skipulagning – módelið frá árinu 2000 gekk nokkuð vel upp og ekki á því stórir hnökrar miðað við umfang hátíðarinnar. Önnur módel mætti reyna ef fjöldi þátttakenda/áhorfenda væri meiri.

Fjárhagur – ef hægt hefði verið að krækja í svona milljón til viðbótar værum við himinsæl með fjárhaginn.

Aðstaða – að flestu leiti ágæt og dugði okkur vel, auðvitað fyrir utan aðgengi fyrir fatlaða sem við réðum bara ekki við.

Starfsmenn – fleiri hefðu þurft að koma að þessu verki.
– Við höfum áður minnst á einhvers konar leiðsögu- eða hjálparmenn fyrir íslensku leikhópana.
– Tæknimenn þurfa absalútt að vera einn í hverju húsi.
– Starfsmenn þjónustumiðstöðvar stóðu sig með ágætum, þó æskilegt hefði verið að þeir hefðu betur sinnt því að sundurliða hjá sér innkomuna í seldir bolir, miðar á lokahóf og aðgöngumiðar á sýningar.
– Starfsmenn í mötuneyti stóðu sig líka að flestu leyti vel, það var ekki þeim að kenna að skipulagning, s.s. matseðill o.fl., var of seint á ferðinni. Einhver einn þarf að hafa yfirumsjón með bæði matseðli og starfsfólki og við þurfum að hafa í huga að það er alveg nógur starfi fyrir eina manneskju og ekki sniðugt að hugsa þetta sem einhverja íhlaupavinnu. Og það þarf vanar konur og vana menn í eldamennskuna.
– Ef maður ber saman þessa hátíð og hátíðina 2000 þá er eins og það sé erfiðara að fá fólk til starfa núna. Flestir sem komu á hátíðina vildu bara sinna sér og sínu. Við þurfum virkilega að athuga þennan þátt fyrir árið 2010.

Frágangur – hann var okkur til vansa á ýmsum stöðum, s.s. í Húsinu, Deiglu  og Ketilhúsinu. Þetta getum við ekki látið koma fyrir aftur. Eins var ljósum ekki skilað til Exton eins og lofað hafði verið. Starfsfólk í Íþróttahöll var þó ánægt með viðskilnaðinn. Og menningarmálastjóri Akureyrarbæjar hefur lýst ánægju með hátíðina og vill að við íhugum af alvöru að vera aftur á Akureyri með NEATA hátíðina árið 2010.

Lokahóf – var stórskemmtilegt og ber að þakka Dillu, Ármanni og Maríu Gunnarsdóttur sérstaklega fyrir góðar og ódýrar veitingar. Skemmtiatriði voru líka skemmtileg. Þó skulum við hafa í huga að atriði á svona kvöldi höfði til sem flestra. Tvær rútur höfðu verið pantaðar frá SBA en bara önnur kom. Það bjargaðist þó fyrir horn því allir sem vildu gátu troðið sér í hana. Við keyptum leigubíla, sérútbúna fyrir hjólastóla með gesti okkar frá Halaleikhópnum.
Misskilningur sá sem varð varðandi lokahófið hefði ekki þurft að koma til ef talað hefði verið betur og fyrr saman um málið. Höfum það í huga með alla pósta í framtíðinni.

Umræða
Júlíus velti upp spurningunni fyrir hvern svona hátíðir væru. Ef þær eru fyrir almenna gesti þarf að taka tillit til þess. Hann benti líka á að til þess að fá sjálfboðaliða þyrfti að biðja fólk, láta það finna að það sé velkomið. Einnig mætti skilda leikfélög til að leggja fram tiltekinn fjölda sjálfboðaliða. Til að gera okkur sýnileg gæti þurft að leggja út í kynningarherferð þótt það kosti peninga.

Þorgeir sagði það ekkert skrítið að Bandalagið væri óþekkt fyrirbæri. Áherslan ætti að vera á áhugaleikhúsið, ekki batteríið í kringum það.

10.
Guðrún Halla kynnir tillögu stjórnar að starfsáætlun næsta árs. Skipt í vinnuhópa.

Hörður kynnti hugmyndir um búningasafn í samvinnu við Þjóðleikhúsið.

Eins og margir vita hefur Þjóðleikhúsið ekki sinnt þeirri skyldu sinni að undnaförnu að vera áhugaleikfélögum að vera áhugaleikfélögum innan handar varðandi búninga. Ástæðuna segir Þjóðleikhússtjóri vera þá að þar sem búningageymslan sé út í bæ þurfi sérstakt stöðugildi til að sinna þessu og fjárhagleg staða leikhússins leyfi ekki slíkt. Þjóðleikhússtjóri hefur velt upp þeirri hugmynd að Bandalagið taki við búningasafninu og stofni um það fyrirtæki, í einhvers konar samvinnu við Þjóðleikhúsið. Þetta er hugmynd sem vert er að skoða en ljóst er að til þess að koma þessu í framkvæmd þyrfti koma til talsvert fjármagn. Grundvallarforsenda fyrir svona safni er að það sé hægt að skoða það á netinu og þar stöndum við vel að vígi þar sem við höfum leiklistarvefinn og gætum því með tiltölulega lítilli fyrirhöfn sett upp búningasafnsvef.

Ármann og Lárus gera grein fyrir 3. lið starfsáætlunar, hugmyndum um að gera handritasafn Bandalagsins að formlegu safni.

Leikhandritasafn Bandalagsins er langstærsta safn (og í raun eina) safn leikrita á íslenskri tungu. Það er því lífsnauðsyn að gera ráðstafanir til að þetta safn geti ekki glatast, t.d. orðið eldi að bráð. Það mætti gera með því að taka afrit af öllum handritum (sem nálgast nú óðum að verða 2600) og koma því fyrir á öðrum stað en þar sem nútíma tækni bíður upp á aðra möguleika sem taka mun minna pláss og opna auk þess fjölbreytta möguleika á miðlun handrita, hljótum við að horfa til slíkra leiða. Þarna erum við auðvitað að tala um að koma safninu á tölvutækt form. Slíkt kostar mikla vinnu og peninga og verður auðvitað ekki gert nema að til fáist fjármagn. Ein leið til þess er að gera safnið að lögformlegu safni sem opnar okkur möguleika til að fá styrki í verkefnið. Til að þetta megi verða þarf að uppfylla ýmsar lagalegar kröfur og leggur stjórn til að stofnuð verð nefnd til þess að skoða kosti og galla þess að fara út í þessa framkvæmd.

11.
Regína kynnir stöðu mála varðandi kjör stjórnar. Engir nýjir hafa boðið sig fram. Stungið upp á Ingólfi Þórssyni.

Hópastarf hefst – fundarhlé til morguns

14.
Starfsáætlun BÍL fyrir leikárið 2006-7 afgreidd. Hópstjórar gera grein fyrir niðurstöðum hópavinnu.

Hópur 1. Hópstjóri Hrund Ólafsdóttir:
Í hópnum voru: Guðrún Esther, Kristinn, Gunnsteinn, Erna H. S., Þráinn, Hrund og
Sigurður P.

1. Gengur vel. Draumalið leiðir skrifstofuna.

2. Bent á að athuga með að leita réttar vegna skemmda á skrifstofu.

3. Rætt um formannatappa. Gæta þarf  þess að eintök ársritsin lendi á réttum stað. Félögin hvött til að  láta ritið liggja frammi leihúsum sínum. Ánægja með ritið.

4. Rætt um að aðgengi þurfi að vera gott í skólanum, hömlun að fatlaðir þurfi hjálp við að komast leiðar sinnar. Húsabakki erfiður. Framboð námskeið rætt, spurning með vöntun á námskeiði fyrir algera byrjendur, varla markaður fyrir það. Fólk hvatt til að kynna skólann innan félaganna. Senda post, tala á fundum, dreifa bæklingunum, styrkja meðlimi sína. Hvetja þarf fólk til að sækja um styrki til að fara í skólann. Hjá sumum er fjárhagsleg fyrirstaða. Benda á á móti að skólinn skili sér í  minni þörf á aðkeyptum starfskrafti.

5. Benda félögum á að nota vefinn til kynningar. Hvetja til að nota spjallið á leiklist.is.

6. ,, Dagur áhugaleikhússins”. Endurvekja þarf hann. Leita styrkja í framhaldinu í héruðum félaganna, fara í búninga og vekja athygli þennan dag. Ath. nóvember byrjun. Bent á félagsheimilasjóðinn.

7. Dýrt fyrir þóðleikhúsið  Finnst of margir sækja um. Hópurinn styður þetta í breyttu formi. Marklaust hjá þeim hjá þeim að undrast að sótt sé um með sýningar sem eiga ekki erindi á meðan það er ógagnsætt hvað ræður valinu. Ekki rétt að sýningin sem valin er sé ekki sú athyglisverðasta heldur er það sú sem hentar best í Þjóðleikhúsið.

8. Hópurinn vill meiri hátíð. Lítið fór fyrir auglýsingum. Fyrir hvern er hátíðin, þarf að vera skýrara. Val er af hinu góða finnst hópnum. Gagnrýni er góð. Verðlaun eru góð.

Sérverkefni.
4. Búninga og leigu safn í samstarfi við Þjóðleikhúsið væri mjög gott ef ríkisstyrkur kæmi til, spurning hversu raunhæft þetta er. Rétt era að láta meta þetta og reikna út þörf á ágóða fyrirfram.

5. Við viljum halda NEATA hátíð ef hægt era ð tryggja fjármögnun nógu snemma.

Hópur 2. Hópstjóri Guðfinna Gunnarsdóttir:

Hópinn skipuðu: Guðfinna, Leikf. Selfoss, Ólöf, Leikf. Mosf., Unnar, Hallvarði Súganda, Jónsteinn, Freyvangi, Jóhanna, Leikl. Seltj.og Júlía, Hugleik.

Hópi umhugað um að að bótaréttur Bandalagsins verði tryggður vegna hugsanlegra skemmda á húsnæði vegna framkvæmda við það.
Leiklistarskóli ræddur og þeirri hugmynd að tímasetningu skólans verði róterað á milli ára, þannig að sem flestir hafi tækifæri til að stunda hann. Rætt um að æskilegt væri að hafa tækninámskeið á sama stað og tíma eða í beinum tengslum við skólatímann (hugsanlega hægt að halda þá á Akureyri?) Skoða eigi einnig aðra staðsetningu fyrir skólann ef að Húsabakki (Húsabakki er paradís á jörð) skyldi færast á annara hendur, Eiðar nefndar í því samhengi og einnig héraðsskólinn að Núpi. Almenn ánægja með styttri fyrirlestra sem boðið var upp á í fyrra.
 
Vefur ræddur og lýst yfir ánægju með niðurfellingu innskráningar. Talað um að eldri fréttir séu ekki nægilega aðgengilegar, en það var leiðrétt allsnarlega af lénsherra vorum. Einnig talað um að minna félög reglulega á að senda inn efni.
Í framhaldinu rætt um upplýsingaflæði til formanna og hvort ekki megi útbúa nördabækling eða möppu fyrir nýgræðinga.

Fjármögnun rædd og hvatt til þess að félagsmenn notfæri sér komandi kosningar til hagsmunaþrýsitngs fyrir áhugaleikfélögin.

Samstarf við Þjóðleikhús – miklar umræður um aðstöðumun félaga og kostnað landsbyggðarleikfélaga við að fá nefndarmenn til að koma og sjá sýningar. Engin sérstök lausn fundin á því máli, en þó nefndur sá möguleiki að leikfélagar bjóði nefndarmönnum gistingu í heimahúsum.

Búningabanki – menn jákvæðir gagnvart því að málinu sé haldið áfram, sjálfsagt sé að skoða þetta og allir rekstarþættir athugaðir vandlega áður en ákvörðun um framhaldið verði tekin. Rekstur slíks safns gæti haft jákvæð áhrif fyrir Bandalagið, gert það sýnilegra osfrv.

Margt smátt, allir jákvæðir gagnvart hátíðinni, telja að hún megi vera lengri, en þó þurfi að hafa tímatakmörk, Lagt til að hátíðin verði haldin annað hvert ár og á móti kæmi einþáttungahátíð í tengslum við Aðalfund hitt árið.

Sérverkefni

Saga Bandalagsins – endilega stefna að útgáfu, vantar samt að vita hvert áætlaður kostnaður við prentun er. Lagt til að leikfélögin verði hvött til að taka þátt í kostnaði, eins og þegar fjárfest var í ljósritunarvél, slíkt ýtir undir samkennd og hver króna telur.

Lagt til að haustfundur verði haldinn og jafnvel hægt að nota tækifærið og vera með stjórnendanámskeið í tengslum við hann.
Endilega stefna að handritasafni verði formlegt safn.
Endilega halda leiklistarhátíð NEATA 2010, staðsetning rædd, einn í hópnum stakk uppá Seyðisfirði.

Hópur 3. Hópstjóri Þorgeir Tryggvason

Þorgeir (Hugleik), Margrét (Leikf. Rang.), Erna (Leikf. Hallv. súg.), Örn (Leikf. Kóp.), Halldór (Freyv) og Sigríður (Leikf. Self.)

Almenn starfsemi

1, Miðstöð
Engar aths.

2. Fasteign
Engar aths,

3. Ársrit
Engar aths.

4. Skólinn
Hugmynd að fyrirlestraröð um stjórnun leikfélaga. A la “Þúsund þjalir”

Almennt  um stjórnun félaga og hlutverk einstakra stjórnarmanna
Markaðssetning
Hugmyndavinna og stefnumótun

Gagnrýni

5. Vefur
Vefurinn góður – hugmyndir vefnefndar um viðburði góðar

Sérvefur um áhugaleiksýningu ársins

Endurbættur sérvefur skólans

6. Peningar
Ákveðin stöðnun í gangi.

Myndaður verði „aðgerðahópur“ sem ynni markvisst í að kynna stjórnmálamönnum málefni okkar. Gamalreyndir kappar með sambönd.

7.  Þjóðleikhúsið
Engar aths.

8.  Margt smátt
Meiri viðbúnaður og „hátíðleiki“  – meiri viðburður.

Betra að hafa þetta á laugardegi – auðveldara fyrir utanbæjarfólk og möguleiki á lengri hátíð.

Jafnvægi milli gæðakrafna og fjölbreytni.

Lykilorð: Virðing.

Um einþáttungahátíðir: gera tilraunir. Ein tilraun.

Lífssýni úr leikfélögum – 15 mín. bútar úr lengri sýningum, engin umgjörð – sýnishorn af því sem félögin eru almennt að gera.

Sérverkefni

1. Saga
Engar aths.

Vangaveltur um efnisöflun söguritara.

2. Haustþing
Engar aths. nema að staðsetja haustfund rétt.

3. Söfn
Engar aths.

4. NEATA-hátíð
Stjórn kanni málið með fjárhagsgrundvöll.

Að auki. Tillögur.

5
Að kannaður verði rekstrargrundvöllur búningasafns á grunni hugmynda Þjóðleikhússins.

6.
Að skipuð verði nefnd sem kanni mögleika á að Bandalagið kaupi eða taki að sér rekstur Húsabakka eða sambærilegs staðar.

Hópur 4. Hópstjóri Ingvar Bjarnason

Þátttakendur: Hjördís, Freyv., Sigríður Lára, Hugl., Guðmundur L., Leikf. Sýni, Ingvar, Leikf. Hafnarfj.

Rekstur þjónustumiðstöðvar í góðum farvegi. Allir í hópnum sáttir við þá þjónustu sem þar er veitt, starfsfólk og aðstöðu.

Rekstur fasteigna. Hópurinn gerir ráð fyrir að þessi mál séu í góðum málum en lýsir áhyggjum af ástandi húsnæðis fyrir handritasafn og skemmdum af völdum verktaka og vinnu í nágrenni. Hugsanlegt er að ef til þess kemur að handritasafn BÍL verði formlegt safn þá komi til styrkur frá hinu opinbera sem nota mætti til að bæta húsakost safnsins.     

Útgáfa ársrits. Hefur verið gott form á blaðinu undanfarin ár. Sent í formannapósti og inniheldur efni frá aðildarfélögum. Mjög gott að sömu aðilar sinni utanumhaldi blaðsins ár frá ári þannig að reynslan nýtist áfram. Þannig vinnst blaðið fljótar enda mikið af sömu vinnu og efni til.

Starfsemi leiklistarskóla. Fram komu hugmyndir um að hugsanlega mætti bjóða upp á hluta námskeiðanna í tvískiptu formi með nokkurra daga hlé á milli. Þannig væri komið til móts  við fjölskyldufólk og þá sem ógjarnan komast frá í lengri tíma í senn.   

Aðgengismál rædd. Ekki gott aðgengi að húsnæði í Svarfaðardal. Ekki fyrirséð að neitt stórátak verði gert í þeim málum á næstu árum. Enda ekki hlutverk BÍL skólans sem slíks. Hins vegar mætti skoða að gera meiri kröfur til húsnæðis fyrir skólann.

Rekstur vefsíðunnar. Atburðir á vefnum frábær hugmynd. Helst að nefna í því sambandi stuttverkasamkeppni. Fléttuleikrit. Góður rómur gerður að öllum uppákomum af þessu tagi sem til þess eru fallin að auka aðsókn að vefnum. Opið spunaverk sem gestum síðunnar gefst kost á að bæta við. Vefsápa.   
Gefa mætti félögum kost á að kynna verkin sín og sýningar með stuttum vídeo og hljóðklippum. Aðeins að lifna yfir spjallinu eftir að það var opnað aftur sem er mjög gott mál.

Hækkun framlaga. Mikilvægt að beita pólitískum þrýstingi í heimahéraði til þess að reyna eftir fremsta mætti að hafa áhrif á fjárveitingar. Sértækir styrkir oft auðveldari í öflun. Styrkir til verkefna eins og sýninga og ferðalaga.

Nafnabreyting hlaut ágætan hljómgrunn. Áhugaleikfélögin er skýrt og skapar engan vafa um hlutverk og markmið.    

Selja leikárið þannig að sameiginlegur styrktaraðili fyrir allar sýningar á leikárinu. Þannig mætti útbúa aðlaðandi pakka sem hugsanlega gæti virkað vel á einkafyrirtæki. Gæti orðið erfitt að framfylgja t.d. að leikfélög setji logo styrktaraðila á kynningarefni. En á þennan hátt gætu stærri fjárhæðir safnast.   

Samstarf við Þjóðleikhúsið. Almennt séð mjög jákvætt en bjarnargreiði við leikfélög úti á landi. Miklu þarf að kosta til við að flytja sýningar til höfuðborgarsvæðisins og ein sýning þó sæmilega sótt sé stendur illa undir þeim kostnaði. Þá er oft erfitt að fá dómnefnd heim í hérað og sýningar á myndbandi standa ekki alveg jafnar sýningum sem dómnefndaraðili mætir á. Hugsanlega mætti skoða að fá Þjóðleikhúsið til þess að fjölga sýningum og einnig mætti skoða að Bandalagið eða Þjóðleikhúsið taki þátt í kostnaði við ferðir dómnefndar á sýningar úti á landsbyggðinni.   

Mikilvægt að gefinn sé góður tími til þess að setja upp sýningar. Þjóðleikhúsið mætti líka veita ráðgjöf og aðstoð við að aðlaga sviðsmynd og etv. verkið í heild að nýjum aðstæðum.

Samstarf við Borgarleikhúsið. Í lagi að halda samstarfi áfram við Borgarleikhúsið. Ekkert endilega með stuttverkahátíð heldur hugsanlega í víðara samhengi, mætti hugsa sér að Borgarleikhúsið tæki inn sýningar frá leikfélögum sem sett væru upp og sýnd í þeirra húsakynnum eina kvöldstund eða fleiri. Þetta gæti verið góður vettvangur fyrir leikfélög utan af landi til þess að sýna á höfuðborgarsvæðinu.   

Útgáfa á sögu Bandalagsins á árinu gott mál.

Haustþing um málefni leiklistarskólans. Mjög þarft á þessum tímapunkti að horfa til framtíðar.

Leikritasafnið að formlegu safni er hið besta mál svo lengi sem kostnaður reynist ekki óhóflegur.

Búningasafn og leiga. Þetta myndi henta leikfélögum mjög vel því aðstaða og úrval búninga hjá leikfélögum er oft bágborin. Þetta gæti þó orðið mjög kostnaðarsamt og hugsanlegt að þessu væri betur fyrirkomið sem einkarekin starfsemi. Í raun væri sama hvar sú starfsemi er staðsett en það þyrfti að vera aðgengilegt og helst á vefnum þannig að aðgengi allra á landinu væri sem best. Mjög jákvæð umræða og skoðanir hópsins á slíku safni.

NEATA hátíð. Fyrirséð er að slík hátíð yrði mjög kostnaðarsöm og því stór spurning hvort BÍL hefur til þess burði. Að halda slíka hátíð yrði áhættusamt fyrirtæki og því þarf að spyrja þeirrar spurningar hvort þetta sé áhættunnar virði. En fyrst Færeyingar geta þetta þá ættum við að geta þetta líka, ekki satt? Hátíð sem þessi er mjög styrkhæf þannig að þegar allt kemur til alls þá er þetta kannski að mestu spurning um vinnu og álag. Fjölga þyrfti starfsmönnum á skrifstofu tímabundið. Kanna þyrfti reynslu Færeyinga af að halda slíka hátíð, kostnað, vinnu og ávinning og taka í framhaldi af því ákvörðun um hvort við ættum að stökkva fram af sama hengiflugi.

Hópur 5. Hópstjóri Dýrleif Jónsdóttir

Hann skipuðu Dýrleif, Leikf. Hafnarfj., Elísabet, Freyv., Halldór, Leikf. Hafnarfj., Gísli Björn, Leikf. Kópav., María, Leikf. Mosf., Guðrún Kristín, Leikf. Húsav.

1. Við teljum rekstur þjónustumiðstöðvar í góðum höndum og þökkum starfsfólkinu þar fyrir vel unnin störf nú sem endranær.

2. Rekstur fasteigna er líka í þeim farveg sem fyrir liggur og taka þarf á viðhaldi þegar framkvæmdum við viðbygginguna er lokið og eins og þurfa þykir á þeim tíma.

3. Nauðsynlegt er að halda áfram útgáfu ársrits í núverandi mynd, umræða um skil félaganna á skýrslum, kannski þarf að skilyrða stjórnir félaganna að skila skýrslum leið og styrkumsókn. Kannski er það full reynt enn þessar skýrslur nauðsynlegar heimildir fyrir Bandalagið að eiga til, ekki síst vegna sögulegs gildis.

4. Við erum afar stolt af skólanum okkar og því starfi sem þar fer fram, umræður um húsakost og aðbúnað. Við teljum að nú sé skólinn á þeim tímamótum sem gott er að líta yfir farinn veg og fara í markvissa leit að stað þar sem allir þessir kostir eru fyrir hendi, lágt verð, gott aðgengi og sæmileg rúm fyrir bakveika. Við teljum að skólinn sé búinn að festa sig það vel í sessi að staðsetningin sé ekki aðalmálið heldur er skólinn fólkið sem sækir hann, gott væri að fara í könnun fyrir haustið á þeim kostum sem í stöðunni verða þá. Skólinn skilar miklu til félaganna og við veltum líka fyrir okkur hvernig mætti kynna hann í þeim félögum sem ekki eru að senda þangað fólk.

5. Rekstur vefsíðunnar er að okkar mati í góðum málum og við viljum hvetja aðildarfélögin að vera duglegri að senda inn efni og láta vita hvað þau eru að gera, ekki bara frumsýningar. Það er ekki hægt að ætlast til að þeir sem um hana sjá finni á sér hvað öll félögin í landinu eru að gera og til að vefurinn fjalli um sem flest það sem er í gangi í áhugahreyfingunni þarf að koma því til skila og en þannig að það geti verið þarf að sjálfsögðu að auka upplýsingaflæði frá félögunum sjálfum. Auka mætti gjarnan gagnrýni á vefnum og er fín hugmynd að fá til þess fólk af sem flestum hornum landsins því að er okkar trú að það megi finna vel pennafært fólk víða um land eða eins og hefur komið fram, fá að birta gagnrýni úr héraðsblöðum. Það er fín hugmynd vefnefndar og endilega að hrinda henni í framkvæmd.

6. Já Já já endilega meira af peningum

7. Hópurinn var ekki á eitt sáttur um ágæti samstarfs við Þjóðleikhúsið en þó var meirihlutinn á því að það væri um að gera að halda því áfram, það væri heiður fyrir okkur og gerði okkur sýnileg og hreyfingin fengi umfjöllun.
Það kom lika fram það sjónarmið að þar sem þetta væri Þjóðleikhúsið okkar ætti að standa öllum til boða að sýna þar og ætti bara að tilnefna eitt leikfélag á ári til verksins. Þetta var ekki samdóma álit hópsins og endurspeglar þessvegna ekki niðurstöðu hans. Einnig var talað um að kannski væri of kostnaðarsamt fyrir landsbyggðarleikfélögin að verða fyrir valinu og kannski þyrfti að styrkja þau sérstaklega og þá er spurning hver það væri, BÍL er að minnsta kosti ekki aflögufært til þess.

8. Efasemdir eru uppi um samstarf að þessu tagi og gott að velta fyrir sér fyrir hvern við erum að gera þetta. Ef við erum að því  fyrir okkur  þá getum við verið í okkar leikhúsum, en til að gera Bandalagið og Áhugaleikhús sýnilegt þá er fínt að vera í Borgarleikhúsinu. Síðasta hátíð var fín fyrir okkur en við viljum hátíð með hljómsveit og öllu. Það væri fínt að setja á stofn nefnd sem tæki að sér stefnumótun í þessum málum, sem kæmi með tillögur um málið. En ef við ákveðum að  halda þessu áfram verða félögin að standa með þeirri ákvörðun og kynna barnið vel og rækilega fyrir sínu fólki því ef við nennum ekki að koma og sjá hvort annað okkar leika eða taka þátt getum við ekki ætlast til þess að aðrir geri það.

Sérverkefni

1. Endilega
2. Ekki spurning
3. Ekki heldur spurning

4. Vinna verður hugmyndina betur áður en ákvörðun verður tekin ef Bandalagið ber ekki kostnað af því er þetta góð hugmynd og nauðsynleg jafnvel spennandi gaman væri að stjórn kannaði betur þessa hugmynd og grundvöll fyrir þessu sem væri síðan hægt að kynna á Haustfundi.

5. Já ekki spurning en ef það verður ákveðið verða félögin að standa með þeirri ákvörðun og gera sér grein fyrir að það kostar bæði tíma og peninga, finna þarf út hvað það kostar mörg dagsstörf og síðan væri val vinna eða borga . Og ef tap er á svona hátíðum verða félögin að taka því og annað hvor fá lægri styrk það árið eða borga hærra árgjald því ákvörðun tekin á aðalfundi er samdóma álit okkar og fjarvera er ekki afsökun. þá er bara að mæta og láta ekki aðra um að taka fyrir sig ákvarðanir allavega ekki baráttulaust.

Hópur 6. Hópstjóri Hjalti Stefán Kristjánsson

Umræður og niðurstöður starfshóps nr. 6 á starfsáætlun leikársins 2006 – 2007:

Rekstur þjónustumiðstöðvar í samræmi við lög BÍL.
Við samþykkjum þann lið eins og hann stendur.

Rekstur fasteigna samkvæmt viðhaldsáætlun.
Einnig samþykkjum við þann lið en viljum benda á að Bandalagið ætti að athuga með bótarétt út af skemmdum vegna framkvæmda á næstu lóð.

Útgáfa ársrits fyrir leikárið 2005 til 2006.
Þessi liður er einnig samþykktur eins og hann stendur.

Starfsemi leiklistarskóla BÍL samkvæmt námskeiðaáætlun.
Við þökkum Bandalaginu innilega fyrir skólann sem það hefur fært okkur. Þeir meðlimir hópsins sem sóttu fyrirlestrahelgi skólans voru mjög ánægðir með það fyrirkomulag og fannst að bandalagið mæti nýta sér það í auknum mæli. Þannig mætti t.d. halda kynningu á störfum innan stjórna og hvað þarf þar að gera.

Einnig kom upp sú hugmynd, sem hlaut þó ekki einróma samþykki, að þar sem fólk sem sótt hefur skólann er yfirleitt besta auglýsingin mæti bjóða leikfélögum sem aldrei hafa sent félaga í skólann að senda einhvern úr sínum röðum þeim að kostnaðarlausu en auðvitað að því gefnu að útséð væri með það að eftir sætu ónýtt sæti á námskeiðið sem boðið væri á.

Jafnframt kom fram, sem útúrdúr, að auðvitað væri það félaganna að kynna starfsemi Bandalagsins fyrir hinum almenna áhorfanda, en að sama skapi Bandalagsins að gera þeim það auðvelt t.d. með því að setja upp staðlaðan kynningartexta um Bandalagið sem félög gætu svo fengið og sett í leikskrár sínar.

Rekstur vefsíðunnar leiklist.is samkvæmt tillögum vefnefndar.
Við erum almennt ánægð með störf vefnefndar en viljum benda á að það þyrfti að aðskilja fréttadálkinn og tilkynningadálkinn alveg þar sem tilkynningar eiga það til að hverfa áður en sá atburður sem er verið að tilkynna hefur átt sér stað.
Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum til starfsemi áhugaleikfélaganna, þjónustumiðstöðvar Bandalagsins og leiklistarskóla þess.
Við vorum öll sammála um það að Guðrún Halla ætti skilið hrós fyrir að útvega milljón í viðbót. Okkur datt í hug að búa mætti til upplýsingarit um starfsemi bandalagsins og félaga innan vébanda þess sem gæti nýst félögum til fjáröflunar. Einnig vildum við hvetja aðildarfélög til að gera samninga um föst framlög við sín sveitafélög og einnig hvetja þau aðildarfélög sem hafa gert slíka samninga til að gera þá opinbera hinum til hliðsjónar og viðmiðunar.

Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.
Við erum mjög hlynnt þessu samstarfi en viljum endilega að aðildarfélögum úti á landi verði gert auðveldara að sækjast eftir þáttöku þar er það er fremur dýrt að fá alla nefndina í heimsókn. Jafnvel að láta það duga að skila inn upptöku af sýningunni og það sé þá þjóðleikhússins að koma a.m.k. einum meðlimi dómnefndar á staðinn til að sjá sýninguna í sínu rétta umhverfi.

Halda áfram samstarfi við Borgarleikhúsið með stuttverkahátíðina margt smátt.
Ef það á að gagnast okkur að halda þessa hátíð í Borgarleikhúsinu þá finnst okkur að það þurfi að gera út á hana á almennan markað en ef hún á að bara að vera skemmtun fyrir aðildarfélögin þá er Borgarleikhúsið sem slíkt algjör óþarfi.

Sérverkefni leikársins.

Stefna að útgáfu Bandalagsins 1950 – 2000 á leikárinu
Við erum mjög hlynnt því að stefna að þessari útgáfu.

Halda haustþing um málefni Leiklistarskólans í tilefni 10 ára afmælis hans.
Við erum einnig hlynnt því að halda haustþing.

Athuga möguleika á því að gera leikritasafnið  að formlegu safni skv. Safnalögum.
Okkur finnst það góð hugmynd að athuga það en viljum óska þess að það verði gerð kostnaðaráætlun sem birt verði á næsta aðalfundi og hann muni ákveða hvort ráðist verði í framkvæmdina.

Ræða samstarf við atvinnuleikhúsin um búningaleigu.
Við erum alveg til að það mál verði skoðað af fullri alvöru en þó þarf að hafa í huga hvernig þetta færi fram og hver bæri helst kostnaðinn af þessu. Einnig þarf að hafa í huga með húsnæðismál undir svona starfsemi.

Viljum við halda NEATA hátíð árið 2010 ?
Já það viljum við! En það þarf að ráðast í það strax að byrja að afla og tryggja fjárstyrki því það er óhjákvæmilegt að þetta verði nokkuð dýrt.

Umræða um tillögur hóps 3 um viðbætur á starfsáætlun

Regína taldi hægt að fá nema frá Háskólanum í  Reykjavík til vinna að áætlun um stofnun búningasafns. Taldi Húsabakka ekki henta fyrir starfsemi Bandalagsins.

Ingvar sagði markmið Bandalagsins ekki að kaupa og reka húsnæði. Því setti hann spurningamerki við hugmyndir um kaup á Húsabakka.

Júlíus sagðist vona að ekki yrði af sölu Húsabakka og efaðist um að. Hins vegar yrðu aldrei nema skólahúsin seld, ekki félagsheimilið Rimar.

Embla lýsti yfir miklum áhuga á búningsafninu en taldi nauðsynlegt að um það yrði stofnuð nefnd af okkar hálfu, ekki yrðu aðrir aðilar látnir um það. Hún benti á að samningar leikfélaga við sveitarfélög séu opinber gögn.

Halldór Sigurgeirsson, Freyvangsleikhúsinu, sagðist ekki vilja fara út í kaup á Húsabakka nema í samvinnu við Dalvíkurbyggð. Varðandi val Þjóðleikhússins sagði hann sitt leikfélag krefjast þess að öll félög sætu þar við sama borð, ekki að það kæmu mismargir aðilar frá Þjóðleikhúsinu til sjá sýningar. Hann sagði að Eyfirðingar færu létt með að halda leiklistarhátíðina 2010.

Tillaga 3. hóps „Að kannaður verði rekstrargrundvöllur búningasafns á grunni hugmynda Þjóðleikhússins“, samþykkt öllum greiddum atkæðum.

Tillaga 3. hóps „Að skipuð verði nefnd sem kanni mögleika á að Bandalagið kaupi eða taki að sér rekstur Húsabakka eða sambærilegs staðar“, samþykkt með 11 atkvæðum gegn 2. 7 sátu hjá.

Vilborg spurði hvort aðgangseyrir og ferðastyrkir dekkuðu ekki kostnað leikfélaga við að fara í Þjóðleikhúsið.

Hjördís Pálmadóttir, Freyvangsleikhgúsinu, sagði gífurlegan kostnað fylgja því að komast með sýningu í Þjóðleikhúsið fyrir fólk utan af landi. Það væri ástæðan fyrir að landsbyggðarleikfélög væru treg til að sækja um. Lagði til að skipting aðgangseyris yrði breytt hjá þeim í 25-75%

Regína kynnir stöðu í framboðsmálum.

12. Lagabreytingar
Hörður Sigurðarson gerir eftirfarandi lagabreytingartillögu:

6. grein:
Út falli setningin: „Aðalmenn í stjórn Bandalagsins hafa eitt atkvæði hver“. Að öðru leyti standi 6. grein óbreytt.

Hörður sagðist hafa kannað hvernig þessu er háttað hjá öðrum samtökum og þetta ákvæði væri mjög óvíða inni. Hann sagði frekar þurfa að færa rök fyrir núverandi lögum en breytingatillögunni.

Þorgeir sagðist alveg sammála Herði um þetta mál.

Gengið til atkvæða: Tillaga Harðar samþykkt 17 atkvæðum gegn 0. Þrír sátu hjá.

13.
Vilborg gerir eftirfarandi tillögu:

„Að 1.2 milljónir af styrk menntamálaráðuneytisins verði varið í rekstur þjónustumiðstöðvar“.

Hún bendir á að þetta sé nauðsynlegt ef reka á þjónustumiðstöð án halla á árinu.

Örn bendir á að um 160 þús kr. fóru í vaxtagjöld á síðasta ári. Hann styður tillöguna eindregið.

Hörður spyr af hverju þessi upphæð en ekki tapið á rekstri eins og það er í rekstarreikningi.

Vilborg útskýrir að þessi upphæð sé tapið á Leikum núna! 2005

Tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

15. Stjórnarkjör

Í framboði til aðalstjórnar voru Ármann Guðmundsson, Ingólfur Þórsson, Lárus Vilhjálmsson, Margrét Tryggvadóttir, Ólöf Þórðardóttir og Þorgeir Tryggvason

Í framboði til varastjórnar voru Guðfinna Gunnarsdóttir og Jóhanna Ástvaldsdóttir

Frambjóðendur flytja kynningaræður

Kosnir í aðalstjórn: Lárus, Ingólfur, Þorgeir

Kosnir í varastjórn til tveggja ára: Ármann, Margrét

Kosnir í varastjórn til eins árs: Guðfinna

16.
Kosið í kjörnefnd: Regína Sigurðardóttir, Hjördís Pálmadóttir og Örn Alexandersson. Til vara Gunnsteinn Sigurðason, Leikf. Ólafsvíkur

Félagslegir skoðunarmenn endurkjörnir Anna Jórunn Stefánsdóttir, Leikf. Hveragerðis og Hrefna Friðriksdóttir, Hugleik. Til vara Júlía Hannam

17. Ákveðið árgjald Bandalagsins

Stjórn gerir eftirfarandi tillögu:

„Árgjöld aðildarfélaga hafa verið kr. 30.000 s.l. 10 ár eða frá árinu 1996. Nú telur stjórn Bandalagsins óumflýanlegt að hækka þau aðeins.

Stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga leggur því til að árgjöld aðildarfélaga verði kr. 40.000 fyrir leikárið 2006-2007. Félög sem setja upp tvær styrkhæfar sýningar á leikárinu borgi eitt og hálft gjald eða 60.000 og félög sem setja upp þrjár sýningar eða fleiri borgi tvöfalt gjald eða kr. 80.000. Félög sem setja ekki upp styrkhæfa sýningu á leikárinu borgi hálft árgjald eða kr. 20.000.“

Örn biður um rökstuðning.

Hörður segir almennar verðslagshækkanir og verðbólga sl. 10 ára ættu að vera næg rök.

Örn taldi þetta óþarfa hækkun eftir þá hækkun sem þegar hefur verið ákveðinn til reksturs skrifstofunnar.

Hörður kvað stjórn ekki hafa vitað af tillögu Vilborgar þegar hún ákvað þetta. Hins vegar sé þetta ekki mikil hækkun á 10 árum.

Vilborg sagði að fyrri hluta árs væri alltaf erfiður í rekstri þjónustumiðstöðvar og þetta mundi hjálpa. Yfirdráttur á bankareikningi hefði verið um 6-700 þús. um þrjú undanfarin áramót svo það væri ljóst að það vantaði aukið fjármagn til að reka þjónustumiðstöðina. Aukaframlagið sem samþykkt var fyrr á fundinum dygði ekki til að greiða upp yfirdráttinn sem var um síðustu áramót en hann var kr. 1.522.960.

Örn spurði hvort vaxtakostnaður væri tilkominn út af tímabundnum skuldum. Vilborg hvað svo vera. Örn lagði til að tillagan yrði samþykkt.

Tillagan samþykkt samhljóða.

18. Önnur mál.

Júlíus kom fram með þá tillögu um að Bandalagið gæfi út kynningarblað sem gæti mögulega fylgt Mogganum, þar sem Bandalagið væri kynnt og auk þess yrði gerður lítill bæklingur með tölulegum upplýsingum um Bandalagið. Þetta mundi gera Bandalagið sýnilegt og væri gott að nota til að dreyfa út fyrir kostningar og til embættismanna þegar við værum að leita eftir fjárstuðningi. Hann kom inn á fundarsetu aðildarfélaganna og vildi gjarnan skylda félög til að senda fulltrúa á aðalfund og kvaðst eindreginn stuðningsmaður þess að halda fundina úti á landi með hótelgistingu þannig að fundirnir efldu samkennd Bandalagsfólks.

Hörður sagði að kannski væri leiðin til að auka mætingu á aðalfund að taka drastískar ákvarðanir, t.d. að taka helming af styrk þeirra sem ekki senda fulltrúa þannig að viðkomandi félög yrðu að mæta og breyta því. Varðandi vef sagði hann í gangi hugmyndir að undirsíðum fyrir leikfélögin og aðra starfsemi innan vefsins og auglýsti eftir tillögum að skipulagi t.d. fyrir skólasíðuna síða og fyrir athyglisverðustu áhugasýninguna.

Þorgeir þakkaði stuðninginn. Hann sagðist gjarnan vilja koma á vinaleikfélagatengslum á milli leikfélaga þar sem félögin skiptust á heimsóknum. Hann benti á að til er sjóður sem borgar kynningarherferðir á borð við þá sem Júlli var að tala um baust til að kanna hvort þetta væri eitthvað sem Bandalagið gæti notað sér.

Hrund lagði til að Júlli kæmi að blaðinu. Hún vildi að nýr dagur áhugaleikfélaganna verði ákveðin sem fyrst og sagði að Vina-leikfélaga hugmyndin hefði gefist vel t.d. hjá Freyvangsleikhúsinu og UMF Reykdæla.

Hjördís varpaði fram þeirri hugmynd að leikfélög sem mæta á aðalfund fengju afslátt á árgjald.

Lalli þakkaði fyrir kjörið bauð velkomið nýtt fólk í stjórn. Hann vildi ekki refsa leikfélögum fyrir að koma ekki aðalfund.

Ármann velti upp hugmynd varðandi samstarfið við Þjóðleikhúsið. Stakk upp á að í stað einnar „athyglisverðustu“ sýningarinnar yrði haldin eins dags leiklistarhátíð þar sem 3-4 félög sýndu verk á öllum sviðum Þjóðleikhússins. Til að öll félög sætu við sama borð mætti byggja val eingöngu á myndböndum.

Júlíus segir frá stofnfundi Landsamtaka hátíða og menningarviðburða. Hann sagði frá markmiðum og tilgangi samtakanna og hvernig þau hyggjast að mynda tengslanet og vinna að meira samstarfi á milli menningarhátíða. Á stofnfundi samtakanna var Júlíus kosinn formaður.

Hörður ræðir málefni NUTU. Hann les bókun sína um ákvörðun stjórnar að fulltrúi Íslands NUTU sé fulltrúi Bandalagsins en ekki á eigin vegum. Leggur til að fólk kynni sér þetta mál.

Unnar Reynison, Leikfélaginu Hallvarði súganda, sagði frá því þegar Hallvarður súgandi sótti um Þjóðleikhúsið en var hafnað um að fá fulltrúa á sýninga vegna þess að þau sýndu að sumri til.

Vilborg greindi frá kostnaði við plakat og leikskrá Margs smás. Þakkaði fráfarandi stjórnarfólki og bauð nýtt velkomið.

19. Næsti aðalfundur
Þráinn Sigvaldason, Leikfélagi Fljótsdalshéraðs, sagði ágætt að halda aðalfund á suðvesturhorni á 20 ára fresti. Hann bauðst fyrir hönd Leikfélags Fljótsdalshéraðs að halda næsta aðalfund að ári.

Guðrún Halla sagði frá því að Gísli Einarsson í Út og suður ætli að gera þátt um skólann í sumar. Hún greinir frá því að Félagsheimilasjóður hafi verið lagður niður. Hún sagði að við yrðum að nýta sjóðinn sem kemur í staðinn svo að fé úr honum eyrnamerkist okkur. Hún sagði NUTU gefa ungu fólki tækifæri til að sækja námskeið erlendis sem það annars fengi ekki. Eftir að breytingar urðu á skipulagi NUTU sé ekkert til fyrirstöðu að taka þátt í þessu samstarfi. Hún sagði þetta hafa verið gott og frjótt þing, sérstaklega væri hún hrifin af hugmyndum um kynningarbækling og rit. Einnig fannst henni hugmyndir um kaup á menningarsetri út landi athyglisverðar en þó yrði að fara varlega í þau mál. Henni fannst hugmyndir hóps 3 um öldungaráð frábær. hún þakkaði fráfarandi stjórnarmönnum og bauð nýja velkomna. Hún þakkaði gestgjöfum fyrir gott þing og Leikfélagi Fljótsdalshéraðs fyrir gott boð.

Að því loknu var fundi slitið.

Fundargerð rituðu
Ármann Guðmundsson og Dýrleif Jónsdóttir.