Ákveðið hefur verið að hafa tvær aukasýningar á leiksýningunni Umbúðalaust sem Leikfélag Kópavogs hefur sýnt að undanförnu. Sýningarnar verða sunnudag 7. febrúar og mánudag 8. febrúar kl. 20.00. Leiksýningin Umbúðalaust sem er samin af leikhópnum og leikstjóranum Vigdísi Jakobsdóttur hefur fengið mjög góðar viðtökur og þykir fersk og óvenjuleg. Óræðar persónur á óljósum stað eru knúnar til að taka málin í sínar hendur þegar óvænt atvik ber að garði. Saman og hvert í sínu lagi komast þau að því að þáttaskil marka ekki endilega sögulok – og þráðurinn sem þau fylgdu í byrjun er ekki endilega haldreipið sem þarf til að komast í örugga höfn. Er sá sem síðast hlær kannski sá sem náði ekki brandaranum?
Meðal þess sem Þorgeir Tryggvason sagði í dómi sínum á Leiklistarvefnum:
“Vel skipaður leikhópurinn skilar sínu af algerri einlægni og sannfæringarkrafti… Sýningin er vel samsett. Hlutarnir flæða vel hver inn í annan og leikararnir styðja vel við atriði hvers annars… leikmyndin er aldeilis frábær. Merkingarþrungin, falleg og þénug.”
Leikfélag Kópavogs hefur þá stefnu að setja árlega upp hópvinnusýningu (devised theatre). Skemmst er að minnast vel heppnaðra sýninga eins og Grimms ævintýra, Memento mori og Skugga-Svein. Vigdís Jakobsdóttir leikstjóri hefur áður unnið með LK og sett upp afar áhugaverðar og fjölbreyttar leiksýningar.
Sýnt er í Leikhúsinu að Funalind 2. Miðapantanir eru í midasala@kopleik.is eða s. 554 1985.