Koluppselt var á tvær sýningar Leikfélagsins Royndin á Havgird – Sjótekinn í Gaflaraleikhúsinu um helgina. Af því tilefni verður aukasýning mánudaginn 18. apríl klukkan 21.00. Leikritið er eftir Ágústu Skúladóttur, Katrínu Þorvaldsdóttur og leikhópinn en Ágústa er jafnframt leikstjóri.
Í Havgird birtast okkur í upphafi fjórar persónur sem allar hafa týnst á hafi úti á mismunandi tímum. Þær hafa hreiðrað um sig á hafsbotni og byggt sér sinn ævintýraheim með því sem til fellur og þreyja tilbreytingarlítið hversdagslífið. Sjómaður ferst í skipsskaða og bætist í hóp þeirra, kemur róti á tilveru þeirra og ástin kviknar.
Leikfélagið Royndin kemur frá Nólsoy, lítilli eyju sem liggur rétt fyrir utan Þórshöfn. Íbúar þar eru aðeins um 250 en leiklist hefur verið mikilvægur þáttur í bæjarlífinu frá árinu 1920. Hugmyndin að Havgird kviknaði þegar Ágústa Skúladóttir leikstjóri heimsótti Nólsoy sumarið 2009 og samræður bárust að því hvernig væri að lifa í svona mikilli nálægð við hafið og hvaða áhrif það hefði á alla byggðina þegar slys verða tengd sjónum. Í febrúar 2010 hittust svo Ágústa, Katrín Þorvaldsdóttir og leikhópurinn og hófu að spinna þessa frásögn af sjótekna fólkinu og útkoman er þessi litla en áhrifamikla saga.
Miðasala fer fram í síma 565-5900, einnig er hægt að senda panta í gegnum midasala@gaflaraleikhusid.is
{mos_fb_discuss:2}