Vegna mikillar aðsóknar á Ævintýri Múnkhásens sem hefur verið kölluð hefur verið ákveðið að bæta við aukasýningu fimmtudaginn 31. maí kl 18.00. Sýningin verður jafnframt opnunarsýning Bjartra daga, árlegrar menningarhátiðar Hafnfirðinga. Höfundur leikritsins er Sævar Sigurgeirsson og leikstjóri Ágústa Skúladóttir. Ævintýri Múnkhásens er lygileg sýning fyrir alla aldurshópa, full af ólíkindum, glensi og leikhústöfrum sem fá fólk til að vantreysta eigin augum.

Leikverkið er byggt á ótrúlegum ýkjusögum þekktasta lygara heimsins, þýska barónsins Múnkhásen (eða Karl Friedrich Hieronymus, Freiherr von Münchhausen). Þegar Múnkhásen sneri heim úr hernum, eftir bardaga í Rússlandi og Tyrklandi, sagði hann ótrúlega skrautlegar og krassandi lygasögur af ævintýrum sínum, þar sem hann átti meðal annars að hafa setið á fljúgandi fallbyssukúlum, ferðast til tunglsins upp baunagras, hrapað inn að miðju jarðar, bjargast úr díki með því að draga sjálfan sig og hestinn með upp á hárinu, snúið úlfi á rönguna, riðið framparti af sundurskornum hesti og unnið ótal önnur ómannleg afrek í bardögum, veiðiferðum og einkalífi.

Aðstandendur sýningarinnar eiga að baki fjölþætta reynslu úr leikhúsi, sjónvarpi, kvikmyndum og tónlist. Sævar Sigurgeirsson skrifar handritið og Ágústa Skúladóttir leikstýrir. Ágústa leikstýrði nýlega hinni stórglæsilegu opnunarsýningu Hörpunnar á Töfraflautunni og leikstýrir nú Dýrunum í Hálsaskógi sem Þjóðleikhúsið mun frumsýna næsta haust.

Tónlistina í verkinu semja Ármann Guðmundsson, Þorgeir Tryggvason og Eggert Hilmarsson, en þeir eru meðlimir í Ljótu hálfvitunum (ásamt Sævari) og leikmynd gerir Axel Hallkell Jóhannesson, en hann á að baki langan og farsælan feril sem leikmyndahönnuður hjá Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, Íslensku óperunni og víðar.

Miðaverð er 3.200 kr. Miðapantanir í síma 565 5900

{mos_fb_discuss:2}