ImageLeikfélag Hafnarfjarðar gefur nú einn lokamöguleika á að sjá Hina endanlegu hamingju eftir Lárus Húnfjörð með því að hafa aukasýningu næstkomandi sunnudag, 29. janúar, kl. 20:00 í gamla Lækjarskóla í Hafnarfirði. Miðaverð er kr. 1000,- en miðapantanir eru í síma 848 0475.

„Hin endanlega hamingja“ er annað verk Lárusar Húnfjörð sem Leikfélag Hafnarfjarðar tekur til sýninga. „Þið eruð hérna“ sem félagið sýndi sumarið 2003 er af mörgum talið eitt athyglisverðasta verk sem hefur verið sýnt í promenade stíl hér á landi um árabil. Leikendur í sýningunni eru 13 talsins. Margir þeirra eru að stíga sín fyrstu skref á fjölunum en aðrir hafa mikla reynslu að baki. Hönnun lýsingar er í höndum Kjartans Þórissonar, Kristín Arna Sigurðardóttir hannar leikmynd og Dýrleif Jónsdóttir hefur yfirumsjón með búningagerð. Leikritið verður sýnt í húsakynnum félagsins í gamla Lækjarskólanum. Sýningin henti ekki fyrir fólk með innilokunarkennd eða trúarbragðafælni.
 
Það er víst að áhorfendum var komið á óvart á frumsýningunni og alveg áreiðanlegt að leiksýning þeirra á fáa sína líka. Lárus Vilhjálmsson er vaxandi leikskáld og leikstjóri með næmt auga fyrir áhrifamætti leikhússins og spennandi að fá meira að sjá frá honum í framtíðinni.
– Hrund Ólafsdóttir, Morgunblaðið.
 
Ytri umgjörð er ágæt og leikmyndin er mjög vel heppnuð og skapar skemmtilega stemmningu fyrir sýninguna. Hinni endanlegu hamingju tekst að viðhalda áhuga áhorfenda enda kraumar undir einhver spenna sem heldur athyglinni allan tímann.
  – Hörður Sigurðarson, leiklist.is
 
Eins er sviðssetningin snurðulaus og umgjörðin jafn nosturslega rétt og maður er farinn að gera ráð fyrir hjá Hafnfirðingum þegar þessi gállinn er á þeim.
– Þorgeir Tryggvason, http://varrius.blogspot.com