Þar sem uppselt er á Jólaperu – helgileikinn um Jósef frá Nasaret sunnudaginn 10. desember kl. 18.00 hefur verið ákveðið að hafa aukasýningu sama dag kl. 20.00. Enn eru nokkrir miðar lausir á sýninguna 17. desember kl. 18.00.

Söngleikurinn var frumsýndur fyrir fullu húsi fyrsta sunnudag í aðventu á efri hæð Grand Rokk við Smiðjustíg. Viðfangsefnið er hin helga nótt en hér fáum við að sjá hvernig öll sú uppákoma kemur Jósef fyrir sjónir. Hann er bara venjulegur maður, útkeyrður af vinnu og þetta er óttalegt vesen allt saman með ferðalagið, ófrísku konuna, vandræðin með gistingu og svo allt þetta furðulega lið sem mætir þarna í fjárhúsið þegar barnið fæðist.

Höfundur verksins er Jón Benjamín Einarsson og tónlist sömdu þeir Björgúlfur Egilsson og Magnús Einarsson. Leikstjóri er Vilhjálmur Hjálmarsson.