Hugleikur verður með aukasýningu á leikritinu 39½ viku eftir Hrefnu Friðriksdóttur föstudaginn 25. apríl í Möguleikhúsinu við Hlemm vegna góðrar aðsóknar. Lokasýning var sl. miðvikudag og var þá sýnt fyrir troðfullu húsi. Leikstjórar 39½ viku eru Ásta Gísladóttir, Júlía Hannam og Sigurður H. Pálsson.
39½ vika er farsakenndur gamanleikur sem snýst að verulegu leyti um barneignir og sauðfjárrækt. Sveitapilturinn Valur fær afnot af skrifstofu frænku sinnar, sem starfar sem félagsráðgjafi á kvennadeild sjúkrahúss. Valur er að leggja lokahönd á lokaritgerð sína um ættir og örlög skagfirsku sauðkindarinnar. Vera hans á skrifstofunni leiðir til hvers konar misskilnings, eins og vera ber í góðum gamanleik, auk þess sem ýmis annar ruglingur og uppákomur flækir málin enn frekar. Þá er hefðbundnum kynhlutverkum á ýmsan hátt gefið langt nef.
Almennt miðaverð er 1.500 kr. en 1.000 kr. fyrir nemendur, elli- og örorkulífeyrisþega. Einnig er boðið upp á hópafslátt fyrir 10 manna hópa og fleiri, en þá er miðaverðið 1.000 kr. Sérstök athygli er vakin á því að þungaðar konur fá ókeypis inn í fylgd með maka. Miðapantanir eru á vef félagsins: www.hugleikur.is.