Umræðan um athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins hitnar enn. Nú hefur Þorgeir Tryggvason blandað sér í umræðuna. Athyglisvert…
Toggi

Hörður Sigurðarson skrifaði nýlega stóra og mikla grein um Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins (AÁÁ) á Leiklist.is. Kveikja hennar er óánægja með valið í ár. Herði finnst Landsmótið, sýning Umf. Eflingar, ekki ná því list- og faglega máli sem þarf til að eiga erindi á fjalir Þjóðleikhússins. Hann reynir að átta sig með skipulegum hætti hvað stýrði vali nefndarinnar, fer yfir helstu þætti leiksýningarinnar; leikritun, efnisval, sviðsetningu, leik, tónlist og heildaráhrif. Hvergi sér hann neitt sem er slíkrar athygli vert. Að þessu leyti beinist gagnrýni Harðar að vali nefndarinnar. Af hverju valdi nefndin þessa sýningu, dæmdi hana athyglisverðari en aðrar sem í boði voru? En hann beinir líka orðum sínum að félaginu og átelur þau fyrir að sækja um, telur þau hafa átt að vita að sýningin sé engan vegin boðleg sem fulltrúi íslensks áhugaleikhúss á þessum vettvangi.

Hörður tekur skýrt fram að tilgangur hans sé ekki að skrifa umfjöllun um sýninguna, enda myndi hann þá tiltaka þá þætti hennar sem vel heppnast, og almennt eyða meira púðri í að greina hvað veldur því að hún er eins og hún er. Þetta er áreiðanlega frekar súrt fyrir þá Eflingarmenn, að vera notaðir á þennan hátt sem vopn í listpólitískri stefnuumræðu, svona beint ofan í sigurvímuna eftir tvær sýningar fyrir þétt setnu Þjóðleikhúsi. Því auðvitað er meginhluti greinarinnar stílaður sem óvenju óvægin gagnrýni á sýninguna sjálfa, og sem því nemur sárari sem hún er betur skrifuð.

Kannski hefði Hörður átt að leyfa Eflingarmönnum að lúra ögn lengur á lárviðarsveigunum. Það hefði líka verið gott fyrir hann sjálfan og málstað hans, gremjutónninn í greininni hefði vikið enn betur fyrir því sem máli skiptir og hefur verið skeggrætt samfleytt í tíu ár: Og það er ekki spurningin um hvers vegna sýningin er ekki betri en hún er eða hvað þeim gekk til með að bjóða hana fram. Heldur þetta: Hvað ræður valinu? Hvers konar sýningar fanga hug valnefndarinnar og af hverju?

 

Landsmot

II
Ég ætla að reyna að halda mig við það efni, en verð þó að víkja aðeins að sýningunni, sem ég sá á Breiðumýri en ekki í Þjóðleikhúsinu, öfugt við Hörð.

Sjálfur skemmti ég mér afar vel á frumsýningu Landsmótsins, þó ég sé sammála Herði um að hún standi Fiðlaranum og Síldinni að baki á eiginlega öllum sviðum. Ekki allsstaðar langt að baki, og hún er rökrétt skref í þróunarferli félagsins. Efling hefur mótað sér stíl í sviðsetningu og stefnu í verkefnavali sem gerir það að verkum að fyrr eða síðar verður félagið uppiskroppa með verkefni nema þau nái tökum á að skapa þau frá grunni. Hún er áhætta sem var sjálfsagt að taka og skilar sýningu sem svínvirkar, eða svínVIRKAÐI á frumsýningu, hvað sem öllum brotalömum líður. Og að mínu viti er hún ekki slakasta sýningin sem orðið hefur verið fyrir valinu sem AÁÁ.

Í heildina má segja að  ágallar Landsmótsins hafi lítið komið að sök í samhengi sýningarinnar á heimavelli. Vissulega brotkennt, lotulangt og klisjuborið handrit, frumraun tveggja húmorista með snert af ritræpu. Bráðfyndið á köflum, og ber í umtalsverða leikritunarbrestina með mælsku og fjöri. Samt alveg ljóst að handritið er veikasti hlekkurinn í sýningunni og uppspretta allra annarra vandræða hennar.

Ég er sammála Herði um að sviðsetningarlega er Landsmótið ekki jafn vel heppnað og Síldin og Fiðlarinn, en geri samt ráð fyrir að þar skipti miklu máli að ekki hefur tekist nógu vel að laga sýninguna að gerbreyttum aðstæðum, en verkið var leikið á þrjá vegu umhverfis áhorfendur í Breiðumýri. Samskonar aðlögun tókst vonum betur í Síldinni, en vera má að verr hafi gengið að leysa einstök vandamál að þessu sinni. Lítið við því að gera.

Ég undrast fyrirlitningartóninn um tónlistina. Það að taka þekkt dægurlög og semja við þau söngtexta inn í leikverk á sér hefð allt aftur til 18 aldar að minnsta kosti, og fyrir minn pening heppnast lagaval í Landsmótinu prýðilega. Það var sérstaklega ánægjulegt að notuð voru sjaldheyrðari bítlalög innan um vinsælli lummur. Flutningurinn var að sönnu íburðarlaus, en man ekki að hann væri til vansa. Og annað hvort hafa míkrófónar ekki truflað mig í Breiðumýri, eða ekki verið til staðar. Og ef svo er þá finnst mér alger óþarfi að taka á sig krók til að kvarta yfir því sem vafalaust hefur þá stafað af illri nauðsyn í stærra húsi.

Um leikinn er ég ósammála Herði. Verkið bíður varla upp á nema einhliða skrípamyndir – og það er ekkert að því ef þær eru vel teiknaðar. Sumar þeirra voru það, sumar síður. Engin stórhneyksli að mig minnir, nokkrar framúrskarandi. Hins vegar er ég sammála honum um að það getur tæpast verið í krafti óvenju hás leikstandards sem Landsmótið verður fyrir valinu. Það sama gildir um önnur einstök atriði, ekkert þeirra getur eitt og sér skýrt valið. Og það er alveg ljóst að Landsmótið er ekki dæmi um það besta sem íslenskt áhugaleikhús státar af.

Ég var samt ekki hissa á að Efling sækti um. Bæði eru þau að mínu viti eitt þeirra félaga sem hefur það fyrir reglu að sækja alltaf um (leikárið 2000-2001 sóttu þau um með bæði Sjö stelpur og dagskrá úr verkum Jónasar Árnasonar, og hafa vafalaust vitað að hvorug þeirra sýninga ætti raunhæfa möguleika á að vinna). Vil líka taka fram að ég sé ekkert athugavert við þá stefnu. Svo er hitt að Landsmótið hefur ýmsa þá kosti sem Þjóðleikhúsið hefur verðlaunað í gegnum árin, nokkuð sem Eflingarmönnum er fullkunnugt um. Þess vegna kom val nefndarinnar mér heldur ekki á óvart.

En eins og Hörður er ég líka hugsi yfir því og stefnunni sem þar birtist – og hef verið lengi.

 

Fjölskyldan

III
Sé horft á þær ellefu sýningar sem orðið hafa fyrir valinu frá upphafi kemur ákveðin mynd í ljós. Með örfáum undantekningum hafa sýningarnar sem hlotnast hefur heiðurinn verið búnar eftirtöldum kostum:

Mannmargar
Fjörugar
Léttar
Með tónlist
Alþýðlegar
Frumsamdar

Aðeins tvisvar hafa sýningar á sígildum verkum verið valdar, þar af einn söngleikur, aðeins þrisvar hafa erlend verk orðið fyrir valinu, aðeins tvisvar hafa sýningar af höfuðborgarsvæðinu hreppt hnossið, þó þar sé leikstarf áhugamanna sannanlega blómlegast og fjölbreyttast þessi árin.

Aldrei hefur sýning á þyngra verki verið valin.

Nú vill svo til að dómnefnd Þjóðleikhússins hefur tjáð sig um eftir hverju hún horfir í vali sínu. Hún hefur talað um að það sem skipti öllu máli séu heildaráhrif sýningarinnar, hvernig allir þættir spila saman. Virðingarvert viðmið, og sennilega það eina rétta. Það sem mig grunar að það geri samt að verkum að stemmningin í kringum sýninguna; aðsóknin, viðbrögð áhorfenda, umtalið, fær óþarflega mikið vægi – sem gefur léttmeti forgjöf á tilraunakennda leiklist og djörfung í verkefnavali sem skilar athyglisverðum sýningum sem færri hafa kannski áhuga á að sjá, en ætti að vekja athygli leikhússfólks.

Inn í valið spilar líka að það er ljóst að Þjóðleikhúsið er að velja sýningu sem hægt er að sýna á stóra sviðinu. Aldrei hefur AÁÁ verið flutt á öðru sviði, þó einhverntíman hafi komið fram að það sé ekki útilokað. Meira að segja sýningar sem gerðar eru fyrir lítil svið og litla sali  hafa verið sýndar á stóra sviðinu og glötuðu allar einhverju af áhrifum sínum.  Þessi faktor í valinu sást skýrast í fyrra þegar augljóst var af umsögn nefndarinnar að sú sýning sem dómnefnd þótti merkilegust var Salka miðill í Hafnarfirði, sem illmögulegt hefði verið að flytja niður á Hverfisgötu. Þar er klárlega komið atriði sem skiptir máli í valinu sem hefur ekkert með gæði sýninga að gera.

Sýningarnar sem standa nokkuð augljóslega út úr á listanum eru Smáborgarabrúðkaup hjá Leikfélagi Selfoss, Ungir menn á uppleið hjá Stúdentaleikhúsinu og Grimms Leikfélags Kópavogs. Allar hinar falla í sama eða svipað mót. Sum árin hefur manni þótt sem sýningar sem ekki féllu að því ættu ekki möguleika, sama hversu góðar þær væru, og þar birtist í raun viðhorf dæmenda til þess hvað áhugaleikhús ÆTTI að gera og vera, hverjar takmarkanir það HLYTI að búa við. Oftar en einu sinni hefur það gerst að vandvirknislegar sýningar á alvarlegum fámennum verkum hafa lotið í lægra haldi fyrir fjörugum stórsýningum sem standa þeim þó klárlega að baki listrænt og leikrænt séð. Auðvitað er erfitt eða ógerlegt að bera saman epli og appelsínur, en það er nú samt verkefni nefndarinnar og ekki gott ef sætar appelsínur eru alltaf teknar fram yfir súr epli, af því að þessi framleiðandi er, að einhverra mati, FÆDDUR TIL að framleiða appelsínur og ekkert annað. Og það er þetta sem maður fær stundum á tilfinninguna.

Þessi tilfinning er vægast sagt óþægileg, og brýst fram þegar fyrir valinu verður sýning sem uppfyllir þessi fyrrgreindu ímynduðu skilyrði en er ekki augljóslega góð ef hún er mæld á almennan mælikvarða leiklistarinnar. Það hefur gerst nokkrum sinnum, og gerðist núna.

En ábyrgðin er nefndarinnar. Ekki félaganna sem sækja um. Ég sé enga ástæðu til annars en að fólk sæki um með hvaðeina sem því dettur í hug og treystir sér til að flytja til Reykjavíkur. The more the merrier. Verra þykir mér að að félög með frambærilegt efni sæki ekki um. Fjarvera Leikfélags Húsavíkur er til dæmis hrópandi þegar þátttakendalistar eru skannaðir.

Það framtak Þjóðleikhússins að koma þessari samkeppni á verður seint fullþakkað þó valið orki tvímælis, eins og öll slík "völ" hljóta að gera. Það stendur síðan upp á okkur sem störfum á þessum vettvangi að taka þátt. Mér finnst það nánast vera félagsleg skylda allra þeirra sem hafa frambærilegt efni að bjóða það fram. Aðeins þannig fær nefndin rétta mynd af starfi hreyfingarinnar, það er frumskilyrði þess að "rétt" sýning verði valin.

Mér finnst Hörður beina orðum sínum og hneykslan um of að Eflingu. Það er ekkert að því að gera sýningar eins og Landsmótið (annað hvort væri) og það er ekkert að því að leggja þær fram í keppni eins og AÁÁ.

Það er hins vegar umhugsunarvert þegar hópur úr fremstu röð fagmanna í íslensku leikhúsi metur slíka sýningu þá athyglisverðustu sem í boði var. Hvort það segir eitthvað um menningarástandið í áhugaleikhúsinu eða viðhorf fagmannanna til þess sem þar er búið til er svo aftur stóra spurningin.

Þorgeir Tryggvason