Þjóðleikhússtjóri, Ari Matthíasson, tilkynnti um valið á hátíðakvöldverði aðalfundar Bandalags íslenskra leikfélaga á Seyðisfirði laugardaginn 7. maí sl.:

Val Þjóðleikhússins á athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins hefur nú farið fram í tuttugasta og þriðja sinn. Áhugasýning ársins hefur verið kærkomið tækifæri fyrir höfuðborgarbúa að upplifa þá grósku sem einkennir starf hinna fjölmörgu sjálfstæðu leikfélaga á Íslandi.

Að þessu sinni sóttu alls sextán leikfélag um að koma til greina við valið með sautján sýningar. Hlutverk dómnefndar var ekki öfundsvert því mikil fjölbreytni og hugmyndaauðgi einkenndi sýningarnar í ár. Farsar, söngleikir, spunasýningar, erlend klassík og ný íslensk leikritun eru meðal þess sem áhugaleikfélögin hafa tekið sér fyrir hendur. Dómnefndin í ár var skipuð leikurunum Tinnu Gunnlaugsdóttur, Baldri Trausta Hreinssyni og Stefáni Halli Stefánssyni auk sýninga- og handritsdramatúrg Þjóðleikhússins Símoni Erni Birgissyni.

Hér er listi yfir þær sýningar sem komu til greina við valið í ár.

 

 1. Leikfélag Hafnarfjarðar: Ekkert að óttast. Höfundur: Höfundasmiðja Leikfélags Hafnarfjarðar. Leikstjóri: Ólafur Þórðarson
 2. Leikfélagar Norðfjarðar: Benedikt Búálfur eftir Ólaf Gunnar Guðlaugsson. Leikstjóri Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson.
 3. Leikdeild Umf Skallagríms: Blessað barnalán eftir Kjartan Ragnarsson. Leikstjóri Gunnar Björn Guðmundsson.
 4. Leikfélag Ölfuss: Einn rjúkandi kaffibolli eftir Aðalstein Jóhansson. Leikstjóri: F. Elli Hafliðason.
 5. Hugleikur: Feigð. Höfundur og leikstjóri: Ármann Guðmundsson.
 6. Leikfélagið Óríón: Kartöfludagar eftir Leikfélagið Óríón. Leikstjóri: Ingimar Bjarni Sverrisson.
 7. Leikfélag Selfoss: Kirsuberjagarðurinn eftir Anton Tsjekhov. Leikstjóri: Rúnar Guðbrandsson.
 8. Hörgdæla: Með vífið í lúkunum eftir Ray Cooney. Leikstjóri: Margrét Sverrisdóttir/Oddur Bjarni Þorkelsson.
 9. Leikfélag Mosfelssveitar: Mæður Íslands eftir leikhópinn og listræna stjórnendur. Leikstjóri: Agnes Wild.
 10. Leikfélag Vestmannaeyja: Nei, ráðherra! eftir Ray Cooney. Leikstjóri: Stefán Benediktsson.
 11. Ungmannafélag Reykdæla: Óþarfa offarsi eftir Paul Slade Smith. Leikstjóri: Ármann Guðmudnsson.
 12. Halaleikhópurinn: Sagan af Joey og Clark úr Stræti eftir Jim Cartwright. Leikstjóri: Guðjón Sigvaldason.
 13. Freyvangsleikhúsið: Saumastofan eftir Kjartan Ragnarsson. Leikstjóri: Skúli Gautason.
 14. Leikfélag Fjallabyggðar: Síldin kemur og síldin fer eftir Iðunni og Kristínu Steinsdætur. Leikstjóri: Guðmundur Ólafsson.
 15. Leikdeild Umf. Grettis: Súperstar eftir Andrew Lloyd Webber/Tim Rice. Leikstjóri: Sigurður Líndal Þórisson.
 16. Stúdentaleikhúsið: Yfir strikið. Höfundur og leikstjóri: Ólaf S. K. Þorvaldz.
 17. Stúdentaleikhúsið: Öskufall. Höfundur og leikstjóri: Tryggvi Gunnarsson.

 

Dómnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að velja að þessu sinni sem athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins 2014-2015 Ekkert að óttast, sýningu Leikfélags Hafnarfjarðar.

Umsögn dómnefndar:

Sýning Leikfélags Hafnarfjarðar er bæði dæmi um frumlega leikhúslega nálgun og vel framkvæmda útfærslu. Handritið var unnið í handritasmiðju með tíu höfundum sem fengu ákveðin ramma til að þróa persónur og söguþráð. Verkið gerist í okkar samtíma og er kolsvartur gamanleikur um framhjáhald, misskilning og kynferðislega spennu. Leikararnir eru kraftmiklir, brandararnir krassandi og vinnuaðferðin frumleg og spennandi. Verkið vinnur með farsaformið á frumlegan hátt og kitlar hláturtaugarnar. Endirinn minnir á kvikmyndir Tarantino eða John Woo. Sterkur leikur og nýstárleg vinnuaðferð skilar sér í athyglisverðustu áhugasýningu leikársins 2015-2016.