Image
(27.05.2005)
Dómnefnd Þjóðleikhússins hefur nú valið athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins 2004-2005 og varð sýning Stúdentaleikhússins, Þú veist hvernig þetta er, fyrir valinu. Hún verður sýnd á Stóra sviði Þjóðleikhússins þriðjudaginn 31. maí kl. 20:00 og kl. 22.30.


Tólf leikfélög sóttu um að koma til greina við valið með alls fjórtán sýningar. Dómnefnd hafði mikla ánægju af að sjá allar þessar sýningar og verða vitni að því kraftmikla og mikilvæga starfi sem áhugaleikfélögin standa fyrir um land allt.

Handrit Þú veist hvernig þetta er er skrifað af leikhópi Stúdentaleikhússins og leikstjóra sýningarinnar, Jóni Páli Eyjólfssyni. Þetta er í annað sinn sem sýning Stúdentaleikhússins er valin áhugasýning ársins, en leikfélagið sýndi Ungir menn á uppleið fyrir fjórum árum.

Umsögn dómnefndar um sýninguna er svohljóðandi:
Sýning Stúdentaleikhússins á Þú veist hvernig þetta er, er hárbeitt og djörf háðsádeila á íslenskan samtíma, sett fram í revíuformi sem allur leikhópurinn kemur að. Hún kemur sem hressilegur gustur inn í áhugastarf leikfélaganna, textinn er bæði fyndinn og alvarlegur og kemur við kaunin á áhorfendum. Framsetning og túlkun hópsins er í ætt við pólitískt leikhús eins og það gerðist best á síðustu öld. Uppsetningin, útlit og hönnun leiksviðsins er stílhrein og einföld eins og vera ber og hitti beint í mark. Leikhópurinn er ekki feiminn við að setja fram róttæka þjóðfélagsgagnrýni og láta okkur fá það óþvegið, hvort sem um er að ræða Íraksstríð, kynþáttafordóma eða fjölmiðlaklám. Það er greinilegt að hópurinn hefur unnið undir samstilltu átaki leikstjórans Jóns Páls Eyjólfssonar og áttu margir leikaranna frábæra spretti eins og t.d. í atriðinu Dauðinn í beinni. Leiksýningin var eins og ferskur andblær í sinnuleysi neyslumenningar og það var bæði gott og gaman að finna fyrir því að ungt fólk í leikhúsi tæki afstöðu gagnvart pólitík samtímans jafnt innanlands sem utan.

Auk verðlaunasýningarinnar hlutu nokkrar sýningar sérstaka viðurkenningu dómnefndar:

Sambýlingar í leikstjórn Odds Bjarna Þorkelssonar hjá Leikfélagi Húsavíkur. Einlæg og sönn lýsing á þroskaheftum einstaklingum sem búa saman á sambýli, leikstjórnin einkenndist af lifandi persónusköpun og frábærri úrvinnslu leikaranna. Afar falleg og fagmannlega unnin sýning af leikhópnum og öllum aðstandendum.

Náttúran kallar hjá Leikfélagi Selfoss. Bráðskemmtileg sýning sem sýndi okkur þverskurð af útilegu- og útivistarmenningu Íslendinga. Leikhópurinn var samstilltur og agaður undir stjórn leikstjórans Sigrúnar Sólar Ólafsdóttur og sýningin var frumleg í uppsetningu og vel leikin.

Memento Mori, sýning Leikfélags Kópavogs og Hugleiks í leikstjórn Ágústu Skúladóttur. Gott dæmi um vel unna og frumlega áhugasýningu sem vakti okkur til umhugsunar um eilífðarmálin, dauðann og mörkin milli lífs og dauða.

Fiðlarinn á þakinu í leikstjórn Ingunnar Jensdóttir hjá Leikfélaginu Grímni. Enn eitt dæmið um kraftmikið starf áhugaleikfélagana, framtakið lofsvert og hreint ótrúlegt að sjá fimm prósent byggðarinnar taka þátt í uppfærslunni.

Tilkynnt var um valið á áhugasýningu ársins á þingi Bandalags íslenskra leikfélaga sem haldið var í Stykkishólmi. Dómnefnd Þjóðleikhússins í ár var skipuð Tinnu Gunnlaugsdóttur þjóðleikhússtjóra, Hlín Agnarsdóttur, leiklistarráðunauti Þjóðleikhússins og Þórhalli Sigurðssyni leikstjóra.

Sýningin á Þú veist hvernig þetta er verður sem fyrr segir á Stóra sviði Þjóðleikhússins n.k. þriðjudagskvöld 31. maí kl. 20:00.

Nánari upplýsingar veita:
– fyrir hönd Þjóðleikhússins, í síma 585 1200:
Hlín Agnarsdóttir leiklistarráðunautur og Dóra Hafsteinsdóttir kynningarfulltrúi.