Listamenn og hópar með aðstöðu í húsinu kynna verk í vinnslu fyrir gestum.

29. mars síðastliðinn var haldin hátíðleg opnun „hins nýja Tjarnarbíós“, en hluti af breytingunum sem gerðar hafa verið nýlega, er að fleiri rými en aðalsalurinn hafa verið opnuð listamönnum. Nú iðar húsið af lífi og margskonar listamenn og hópar vinna að verkum sínum, meðal annars í leiklist, tónlist og dansi.

Mánudaginn 28. apríl kl. 20.00 munu þessir listamenn stíga fram og segja gestum frá þeim verkum sem þau vinna að. Hópar og listamenn að þessu sinni eru leikhópurinn 16 elskendur, hljómsveitin Sokkabandið, Bjartmar Þórðarson, leikhópurinn Ég og vinir mínir, Brogan og Pétur, sem settu upp Dansaðu fyrir mig fyrr í vor, og listahópurinn VaVaVoom.

Viðburðurinn, sem fengið hefur heitið Arty hour, mun fara fram á nýopnuðu kaffihúsi Tjarnarbíós og er kjörið tækifæri til að fá innsýn í þau verk sem eru í vinnslu hjá þessu listafólki.

Sérstök tilboð verða á barnum á meðan á viðburði stendur.

Facebook-viðburður: https://www.facebook.com/events/271578253019952