Bætt hefur verið við tveimur aukasýningum á Sveinsstykki, einleik Arnars Jónssonar í Þjóðleikhúsinu. Sýningarnar verða 5. og 15. desember. Leikstjóri er Þórhildur Þorleifsdóttir. Að sýningunni stendur Hið lifandi leikhús í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Þess má geta að Þjóðleikhúsið hefur raunar ekki alveg sleppt hendinni af Arnari Jónssyni, en hann mun stíga á svið í Eldrauninni eftir Arthur Miller eftir áramót.

Með sýningunni Sveinsstykki kveður Arnar Þjóðleikhúsið formlega eftir 40 ára farsælan feril við leikhúsið, en hann fagnaði nýlega sjötugsafmæli. Áhorfendur eru þó ekki á því að leyfa Arnari að hætta að leika, og bæta hefur þurft við aukasýningum á þessari mögnuðu sýningu, þar sem Arnar flytur af sinni einstöku list einleik Þorvalds Þorsteinssonar. Með sýningunni er jafnframt heiðruð minning höfundarins sem lést á árinu, langt fyrir aldur fram.

Í Sveinsstykki segir af reglumanninum, íslenskumanninum og lagermanninum Sveini Kristinssyni sem á bæði stórafmæli og starfsafmæli og fagnar þessum tímamótum með því að bjóða til veislu. Fyrst og fremst er hann þó að halda upp á það að hafa alla sína ævi aldrei gert annað en það sem rétt getur talist. En fyrst allt lítur svona vel út, hvernig stendur þá á því að líf þessa blíða, greinda og framsýna manns virðist vera ein rjúkandi rúst?