Grímuverðlaunasýningin Leitin að jólunum hefur verið sýnd á aðventunni við miklar vinsældir allt frá frumsýningu á aðventunni 2005. Fyrsta sýningin í ár verður laugardaginn 29. nóvember og er hún númer 220 í röðinni. Uppselt hefur verið á nær allar sýningar fyrri ára og hafa 22.000 gestir á öllum aldri komið í leikhúsið á aðventunni í leit að jólunum.

Tveir skrýtnir og skemmtilegir náungar taka á móti litlum leikhúsgestum í anddyri Þjóðleikhússins. Með þeim í för eru tveir hljóðfæraleikarar og saman leiða þeir börnin með leik og söng um leikhúsið. Meðal viðkomustaða á ferðalagi þeirra eru Kristalsalurinn, Leikhúsloftið og Leikhúskjallarinn. Börnin ferðast inn í ævintýraveröld jólanna og sjá leikþætti um jólin í gamla daga og í nútímanum.

Leitin að jólunum er eftir Þorvald Þorsteinsson og er sýningin ríkulega hljóðskreytt með tónlist Árna Egilssonar við Jólasveinavísur Jóhannesar úr Körlum.

Leikstjóri er Þórhallur Sigurðsson og  með hlutverk álfanna fara þau Arnbjörg Hlíf Valsdóttir og Hallgrímur Ólafsson. Aðrir leikarar í sýningunni eru Elva Ósk Ólafsdóttir, Egill Breki Sigurpálsson, Ísabella Rós Þorsteinsdóttir og Svava Sól Matthíasdóttir. Hljóðfæraleikarar eru Darri Mikaelsson og Kjartan Valdimarsson.