,,Nú árið er liðið í…” Jedúddý mía, hvað tíminn líður hratt, enn eitt árið að baki og óhætt að segja að það hafi verið sögulegt á landi voru. Árið hjá hinu Kómíska atvinnuleikhúsi á Ísafirði hefur líka verið viðburðaríkt fullt af ævintýrum og óvæntum uppákomum. Ekki var setið auðum höndum frekar en venjulega enda Kómedíuleikarinn verið ofvirkur og hefur heldur bætt í á liðnu ári. Verkefni Kómedíuleikhússins árið 2009 voru fjölbreytt og fjörug. Alls voru frumsýnd 5 ný íslensk verk, Act alone haldin sjötta árið í röð, ný þjóðleg hljóðbók kom út, Einstök sýning í Haukadal og Listamannaþing Vestfjarða haldið á Ísafirði svo nokkuð sé nefnt. Kómedíuleikarinn mun nú setjast í sæti skrifara og greina frá því helst á því herrans ári 2009 í starfsemi Kómedíuleikhússins.

Allt frá ísbirni til heilsugæslu
Fyrsta ársverk Kómedíuleikhússins árið 2009 var á nýju íslensku verki Við heimtum aukavinnu sem var frumsýnt 6. febrúar. Hér var um að ræða samstarfsverkefni við Litla leikklúbbinn á Ísafirði en leikhúsin hafa áður unnið saman að nokkrum verkum með frábærum árangri. Við heimtum aukavinnu er einsog nafnið gefur til kynna sótt í fjársjóðskystu bræðrana Árnasona, þeirra Jóns og Jónasar. Í leiknum var boðið uppá úrval sönglaga frá þeim bræðrum og í stuttu máli hitti sýningin í mark. Fjölmargar sýningar voru á Ísafirði og einnig var skundað í borgina.

Eins og jafnan áður var stutt á milli frumsýninga hjá Kómedíuleikhúsinu því strax var hafist handa við næsta verkefni og nú var sótt í vestfirska sagnaarfinn allt aftur í fornöld. Efniðviðurinn var einn af okkar bestu Íslendingaþáttum Auðunar þáttur Vestfirska og til starfans var ráðinn Soffía Vagnsdóttir sem hefur áður starfaðmeð Kómedíuleikhúsinu með góðum árangri. Fleiri listamenn tóku þátt í að koma sögu Auðuns á svið. Hrólfur Vagnsson samdi tónlist við leikinn, Marsibil G. Kristjánsdóttir, Kristján Gunnarsson og Alda Veiga gerðu leikmynd og búninga en öll hafa þau unnið ötullegameð Kómedíuleikhúsinu í gegnum árin. Einnig voru fengin í liðið tónlistarsnillingarnir Bára Grímsdóttir og Steindór Andersen er fluttu söngva leiksins með miklum bravúr. Leikari var sem áður Kómedíuleikarinn, Elfar Logi Hannesson. Auðun og ísbjörninn var frumsýndur í Tjöruhúsinu á Ísafirði 1. apríl við frábærar undirtekir og hlaut leikurinn afar góða dóma í fjölmiðlum. Sýningar voru einnig á Súðavík og Hólmavík.

Þriðja frumsýning Kómedíuleikhússins á árinu var samstarfsverkefni við Ljóðasetur Íslands sem staðsett er á Siglufirði. Samstarfið var vel við hæfi því gerður var sérstakur ljóðaleikur byggður á Þorpinu eftir Jón úr Vör. Elfar Logi Hannesson flutti ljóðin í leik og tali en Þórarinn Hannesson samdi og flutti frumsamda tónlist við leikinn. Frumsýnt var í Þorpinu sjálfu á Patreksfirði 6. júní fyrir troðfullri Patreksfjarðarkirkju. Þorpið var sýnt í kirkjum víða um Vestfirði og einnig á Ljóðahátíðinni Glóð á Siglufirði.

Þann 8. ágúst frumflutti Kómedíuleikhúsið einleiksþáttinn Eintal við náttúruna í Skrúð í Dýrafirði. Hér var um að ræða leik sem var sérstaklega saminn fyrir listigarðinn Skrúð og fjallaði einmitt um stofnanda garðsins Sigtrygg Gunnlaugsson.

heilsugaeslanFimmta frumsýning Kómedíuleikhússins á árinu var á hápólitíska gamanleiknum Heilsugæslan eftir og í leikstjórn Lýðs Árnasonar, læknis og kvikmyndagerðamanns. Heilsugæslan er tvíleikur þar sem Margrét Sverrisdóttir og Elfar Logi Hannesson bregða sér í ótal mörg hlutverk bæði lækna og sjúklinga. Leikurinn var frumsýndur í Arnardal 2. október fyrir troðfullu húsi. Óhætt er að segja að Heilsugæslan hafi fengið dúndurgóðar viðtökur því alls hafa verið sýndar 25 sýningar á aðeins einum og hálfum mánuði. Sýningar hafa verið víða um land fyrst á Vestfjörðum en einnig í Búðardal, Grundarfirði, Garði, Selfossi, Kópavogi og víðar. Heilsugæslan heldur áfram á nýja árinu en næstu sýningar verða fyrir norðan og hefst leikurinn á veitingastaðnum Friðrik V á Akureyri strax í janúar. Eftir það verður sýnt víða um norðurland og með vorinu farið í leikferð um Austurland og já bara um land allt.

Einnig er gaman að geta þess að eldri verk Kómedíu voru í fullu fjöri þetta árið. Gísli Súrsson var sýndur víða einnig vinkona hans Dimmalimm en báðar eru þetta sýningar sem hafa gengið í mörg leikár og eru sennilega rétt að byrja. Reyndar hefur Gísli Súri verið í pásu í vetur en verður dregin uppúr súrnum næsta sumar og er þegar búið að bóka fjölmargar sýningar. Loks má geta þess að einleikurinn Pétur og Einar var sýndur í Einarshúsi í Bolungarvík yfir sumarið og verður sýningum framhaldið á komandi sumri.

Allskonar kómedíur
Af öðrum verkefnum Kómedíuleikhúsins á árinu skulum við hefja leikinn á þjóðlegu hljóðbókunum sem hafa notið fádæma vinsælda. Fimmta þjóðlega hljóðbókin kom út á árinu nú voru það Þjóðsögur frá Súðavík. Nú er svo komið að aðeins nýjasta hljóðbókin er fáanleg hjá Kómedíu allar hinar eru uppseldar. Á nýju ári er stefnt að því að hefja endurútgáfu á uppseldu hljóðbókunum og að sjálfsögðu verða einnig nýjar þjóðlegar hljóðbækur gefnar út.

Þann 16. maí stóð Kómedía í samstarfi við Menningarráð Vestfjarða fyrir Listamannaþingi Vestfjarða. Þingið var haldið á Ísafirði og var afar vel lukkað. Ljóst er að listin fyrir vestan stendur í blóma einsog í ljós kom á þinginu og hver veit nema stofnun sérstakts félags listafólks á Vestfjörðum verði stofnað á næsta Listamannaþingi Vestfjarða á komandi vori.

Við höldum næst yfir í sumarið en þá hefst einmitt starfsemi Morrans atvinnuleikhús ungs fólks í Ísafjarðarbæ. Síðustu árin hefur Kómedíuleikhúsið séð um listrænan þátt Morrans og í ár voru það Kómedíuleikarinn og Lisbet Harðardóttir sem voru leikstjórar. Verkefni Morrans eru fjölbreytt allt frá leikskólaleikriti til gjörninga og þjóðlegrar dagskrár í Neðsta kaupstað fyrir gesti erlendra skemmtiferðaskipa sem sækja Ísafjörð heim. Samningur Ísafjarðarbæjar við Kómedíu um listræna stjórn Morrans rann út núna í haust og nú sitja menn við samningarborðið og vonandi verða fréttir um málið núna á nýja árinu.

odoTalandi um listræna stjórnun þá sér Kómedíuleikhúsið um þann þátt hjá leiklistarhátíðinni Act alone sem var haldin sjötta árið í röð á Ísafirði og í Haukadal í ágúst. Dagskrá þessarar einleiknu hátíðar var einstaklega vegleg og glæsileg boðið var uppá sex sýningar, fyrirlestur og Einstaka sýningu. Að vanda var aðgangur að Act alone ókeypis einsog verið hefur frá upphafi og var fullt útúr dyrum alla hátíðina.

Að lokum er gaman að segja frá því að Kómedíuleikhúsið og leikhús og félög tóku höndum saman í haust og gáfu sameiginlega út bæklinginn Vestfirska leikárið 2009 – 2010. Í þessum bæklingi er kynning á hinu fjölbreytta leikhúsleikári á Vestfjörðum sem sannarlega er mjög veglegt og fjölbreytt. Vestfirska leikárinu var drey
ft um alla Vestfirði og víða um landið. Hér er örugglega á ferðinni nýjung sem á eftir að halda áfram enda er miklu sniðugra að sameinast um hlutina en að hver sé að pukrast í sínu horni.

Fyrir jólin tóku Kómedía og Litli leikklúbburinn saman höndum að nýju og settu saman stutta söngdagskrá er nefnist Jólavegir. Í söngverkinu voru flutt úrval laga er þau systkini Ellý og Vilhjálmur Vilhjálmsbörn fluttu á sínum tíma. Dagskráin var flutt á jólahlaðborðum á veitingastaðnum Við pollinn á Ísó og í Einarshúsi í Bolungarvík við mikinn fögnuð. En þetta er hins vegar bara byrjunin því eftir áramótin hefjast æfingar á leik- og söngverkinu Vegir liggja til allra átta þar sem flutt verður heill hellingur af lögum er þau Vilhjálmsbörn sungu inní hjörtu landsmanna á sínum tíma. Frumsýnt verður í byrjun febrúar. Gaman er að geta þess að þetta er í fjórða sinn sem Kómedía og Litli fara í samstarf og verður gaman að sjá hvert þetta ævintýri leiðir okkur.

Að lokum þetta….
Ætli sé ekki rétt að fara að hvíla lesanda voran á þessari kómedíu allri en ég vona að þú hafir notið lestursins og sért ef titil vill aðeins nær um hið fjölbreytta starf atvinnuleikhússins litla fyrir vestan. Framundan á nýja árinu eru allskonar ævintýri og ef þig langar að kikka eitthvað á það þá má aðeins forvitnast í Pé essinu hér að neðan.

Kómedíuleikhúsið þakkar öllum þeim fjölda fyrirtækja, sjóða, bæjarfélaga og einstaklinga sem hafa stutt við leikhúsið á því herrans ári 2009. Án ykkar hefðum við ekki náð að gera helmingi af þessu öllu. Síðast en ekki síst þakka ég ykkur áhorfendur góðir fyrir að hafa stutt við okkur með því að versla ykkur miða á sýningar vorar og vera svo dugleg að hlusta á þjóðlegu hljóðbækurnar. Nýja árið verður örugglega Kómískt og fjörugt hlakka til að sjá ykkur í leikhúsinu,

Kómedíuleikarinn
Kómedíuleikhúsið
www.komedia.is

Pé ess:
Framundan á hinu Kómíska ári 2010
– Vegir liggja til allra átta. Leik- og söngverk frumsýnt í febrúar.
– Síðasti dagur Sveins skotta. Nýtt íslenskt leikverk frumsýnt í mars.
– Kolbrúnarskáldið kemur í dalinn. Nýr íslenskur einleikur frumsýndur í apríl.
– Melrakki. Enn einn nýr einleikur Kómedíu frumsýndur í júní.
– Nýjar þjóðlegar hljóðbækur koma út og þær uppseldu verða endurútgefnar.

{mos_fb_discuss:3}