Leikfélag Austur- Eyfellinga
Anna í Stóru-Borg í leikgerð  Margrétar Tryggvadóttur
Leikstjóri: Sveinn Óskar Ásbjörnsson

Það ríkti sannarlega mikil eftirvænting meðal áhorfenda í Heimalandi undir Eyjafjöllum síðastliðinn föstudag, enda voru þeir mættir á frumsýningu á leikritinu Anna í Stóru-Borg. Leikrit sem byggir á sögu sem Jón Trausti gerði ódauðlega í bók sinni Anna frá Stóru-Borg. Sögusviðið eru Eyjafjöllin og því ekki nema von að áhorfendur væru spenntir. Leikritið gerist á 16. öld og hefst á því að vinnumenn á bænum Stóru-Borg eru að atast í smalamanninum Hjalta og mana hann til að leggjast í sæng húsfreyjunnar Önnu, að launum á hann að fá nýja stöng til að stökkva  á  eftir kindunum, en það er þó folald sem Eyjólfur ráðsmaður lofar honum sem gerir það að verkum að Hjalti ákveður að slá til. Og öllum til mikillar undrunar endar hann í rúmi Önnu. 

Það er skemmst frá því að segja að ástir takast með þeim Önnu og Hjalta og börnin fara að fæðast. Það eru þó ekki allir sáttir við þennan ráðahag og bróðir Önnu, Páll Vigfússon sýslumaður, seinna lögmaður, leggst mjög gegn þessum ráðahag  og dæmir Hjalta útlægan og réttdræpan. Páll vill sko ekkert smalablóð í æðum sinna ættingja!Anna býður bróður sínum byrgin, enda ann hún Hjalta mjög og tekur á það ráð að fela hann fyrir yfirvaldinu.  Ekki vil ég nú ljóstra upp um framhaldið á  þessarar ástarsögu til spilla ekki fyrir þeim sem eiga eftir að sjá sýninguna.

Já, saga Önnu og Hjalta er sannarlega ástarsaga, en leikritið er líka aldarfarslýsing. Sagan gerist í kringum siðaskiptin og mikil upplaus ríkir. Munkar leggjast á vergang og helgir krossar eru teknir niður. Það er einmitt þessi aldarfarslýsing sem er hvað skemmtilegust við sýninguna. Áhorfandinn skynjar vel hvernig lífið á bænum gengur fyrir sig. Hann skynjar líka vel hvað er fyrir utan bæinn og hvað fyrir innan. Það sem gerist innan dyra er á sviðinu en það sem er utan dyra er fyrir framan svið. Á einu dómþinginu dreifa leikarar sér svo meðal áhorfenda og var þá eins og áhorfendur væru á þinginu. Þetta var einkar skemmtileg útfærsla.

Leikrit þetta er annars leikrit orðsins. Leikarar fara með mikinn texta og tónlist eða hljóð eru lítið notuð.  Það eru því leikararnir sem bera verkið uppi og þeir standa ágætlega undir því. Þórunn Ólafsdóttir leikur Önnu (Vigúsdóttur) og hún túlkar hana mjög vel. Það var auðvelt að skynja hversu mikill skörungur Anna í Stóru-Borg var. Bjarni Böðvarsson leikur Pál bróður hennar og gerir það vel. Ég hefði þó viljað hafa meiri mun í leiknum þegar hann er í hlutverki valdsmannsins og þegar hann er í hlutverki einlægs bróður. 

Jón Helgi Ingvarsson leikur Hjalta smala og þó svo sagan snúist um hann er hlutverk hans ekki mjög viðamikið. Í túlkun Jóns Helga virkar Hjalti dálítið einfaldur og saklaus. Í leikritinu kynnumst við viðhorfum Önnu til sambandins en lítið viðhorfum Hjalta. Ég hefði alveg viljað kynnast Hjalta aðeins betur, það hefði dýpkað söguna.

En fleiri persónur koma við sögu. Sú persóna sem ég held að hafi vakið mesta kátínu meðal áhorfenda var Steinn á Fit, leikinn af Grétari Haraldssyni. Grétar gerir þessum skrýtna kotbónda góð skil og sömuleiðis er Sigurður Hróarsson frábær í hlutverki Halls grámunks.Önnur hlutverk eru minni og koma leikarar þeim ágætlega til skila. Það var líka mjög gaman að sjá hvað börnin og unglingarnir stóðu sig vel í sýningunni. 

Leikstjórinn Sveinn Óskar Ásbjörnsson á því hrós skilið fyrir að halda svona vel utan um leikhópinn og líka fyrir að nýta salinn svona skemmtilega, en eins og áður segir þá spilar sýningin á allan salinn. Hluti af því að spila á salinn er að hafa leikmyndina bæði uppi á sviði og út í sal en mikil vinna hefur verið lögði í leikmyndina og þjónar hún sýningunni vel. Bærinn uppi á sviði er mjög vel gerður og hlíðarnar og klettarnir fyrir utan bæinn líka. Ljósanotkunin undirstrikar svo mjög vel það sem er að gerast í sýningunni og búningarnir leikaranna eru í anda 16. aldar þó þeir minni líka á seinni tíma klæðnað á 19. öld.

Það er einmitt rómantík 19. aldarinnar sem kemur dálítið upp í hugann á þessari sýningu. Það er ástin sem ræður för þeirra Önnu og Hjalta.  Stundum er erfitt að trúa sögunni  alveg miðað við það siðferði sem var á þessum tíma. En í leikskrá skrifar höfundar leikgerðarinnar, Margrét Tryggvadóttir, að þessi saga sé sönn. Og auðvitað vitum við að kvenskörungar hafa alltaf verið til á Íslandi og af þessari sögu að dæma er Anna er ein af þeim.  
Ég vil að lokum hvetja alla til að sjá þessa sýningu, hún er öllum sem að henni koma til mikils sóma.

Elín Gunnlaugsdóttir