Annáll Kómedíuleikhússins 2008

Annáll Kómedíuleikhússins 2008

,,Tíminn flýgur áfram” einsog segir í kvæðinu, enn eitt Kómískt ár að baki og óhætt að segja að árið 2008 hafi verið sögulegt á margan hátt. Tvær nýjar sýningar voru frumsýndar á árinu, Act alone var haldin fimmta árið í röð og fékk Menningarverðlaun DV, tvö ný leikverk voru frumsýnd og þannig mætti lengi telja. Elfar Logi Hannesson, Kómedíuleikarinn, fer hér yfir hinn Kómíska veg annó 2008.

Árið byrjaði rólega hjá Kómedíuleikhúsinu en þegar leið að sumri fór heldur betur að draga til tíðinda. Gísli og Dimmalimm fóru í enn eina leikferðina til höfuðborgarinnar í mars og sýndar voru fjölmargar sýningar. Þann 5. mars urðu þau stórtíðindi að Act alone hlaut Menningarverðlaun DV og mikið gladdi það nú litla hjarta Kómedíuleikarans. Kómedíuleikhúsið hélt áfram farsælu samstarfi við Safnahúsið á Ísafirði með því að bjóða uppá Vestfirska húslestra yfir vetrartímann. Jóna Símonía og Kómedíuleikarinn hafa séð um þennan vinsæla dagskrálið og fjölluðu m.a. um skáldin Gest Pálsson og Jón Þorláksson. Svo rann upp maí mánuður. Verður þessa mánuðar minnst sem hinn stóri Kómíski mánuður í sögu leikhússins.

Fjörið hófst þann 8. maí en þá frumsýndi Kómedía í samstarfi við Þröst Jóhannesson ljóðaleikinn Búlúlala – Öldin hans Steins. Einsog nafnið gefur til kynna var hér fjallað um vestfirska skáldið Stein Steinarr en leikurinn var settur á svið í tilefni af aldarafmæli skáldsins. Í verkinu voru flutt úrval ljóða skáldsins í leik, tali og tónum. Þröstur Jóhannesson flutti framsamin lög við ljóð Steins og Kómedíuleikarinn flutti úrval ljóða. Búlúlala var frumsýnt í Tjöruhúsinu á Ísafirði 8. maí við góðar undirtekir síðan var skundað í leikferð um Vestfirði og sýnt víða. Loks var leikurinn sýndur á þremur listahátíðum á þremur stöðum, Reykjavík, Siglufirði og á Snæfjallaströnd en þar var haldin sértök Steins Steinarrs hátíð.

Nokkrum dögum eftir frumsýningu Búlúlala var næsti leikur frumsýndur. Hér var á ferðinni all sérstakt verkefni sem Kómedíuleikhúsið vann sérstaklega fyrir Einarshúsið í Bolungarvík. Húsið er um margt merkilegt þar bjuggu tveir áhrifamiklir menn í Bolungarvík þeir Pétur Oddsson og Einar Guðfinnsson en í dag er þar rekin glæsilegur veitingastaður. Leikurinn nefnist einfaldlega Pétur og Einar og var frumsýndur í Einarshúsi 31. maí. Höfundur og leikstjóri var Soffía Vagnsdóttir, Hrólfur Vagnsson sá um tónlistina og Kómedíuleikarinn var á senunni. Það er skemmst frá því að segja að Pétur og Einar sló í gegn og var sýndur við fádæma vinsældir allt sumarið og langt fram á haust. Enda er hér á ferðinni vönduð sýning sem er byggð á merkri sögu, sögu sem má ekki gleymast. Sýningin er sannkölluð perla í Menningartengdri ferðaþjónustu á Vestfjörðum og á vonandi eftir að gleðja gesti kjálkans um langa hríð.

Maí mánuður var sannarlega viðburðaríkur hjá Kómedíuleikhúsinu því enn ein sýningin var frumsýnd á þessu frjóa tímabili. Kómedía og LL endurnýjuðu einleikið samstarf sitt frá árinu áður. Að þessu sinni voru settir á svið fjórir íslenskir einleikir eftir fjóra höfunda og sem fyrr var sýnt á Hótel Ísafirði. Króinn fékk nafnið Forleikur og var frumsýndur 16. maí. Leikurinn var sýndur við fádæma vinsældir ekki bara á Ísafirði heldur einnig í Bolugarvík og á Flateyri. Síðast en ekki síst gaf Kómedíuleikhúsið út þriðju hljóðbók sína í þessum Kómíska maí mánuði. Sem fyrr voru þjóðsögurnar í aðalhlutverki og að þessu sinni voru það Þjóðsögur úr Bolungarvik og var útgáfunni vel tekið.

Sumarið var líka sannarlega tíminn hjá Kómedíuleikhúsinu. Í júní hóf Morrinn leikárið sitt og Kómedía sá nú annað sumarið í röð um listræna stjórn leikhússins. Að þessu sinni var Ársæll Níelsson fenginn til að leikstýra og er það mál manna að starfið hafi lukkast vel og að Morrinn sé að komast í sitt góða form á nýjan leik. Síðustu ár hefur Kómedíuleikhúsið séð um skemmtidagskrána á 17. júní á Ísafirði og í ár var boðið uppá fjölbreytta dagskrá með glímu og glensi.

Talandi um listræna stjórnun þá víkjum við næst að leiklistarhátíðinni Act alone en Kómedía sá einmitt um þann þátt hjá þessari vinsælu menningarhátið. Þetta var fimmta árið í röð sem Act alone var haldin og hefur dagskráin aldrei verið jafn viðamikil og þetta árið (ritara er ljóst að hann sagði þetta líka í fyrra og hittifyrra, en þetta er hins vegar alveg satt). Dagskráin samanstóð af 24 sýningum innlendum og erlendum, leiklistarnámskeiði auk kennslustundar í að reka eins manns leikhús. Fjölmargar nýjungar voru á Act alone 2008 má þar nefna að Act alone verðlaunin voru afhent í fyrsta sinn og Litla Act alone var haldin í Reykjavík þar sem erlendu sýningar hátíðarinnar voru á boðstólnum. Þannig leið sumarið ljúft og fjörugt hjá Kómedíuleikhúsinu en gaman er að geta þess að þessi árstími er að verða mjög viðamikill og stór í starfsemi leikhússins og er það vel. Enda hefur Kómedíuleikarinn ávallt verið spenntur fyrir Menningartengdri ferðaþjónustu sem er alltaf að aukast hér vestra nú þurfum við bara að auka traffíkina yfir vetrartímann líka.

Eftir kærkomið sumarfrí tóku við árlegar leikferðir Kómedíuleikhússins um landið með sýningar sínar. Farið var víða með Gísla Súra og Dimmalimm bæði norður og suður. Jólaleikritið Jólasveinar Grýlusynir fór sína fyrstu leikferð í desember við afbragðs góðar viðtökur sýndar voru 11 sýningar á jafn mörgum dögum.  Talandi um jólin þá er gaman að geta þess að Kómedía og LL tóku upp samstarf og buðu uppá leik- og söngdagskrána Úti er alltaf að snjóa fyrir jól. Sýnt var á Hótel Ísafirði og í Einarshúsi í Bolungarvík. Einsog glöggir lesendur hafa kannski áttað sig á þá er hér um að ræða dagskrá sem er byggð á verkum bræðranna Jónasar og Jóns Múla Árnasona. Og ævintýrið er ekki úti því núna í janúar halda leikhúsin áfram að vinna með verk bræðranna. Nú á að stíga skrefið til fulls enda voru viðtökur mjög góðar og hefur Kómedíuleikarinn bætt við dagskrána enda er nægur efniviðurinn hjá þeim Árnasonum. Leikurinn nefnist nú Við heimtum aukavinnu og verður frumsýndur í Edinborgarhúsinu í byrjun febrúar.

Fjórða þjóðlega hljóðbókin kom út í desember og nú voru það Þjóðsögur af Ströndum. Gaman er að geta þess að hljóðbækurnar hafa notið mikilla vinælda og nú er svo komið að fyrstu tvær eru uppseldar og lítið er eftir af Bolungarvíkur diskinum. Kómedíuleikhúsið stefnir því að því að auka hljóðbókaútgáfu sína enn frekar á árinu og gefa út allavega þrjú verk. Kómedíuleikhúsið bryddaði uppá ýmsum nýjungum á árinu og má þar nefna dagskráröðina Einleikin leiklestur. Fyrsti Einleikni leiklesturinn var í nóvember þar sem fluttur var leikurinn Knall eftir Jökul Jakobsson. Árni Ingason flutti og Kómedíuleikarinn flutti erindi um skáldið. Stefnt er að því að bjóða uppá fleiri Einleikna leiklestra í framtíðinni.
Kómedíuleikhúsið fékk loks þak yfir starfsemi sína í haust þegar Menningarmálanefnd Ísafjarðarbæjar veitti leikhúsinu afnot af Tjöruhúsinu á Ísafirði yfir vetrartímann. Til þessa hafa æfingar verið á fjölbreyttum stöðum og leikmyndir geymdar á heimili Kómedíuhjónanna. Þó leikhús sé ekki hús þá er nauðsynlegt að hafa fastan samanstað undir starfsemi leikhússins þó ekki sé nema bara fyrir æfingar og sýningar. Þó hér sé ekki um allt árið að ræða þá er þetta stórt skref fyrir Kómedíuleikhúsið og viljum við þakka kærlega fyrir þetta ómetanlega framlag.

Árið 2008 var sannarlega Kómískt og skemmtilegt vonandi verður nýja árið ekki síðra jafnvel bara enn skemmtilegra. Kómedíuleikhúsið vill þakka þeim fjölmörgu sem hafa stutt leikhúsið á einn eða annan hátt á liðnu ári. Öllum listamönnum sem störfuðu með okkur er jafnframt þakkað, mikið erum við nú heppinn að hafa fengið að njóta krafta ykkar og kraftaverka. Lesandi góður þakka þér líka fyrir að sýna leikhúsinu áhuga og loks áhorfendur um land allt takk fyrir frábært ár. Hlökkum til að sjá ykkur sem flest í leikhúsinu á árinu. Og þeir sem eru forvitnir geta kikkað á P.S. hér að neðan.
Megi nýja árið vera okkur öllum Kómískt,

Kómedíuleikhúsið
Elfar Logi Hannesson

P.S.
Meðal verkefna á nýju ári:
Við heimtum aukavinnu leik- og söngdagskrá frumsýnd í byrjun febrúar í samstarfi við LL.
Auðun og ísbjörninn nýtt leikverk eftir Kómedíuleikarann og Soffíu Vagnsdóttur. Frumsýnt í lok febrúar.
Þjóðsögur úr Súðavík fimmta þjóðlega hljóðbókin. Kemur út í vor.
Þorpið ljóðleikur frumsýndur í júní í samstarfi við Ljóðasetur Íslands.

{mos_fb_discuss:3}
0 Slökkt á athugasemdum við Annáll Kómedíuleikhússins 2008 858 05 janúar, 2009 Greinar, Markvert janúar 5, 2009

Áskrift að Vikupósti

Karfa