Leikfélag Sauðárkróks frumsýnir í Bifröst barnaleikritið Allt í plati eftir Þröst Guðbjartsson þann 26. október næstkomandi. Í leikritinu galdrar Lína Langsokkur til sín persónur úr þekktum barnaleikritum, t.a.m. Mikka ref, Lilla klifurmús, Karíus og Baktus, Kasper, Jesper og Jónatan og Soffíu frænku. Tónlist spilar stóran þátt í leikritinu og sér Rögnvaldur Valbergsson um undirspil. Leikstjóri er Íris Baldvinsdóttir.

Tólf leikarar stíga á stokk og sumir í fyrsta skiptið. Allt í plati er 20. barnaleikritið sem Leikfélag Sauðárkróks setur upp frá árinu 1984, en frá árinu 2000 hefur eitt slíkt verk verið sett upp á hverju hausti. Þrjú af fjórum verkum inní verkinu hafa áður verið sýnd af Leikfélagi Sauðárkróks, Lína Langsokkur (1986), Kardemommubærinn (1987) og Dýrin í Hálsaskógi (1994). Styttri leikgerð af Allt í plati var sýnd á Sauðárkróki þann 17. júní árið 2003, þrisvar fyrir fullu húsi.

Áætlaðar eru 8 sýningar á verkinu:

Frumsýning miðvikudag 26. okt. kl. 19:30
2. sýning föstudag 28. okt. kl. 19:30
3. sýning laugardag 29. okt. kl. 17:00
4. sýning sunnudag 30. okt. kl. 17:00
5. sýning þriðjudag 1. nóv. kl. 19:30
6. sýning miðvikudag 2. nóv. kl. 19:30
7. sýning föstudag 4. nóv. kl. 19:30
8. sýning laugardag 5. nóv. kl. 16:00

Miðasala í Kompunni kl. 13-18, í síma 849-9434.

{mos_fb_discuss:2}