Þjóðleikhúsið frumsýnir þann 4. mars leikritið Allir synir mínir eftir Arthur Miller á Stóra sviðinu í leikstjórn Stefáns Baldurssonar.  Arthur Miller er án efa eitt mesta leikskáld tuttugustu aldarinnar og Allir synir mínir er verkið sem gerði hann frægan, sannkölluð nútímaklassík um fjölskyldu þjakaða af leyndarmálum fortíðarinnar og ýmsa þá þætti í sálarlífi mannanna og samfélaginu sem okkur eru sérlega hugleiknir nú á tímum.  Höfundur spyr stórra spurninga um siðferði og samfélagslega ábyrgð, en jafnframt er Allir synir mínir magnað, sálfræðilegt verk, þrungið spennu.

Fjölskyldufaðirinn Joe Keller er verksmiðjueigandi í Bandaríkjunum, sem var á sínum tíma sýknaður af ákæru um að hafa framleitt gallaða vélarhluta í flugvélar. Yngri sonur Kellers var herflugmaður en hvarf í stríði fyrir þremur árum og er talinn af. Móðirin heldur þó enn í vonina um að hann sé á lífi og bíður heimkomu hans. Þegar eldri sonur hjónanna upplýsir um ást sína og unnustu yngri bróðursins fer af stað ófyrirsjáanleg atburðarás, og fjölskyldan neyðist til að takast á við ógnvænlega hluti úr fortíðinni.

Í aðalhlutverkum eru nokkrir af vinsælustu leikurum þjóðarinnar. Jóhann Sigurðarson snýr nú aftur í Þjóðleikhúsið í hlutverki Joe Kellers. Guðrún Snæfríður Gísladóttir leikur Kate Keller, sonur þeirra er leikinn af Birni Thors og unnustuna leikur Arnbjörg Hlíf Valsdóttir. Með önnur hlutverk í sýningunni fara Atli Rafn Sigurðarson, Baldur Trausti Hreinsson, Edda Arnljótsdóttir, Hannes Óli Ágústsson og Vigdís Hrefna Pálsdóttir. Tveir ungir drengir taka þátt í sýningunni, Grettir Valsson og Hringur Ingvarsson.

Leikstjóri er eins og áður segir Stefán Baldursson, leikmynd er eftir Gretar Reynisson, búninga hannar Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir, þýðingin er eftir Hrafnhildi Hagalín, tónlist eftir Gísla Galdur Þorgeirsson og lýsinguna hannaði Lárus Björnsson.

{mos_fb_discuss:2}