Frá því Ísland gerðist aðili að ITI hefur íslenskur leikhúslistamaður verið fenginn ár hvert til að semja ávarp í tilefni dagsins og hefur sú hefð skapast að ávarpið birtist í dagblöðum, er flutt af höfundi í útvarpi og af einhverju leiksviði þennan dag og hafa aðrir leikhúslistamenn stigið fram á svið fyrir sýningar í leikhúsum og flutt ávarpið fyrir hans hönd hvar sem leikið er þennan dag. Í ár er það Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri sem hefur samið ávarp Alþjóða leikhúsdagsins fyrir Leiklistarsamband Íslands.  

Arthur Miller – eitt helsta leikskáld síðustu aldar – lést fyrir  nokkrum vikum. Hann skrifaði sín  helstu stórvirki um miðbik aldarinnar, og þó það væri fjarri sanni að segja að hann hafi sest í helgan stein eftir það, var hann oft spurður að því hvers vegna hann hefði ekki skrifað meir en raun bar vitni. Leikskáldið svaraði eitthvað á þá leið að hann hefði örugglega skrifað meira ef hann hefði haft leikhús til að skrifa fyrir. Eftir að markaðsleikhúsið varð allsráðandi á Broadway hafi hann ekki haft neinn vettvang. Fjárfestar hefðu ekki áhuga á listrænni áhættu eða gagnrýnu leikhúsi – þeir sæktust eftir gróða. Í ljósi þessara ummæla Millers er ekki úr vegi að nota Alþjóða leiklistardaginn – sem Alþjóða leiklistarstofnunin efnir til ár hvert – til að beina sjónum að aðstæðum hér á landi og huga að hvert stefnir.

Stöðugildum fastráðinna listamanna í leikhúsum landsins hefur fækkað um þriðjung  á nokkrum árum án þess að nokkur virðist gefa því sérstakan gaum. Stór hluti þeirra leiksýninga sem líta ,,sviðsins ljós”eru unnar af vanefnum og listamennirnir fá lítið eða ekkert fyrir vinnu sína. Leiklist, og reyndar allri listastarfsem, bæði stofnunum, einyrkjum og grasrótarstarfsemi, er í æ ríkara mæli vísað á fyrirtæki eða fjársterka einstaklinga til fjáröflunar. Í leiklistinni er Þjóðleikhúsið eitt nokkurn veginn ósnortið af þessari þróun.

Það er varhugavert að reiða sig um of á þessa leið til fjáröflunar. Hún er hvergi studd í lögum, ekki einu sinni óskráðum, og menn geta kippt að sér hendinni þegar minnst varir – allt eftir því hvernig árar. Hætt er við að menn verði fúsastir að stökkva á þann vagninn sem er á mestri ferð, fremur enn hinn sem ætlar ótroðnar slóðir; að hengja nafnspjaldið sitt þar sem ljósið skín skærast hverju sinni,  ekki í myrkri óvissunnar og áhættunnar. Leiklist sem er háð markaðsöflunum getur vissulega bæði skemmt og glatt, sem síst skal vanmetið, en meira getur hún sjaldnast lagt til.

Einungis atvinnuleikhús, styrkt af opinberu fé, þar sem listamönnunum er tryggð samfella í starfi og aðstæður til þróunar listar sinnar, getur axlað margbreytilegt hlutverk listarinnar. Hlutverk sem erfitt er að skilgreina eða færa sönnur á, en áhrifaríkast er kannski að hver og einn reyni að setja sér fyrir sjónir mannlegt samfélag án listar – án sköpunar. Hvers konar samfélag blasir þá við?

En leikhúsið getur því einungis gert kröfur til nauðsynlegs stuðnings samfélagsins, að það rísi undir hlutverki sínu. Líti í eigin barm, bæði stofnanir og einstaklingar, og spyrji gagnrýninna spurninga. Er leikhúsið lifandi þáttakandi í samfélaginu? Er það að skoða og skilgreina margbreytileika mannlegrar hegðunar og samfélaga, örva til nýrrar sköpunar og skilnings, hugsana og gagnrýni? Er það sá málsvari mannúðar, friðar  og mannréttinda sem allri list ber að vera?

Viðleitnin verður að hníga í þessa átt og þó markinu verði aldrei náð ber að stefna að því. Leikhús sem starfar, hugsar og andar með og fyrir fólkið í landinu uppsker áhuga og stuðning áhorfenda.

Þórhildur Þorleifsdóttir.