Ávarpið skrifar Þráinn Karlsson leikari á Akureyri.
Góðir leikhúsgestir.
Á þessum degi 27. mars ávarpa leikhúslistamenn leikhúsgesti um allan heim. Það var með tregablandinni gleði að ég tók að mér að setja saman ávarpið að þessu sinni. Eins og nú er kunnugt hefur öllum starfsmönnum eins atvinnuleikhúss landsins, Leikfélags Akureyrar, verið sagt upp störfum vegna fjárhagsvanda.

Við slík tímamót veltir maður fyrir sér spurningum sem varða okkur listamennina og áhorfendur, af meiri alvöru en þegar allt leikur í lyndi. Spurningum eins og; Hvers virði er leiklist samfélaginu? Hver er hagnaðurinn?

Ég var 7 ára gamall þegar ég fór fyrst í leikhús með foreldrum mínum að sjá sjónleikinn Skálholt eftir Guðmund Kamban, harmsögu frá 17. öld. Ég ríghélt í móður mína, skalf eins og asparlauf í vindi. Var ef til vill rangt að taka snáðann með á þessa leiksýningu? Ég held ekki. Þessi magnaða upplifun hefur fylgt mér allar götur síðan.
Sem barn sóttist ég eftir að „fara á leikrit“ en fékk sjaldnar en ég vildi. Leikararnir – fas þeirra og framganga – búningarnir sem þeir klæddust – andlitsgervin – leiktjöldin – allt þetta var mér ný uppgvötun, ævintýri. Og þegar upphófst tónlist og söngur var mér öllum lokið.
Á þessum árum hef ég áreiðanlega ekki velt því fyrir mér hvort einn leikari var betri en annar, hvort sýning var góð eða slæm, það skipti mig ekki máli en þó veit ég í dag að fjölmargir sannir listamenn komu þar við sögu. Það sem skipti mig máli var framvindan – sagan sem sögð var af leikurunum á sviðinu – samskipti þeirra í gleði og harmi.

Ég tilheyri kynslóð elstu leikara í landinu og hef upplifað ótrúlegar breytingar í leikhúsinu. Dirfsku og færni listamanna virðast engin takmörk sett. Vel menntað leikhúslistafólk setur upp glæsilegri sýningar en nokkurn gat órað fyrir á 6. og 7. áratugnum, en viðfangsefnið er hið sama, manneskjan og hennar flókna tilfinningalíf.

Hagnaður leiklistar verður ekki í krónum talinn, hann er annars eðlis. Við erum margskonar, fólkið sem byggir þetta land, með ólíkar skoðanir og viðhorf. Ekki eru allir á eitt sáttir um hvort, og þá hve miklum, peningum skuli varið til menningarstarfsemi. Við, áhorfendur og leikhúslistafólk, ættum að velta fyrir okkur spurningum á borð við þær sem ég nefndi í upphafi. Hvers virði er leikhús? Hverju breytir það fyrir fámennt land eins og Ísland að hafa atvinnuleikhús? Hver er hagnaðurinn?
Njótið kvöldsins.