Í dag, fimmtudaginn 27. maí kl. 12:30, sýnir Áhugaleikhús atvinnumanna Maí, örverk um áráttur, kenndir og kenjar og verður það sýnt í beinni útsendingu á vefsíðunni www.herbergi408.is frá Útgerð Hugmyndahús háskólanna við Grandagarð.  Leikstjóri er Steinun Knútsdóttir og leikari er Orri Huginn Ágústsson.

Áhugaleikhúsið veltir nú fyrir sér hvernig garðurinn okkar kemur undan vetri og hvernig best sé að undibúa jarðveginn fyrir framtíðina.  Hvað er illgresi? Er sviðin jörð ákjósanleg til ræktunar? Hvort á ég að kjósa einærar eða fjölærar plöntur?

Verkið er fimmta örverkið af 12 sem Áhugaleikhúss atvinnumanna býður áhorfendum upp á endurgjaldslaust. Verkin taka á áráttum, kenndum og kenjum sem hafa áhrif á mannlega tilvist í Reykjavík 2010 og eru kennd eftir þeim mánuði sem þau eru flutt í. Viðfang verkanna ræðst af því sem hrærist í samtímanum og hefur áhrif á líf okkar.

Umsjón með beinni útsendingu hefur Hákon Már Oddson ásamt útskriftarnemum Lista- og fjölmiðlasviðs Borgarholtsskóla.

Áhugaleikhús atvinnumanna er hópur atvinnufólks í sviðslistum sem hefur áhuga á frelsi til óháðrar listsköpunar í leiklist. Leikhúsið lítur á leiksýningar sínar sem vettvang til að velta áleitnum spurningum fyrir sér þó ekki sé langt í kímni og kæruleysi. Markmiðið með starfinu er að að skapa framsækin og áleitin sviðslistaverk sem í eðli sínu eru samtal við áhorfendur og eru óháð markaðsöflum. Leikhúsið vill ekki fara í viðskiptasamband við áhorfendur sína og býður þess vegna áhorfendum í samtal án endurgjalds og þiggur ekki aðgangseyri á sýningar sínar.

Listamenn leikhússins fengu nýverið úthlutað listamannalaunum.

{mos_fb_discuss:2}