Leikhópurinn Á senunni kynnir enn á ný hina margrómuðu og yndislega fallegu jólaleiksýningu Ævintýrið um Augastein eftir Felix Bergsson, í samstarfi við Kolbrúnu Halldórsdóttur og Helgu Arnalds, sem verður að nýju sýnd í nóvember og desember 2015 í hinu nýuppgerða og glæsilega Tjarnarbíói við Tjarnargötu. Íslensk útgáfa verksins var einmitt frumsýnd í Tjarnarbíói árið 2003. Það má því segja að Augasteinn sé enn og aftur kominn heim!
Ævintýrið um Augastein var frumsýnt í Drill Hall í London árið 2002 og í Tjarnarbíói árið 2003. Síðan hefur verkið verið leikið á hverju ári og heimsótt London, Liverpool, Ísafjörð, Ólafsvík, Akureyri og Reykjavík.
Leikritið byggir á hinni sígildu sögu um Grýlu og jólasveinana en ævintýrið er tekið lengra og sagan um litla drenginn, sem nefndur er Augasteinn, verður miðpunktur leikritsins. Að auki fæst skýring á því hvers vegna börnin á Íslandi fá litla gjöf í skóinn sinn frá jólasveinunum. Augasteinn lendir fyrir tilviljun í höndum hinna hrekkjóttu jólasveina sem læra smám saman að elska litla drenginn og annast hann. Skyndilega kemst Grýla á snoðir um tilveru barnsins og við tekur æsispennandi flétta. Ná jólasveinarnir að bjarga Augasteini úr klóm Grýlu og Jólakattarins áður en jólin ganga í garð? Þess má geta að barnabókin Ævintýrið um Augstein fékk glimrandi viðtökur fyrir jólin 2003 og er nú algjörlega uppseld.
Það er Felix Bergsson sem leikur öll hlutverkin í Ævintýrinu um Augastein. Brúður og leikmynd eru eftir Helgu Arnalds, lýsingu hannaði Jóhann Bjarni Pálmason og tónlistin var útsett af Hróðmari Inga Sigurbjörnssyni fyrir Háskólakórinn undir stjórn Hákons Leifssonar. Hljóðmynd er verk Sveins Kjartanssonar. Leikstjóri er Kolbrún Halldórsdóttir.
Leikhópurinn Á senunni sem hélt upp á 15 ára afmæli á síðasta ári fékk Grímuna fyrir leiksýningu ársins árið 2003, Kvetch, og aftur árið 2007 fyrir barnasýningu ársins, Abbababb! Að auki hefur leikhópurinn hlotið fjölmargar tilnefningar fyrir ýmis verk.
Miðasala á Miði.is http://midi.is/leikhus/1/8630/Avintyrid_um_Augastein og Tjarnarbíó.is http://tjarnarbio.is/224-aevintyrid-um-augastein.html
Sýningar
29. nóvember, kl. 13:00 – ÖRFÁ SÆTI LAUS
6. desember, kl. 13:00 – UPPSELT
6. desember, kl. 15:00 – Aukasýning
13. desember, kl. 13:00 – ÖRFÁ SÆTI LAUS
13. desember, kl. 15:00 – Aukasýning
20. desember, kl. 13:00 – ÖRFÁ SÆTI LAUS