Benedikt búálfur
Leikfélag Norðfjarðar
Leikstjórn: Guðmundur L. Þorvaldsson
Árni Friðriksson rýnir í sýningu

Þann 3. október frumsýndi Leikfélag Norðfjarðar Benedikt búálf í leikstjórn Guðmundar Lúðvíks Þorvaldssonar. Um er að ræða söngleik fyrir börn á öllum aldri eftir Ólaf Gunnar Guðlaugsson. Leikritið er í raun mjög hefðbundið ævintýraleikrit um baráttu góðs og ills. Benedikt búálfur verður fyrir því láni að hitta Dídí mannabarn og fara með hana í skoðunarferð til álfheima. Þegar í álfheima er komið hafa dökkálfar numið tannálfinn á brott og Benedikt fær Dídí mannabarn, Daða dreka og Jósafat mannahrelli til hjálpa sér að bjarga tannálfinum og um leið álfheimum frá tannkvölum og pínu. Söngvarnir, sem eru eftir Þorvald Bjarna og Andreu Gylfadóttur, gera síðan verkið að prýðilegri skemmtun.

Söngleikurinn er bitastæður fyrir söngelsk leikfélög, þar sem burðarhlutverkin átta eru líka sönghlutverk. Leikur og söngur er til fyrirmyndar. Í stuttu máli sagt fannst undirrituðum með ólíkindum að hægt væri að finna svo margt frambærilegt söngfólk í einu og sama leikfélaginu, sem auk þess gæti leikið. Tristan Theódórsson sýnir hressilegan leik í titilhlutverkinu. Er sannur búálfur, spjátrungslegur og góðlegur. Margrét Kolka Hlöðversdóttir er frábær í hlutverki Dídíar, saklausu, vinalausu sjö ára stúlkunnar sem bregður sér til álfheima til að bjarga málunum. Margrét er með einkar mikla útgeislun og ekki spillti hnökralaus söngur. Bragi Ingólfsson og Bjarki Ingason uppskáru mestan hlátur enda í mjög kómískum hlutverkum. Bragi leikur Jósafat mannahrelli og upphafslagið hans er með þeim skemmtilegri í sýningunni, þó erfitt hafi verið að greina orðaskil þegar hann fór í Axl Rose-gírinn. Bjarki lék hinn grænmetisétandi dreka, Daða, af svo mikilli góðmennsku að ég hygg að allmargir áhorfendur hefðu verið til í taka hann með heim að sýningu lokinni. Álfakonunginn og drottninguna léku Þórður Sigurðarson og Jóhanna Fanney H. Welingh af konunglegri prýði og óhætt að segja að Jóhanna hafi drottingarrödd. Mætti segja mér að þar fari vön söngkona. Brynjar Örn Rúnarsson leikur Sölvar súra og er á mörkunum með að vera of ógnvekjandi fyrir yngstu áhorfendurnar, en nær að dansa hárfínt á illmennalínunni. Amelía Rún Jónsdóttir er Tóti tannálfur og er mjög líflegur og skemmtilegur karakter, með fína söngrödd. Auk þess tóku þátt í sýningunni krakkar úr unglingadeild Leikfélags Norðfjarðar, Espólín. Þau léku dökkálfa, runna og blóm af miklu öryggi. Ævar Steinn, í hlutverki runna, á til dæmis eina fyndnustu setningu leikritsins. Upprennandi leikarar þar á ferðinni.

Benedikt búálfurSviðsmyndin er að mestu leyti tveir stórir flekar sem færðir eru til eftir atriðum. Það var snyrtilega útfært, nema í byrjunaratriðinu í mannheimum, þar sem öðrum flekanum var hreinlega ofaukið og skyggði á hinn ævintýralega Hlyn sem var hliðið að álfheimum. Skjannahvít baktjöldin voru líka óþarflega krumuð og ljót. Vera má að það hafi átt að tákna litleysið í lífi Dídíar, því eftir að í álfheima kom litu baktjöldin mun betur út. Þar kom lýsingin líka sterk inn og var hún til að mynda mögnuð í viskubrunnsatriðinu.

Eitt af því sem sýningin getur verið stoltust af eru búningarnir. Sérstaklega ber að minnast á frábæran búning Jósafats mannahrellis, en Bragi og búningurinn hans áttu kostulegan samleik á köflum. Auk þess var handmíkrófónunum mjög haganlega komið fyrir í búningum persóna, svo vel að það var hreinlega gaman að sjá þau handleika míkrófóninn, sem undirrituðum leiðist öllu jafna.
Hljómsveitin er skipuð Jóni Hilmari Kárasyni, Þorláki Ægi Ágústssyni, Orra Smárasyni og Júlíusi Óla Jacobsen. Það er skemmst frá því að segja að hún hljómaði þétt og góð. Hljóðið í salnum var líka eins og best verður á kosið.

Undirritaður óskar Leikfélagi Norðfjarðar og Guðmundi Lúðvík Þorvaldssyni til hamingju með vel heppnaða uppsetningu. Þarna er greinilega valinn maður í hverju rúmi. Það er því algjörlega óhætt að hvetja fólk á öllum aldri á Austurlandi að flykkjast í Egilsbúð og sjá og njóta söngleiksins um Benedikt búálf og félaga.

Árni Friðriksson