Leikfélag Hafnarfjarðar hefur hafið æfingar á barna- og fjölskylduleikritinu Sjóræningjaprinsessan eftir Ármann Guðmundsson. Leikstjóri er Lárus Vilhjálmsson. Það er gaman að geta sagt frá því að á fyrsta samlestur mættu yfir 20 manns og enn skemmtilegra að allir sem vildu fengu hlutverk. Tónlistin í verkinu er eftir Ármann sjálfan ásamt Guðmundi Svafarssyni og söngtexta gerir Ármann einnig ásamt Sævari Sigurgeirssyni. Stefnt er á frumsýningu 23. mars nk.

Leikritið segir frá Soffíu sem alist hefur upp hjá gistihúsinu Sporðlausu hafmeyjunni á friðsælli eyju í Suðurhöfum allt frá því að hún kom þangað með dularfullum hætti sem ungabarn. Ólíkt Matta uppeldisbróður sínum þráir hún að lenda í ævintýrum og heldur því statt og stöðugt fram að hún sé sjóræningjaprinsessa, fósturforeldrum sínum til mikillar armæðu. En svo gerist það eitt óveðurskvöld að tveir grunsamlegir náungar skjóta upp kollinum á Sporðlausu hafmeyjunni og áður en Soffía veit af er hún komin út á rúmsjó með stórhættulegum sjóræningjum á leið til Milljónmaðkaeyju þar sem stórhættulegar mannætur ráða ríkjum…