Aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga haldinn 4. maí í Logalandi, Reykholti

1. Fundarsetning. Kosning 2ja fundarstjóra og 2ja fundarritara, sem taka þegar til starfa. Lögmæti fundarins kannað.

Þorgeir Tryggvason, formaður Bandalagsins, setti fundinn og stakk upp á Bernharð Arnarsyni, Leikfélagi Hörgdæla, og Sigríði Láru Sigurjónsdóttur, Leikfélagi Fljótsdalshéraðs, sem fundarstjórum og Ármanni Guðmundssyni, ritara þjónustumiðstöðvar, og Magnþóru Kristjánsdóttur, Leikfélagi Ölfuss, sem fundarriturum. Tillagan samþykkt. Lögmæti fundarins staðfest. Fundarmenn kynntu sig.

2. Kjörnefnd afgreiðir kjörbréf og afhendir atkvæðaspjöld, skýrir stöðu mála varðandi stjórnarkjör og auglýsir eftir tillögum.

Kjörnefnd deildi út atkvæðaseðlum og Dýrleif Jónsdóttir, Leikfélaginu Sýnum og formaður kjörnefndar gerði grein fyrir stöðu mála varðandi stjórnarkjör.

3. Menningarstefna Bandalagsins lesin og rædd.

Ólöf Þórðardóttir, Leikfélagi Mosfellssveitar og ritari stjórnar, las Menningarstefnu Bandalagsins. Engar umræður.

4. Staðfest inntaka nýrra félaga, félög tekin af félagaskrá.

Þráinn Sigvaldason, Leikfélagi Fljótsdalshéraðs og stjórnarmaður Bandalagsins, greindi frá því að ekkert félag gekk til liðs við Bandalagið á leikárinu en Leiklistarfélag Seltjarness, Leikfélag Raufarhafnar, Leikfélagið Baldur og Leikfélag Siglufjarðar gengu úr Bandalaginu. Það síðastnefnda hyggst þó sameinast Leikfélagi Ólafsfjarðar undir merkjum Leikfélags Fjallabyggðar.

5. Fundargerð síðasta aðalfundar afgreidd.

Bernharð Arnarson bar fundargerð síðasta aðalfundar undir fundinn og var hún samþykkt.

6. Skýrsla stjórnar.

Þorgeir Tryggvason flutti skýrslu stjórnar:

Skýrsla stjórnar á aðalfundi
Bandalags íslenskra leikfélaga í Logalandi
4.–5. maí 2013

I – Stjórn

Á starfsárinu skipuðu stjórn  þau:

Þorgeir Tryggvason, Reykjavík, formaður
Guðfinna Gunnarsdóttir, Selfossi, varaformaður
Ólöf Þórðardóttir, Mosfellsbæ, ritari
Halldór Sigurgeirsson, Eyjafjarðarsveit, meðstjórnandi
og Þráinn Sigvaldason, Borgarfirði eystri, meðstjórnandi

Í varastjórn sátu Magnús J. Magnússon, Þrúður Sigurðar, Bernharð Arnarson, Embla Guðmundsdóttir og Ylfa Mist Helgadóttir.

Í þjónustumiðstöðinni starfa síðan Vilborg Valgarðsdóttir framkvæmdastjóri og ritarinn Ármann Guðmundsson.

Fimm stjórnarfundir voru haldnir á árinu, í höfuðstöðvunum í Reykjavík, á Grjóteyri í Borgarfirði og í tengslum við aðalfundi. Stjórnarmönnum og starfsfólki er þakkað fyrir góða og vinnusama fundi á starfsárinu.

II – Starfsemi félaganna

39 aðildarfélög Bandalagsins sendu inn styrkumsóknir fyrir alls 106 verkefni fyrir leikárið 2011-2012. Fullur styrkur reyndist vera 246.332 krónur. Ársritið okkar inniheldur síðan allar frekari upplýsingar um starfsemina. Ekki liggja fyrir tölur um umfang starfsins á þessu leikári en engin ástæða til að ætla annað en það sé svipað og verið hefur. Félögin í Bandalaginu eru nú 59, fjórum færri en í fyrra.

III – Starfsáætlun

Á síðasta aðalfundi var að venju samþykkt starfsáætlun og mun ég fara yfir hana og geta þess hvernig unnið var að hverjum lið fyrir sig.

Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.

Fastir liðir starfseminnar, skólinn og vefurinn eru meira og minna í höndum til þess kjörinna nefnda og munu fulltrúar þeirra fara yfir þá þætti sem undir þá heyra hér síðar á dagskránni.

Sú kerfisbreyting hefur verið gerð af stjórnvöldum að ríkisstyrkurinn til þjónustumiðstöðvarinnar er ekki lengur á fjárlögum, heldur er okkur gert að sækja um hann til ráðuneytisins. Í febrúar var gengið frá samkomulagi sem hljóðaði upp á 5 milljón króna styrk til miðstöðvarinnar árlega næstu þrjú árin. Ljóst er að það dugar ekki til að endar nái saman og er eitt verkefni þessa fundar að útfæra leiðir til að bregðast við því.

Hörðu aðhaldi hefur verið beitt í rekstrinum og útsjónarsemi starfsfólks hvað það varðar vakið aðdáun stjórnarmanna, en til að brúa bilið þarf róttækari aðgerðir. Að öðru leyti koma rekstrarmál þjónustumiðstöðvarinnar best fram í ársreikningum sem framkvæmdastjóri skýrir síðar á dagskránni.

Á haustdögum dró loks til tíðinda varðandi húsnæðið að Laugavegi 96 þegar það var sett á nauðungarsölu. Eftir dramatískar sviptingar í nokkra daga varð því miður ljóst að við myndum ekki geta endurheimt húsnæðið, og ólíklegt að nokkuð af þeim fjármunum sem við áttum útistandandi kæmu í okkar hlut.

Framkvæmdastjóri skrifaði greinargerð um málið allt og var hún send aðildarfélögunum þegar allt var um garð gengið og vísa ég í hana hvað nákvæma útlistun ferlisins varðar.

Niðurstaða þessa máls er vitaskuld hörmuleg fyrir okkur. Stjórnin hefur reynt að átta sig á hvar í ferlinu hefði verið hægt að afstýra því að svona færi og þykir ljóst að þá hefðum við þurft að hafa brugðist við svo snemma að ómögulegt hefði verið að sjá þessi málalok fyrir. Hugmyndir um að láta kaupin ganga til baka hafa iðulega verið viðraðar í gegnum þessi ár sem við höfum beðið niðurstöðu, en ávallt hnigið sterk rök til að gera það ekki. Engu að síður er þetta mikið áfall fyrir hreyfingu okkar.

Stjórn og framkvæmdastjóri nutu endurgjaldslausrar aðstoðar Eggerts Páls Ólasonar lögfræðings þessa daga og kunnum við honum bestu þakkir fyrir hans ómetanlegu ráðgjöf og vinnuframlag.

Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.

Ríkisstyrkurinn er nú 16,4 milljónir kr. til starfsemi leikfélaganna. Sá liður er enn inni á fjárlögum, góðu heilli, en rýrnar enn þrátt fyrir aðgerðir til að hafa áhrif á ráðamenn. Það er vitaskuld eilífðarverkefni að ná þessari upphæð í viðunandi stærð.

Á síðasta aðalfundi var stjórn falið að sækja um styrki hjá a.m.k 10 stórfyrirtækjum. Þessi aðgerð skilaði tveimur styrkjum samtals að upphæð 850.000, frá Samfélagssjóði Landsvirkjunar og Samfélagssjóði Landsbankans. Að auki fékkst aukaframlag frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Alls námu þessar „sértekjur“ 1.550.500 kr. og eru vegna skönnunar og skráningar handritasafnsins. Stjórn metur það svo að árangur af þessu umsóknarátaki sé viðunandi. Styrkir frá stórfyrirtækjum eru einatt bundnir ákveðnum verkefnum, og eru ekki vænleg fjáröflunarleið til að fjármagna almenna starfsemi.

Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.

Leikfélag Kópavogs fór með sigur af hólmi í keppinni í fyrra og sýndi Hringinn eftir Hrefnu Friðriksdóttur í Kassa Þjóðleikhússins í júní. Við eigum svo von á gesti frá Þjóðleikhúsinu í kvöld til að tilkynna um niðurstöðuna í ár. Úr 17 sýningum er að velja svo þetta samstarf er í fullu fjöri. Listinn yfir hverjar þær eru er á Leiklistarvefnum, svo það er um að gera að kynna sér hann og byrja að velta fyrir sér niðurstöðunni.

Sérverkefnum leikársins er báðum lokið

Námskeið í stjórnun leikfélaga og markaðssetningu var haldið í Bæjarleikhúsinu í Mosfellsbæ 29. september og tókst ágætlega. 26 manns frá 13 leikfélögum sóttu námskeiðið. Stjórn þakkar Leikfélagi Mosfellssveitar og Ólöfu Þórðardóttur kærlega fyrir lán á húsnæði og góðar mótttökur.

Og í gærkveldi fór fram einþáttungahátíð með fjórum einþáttungum. Stutt gaman og skemmtilegt.

IV – Erlent samstarf

Þrátt fyrir allt sóttu tveir leikhópar erlendar hátíðir á árinu. Leikfélag Kópavogs sýndi Hringinn á leiklistarhátíð í Rokiškis í Litháen og Hugleikur fór með Þann glataða eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur og fleiri á Norður-evrópsku hátíðina sem NEATA hélt að þessu sinni í Sönderborg í Danmörku. Þar voru einnig tveir íslenskir þátttakendur á vel heppnaðri leiksmiðju ungliðadeildar NEATA og þrír fulltrúar frá Litla leikklúbbnum á Ísafirði tóku þátt í umfangsmiklu tækniverkefni þar sem unnið var með stafrænar nýjungar í ljósi og hljóðum.

Í Sönderborg sátu formaður og framkvæmdastjóri aðalfund NEATA. Í ljósi fjárhagsstöðu Bandalagsins ákvað stjórn á síðasta stjórnarfundi að senda ekki fulltrúa á stjórnarfund NEATA í Finnlandi núna í apríl og hyggst ekki senda fulltrúa á aðalfund IATA í Mónakó í sumar.

Vinna við menningarstefnu Norrænu ráðherranefndarinnar hélt áfram og sótti Hulda B. Hákonardóttir fund fyrir okkar hönd í hópi sem gerði tillögur að þætti áhugafólks og sjálfboðaliða í stefnunni. Þar talaði hún fyrir þeim sjónarmiðum okkar og NAR að við teldum best að við hefðum sérmerkta peninga til úthlutunar, en þyrftum ekki að sækja um styrki á „jafnréttisgrundvelli“ við atvinnumenn. Við kynntum þessi sömu sjónarmið fyrir mennta- og menningarmálaráðherra.

Stefnan sem ráðherranefndin síðan samþykkti er til einhverra bóta en uppfyllir þó ekki þessar óskir okkar.

Stjórn þakkar Huldu kærlega fyrir vinnu hennar í málinu.

V – Sviðslistalög

Eins og fram kom á síðasta aðalfundi var þá í gangi endurskoðun sviðslistalaga. Við höfðum skilað inn umsögn og vissum ekki betur en tekið hefði verið tillit til sjónarmiða okkar. Okkur brá því í brún þegar endurskoðað frumvarp barst okkur og þar var einfaldlega búið að taka út allan texta um áhugaleikstarfsemina. Þær skýringar sem fengust gengu út á að þetta væri til samræmis við aðra lagabálka um lista- og menningarstarfsemi. Stjórn sendi harðorða athugasemd við þetta, enda teljum við að það sé okkur lífsnauðsyn að lagatextinn um þessa starfsemi fjalli sérstaklega um okkur. Leiklistarsamband Íslands er á sama máli og gerði líka athugasemd við þetta. Góðu heilli fór frumvarpið ekki lengra að þessu sinni, en það er eitt af mörgum mikilvægum verkefnum næstu stjórnar að vakta þetta mál, ef ný ríkisstjórn og þing hyggst halda áfram vinnu eftir sömu brautum.

Lokaorð

Erfitt ár er að baki og ærin verkefni framundan. Glíman við að afla nægilegs fjár til að starfsemi Bandalagsins og aðildarfélaganna heldur áfram. Í þeirri baráttu eins og annarri þarf hæfilega blöndu af bjartsýni og raunsæi, dugnaði og hugmyndaauðgi. Góðu heilli býr hreyfing okkar yfir þessum eiginleikum í ómældu magni.

Reykjavík 3. maí 2013
Þorgeir Tryggvason

7. Framkvæmdastjóri leggur fram endurskoðaða reikninga síðasta árs og skýrir þá.

Vilborg Valgarðsdóttir lagði fram og skýrði reikninga. Tap á rekstrarreikningi var 13.581.875 kr. Það skýrist aðallega af gjaldþroti kaupandans að húseigninni að Laugavegi 96, þar var tjónið 9.701.922 kr. Bókalager var færður verulega niður og var birgðabreyting 1.376.655 kr. Ef þessir þættir eru frátaldir var tap á reglulegum rekstri 2.503.298 kr. og hafa því aðhaldsaðgerðir skilað um 5 milljón króna betri stöðu en í árslok 2011, en þá var tapið 7.590.993 kr.

Eigið fé og skuldir í árslok voru 4.449.159 kr. Þær lækkuðu um 11.519.869 kr. frá fyrra ári sem skýrist að mestu af gjaldþrotinu og birgðabreytingunni ásamt hærri skuldum en í árslok skuldaði Bandalagið 3.410.420 kr. og telur þar mest yfirdráttarskuld við Arionbanka að upphæð 2.013.479 kr. Annað eru laun, launatengd gjöld og reikningar vegna innflutttrar vöru.

Vilborg Valgarðsdóttir

8. Umræður um skýrslu stjórnar og afgreiðsla reikninga.

Þröstur Guðnason, Leikfélagi Rangæinga, þakkað stjórn og framkvæmdastjóra fyrir góða fjárhagsstjórn þrátt fyrir erfiðar ástæður.

Hörður Sigurðason, Leikfélagi Kópavogs, sagði að þó svo að húsnæðismálin væru tekin út úr reiknisdæminu væri samt sem áður umtalsvert tap á rekstri Bandalagsins. Hann spurði stjórn hvort búið væri að gera einhverjar langtímaáætlanir til að stemma stigu við frekari taprekstri.

F. Elli Hafliðason, Leikfélagi Selfoss, bað um frekari skýringar á sviðslistalögum og tilgangi þeirra og spurði hvort þeir styrkir sem Bandalagið hefði fengið fyrir utan hefðbundinn ríkisstyrk, væru til ákveðinna verkefna.

Ingólfur Þórsson, Freyvangsleikhúsinu, benti að á árgjöld hefðu í heildina hækkað á milli ára um næstum milljón og að auki hefði milljón verið tekin af verkefnastyrkjum leikfélaganna. Hann sagði það ekki gott mál að Bandalagið gengi sífellt fjárhagslega nær aðildarfélögunum heldur hlyti fundurinn að þurfa að leysa þetta til framtíðar.

Þorgeir Tryggvason svaraði fyrirspurnum. Hann sagði að styrkir hefðu verið fengnir til skönnunar og skráningar handritasafnsins og slíkir styrkir væru jafnan verkefnabundir og fáist tæplega til almenns reksturs. Hann útskýrði nánar ferlið með leiklistarlögin. Þorgeir tók undir að lausn fjárhagsvanda Bandalagsins væri stóra verkefni þessa fundar. Hann greindi lauslega frá hugmyndum stjórnar um lausnir. Stærsti liðurinn er að að skerða starfshlutfall starfsmanna, framkvæmdastjóra í úr 100% í 80% og ritara úr 50% í 40% sem mundi skila 2 milljónum.

Guðfinna Gunnarsdóttir sagði að ekki yrði ráðist í þessar aðgerðir umsvifalaust heldur þyrfti að útfæra þær í samvinnu við starfsmenn.

Hörður Sigurðarson spurði hvort plön stjórnar yrðu lögð fram á fundinum.

Þorgeir svaraði að það yrði gert undir lið 10.

9. Skýrslur nefnda og umræður um þær.

a. Hrefna Friðriksdóttir flutti skýrslu skólanefndar.

Skýrsla skólanefndar á aðalfundi BÍL 4.–5. maí 2013.

Árið 2012 var skólanefnd Bandalagsins skipuð sömu fulltrúum og setið hafa undanfarin ár – hana skipa Hrefna Friðriksdóttir, Dýrleif Jónsdóttir, Gunnhildur Sigurðardóttir, Herdís Þorgeirsdóttir og Hrund Ólafsdóttir. Skólanefndin fundar jafnt og þétt allt árið og ber höfuðábyrgð á að skipuleggja starf leiklistarskóla Bandalagsins. Það er því fullt tilefni til að þakka öllum samnefndarkonum mínum fyrir mikið, metnaðarfullt og skemmtilegt samstarf.

Leiklistarskólinn var settur í 16. sinn þann 9. júní 2012 að Húnavöllum í Húnavatnshreppi. Skólastarfið er komið í nokkuð fastar skorður á Húnavöllum. Aðstaðan nýtist okkur vel og starfsfólk boðið og búið að mæta okkar þörfum. Eins og fyrri ár aðstoðaði Leikfélag Blöndóss okkur við skipulag óvissuferðar og ber að þakka kærlega fyrir það. Þá höfum við einnig reynt að rækta samband við stjórnendur sveitarfélagsins eftir föngum.

Skólann sóttu í fyrra alls 43 nemendur sem sátu 3 námskeið. Í boði var:

1. Leiklist I. Kennari Árni Pétur Guðjónsson.
2. Framhaldsnámskeið í leikstjórn – Masterclass. Kennari Sigrún Valbergsdóttir.
3. Trúðanámskeið. Kennari Harpa Arnardóttir.  Upphaflega stóð til að Ágústa Skúladóttir héldi þetta námskeið en hún forfallaðist. Við vorum svo stálheppin að fá Hörpu í hennar stað.

Við buðum einnig höfundum í heimsókn – þ.e. við buðum þeim að dvelja á staðnum við skapandi skrif og að taka þátt í skemmtidagskrá utan hefðbundinna kennslustunda. Í þetta skiptið mættu 5 höfundar.

Niðurstöður viðhorfskönnunar bentu til almennrar ánægju með skólastarfið.

Árið 2013 verður Leiklistarskólinn settur að Húnavöllum þann 8. júní og honum slitið 16. júní. Verður þetta í fyrsta sinn í fjöldamörg ár sem 17. júní hátíðarhöld verða ekki hluti af skólastarfinu.

Í sumar munu ólíkir þættir leikhússins blómstra. Boðið er upp á þrjú námskeið:

– Árni Pétur Guðjónsson mun kenna Leiklist II – þar eru skráðir 15 nemendur.
– Rúnar Guðbrandsson býður upp á sérstakt framhaldsnámskeið fyrir leikstjóra. Á námskeiðið eru skráðir alls 12 nemendur.
– Þá verður í boði leikritunarnámskeið fyrir byrjendur undir styrkri stjórn Karls Ágústs Úlfssonar og þar eru skráðir 14 nemendur.

Við auglýstum eitt námskeið í viðbót – Þórey Sigþórsdóttir leikkona ætlaði vera með sérnámskeið fyrir reyndari leikara þar sem skoða átti textavinnu og persónusköpun. Því miður urðum við að fella það niður vegna dræmrar þátttöku. Það voru einungis 5 sem skráðu sig – 2 uppfylltu ekki skilyrði en var boðið pláss á Leiklist II – af þeim þremur sem eftir voru fór einn á Leiklist II og einn á leikritun.

Þar sem ráðgert var að hafa fjögur námskeið og vegna þess að við bjóðum upp á höfundanámskeið var ákveðið að höfundum yrði ekki boðið í heimsókn að þessu sinni.

Við leggjum mikla áherslu á að halda kostnaði við skólann niðri og  þátttökugjald hækkar einungis um kr. 1000.- milli ára, er árið 2013 kr. 73.500.-

Þetta er sem sagt skólinn sem við bjóðum upp á í sumar. Eins og venjulega eitthvað fyrir byrjendur og annað byggt ofan á góðan grunn. Skólanefndin vonar að nemendur allir sem einn muni nema og njóta í botn.

Fyrir hönd skólanefndar
Hrefna Friðriksdóttir

b. Hörður Sigurðarson flutti skýrslu vefnefndar.

Leiklistarvefurinn – Skýrsla vefnefndar 2013
Lögð fram á aðalfundi BÍL í Reykholti 4. maí 2013

Af rekstri Leiklistarvefs á yfirstandandi ári eru í sjálfu sér ekki mikil tíðindi. Daglegur rekstur gengur sinn vanagang, að mestu í mjúkum og hæfum höndum starfsmanna þjónustumiðstöðvar og þau vandamál sem upp koma yfirleitt lítilvæg og auðleyst. Að því sögðu er rétt að nefna það hér að vefumsjónarkerfið okkar er komið yfir síðasta söludag og orðið brýnt að uppfæra það. Vefkerfið gagnast enn vel við daglega vinnslu en það eru aðallega öryggismál sem ýta á að það verði uppfært. Okkar þjónustuaðilar kljást reglulega við tölvuárásir af ýmsum toga og komið hefur fyrir að vefurinn hefir legið niðri hluta úr degi og jafnvel á annan sólarhring eins og gerðist núna um páskana.

Sú útgáfa af vefkerfinu sem við notum í dag er orðið meira en 5 ára gömul og í því eru þekktar öryggisholur sem einungis verður stoppað upp í með uppfærslu í nýjustu útgáfu. Í ljósi erfiðrar fjárhagsstöðu samtakanna hefur undirritaður ekki sett mikinn þrýsting á að ráðist verði í uppfærslu en það er mikilvægt að staða mála sé öllum ljós. Þó að kerfið sjálft sé ókeypis þurfum við að kaupa vinnu við uppfærslu sem getur verið flókin og kostar peninga sem eru af skornari skammti en stundum áður. Þessu tengt má einnig taka fram að ýmis vélbúnaður á skrifstofu er farinn að eldast og þar þarf einnig að hugsa fyrir uppfærslu innan tíðar.

Staðið hefur til í nokkurn tíma að koma í gagnið vefverslunarkerfi með aðaláherslu á myndræna framsetningu og meiri og betri upplýsingar um vörurnar sem til sölu eru. Slíkt er löngu tímabært og að mati undirritaðs skref sem þegar ætti að vera búið að stíga. Núverandi vefverslun stendur ekki undir nafni enda eingöngu um að ræða langan vörulista án mynda né nánari lýsingar. Vefverslunarkerfið er að mestu tilbúið en það sem á skortir er aðallega tími hjá starfsmönnum Þjónustumiðstöðvar til að fylla í sýndarhillurnar. Sannarlega væri ánægjulegt ef hægt væri að opna Leikhúsbúðina, eins og undirritaður vill kalla hana, á næsta leikári.

Lénsherra beindi því til stjórnar í síðustu árskýrslu að brýnt væri gera erindisbréf fyrir hið óformlega embætti Lénsherra og vefnefnd sem hafa nú starfað í rúman áratug án þess að hafa almennilega skilgreint starfssvið. Stjórn Bandalagsins er lævís og lipur og sendi óðar til baka svar þar sem Lénsherra var sjálfur beðinn um að móta tillögur þar að lútandi og senda til stjórnar. Lénsherra hefur nokkuð dregið lappirnar í þessum efnum en sendi þó tillögur að slíku til stjórnar fyrir nokkrum vikum og hefur beðið spenntur eftir að sjá hvaða Machiavellsku taktík stjórnin beitir á þær. Stjórn kom þó enn á óvart og hefur nú sent Lénsherra skipunarbréf til tveggja ára ásamt stefnu og markmiðum sem unnin voru úr tillögum Lénsherra.

Að lokum má endurtaka þá skoðun Lénsherra sem komið hefur fram í fyrri ársskýrslum um að sóknarfæri séu í að nota vefinn til fjáröflunar fyrir Bandalagið, t.d. með því að efla verslunina og ekki síður með sölu auglýsinga. Félagar mega gjarnan hafa augu og eyru opin fyrir mögleikum á því. Einnig skal enn og aftur ítrekað að allar góðar hugmyndir um reksturinn eru vel þegnar.

Fyrir hönd vefnefndar
Hörður Sigurðarson

c. Ármann Guðmundsson flutti skýrslu handritasafnsnefndar.

Skýrsla Handritasafnsnefndar á aðalfundi Bandalags íslenskra leikfélaga 2013

Handritasafnsnefnd skipa Ármann Guðmundsson, Hrefna Friðriksdóttir og Örn Alexandersson. Fundagleði var ekki að flækjast fyrir nefndinni og skrifast það fyrst og fremst á undirritaðan og þá staðreynd að þau verkefni sem eru aðkallandi fyrir handritasafnið vinnast að mestu í þjónustumiðstöð á skrifstofutíma. Stefnumótandi vinna hefur hins vegar setið á hakanum en ætlunin er að ráða þar bót á sem fyrst.

Fjöldi titla í handritasafninu er nú um 3.650 og hefur fjölgað um ca. 150 á frá síðasta leikári. Munar þar mest um að við fengum um 70 handrit af verkum sem Þjóðleikhúsið hefur sett upp og við áttum ekki fyrir. Einnig fengum við að venju ný verk frá stóru leikhúsunum og Bandalagsleikfélögum auk þess sem undirritaður hefur setið um leikskáld og aðra sem hann grunar um að luma á handritum sem safnið vantar, og farið þess á leit við þá að þeir sendu okkur þau. Jafnan hefur verið tekið vel í þessar umleitanir þótt efndir hafi kannski ekki alltaf fylgt í kjölfarið.

Lestrarhestaverkefnið hefur verið í gangi núna í vetur og er óhætt að fullyrða afrakstur hefur verið undir væntingum, lítið hefur skilað sér af lagfærðum skráningum. Hins vegar hefur undirritaður, með aðstoð veraldarvefsins og þá sérstaklega hinnar frábæru síðu timarit.is, grafið upp þó nokkuð af útdráttum úr leikritum sem vantaði. Einnig er í gangi allsherjar yfirferð á skráningu handritasafnsins þar sem fyllt er upp í þær eyður sem mynduðust þegar þegar skráning var aukin og uppfærð fyrir nokkrum árum síðan. Má þar t.d. nefna að hægt verður að sjá hvar verkin hafa verið sett upp, fram kemur ef til eru fleiri leikgerðir og/eða þýðingar á verkunum, flokkun verka er endurmetin og úreltar leyfar af gömlu skráningunni lagaðar. Þessi yfirferð er nýhafin og veður unnin í rólegheitum meðfram öðrum verkefnum. Áætlað er að hún taki um eitt ár.

Eins og fram kom í reikningum hefur skönnun handritasafnsins aflað Bandalaginu talsverðra styrkja og er nú að mestu lokið skönnun á þeim handritum sem til eru á lausum blöðum en það er gróflega áætlað 90% safnsins. Reynt verður að ljúka því verki samhliða áðurnefndri yfirferð á skráningu og stefnt á í framhaldi af því að skoða möguleika á að skanna inn það sem einungis er til í bókum.

Fyrir hönd handritasafnsnefndar
Ármann Guðmundsson

Umræður um skýrslur nefnda:

Þorgeir Tryggvason greindi frá því að hann er þátttakandi í verkefni þar sem bækur sem dottnar eru úr höfundarrétti eru skannaðar inn og gerðar aðgengilegar á netinu, bæði fyrir lestölvur og í pdf-formi. Hann hefur m.a. séð um að gera lista yfir leikrit sem falla þarna undir og sagði þann lista vera lengri en hann átti von á. Hann taldi að þarna væri mögulega flötur á samstarfi.

10. Drög að starfsáætlun næsta árs kynnt og skipað í starfshópa.

Þorgeir Tryggvason kynnti tillögu stjórnar að starfsáætlun næsta leikárs.

Tillaga stjórnar að
Starfsáætlun Bandalags íslenskra leikfélaga
leikárið 2013–2014

Almenn starfsemi

1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.

2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.

3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.

Sérverkefni ársins

1. Skipuleggja stuttverkahátíð NEATA á Íslandi vorið 2014.

Þorgeir lagði einnig fram, til kynningar og umræðu, tillögur stjórnar að aðgerðum til að bregðast við fjárhagsvanda þjónustumiðstöðvar Bandalagsins.

Tillaga stjórnar að aðgerðum vegna fjárhagsstöðu    
vinnuplagg af aðalfundi í Logalandi í maí 2013

• Ríkisstyrkur til  þjónustumiðstöðvarinnar: 5 milljónir á ári 2013–2015
• Það sem út af stendur m.v. núverandi rekstur: 2,5 milljónir á ári

2013
• Ármann Guðmundsson tekur sér launalaust frí í tvo mánuði, fái hann leikstjórnarverkefni.
• Aðkeypt ræsting einu sinni í mánuði, í stað vikulegrar.
• Styrkir frá Landsbankanum (500.000 kr.)    .
• 1 milljón kr. af verkefnastyrk frá ríkinu.

2014-­2015 (og áfram, ef ekki fæst hækkun við endurnýjun samnings)
• Lækkum starfshlutfall beggja starfsmanna, þannig að framkvæmdastjóri sé í 80% starfi    og ritari í 40%.
• Aðkeypt ræsting einu sinni í mánuði.

2016 (og áfram ef hækkun fæst).
• Snúum aftur til fyrra fyrirkomulags með 100/50% starfshlutfall.

11.     Kjörnefnd tilkynnir niðurstöður sínar og mælir með a.m.k. 1 aðila í hvert sæti sem kjósa skal í.

Gerður Sigurðardóttir, Leikfélagi Selfoss, gerði grein fyrir stöðu mála í framboðsmálum.

12.     Lagabreytingar.

Engar lagabreytingar lágu fyrir fundinum.

13.     Starfsáætlun afgreidd.

Fundurinn samþykkti að breyta dagskrá og afgreiða starfsáætlun áður en tillögur yrðu lagðar fyrir fundinn. Fundarmönnum skipt í fjóra hópa sem tóku umsvifalaust til starfa og skiluðu svo niðurstöðum sínum. Stjórnar- og starfsfólk gekk á milli hópana og  svaraði fyrirspurnum sem upp komu.

Fanney Valsdóttir gerði grein fyrir niðurstöðum hóps 1.

Hópur 1 var þannig skipaður:
Fanney Valsdóttir, Leikfélagi Hörgdæla, hópstjóri
Árný Leifsdóttir, Leikfélagi Ölfuss
Axel Vatnsdal, Leikfélagi Hörgdæla
Hulda Hákonardóttir, Hugleik
Anna Margrét Pálsdóttir, Leikfélagi Kópavogs
Guðlaug Sigfúsdóttir, Leikfélagi Seyðisfjarðar
Linda Guðmundsdóttir, Freyvangsleikhúsinu
Jónas Þorkelsson, Umf. Skallagrími
Kristín Pála Sigurðardóttir, Leikfélagi Rangæinga
Sigríður Hafsteinsdóttir, Leikfélagi Selfoss
Zindri Freyr Ragnarsson, Leikfélagi Vestmannaeyja

Almenn starfsemi

1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.

Leiklistarskólinn er sjálfbær og á að vera þannig áfram.

Vefurinn – hugmyndir honum tengdar:
– Sækja um styrki og eyrnamerkja til að uppfæra vefkerfið.
– Sækja um styrki til fyrirtækja, þau eru reyndar oft treg til að láta peninga en hugsanlega væri hægt að fá vinnu frá einhverjum sem hafa með uppfærslur að gera. Það fyrirtæki fengi þá í staðinn auglýsingu á vefnum.
– Félagar verði duglegri að deila vefnum á fésbók þannig að fyrirtæki sjái sér hag í að auglýsa á honum.
– Koma vefverslun í gagnið til að létta vinnuálagi á starfsfólki.

Skrifstofan – Almenn ánægja með þjónustumiðstöð
Það mikilvægasta:
– Handritasafnið.
– Aðstoð við verkefnaval.
– Aðgengi að sminki en með vefversluninni gæti þessi liður minnkað verulega.

Peningamálin: Ef starfsmenn samþykkja skerðingu á starfshlutfalli þá leysir það mikinn vanda en það er samt ömurleg aðgerð, það er gríðarlega mikilvægt að hafa fleiri en einn starfsmann.
Bandalagið á ræstingargræjur og því leggjum við til að ræstingar verði settar alfarið inn í starfslýsingu og hætt verði að kaupa utanaðkomandi þjónustu í eitt til tvö ár.

Það mætti ýta meira við lestrahestum til að létta á starfsfólkinu, gera alvöru skurk! Virkja félögin betur og láta stjórnir kynna innan sinna félaga.
Ármann fær pottþétt leikstjórastöðu, fallega boðið.
Komum okkur í Lions, Kiwanis, Rotary, Frímúrararegluna, þar eru peningarnir!

2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.

Halda áfram að sækja um styrki alls staðar, hvetjum stjórnina til að halda þessu góða starfi áfram.

3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.

Við viljum endilega að Þjóðleikhúsið haldi áfram þessu góða starfi meðan félögin sækja um þátttöku.

Sérverkefni ársins

1. Skipuleggja stuttverkahátíð NEATA á Íslandi vorið 2014.

Stuttverkahátíðin er stórt já!

Aðrar umræður:
Stöðugar klípur af fénu sem er ætlað til styrkja geta valdið sundrungu á meðal aðildarfélaga og því er mikilvægt að við munum hver stóra ástæðan er; ráðuneytið og ríkisstjórn. Höldum áfram að sýna samstöðu og herjum á þessa aðila, við verðum að fá styrkina hækkaða aftur!
Hugmyndir reifaðar um stofnun stjórnmálaflokks eða trúfélags þar sem slík starfsemi fær tryggt fjármagn.

Herdís Þorgeirsdóttir gerði grein fyrir niðurstöðum hóps 2.

Hóp 2 skipuðu:

Herdís Þorgeirsdóttir, Halaleikhópnum, hópstjóri
Þrúður Sigurðar, Leikfélagi Ölfuss
Ylfa Mist Helgadóttir, Leikfélagi Bolungarvíkur
Viktor Ritmüller, Leikfélagi Vestmannaeyja
Þröstur Jónsson, Halaleikhópnum
Þórir Gunnar Valgeirsson, Leikfélagi Hörgdæla
Magnþóra Kristjánsdóttir, Leikfélagi Ölfuss
Guðbjörg Árnadóttir, Leikfélaginu Skagaleikflokknum
Guðrún Esther Árnadóttir, Leikfélagi Mosfellssveitar
Halldóra Vilhjálmsdóttir, Freyvangsleikhúsinu
Árni Friðriksson, Hugleik
Arnfinnur Daníelsson, Leikfélagi Kópavogs

Almenn starfsemi

1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.

Við erum ánægð með að Skólinn hafi verið sjálfbær og standi yfirleitt alveg undir sér. Fjölbreytt námskeið. Almenn ánægja með úrval og starf skólanefndar. Hópurinn hefur áhyggjur af að minna starfshlutfall á þjónustumiðstöð muni gera skólanum erfiðara að standa undir sér.

Hvað má ekki missa af í þjónustunni? Við verðum að geta gengið að handritum og það þarf að halda vel utan um handritasafnið (væri hægt að sækja um frekari styrki fyrir handritaskönnun?) Það þarf að efla sminksölu, gera vefverslun aðgengilegri með myndum, sækja um styrk til að uppfæra vef.
Herdís, Guðbjörg og hugsanlega fleiri gætu hugsað sér að vinna  í sjálfboðastarfi í þjónustumiðstöð. Ljósrita, þrif o.fl. Skera þannig ræstingu alveg niður.

Tapast hugsanlega sambönd og tækifæri til styrkja ef starfsmenn þjónustumiðstöðvar lækka við sig starfshlutfall? Hópurinn hefur áhyggjur af því. Við viljum alls ekki missa Ármann og Vilborgu!

Semja og senda staðlaða styrkumsókn til sveitarfélaga og biðja um x margar krónur, t.d. 100.000 kr. (jafnvel minna  50.000 kr. eða 70.000 kr., meiri líkur á árangri) fyrir rekstur skrifstofunnar. Hvert sveitarfélag þyrfti ekki að styrkja um háa upphæð til að rétta af stöðuna. Rökstyðja vel mikilvægi skrifstofunnar. Það þarf ekki nema eitt sveitarfélag til að koma keðjunni af stað. Að fá umboð frá leikfélögum til að setja nöfn leikfélaganna undir bréfið.

Hópurinn velti fyrir sér hversu mikill hluti starfsins eru samskipti við erlenda aðila og fékk þau svör frá Vilborgu að þau væru ekki mikil. Halda utanlandsferðum í lágmarki áfram, nota tölvusamskipti meira.

2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.

Hópurinn vill leita til fyrirtækja um styrki. Við erum sammála um að það sé erfitt að fá styrki, þar sem allir eru að skera niður. Sérstaklega er erfitt að sækja um styrki fyrir rekstur. Skynsamlegast er að sækja um styrki fyrir sérverkefni, eins og handritaskönnun og Bandalagsskólann. Það þarf að útfæra styrkumsóknir þannig að styrkir nýtist í rekstur þjónustumiðstöðvar. Nauðsynlegt að núlla mínus inn á rekstri hennar. Tala við sveitarfélög. Getum við krækt í styrki í gegnum skipulagt barnastarf? Námskeið o.s.frv.?

Upp kom tillaga um að öll leikfélög gæfu innkomu af einni sýningu. Sú hugmynd var slegin út af borðinu um leið og hún fæddist.

3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.

Endilega halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið.

Sérverkefni ársins

1. Skipuleggja stuttverkahátíð NEATA á Íslandi vorið 2014.

Hópnum líst mjög vel á stuttverkahátíð.

F. Elli Hafliðason gerði grein fyrir niðurstöðum hóps 3.

Skýrsla hóps 3:

F. Elli Hafliðason Leikfélagi Selfoss, hópstjóri.
Ólína Adda Sigurðardóttir, Leikfélagi Bolungarvíkur
Birkir Thór Högnason, Leikfélagi Vestmannaeyja
Hulda Gunnarsdóttir, Leikfélagi Ölfuss
Jenný Dögg Heiðarsdóttir, Leikfélagi Dalvíkur
Kristín Ásgeirsdóttir, Leikfélaginu Skagaleikflokknum
Ingólfur Þórsson, Freyvangsleikhúsinu
Hörður Sigurðarson, Leikfélagi Kópavogs
Stefanía Björg Björnsdóttir, Halaleikhópnum
María Guðmundsdóttir, Leikfélagi Mosfellssveitar

Almenn starfsemi

1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.

1. Lagt til að stofna sérsveit áhugaræstitækna sem tekur að sér mánaðarleg þrif og sparar með því 330.000 kr. Ef 10-12 manna hópur næst saman og 3-4 taka hvern mánuð þýðir það að hver ræstitæknir þyrfti aðeins að mæta þrisvar til fjórum sinnum á ári.
2. Beinum því til stjórnar að skoða alla möguleika á að skera niður kostnað við fundahöld, m.a. með auknum tölvusamskiptum, fjarfundum o.þ.h.
3. Hópurinn sér ekki aðra leið en að skera niður stöðugildi til að rétta af fjárhag Bandalagsins. Til að það sé hægt þarf að forgangsraða starfi þjónustumiðstöðvar svo þær breytingar komi sem minnst niður á brýnustu verkefnum.
4. Möguleikar eru á að nýta vefinn betur til að afla fjár t.d. með sölu auglýsinga. Beinum því til stjórnar að hún hrindi af stað átaki í samvinnu við félögin um sölu auglýsinga. Fleiri möguleikar eru til staðar svo sem hækkað gjald fyrir veru á leikstjóralista sem er í dag 2.000 kr. á ári.

2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.

Hvetjum stjórn til að halda áfram vinnu við að fá hækkuð framlög úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum og spýta í frekar en hitt.
Skoða hvort til séu sjóðir eða fyrirtæki sem hægt væri að sækja um sérstakan styrk hjá til að uppfæra vefinn.

3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.

Miklar umræður hvort þessi liður eigi heima á starfsáætlun. Ekki spurning um gildi fyrirbærisins sem slíks heldur einungis hvort hann eigi heima á starfsáætlun.
Hópurinn leggur til að þessi liður verði felldur úr starfsáætlun.

Sérverkefni ársins

1. Skipuleggja stuttverkahátíð NEATA á Íslandi vorið 2014.

Hópurinn mjög jákvæður gagnvart verkefninu en beinir því til stjórnar að hún geri sitt ýtrasta til að gerð verði raunhæf fjárhagsáætlun þannig að Bandalagið beri ekki fjárhagslegan skaða af.

Silja Björk Huldudóttir gerði grein fyrir niðurstöðum hóps 4.

Hóp 4 skipuðu:

Silja Björk Huldudóttir, Hugleik, hópstjóri
Alexander Páll Salberg, Leikfélagi Vestmannaeyja
Kristján Guðmundsson, Leikfélagi Dalvíkur
Salbjörg Engilbertsdóttir, Leikfélagi Hólmavíkur
Ingibjörg Emilsdóttir, Leikfélagi Hólmavíkur
Hjálmar Arinbjarnarson, Freyvangsleikhúsinu
Brynhildur Sveinsdóttir, Leikfélagi Mosfellssveitar
Þröstur Guðnason, Leikfélagi Rangæinga
Helga Björk Pálsdóttir, Leikfélagi Kópavogs
Hildur Tryggvadóttir, Leikfélagi Kópavogs
Ágúst Torfi Magnússon, Leikfélagi Seyðisfjarðar

Almenn starfsemi

1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.

Skólinn að Húnavöllum. Ekkert var nema gott um hann að segja, enda kemur enginn samur þaðan, í jákvæðum skilningi. Allir voru sammála um að mikill metnaður ríkti í skólanum og hversu gott væri að geta einbeitt sér alfarið að náminu. Fram kom sú hugmynd að gaman gæti verið að bæta við námskeiði í sminki og gerð gerva. Hópurinn var sammála um að gott og nauðsynlegt væri að skólinn stæði undir sér. Einnig var rætt um nauðsyn þess að halda reglulega tækninámskeið, en dræm þátttaka í þeim hefur stundum valdið því að fella hefur þurft þau niður. Hópurinn taldi það jákvætt þegar félagsmenn geta nýtt sér tækninámskeið t.d. hjá Tækniskólanum, sem hægt er að fá metið til náms.

Leiklistarvefurinn – Lítil hreyfing á vefnum. Dagleg umræða er þar lítil, en gott að geta notað sem uppflettirit t.d. fyrir leikritasafnið og ýmsar praktískar upplýsingar.

Hópurinn ræddi almennt um rekstur þjónustumiðstöðvarinnar og kom fram að almenn ánægja væri með starfsemina og þjónustuna. Fram kom að flestir nýttu sér miðstöðina til að sjá um höfundarréttarmál og til að kaupa handrit og farða. Sumir bentu þó á að þeir versluðu förðunarvörur frekar á erlendum vefsíðum.

2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.

Hópurinn var sammála um að halda þyrfti áfram að herja á stjórnvöld um mikilvægi þess að hækka aftur fjárframlög til starfsemi leikfélaganna í landinu.

Hópurinn ræddi tillögur stjórnar við fjárhagshalla BÍL og leist almennt ágætlega á þær. En í ljósi þess hve mikið fjárframlög til starfsemi leikfélaganna hafa lækkað á síðustu árum fannst mönnum mikið að þurfa að sjá á eftir milljón til reksturs skrifstofunnar og veltu fyrir sér hvort ekki væri frekar hægt að skera í staðinn niður í rekstrinum.

Hópnum fannst erfitt að gera þarfagreiningu á rekstri skrifstofunnar þar sem menn töldu sig ekki hafa nógu tæmandi yfirsýn yfir reksturinn og verkefni skrifstofunnar og því erfitt að gera sér góða grein fyrir hvar mætti spara og hvernig væri best að forgangsraða verkefnum. Hins vegar væri ljóst að nauðsynlegt væri að skera niður í launakostnaði fáist ekki hækkuð framlög eða styrkir.

Þeirri spurningu var þó velt upp hvort ástæða væri til að hætta allri farðasölu og vísa fólki á erlenda söluvefi. Einnig veltu menn fyrir sér hvort Bandalagið hefði efni á að vera með opna skrifstofu og búð allan ársins hring. Spurning hvort nóg væri að vera með tvo starfsmenn í 50%.

Hópurinn leggur til að hætt verði að kaupa ræstingaþjónustu og að ræsting verði sett í hendur núverandi starfsmanna skrifstofunnar.

Þeirri spurningu var einnig velt upp hvort hægt væri að lækka kostnað vegna fundarhalda stjórnar, með því að nota tölvusamskipti meira og skype.

Hópurinn velti fyrir sér hverja skrifstofan þjónustar, þ.e. hvort skrifstofan sé að þjónustu aðila sem ekki greiða til rekstursins, s.s. skólaleikfélög.

3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.

Hópurinn var sammála um að mikilvægt væri að halda áfram samstarfinu við Þjóðleikhúsið um Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins, enda hefði samstarfið gefist vel og væri góð leið til að gera áhugaleikfélög landsins sýnileg. Því væri full ástæða til að hvetja aðildarfélög til að sækja um, en viðtökur hafa verið góðar. Einnig varð nokkur umræða um hvort hægt væri að nýta viðburðinn til frekari kynningar á áhugaleiklistarstarfseminni. Þeirri spurningu var síðan velt upp í hópnum hvort hægt væri að efla tengsl við Borgarleikhúsið með einhverjum sambærilegum hætti.

Sérverkefni ársins

1. Skipuleggja stuttverkahátíð NEATA á Íslandi vorið 2014.

Hópnum líst mjög vel á að haldin verði stuttverkahátíð NEATA hérlendis vorið 2014. Menn voru almennt sannfærðir um að þátttaka gæti orðið góð væri auglýst eftir stuttverkasýningum með góðum fyrirvara. Rætt var um styrkjaleiðir og í því samhengi nefnt að athuga mætti með Nuuk-sjóðinn svonefnda sem styrkir verkefni sem fela í sér samvinnu á milli Reykjavíkur, Þórshafnar og Nuuk.

Þar sem ekki liggur ljóst fyrir hvar slík hátíð yrði haldin voru ræddir kostir og gallar hinna ólíku staðsetninga. Kostir þess að halda hátíð sem þessa á landsbyggðinni væru m.a. að auðveldara gæti verið að mynda skemmtilegt hátíðarsamfélag, en á móti kæmi að hærri ferðakostnaður gæti fylgt því fyrir erlenda gesti að vera ekki á höfuðborgarsvæðinu. Hópurinn var almennt sammála um að skemmtilegra væri að hafa hátíðina yfir tvo daga heldur en ef hátíðin væri bara einn dagur, enda næðist þá meiri hátíðarstemning. Slagorðinu „Stórhuga en samt raunsæ“ var haldið á lofti.

Umræður um skrýrslur hópa:

Sigríður Lára Sigurjónsdóttir sagði að ef styrkir fengjust til ákveðinna verkefna væri alls ekkert óeðlilegt við að hluti þeirra færi til verkefnastjórnunar á skrifstofu. Það væri hægt að sækja um styrki til mismunandi verkefna í mismunandi sjóði.

Ármann Guðmundsson gerði grein fyrir hvaða áhrif skert starfshlutfall hefði á forgangsröðun á sín verkefni í þjónustumiðstöðinni, fyrst og fremst mundi hægjast á allri vinnu við handritasafnið. Öðrum verkefnum eins og afgreiðslu, uppfærslu vefs og ráðgjöf þyrfti alltaf að sinna eftir því sem upp kæmi. Hann sagði að sér þætti ástæða til að minna á að ef ætlunin væri að halda stóra leiklistarhátíð árið 2015, eins og gert hefur verið á 5 ára fresti frá árinu 2000, þyrfti að fara huga að undirbúningi fyrir hana fljótlega og eitthvað þyrfti að koma fram um það á þessum aðalfundi, of seint væri að ákveða þetta eftir ár.

Hópur 3. lagði fram eftirfarandi tillögu:

Hópur 3 leggur til að liður 3 á starfsáætlun um almenna starfsemi verði felldur út.

f.h. hóps 3
F. Elli Hafliðason

Dýrleif Jónsdóttir benti á að hægt væri að fella 3. lið inn í 1. lið ef menn vildu ekki hafa þetta sem sérlið á starfsáætlun en þó halda þessu á starfsáætlun.

Hörður Sigurðarson andmælti Dýrleifi, sagði að þetta ætti alls ekki heima í starfsáætlun þótt langflestir væru sammála um að halda ætti áfram þessu góða samstarfi.

Atkvæði greidd um tillöguna, hún samþykkt  og liður 3. í starfsáætlunin feldur út.

Þorgeir Tryggvason lagði fram eftirfarandi tillögu:

Að stjórn kanni möguleika á að halda leiklistarhátíð 2015 og hefji undirbúning, telji stjórn slíka hátíð framkvæmanlegt verkefni.

Þorgeir Tryggvason

Ingólfur spurði hvort ekki ætti að nefna Akureyri í tillögunni. Þorgeir svaraði því neitandi, það væri ekki tímabært.

Tillagan samþykkt.

Starfsáætlun Bandalags íslenskra leikfélaga fyrir leikárið 2013-14 er því eftirfarandi:

Almenn starfsemi 

1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.
2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.

Sérverkefni ársins

1. Skipuleggja stuttverkahátíð NEATA á Íslandi vorið 2014.

2. Að stjórn kanni möguleika á að halda leiklistarhátíð 2015 og hefji undirbúning, telji stjórn slíka hátíð framkvæmanlegt verkefni.

 

14. Tillögur lagðar fyrir fundinn.

Þorgeir Tryggvason lagði fram eftirfarandi tillögu:

Tillaga lögð fyrir aðalfund Bandalags leikfélaga 2013

Stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga leggur til að 1 milljón kr. af verkefnastyrk aðildarfélaganna verði látin ganga til rekstrar Þjónustumiðstöðvar Bandalagsins.

f.h. stjórnar
Þorgeir Tryggvason

Þorgeir sagði að þetta væri vissulega ekki skemmtilegt en hefði verið gert undanfarin ár og stjórn mæti það þannig að þetta væri nauðsynlegt.

Ingólfur Þórsson sagðist í prinsippinu vera á móti þessu, þetta væri vond lausn. Það ætti ekki að klípa af ríkisstyrknum til leikfélaganna á hverju ári.

Hörður Sigurðarson sagði þetta vissulega vera súrt epli að bíta í en það séu ekki aðrar lausnir í boði þetta árið.

Ingólfur sagði að þetta væri sama umræða og á fundum síðastliðinna ára og niðurstaðan væri alltaf sú að skorið væri af pengingum sem leikfélögin ættu að fá. Það þyrfti að gera eitthvað róttækt í fjármálum Bandalagsins, skera þyrfti niður í rekstrinum, það væri ekki flóknara en það.

Þorgeir sagði að það hefði tvennt mikilvægt gerst varðandi fjárhag Bandalagsins síðan í fyrra, málið með Laugavegseignina hefði leysts, þótt vissulega hefði það ekki verið á þá leið sem við kusum, og svo hefði samningur við ríkið um 5 milljóna króna styrk á ári, næstu 3 árin, verið gerður. Ákveðinni óvissu væri þ.a.l. eytt og auðveldara yrði framvegis að gera markvissar ráðstafanir.

Tillagan borin upp og samþykkt.

Hörður ræddi höfundarréttar og höfundagreiðslumál og sýndi dæmi um það hvernig það, að setja upp nokkur stuttverk, getur verið mun dýrara en að setja upp leikrit í fullri lengd þar sem samkvæmt samningi við Félag leikskálda og handritshöfunda þarf ávallt að greiða fyrir átta sýningar eins og þegar um lengri sýningar er að ræða, en stuttverkasýningar séu langoftast sýndar aðeins 1–3 sinnum.

Hörður Sigurðarson lagði eftirfarandi tillögu fram:

Aðalfundur felur stjórn að kanna hvort sömu lög eigi ekki við um samning sem BÍL hefur gert við Rithöfundasambandið og Félag leikskálda og handritshöfunda um taxta fyrir höfunda- og þýðendalaun og giltu fyrir leikstjórasamningana svokölluðu, og hann sé því ekki löglegur.
Ef samingurinn reynist löglegur er stjórn falið að fá fram endurskoðun á samningnum með það fyrir augum að fá fram lækkun á höfundalaunum fyrir styttri verk.

Hörður Sigurðarson

Hrefna Friðriksdóttir sagði að það væri sitthvor hluturinn, leyfi og greiðsla. Hún hvatti leikfélög sem hefðu hug á að setja upp stuttverk til að hafa samband við höfunda og semja við þá um lægri greiðslur eða fá þá til að fella með öllu niður höfundagreiðslur.

Atkvæði greidd og tillagan samþykkt.

15.     Stjórnarkjör.

Dýrleif Jónsdóttir gerði grein fyrir stöðu framboðsmála. Þorgeir Tryggvason gaf kost á sér til áframhaldandi setu sem formaður og Ólöf Þórðardóttir gaf kost á sér í stjórn.

Þrúður Sigurðar og Embla Guðmundsdóttir gáfu kost á sér til áframhaldandi setu í varastjórn og Salbjörg Engilbertsdóttir, Leikfélagi Hólmavíkur, gaf jafnframt kost á sér í varastjórn.

Öll voru þau því sjálfkjörin og því fagnað með lófaklappi.

16a. Kosning 3ja manna kjörnefndar og eins varamanns til eins árs.

Dýrleif Jónsdóttir, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir og Gerður Sigurðardóttir  voru endurkjörnar og Gunnhildur Sigurðardóttir til vara.

16b. Kosning 2ja skoðunarmanna reikninga og eins til vara til eins árs.

Hrefna Friðriksdóttir og Anna Jórunn Stefánsdóttir, Leikfélagi Hveragerðis, voru endurkjörnar og Júlía Hannam, Hugleik, til vara.

17.     Ákveðið árgjald til Bandalagsins.

Halldór Sigurgeirsson gerði grein fyrir tillögu stjórnar að árgjaldi. Stjórn lagði til óbreytt árgjald frá fyrra ári:

Tillaga stjórnar að árgjaldi 2013-2014

Stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga leggur til að árgjöld aðildarfélaga fyrir leikárið 2013-2014 verði kr. 60.000.

Félög sem setja upp tvær styrkhæfar sýningar á leikárinu borgi eitt og hálft gjald eða 90.000 og félög sem setja upp þrjár sýningar eða fleiri borgi tvöfalt gjald eða kr. 120.000.

Félög sem setja ekki upp styrkhæfa sýningu á leikárinu borgi hálft árgjald eða kr. 30.000.

Tillaga stjórnar samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

18.     Önnur mál

Hörður kynnti miðakaupakerfi sem Leikfélag Kópavogs hefur verið að nota í vetur, midakaup.is. Samningurinn gengur út á að Miðakaup tekur 49 kr. og 4,9% af hverjum miða. Hann lét mjög vel af samstarfinu og sagði að þeir hefðu boðið upp á að ef nokkur félög tækju sig saman gætu þau mögulega gert samning um betri kjör. Einnig væru midakaup.is með samning við mbl.is sem gerði þá viðburði sem eru þar í sölu sýnilega á mbl.is.

Helena Helgadóttir sagðist telja að liðurinn „Önnur mál“ ætti almennt ekki heima á dagskrá aðalfundar þar sem öll mál ættu að liggja fyrir, fyrir fund.

Bernharð Arnarson sagði að stjórn mundi taka það til athugunar en það kallaði á lagabreytingar.

19. Næsti aðalfundur, hugmyndir reifaðar um stað og stund.

Zindri Freyr Ragnarsson sagði að Leikfélag Vestmannaeyja biðist til að halda næsta aðalfund og bauð fundargesti velkomna til Eyja á næsta ári.

Þorgeir þakkaði fundarmönnum fyrir fjölmennan og öflugan fund og hvatti menn til að hætta aldrei að reyna gera starf áhugaleikfélagana öflugra og skemmtilegra. Að því loknu sleit hann fundi.

Fundargerð ritaði
Ármann Guðmundsson