Aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga
í Bæjarleikhúsinu Mosfellsbæ
30. apríl 2011

1.     Fundarsetning. Kosning 2ja og 2ja fundarritara, sem taka þegar til starfa. Lögmæti fundarins kannað.
Þorgeir Tryggvason, formaður Bandalagsins bauð fundargesti velkomna. Hann stakk upp á Grétari Snæ Hjartarsyni og Pétri Ragnari Péturssyni frá Leikfélagi Mosfellsveitar sem fundarstjórum og Ármanni Guðmundssyni, ritara skrifstofu, og Sigríði Láru Sigurjónsdóttur, Hugleik, sem riturum fundar. Samþykkt.
2.     Kjörnefnd afgreiðir kjörbréf og afhendir atkvæðaspjöld, skýrir stöðu mála varðandi stjórnarkjör og auglýsir eftir tillögum.
Kjörnefnd, skipuð Dýrleifi Jónsdóttur, Emblu Guðmundsdóttur Umf. Reykdæla og Gerði Sigurðardóttur, Leikfélagi Selfoss og Leikfélaginu Sýni, afgreiddi kjörbréf og skýrði stöðu framboðsmála.
3.     Menningarstefna Bandalagsins lesin og rædd.
Ása Hildur Guðjónsdóttir, Halaleikhópnum og stjórn Bandalagsins, las menningarstefnuna. Engar umræður.
4.     Staðfest inntaka nýrra félaga, félög tekin af félagaskrá.
Ólöf Þórðardóttir, Leikfélagi Mosfellssveitar og ritari stjórnar, greindi frá hvaða félög hefðu sótt um inngöngu og hver væru á leið úr Bandalaginu. Úr Bandalaginu gengu Skagaleikflokkurinn, vegna skulda og Umf. Tálknafjarðar og Umf. Stafholtstungna að eigin ósk. Leikfélagið Skrugga, Leikdeild Umf. Gnúpverja og Áhugamannaleikklúbbur Grundarfjarðar höfðu sótt um inngöngu og fundurinn staðfesti ákvörðun stjórnar um að taka þau í Bandalagið.
5.     Fundargerð síðasta aðalfundar afgreidd.
Fundargerðin samþykkt einróma.
6.     Skýrsla stjórnar.
Þorgeir Tryggvason flutti skýrslu stjórnar fyrir leikárið 2010-2011:
Aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga í Mosfellssveit 30. apríl–1. maí 2011
I – stjórn
Stjórn var þannig skipuð á starfsárinu:
Þorgeir Tryggvason, Reykjavík, formaður
Guðfinna Gunnarsdóttir, Selfossi, varaformaður
Ólöf Þórðardóttir, Mosfellsbæ, ritari
Ása Hildur Guðjónsdóttir, Reykjavík
Halldór Sigurgeirsson, Akureyri
Í varastjórn voru þau Hjalti Stefán Kristjánsson, Magnús J. Magnússon, Elva Dögg Gunnarsdóttir, Bernharð Arnarsson og Halla Rún Tryggvadóttir.
Í þjónustumiðstöðinni starfa síðan Vilborg Árný Valgarðsdóttir framkvæmdastjóri og ritarinn Ármann Guðmundsson.
Fimm stjórnarfundir voru haldnir á árinu, flestir í höfuðstöðvunum í Reykjavík, en einnig í tengslum við aðalfund. Stjórnarmönnum og starfsfólki er þakkað fyrir góða og vinnusama fundi á starfsárinu.
II – Starfsemi félaganna
96 verkefni fengu styrk leikárið 2009–2010. Fullur styrkur reyndist vera 310.000 kr.  Báðar tölur lækka nokkuð frá leikárinu áður. Ársritið okkar inniheldur síðan allar frekari upplýsingar um starfsemina. Ekki liggja fyrir tölur um umfang starfsins á þessu leikári en félögin í Bandalaginu eru nú 60.
III – Starfsáætlun
Á síðasta aðalfundi var að venju samþykkt starfsáætlun og mun ég fara yfir hana og geta þess hvernig unnið var að hverjum lið fyrir sig.
1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.
Fastir liðir fóru fram eins og föstum liðum sæmir, þó enn hafi skóinn kreppt í styrkjamálum bæði til leikfélaganna og þjónustumiðstöðvarinnar.
Fulltrúar skóla- og vefnefndar munu gera grein fyrir því sem lýtur að skólanum og Leiklistarvefnum, og rekstrarmál þjónustumiðstöðvarinnar koma best fram í ársreikningum sem framkvæmdastjóri skýrir síðar á dagskránni.
Á árinu tókst Vilborgu með harðfylgi að ná fram umtalsverðri lækkun á húsaleigu Þjónustumiðstöðvarinnar, sem engu að síður er of há fyrir okkur, og húsnæðið í raun óþarflega stórt fyrir starfsemina. Vilborg, Ása Hildur og Ólöf hófu markvissa leit að hentugra og ódýrara húsnæði og útlit er fyrir að sú leit sé að bera árangur þegar þetta er skrifað.
Þann 20. september var brotist inn í þjónustumiðstöðina og tölvubúnaði stolið. Þetta var auðvitað mikið áfall og kostaði ómælda vinnu við endurfærslu á bókhaldi bæði Bandalagsins og leiklistarhátíðarinnar. Í framhaldinu voru öryggisráðstafanir efldar, afritunarkerfi endurbætt og er bókhald Bandalagsins nú fært í gegnum netbókhald.
Einn af föstum liðum í starfinu er samstarf við erlend áhugaleikhúsbatterí. Aðalfundur NEATA var að þessu sinni haldinn á Akureyri í tengslum við leiklistarhátíðina sem nánar verður vikið að síðar. Á fundinum kom m.a. fram að formaður NEATA mun ekki gefa kost á sér til áframhaldandi setu og verður nýr formaður kjörinn á næsta fundi sem verður í Tromsö í júlí í tengslum við alþjóðlegu hátíðina þar. Þá var gengið frá því að næsta NEATA-hátíð verður í Danmörku næsta sumar.
NAR hefur undanfarin ár verið í miklum breytingarfasa. Tveir fundir voru haldnir á árinu, annar í Lysebu í Noregi, þar sem lögð voru drög að framtíðarskipulagi og hlutverki NAR, og var þeirri vinnu haldið áfram í Kaupmannahöfn í janúar. Vilborg og undirritaður sóttum fundinn í Lysebu, og ég var í Kaupmannahöfn.
NAR sér hlutverk sitt sem samráðsvettvang og mun berjast fyrir því að verða sá aðili sem norræn batterí á borð við Norðurlandaráð og norrænu ráðherranefndina leita til með allt sem snýr að áhugaleiklist. Einnig mun NAR berjast fyrir því að fá aftur möguleika á að veita styrki til gestaleikjaferða, en að missa þá fjármuni er sennilega sú breyting sem mestu skiptir fyrir norrænt samstarf á okkar sviði. Þá hyggst NAR halda áfram að halda barnaleiklistarhátíðir annað hvert ár, en er reyndar nýbúið að aflýsa næstu slíkri hátíð sem átti að vera í Tana í Samalandi í sumar. Einnig lítur NAR á samstarf okkar, Færeyinga og Norðmanna um stuttverkahátíðir sem áhugaverðan vaxtarbrodd. Færeyingar skipuleggja nú næstu slíka hátíð og hún verður í Þórshöfn 15. október næstkomandi.
2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.
Í frumvarpi til fjárlaga var okkur ætlaður sambærilegur niðurskurður og öðrum sambærilegum liðum og ákvað stjórn að fara ekki í sérstakar aðgerðir vegna þess, enda vandséð að það myndi einhverju skila í núverandi árferði. Við höfum þó gert stjórnvöldum ljóst að við munum ekki geta sinnt okkar víðtæka þjónustustarfi óbreyttu ef ekki koma til hækkanir á framlögum bráðlega.
3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.
Hugleikur sýndi Rokk í Kassanum í júní. Tvær sýningar fyrir fullu húsi og eru Hugleikarar hæstánægðir með öll samskipti sín við Þjóðleikhúsið.
4. Sérverkefni
Sérverkefniársins voru tvær leiklistarhátíðir, önnur lítil og nett, hana héldum við í gærkveldi og litlu við það að bæta. Hin var hinsvegar gríðarstór.
Formaður framkvæmdanefndar hátíðarinnar mun flytja skýrslu sína undir liðnum skýrslur nefnda. Ég held að það sé óhætt að fullyrða að NEATA-hátíðin á Akureyri hafi heppnast vonum framar. Allt hélst þar í hendur. Aðstaðan var prýðileg og veðrið var að langmestu leyti til stakrar fyrirmyndar. Gott ef það sáust ekki norðurljós á lokakvöldinu. Stór hluti sýninganna var flytjendum sínum og þjóðum til sóma, sumar reyndar frábærar og þær sem tókust miður gerðu ekki annað en að gera áhorfendur þakkláta fyrir hinar framúrskarandi. Erlendir gestir okkar voru í skýjunum að því ég best gat hlerað – fyrir marga þeirra var þetta auðvitað ævintýraferð hvað sem allri leiklist leið. Og síðast en ekki síst – hátíðin er réttu megin við núllið fjárhagslega. Það má lengi telja upp fólk úr þeim óvíga her sem gerði þessa hátíð að veruleika. Ég á samt ekki von á að neinn móðgist alvarlega þó ég biðji viðstadda að klappa sérstaklega fyrir kraftaverkakonunni Vilborgu Valgarðsdóttur.
IV – Lokaorð
Við erum auðvitað vígamóð, stolt og fegin að þessi hátíð er að baki sem svo lengi vofði yfir en stóð svo bara í nokkra daga. Næstu stórverkefni okkar eru ekki síður mikilvæg en snöggtum leiðinlegri og þau munu alveg örugglega ekki standa yfir í tæpa viku. Við þurfum að taka á fjárhagsvanda okkar, berjast fyrir bættum styrkjum og auknum skilningi á þörfum okkar, rýna af útsjónarsemi í útgjöldin.
Og meðan við fáumst við þetta megum við ekki missa sjónar af tilgangi þess að standa í slíku. Við verðum að leika, við verðum að skapa, við verðum að beita metnaðinum og sköpunarkraftinum fyrir leikhúsvagninn okkar og draga hann inn á menningartorg. Eins og fíflið Fjasti söng í Þrettándakvöldi Shakespeares:
„Það rignir alltaf dag eftir dag.“
En hann klikkti samt út með að syngja:
„En við lyftum tjaldinu dag eftir dag.“
Gerum það.

Reykjavík 29. apríl 2011
Þorgeir Tryggvason, formaður

7.     Framkvæmdastjóri leggur fram endurskoðaða reikninga síðasta árs og skýrir þá.
Vilborg Valgarðsdóttir lagði fram reikninga síðasta árs.
8.     Umræður um skýrslu stjórnar og afgreiðsla reikninga.
Hörður Sigurðarson spurði um hversu mikilli lækkun á húsaleigu Vilborg hefði náð fram. Vilborg svaraði að húsaleiga hefði farið úr 350.000 í 250.000 og hækkun skv. vísitölu hefði verið afnumin.
Hulda B. Hákonardóttir, Hugleik, spurði hvort  til greina hafi komið að láta söluna á húsnæðinu við Laugarveg ganga til baka. Vilborg sagði svo ekki vera þar sem þá þyrfti að borga til baka það sem þegar hefur verið greitt. Ætlunin væri að bíða á meðan nýr eigandi breytir húsnæðinu í íbúðarhúsnæði og vona að hann nái að kljúfa þetta fjárhagslega.
Reikningar samþykktir.
9.     Skýrslur nefnda og umræður um þær.
Skýrslu skólanefndar flutti Hrefna Friðriksdóttir
Skýrsla skólanefndar á aðalfundi BÍL 30. apríl 2011
Fyrst er frá því að segja að nýlega var skólanefnd skipuð að nýju og í henni eiga nú sæti auk mín Dýrleif Jónsdóttir, Gunnhildur Sigurðardóttir, Herdís Þorgeirsdóttir og Hrund Ólafsdóttir. Skólanefnd þakkar Sigríði Karlsdóttur kærlega fyrir öll hennar merku og miklu störf um leið og Hrund er boðin hjartanlega velkomin í hópinn. Ég nota líka þetta tækifæri til að þakka öllum samnefndarkonum mínum vel unnin störf.
Leiklistarskólinn var settur í 14. sinn þann 12. júní 2010. Þessari skólasetningu fylgdi óneitanlega nokkuð meiri spenna og eftirvænting en oft áður – eins og ég sagði frá í fyrra þá voru þetta merk tímamót í sögu skólans þegar hann flutti frá Húsabakkaskóla og var settur í fyrsta sinn að Húnavöllum í Húnavatnshreppi.
Það er skemmst frá því að segja að þetta tókst afskaplega vel – það fór mjög vel um okkur í Húnavallaskóla – aðbúnaðurinn var góður, starfsfólk lagði sig fram um að mæta okkar þörfum og við lögðum staðinn undir okkur! Ég vil þakka Leikfélagi Blönduóss sérstaklega fyrir aðstoð og samvinnu við skipulagningu óvissuferðar sem vonandi verður árlegur viðburður. Hinn eini sanni skólaandi sveif yfir öllu skólastarfinu og við hlökkum til áframhaldandi samstarfs.
Skólann sóttu alls 40 nemendur sem sátu 3 námskeið:
1. Byrjendanámskeið í leiklist. Kennari Ágústa Skúladóttir.
2. Byrjendanámskeið í leikstjórn. Þar mætti enn og aftur til leiks Sigrún Valbergsdóttir.
3. Framhaldsnámskeið í söng- og raddbeitingu út frá Complete Vocal Technique kerfinu undir stjórn Þórhildar Örvarsdóttur – en þarna var um að ræða framhald af námskeiði sem Þórhildur var með sumarið áður.
Auk þessara námskeiða var bryddað upp á þeirri nýbreytni að bjóða höfundum í heimsókn. Höfundum var boðið að dvelja á staðnum við skapandi skrif og boðið að taka þátt í skemmtilegheitum utan hefðbundinna kennslustunda. Þetta fyrirkomulag mæltist vel fyrir, alls mættu 7 höfundar í styttri eða lengri tíma.
Niðurstöður viðhorfskönnunar bentu til almennrar ánægju með skólastarfið.
Árið 2011 er starfstími skólans ráðgerður frá 11.–19. júní að Húnavöllum.
Í ár er eins og oftast áður boðið upp á þrjú námskeið. Við fylgjum föstum hefðum og bjóðum upp á framhald af byrjendanámskeiðum síðastliðins árs – Ágústa Skúladóttir ráðgerir að kenna Leiklist II og Sigrún Valbergsdóttir Leikstjórn II.
Þá er boðið upp á sérnámskeið fyrir leikara með það markmið að gefa nemendum grundvallarskilning á vinnu leikarans með leikverkið. Í upphafi gerðum við ráð fyrir að Steinunn Knútsdóttir myndi kenna. Svo gerðist það að Steinunn fékk starf sem deildarforseti leiklistardeildar LHÍ og varð að hætta við. Við óskum Steinunni til hamingju með starfið. Um leið erum við nokkuð stoltar af því að hafa fengið Rúnar Guðbrandsson til að koma í hennar stað. Rúnar hefur áður kennt við skólann við mjög góðan orðstír. Núna er að sjálfsögðu ráðgert að hann muni – í góðri samvinnu við Steinunni –  ganga inn í að kenna það námskeið sem lagt hefur verið upp með. Skólanefnd hefur tilkynnt öllum skráðum nemendum á sérnámskeiðinu um þessa breytingu og er það von okkar að þetta muni engin áhrif hafa á aðsóknina.
Að lokum ákváðum við að bjóða höfundum aftur í heimsókn með sama sniði og í fyrra.
Þetta er sem sagt skólinn sem við bjóðum upp á í ár og vonum að verði. En – nú brennur svo við að aðsókn er dræm og enn sem komið er minni en ásættanleg. Staðan í dag er því sú að við munum hugsanlega neyðast til að fella skólann niður í ár. Það er ljóst að skólinn verður að standa undir sér og 36 er sá lágmarksfjöldi nemenda sem þarf til að svo megi verða. Í dag eru 33 nemendur skráðir.
Eins og mörg ykkar hafa eflaust orðið vör við þá var frestur til að sækja um skólavist framlengdur til 4. maí. Nú viljum við skora á alla sem hér eru að sækja um eitthvað af þessum spennandi námskeiðum og að láta boð út ganga til allra sinna félagsmanna um að skoða þetta vandlega. Það eru laus pláss á öll námskeiðin.
Vonandi gengur þetta nú allt saman upp. Skólanefnd mun – að höfðu samráði við stjórn Bandalagsins – taka endanlega ákvörðun um framhaldið á fundi fimmtudaginn 5.5. klukkan 5.

F.h. skólanefndar,
Hrefna Friðriksdóttir

Hörður Sigurðarson lénsherra flutti skýrslu vefnefndar
Skýrsla vefnefndar 2011
Lögð fram á aðalfundi BÍL í Mosfellsbæ  30. apríl–1. maí 2011
Á ýmsu hefur gengið með Leiklistarvefinn á liðnu ári og ekki var það allt jákvætt. Það sem helst hefur angrað aðstandendur eru viðvarandi vandamál með útsendingu fréttabréfa auk annarra smærri vandamála. Rót þeirra vandamála var að þeir sem sjá um hýsingu á vefnum uppfærðu ýmsa hluti á miðlara án þess að hafa samband við okkur áður. Breytingarnar gerðu það að verkum að ýmis virkni fór úr skorðum svo sem myndastjórn og póstlistaútsendingar auk annarra hluta. Að mestu leyti var vandamálum kippt í liðinn fljótt og vel en þar voru póstlistar þó undanskildir. Í kjölfarið tók við langur tími þar sem útsending fréttabréfa var í ólestri og ekki nema hluti af þeim sem skráðir voru á póstlista fengu senda vikulega fréttapósta. Það hefur tekið nokkra mánuði að koma öllu í rétt horf en loks virðist það hafa tekist og útsending fréttabréfa á því að vera komin í lag.
Að flestu öðru leyti hefur vinna við vefinn gengið sinn vanagang. Starfsmenn Þjónustumiðstöðvar sjá að mestu leyti um að setja efni á vefinn eins og verið hefur en undirritaður er til aðstoðar þegar á þarf að halda. Þá gerði undirritaður skurk í útlitsmálum á forsíðu fyrir nokkru og er hún nú orðin öllu stílhreinni en áður var. Mjög þarft væri að halda starfsdag þar sem Lénsherra og starfsmenn hreinsuðu aðeins til á vefnum og stilltu saman strengi með ýmislegt sem honum tengist. Ekki síst þyrfti að hreinsa til í föstum síðum á borð við upplýsingasíðu Leiklistarskólans og þá mætti endurskoða ýmsar aðrar.
Leiklistarvefurinn er öflugt tæki sem nýtist vel til að framkvæma þau markmið sem kveðið er á um í 3. grein laga Bandalagsins. Það má þó nefna að vefurinn er að sumu leyti lítt eða ekki nýttur eins og hægt væri. Þar má t.d. benda á möguleika til að virkja almenna félaga til að bæta við og uppfæra Leikritasafnið og einnig eru möguleikar til að bæta upplýsingar um vöruúrval verslunarinnar svo eitthvað sé nefnt.
Vefnefnd fékk einnig það verkefni í tengslum við NEATA-hátíðina á Akureyri að koma upp og viðhalda upplýsingasíðum á ensku um hátíðina. Þeir erlendu þátttakendur sem tjáðu sig, lýstu ánægju með upplýsingarnar sem þar komu fram enda var sennilega meira lagt í að þjóna erlendum gestum en áður hefur verið á slíkri hátíð.
Á liðnum árum hafa af og til komið upp álitamál varðandi efni sem borist hefur vefnum. Það er ekki mjög skýrt eftir hverju skuli farið í slíkum málum né heldur hver fer með ritstjórnarvald og -ábyrgð. Í því samhengi hefur undirritaður velt því fyrir sér hvort ekki sé kominn tími til að móta betur hlutverk þeirra sem vinna við vefinn. Þó vefnefnd hafi starfað frá því vefurinn var opnaður hefur skipulag hennar verið frekar laust í reipunum og t.d. hefur ekki verið gefið út skipunarbréf fyrir hana eins og þó hefur staðið til að gera fyrir nefndir Bandalagsins. Undirritaður hefur auk þess starfað sem Lénsherra frá upphafi án þess þó að það embætti hafi formlega verið sett á laggirnar né því mótaður rammi eða starfssvið. Það mætti gjarnan ræða það innan stjórnar hvort ekki sé ástæða til að koma þessum málum í fastari skorður og í framhaldi móta ritstjórnarstefnu fyrir vefinn. Því er hér með beint til stjórnar að taka þessi mál til umræðu.
Leiklistarvefurinn var formlega opnaður haustið 2001 og verður því brátt 10 ára. Vefurinn hefur löngu sannað mikilvægi sitt í starfi Bandalagsins og Þjónustumiðstöðvarinnar. Það væri kannski ekki úr vegi að setjast niður yfir afmælisköku á þessum tímamótum, ræða hvernig vefurinn hefur þróast, hvernig hann virkar í dag og ekki síður hvernig við viljum að hann vaxi og nýtist okkur sem best næsta áratuginn.
Svo lýkur skýrslu vefnefndar.

Fyrir hönd vefnefndar
Hörður Sigurðarson

Vilborg Valgarðsdóttir flutti skýrslu NEATA-hátíðarnefndar
Skýrsla framkvæmdanefndar NEATA-hátíðar 2010
sem haldin var í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri, dagana 10. til 15. ágúst
Hátíðin tókst afar vel að langflestu leyti. Við höfum fengið þakkir frá flestum hinna erlendu gesta sem sóttu hátíðina og hrós fyrir góða skipulagningu, góðan standard á leiksýningum og mjög skemmtilega umgjörð. Einnig var þakkað sérstaklega fyrir frábæra skoðunarferð sem farin var að Mývatni og Námaskarði.
Hátíðina sóttu 11 leikhópar frá 9 löndum, 3 frá Íslandi og einn frá hverju hinna landanna; Noregi, Litháen, Svíþjóð, Frakklandi, Finnlandi, Lettlandi, Danmörku og Færeyjum. Íslensku hóparnir voru Leikfélag Kópavogs, Leikfélag Selfoss og Freyvangsleikhúsið. Samtals voru 186 manns í leikhópunum.
Hátíðina sóttu einnig erlendir gestir frá NEATA-löndunum og Evrópu, þeir voru frá Danmörku, Lettlandi, Litháen, Svíþjóð, Austurríki, Finnlandi, Noregi, Frakklandi og Englandi. Samtals voru þetta 22 einstaklingar.
40 sjálfboðaliðar, starfsmenn og tæknimenn, unnu við hátíðina myrkranna á milli og það var þeim að þakka hversu allt gekk smurt fyrir sig og án vandamála.
Hátíðina sóttu samtals um 250 manns.
Hátíðin var sett í Menningarhúsinu Hofi kl. 20.00 þriðjudaginn 10. ágúst. Þar fluttu ræður forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti NEATA, Line Hauger frá Danmörku og formaður Bandalagsins Þorgeir Tryggvason, sem setti hátíðina með frumsömdu lagi sem hann kenndi hátíðargestum þar og þá og mátti alla hátíðina heyra þá raula fyrir munni sér „Art of the heart“. Að hátíðlegri og líflegri dagskrá lokinni var svo sest inn í stóra salinn í Hofi þar sem Leikfélag Kópavogs sýndi Umbúðalaust, fyrstu leiksýningu hátíðarinnar. Að henni lokinni opnaði svo hátíðarklúbburinn sem starfaði á hverju kvöldi á sama stað, í Hofi.
Dagskrárliðir hátíðarinnar gengu svo hver af öðrum; leiksmiðjur, gagnrýni, hádegisverður, leiksýningar, kvöldverður, hátíðarklúbbur og samvera.
Dagskrá hátíðarinnar er á Leiklistarvefnum og óþarfi að lista hana upp hér.
Upplýsingamiðstöð hátíðarinnar var í anddyri Hofs, við hlið miðasölunnar, og gekk allt það samstarf eins og í sögu. Starfsmenn miðstöðvarinnar, með Sigríði Láru Sigurjónsdóttur í broddi fylkingar, sáu um að manna alla pósta og höfðu heildaryfirsýn yfir alla dagskrárliði hátíðarinnar og gátu því brugðist við umsvifalaust ef eitthvað bjátaði á. Leiksviðin tvö höfðu líka sína tækni- og starfsmenn sem unnu ekkert minna en kraftaverk við frumsýningar á 11 leiksýningum í glænýjum leikhússölum á 5 dögum.
Áhorfendur voru frá 144 til 150 á sýningar í minni salnum en frá 160 til 500 í stóra salnum. Samtals áhorfendur á allar sýningarnar voru um 2.300 manns.
Hátíðinni var slitið með hátíðarkvöldverði, ræðuhöldum og skemmtiatriðum í Hofi laugardagskvöldið 14. ágúst og gestir héldu svo heim á leið sunnudaginn 15. en við starfsfólkið gengum frá í Hofi fram eftir degi. Flestir voru þó komnir til síns heima um kvöldið.
Fyrir jólin síðustu sendum við svo öllum leikhópum hátíðarinnar jólakveðju ásamt DVD-diski þar sem Hörður Sigurðarson hafði klippt saman „highlights“ frá hátíðinni.
Starfsmönnunum sendum við einnig jólakveðju og eitt hátíðarglas hverjum.
Í desember var sent lokauppgjör til Norræna menningarsjóðsins en hann var stærsti styrktaraðili hátíðarinnar. Mennta- og menningarmálaráðuneytið fékk einng lokauppgjör þá en ráðuneytið styrkti hátíðina um 2 milljónir.
Lokauppgjör sýndi að hátíðin stóð undir sér hvað varðar tekjur og gjöld. Reikningar voru settir upp af löggiltum endurskoðanda PWC.
Ég vil ljúka þessari skýrslu á því að þakka samnefndarfólki mínu, þeim Þráni Sigvaldasyni, Herði Sigurðarsyni og Ólöfu Þórðardóttur samvinnuna. Eins vil ég þakka öllum starfsmönnum hátíðarinnar, hinum svokölluðu „grænbolum“. Þeir stóðu sig undantekningarlaust 200% og gerðu hátíðina alfarið að viðburði sem seint gleymist þeim sem sóttu og var okkur Bandalagsfólki til mikils sóma.

Vilborg Valgarðsdóttir
framkvæmdastjóri

Ármann Guðmundsson flutti skýrslu handritasafnsnefndar.
Skýrsla handritanefndar á aðalfundi  2011
Í handritanefnd sitja Ármann Guðmundsson, Hrefna Friðriksdóttir og Örn Alexandersson.
Handritanefnd fundaði einu sinni á árinu og átti auk þess samskipti í tölvupósti. Helsta verkefni hennar var reyna að móta stefnu varðandi dreifingu handrita á tölvutæku formi en það hefur sífellt aukist að beðið sé um að handrit séu send þannig. Stefnan hefur verið að gera það ekki nema í undantekningartilfellum.
Það er skemmst frá því að segja að eftir samtal við Hávar Sigurjónsson formann félags leikskálda og handritshöfunda er í raun aðeins ein leið til að fá leyfi til að gera slíkt og það er að fá leyfi hjá hverjum og einum höfundi sem á handrit sem selt er. Þetta gildir reyndar líka um ljósrituð handrit. Höllumst við að því í nefndinni að það sé í raun það sem við ættum að gera, þ.e. að fá leyfi frá aktífum höfundum og þýðendum til að selja handrit að verkum þeirra, hvort heldur er í ljósriti eða pdf-formati, og fá til þess í lið með okkur t.d. fyrrnefnt félag handritshöfunda og fleiri sem málið er skilt. Enn hefur þó engin ákvörðun verið tekin um að fara út í þá vinnu sem vissulega yrði talsverð.
Eitt sem styrkir okkur í þeirri trú að þetta leyfi fengist nánast undantekningarlaust er sú staðreynd að allar helstu stofnanir íslensks leikhúslífs hafa ávallt viðurkennt og stutt Bandalagið í handritasöfnun sinni og öll helstu leikskáld landsins vita af henni og hafa veitt okkur leyfi sitt þótt á óformlegan hátt hafi verið.
Annað markvert sem gerst hefur á leikárinu er að fulltrúar stóru leikhúsanna og félags handritshöfunda höfðu samband við okkur og fóru fram á fund til að ræða það að Bandalagið taki að sér að halda utan um og dreifa safni íslenkskra leikrita sem þýdd hafa verið á erlenda tungu. Telja þau að Bandalagið sé sá aðili sem langbest sé í stakk búinn til að halda utan um slíkt safn, sem sýnir hvaða traust þessir aðilar bera til okkar. Handritanefnd telur (eftir að hafa haft samráð við lénsherra) að þetta sé eitthvað sem lítið mál væri fyrir okkur að gera og nýta mætti netskráningarkerfi handritasafnsins okkar til þessa með litlum kostnaði (sem viðkomandi aðilar myndu auðvitað greiða). Þessi fundur hefur enn ekki verið haldinn en verður það líklega nú í maí.

F.h. handritasafnsnefndar
Ármann Guðmundsson

Vilborg Valgarðsdóttir flutti skýrslu húsnæðisnefndar.
Skýrsla húsnæðisnefndar
flutt á aðalfundi Bandalags ísl. leikfélaga 30. apríl 2011
Nefndin var stofnuð á stjórnarfundi þann 15. mars 2011. Í nefndinni eru, auk undirritaðrar, þær Ása Hildur Guðjónsdóttir og Ólöf Arnbjörg Þórðardóttir.
Hlutverk nefndarinnar var að finna Bandalagsskrifstofunni annað og ódýrara leiguhúsnæði sem fyrst. Nefndin setti sér það markmið að finna sem flesta fermetra á sem aðgengilegustum stað fyrir að hámarki 100.000 þúsund kr. á mánuði.
Eftir nokkra leit skoðuðum við 70–90 fm. húsnæði á jarðhæð við Kleppsmýrarveg 8 í póstnúmeri 104 og leist nokkuð vel á, þótt næstum 20 fm. séu í sameigninni. Leigan er auglýst 89.000 á mánuði með rafmagni og hita. Rýmið er aflangt, hólfað í þrennt, stærsta herbergið sem komið er inn í að utan er rúmir 40 fm.
Við nefndarkonur, ásamt Ármanni starfsmanni og Þorgeiri formanni, fórum svo öll á staðinn sl. miðvikudag og mældum og spöguleruðum – og komumst að sameiginlegri niðurstöðu um að við myndum gera tilboð í húsnæðið strax á mánudaginn – þrátt fyrir smávægilega galla, eins og mögulegt loftleysi í innri herbergjum og að ekkert rennandi vatn er í húsnæðinu nema frammi í sameign, en þangað er smá labb.
Við munum eins og áður sagði gera tilboð á mánudaginn og miða við að taka við húsnæðinu ca. 15. maí.
Húsnæðið lítur ágætlega út en skynsamlegt væri sennilega að mála eina til tvær umferðir áður en við flytjum inn en Ólöf hefur, f.h. Leikfélags Mosfellssveitar, boðist til að gefa alla þá málningu sem þarf.

Vilborg Árný Valgarðsdóttir,
framkvæmdastjóri

Umræður um skýrslur nefnda
Guðjón Ólafsson, Freyvangsleikhúsinu, beindi þeirri fyrirspurn til skólanefndar hvort mögulegt væri að auka starfsemi skólans með fjarkennslubúnaði eins og Moodle sem hann væri sérfæðingur í og bauð fram aðstoð sína.
Hörður Sigurðarson vildi meina að það eina sem hefði ekki tekist nógu vel til með NEATA-hátíðina hefði verið framkvæmd hátíðarklúbbs og rökstuddi það.
Þorgeir Tryggvason sagðist sammála Herði en þetta hefðið að mestu ráðist af þeim aðstæðum sem voru á staðnum. Hann sagði að hann og fleiri hefðu sest niður til að gera leiðbeiningar fyrir svona hátíðir og þar væri farið í hátíðarklúbbsmál. Meðal þess sem þarf til að fólk sæki hátíðarklúbba er að áfengi sé selt á skikkanlegu verði.
Íris Árný Magnúsdóttir, Leikfélagi Selfoss, lýsti yfir áhyggjum sínum af stöðu skólamála í ár. Hún hvatti alla til að gera það sem í þeirra valdi stæði til að ekki þyrfti að fella niður skóla. Skólinn væri einn mikilvægasti liðurinn í starfsemi Bandalagsins. Hún spurði hvort að leitað hefði verið eftir styrkjum frá sveitarfélögum í Austur-Húnavatnssýslu til að fjármagna skólannn.
Hrefna Friðriksdóttir svaraði fyrirspurn Guðjóns og sagði sjálfsagt að skoða það með opnum huga að nýta tækni og nýjar aðferðir en námskeiðin sem kennd væru í sumarskólanum hentuðu ekki í það. Hún svaraði Írisi því að Húnavallaskóli væri í Húnavatnshreppi sem væri mjög lítið sveitarfélag og hefði sennilega ekki burði til að styrkja okkar. Það væri þó inni í myndinni að leita til Blönduóss.
Hörður Sigurðarson benti á að flest stéttarfélög veita svokallaða tómstundastyrki sem ná til svona námskeiða. Hann hvatti fundarmenn til að benda þeim sem settu verðið fyrir sig á þetta.
10.     Drög að starfsáætlun næsta árs kynnt og skipað í starfshópa.
Guðfinna Gunnarsdóttir kynnti drög að starfsáætlun og skipti fundargestum í hópa. Tillaga stjórnar að starfsáætlun var eftirfarandi:
Tillaga stjórnar að Starfsáætlun Bandalags íslenskra leikfélaga leikárið 2011–2012
Almenn starfsemi 

1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.
2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.
3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.
Sérverkefni ársins
1. Taka þátt í Stuttverkahátíð í Færeyjum 15. október 2011
Hópar tóku til starfa og skiluðu niðurstöðum.
Guðjón Ólafsson kynnti niðurstöður frá Hópi 1.
Hópinn skipuðu:
Guðjón Ólafsson, Freyvangsleikhúsinu, hópstjóri
Stefanía Björnsdóttir, Halaleikhópnum
Þórvör Embla Guðmundsdóttir, Umf. Reykdæla
Þröstur Ólafsson, Litla leikklúbbnum
Stefán Ólafsson, Leikfélagi Selfoss
Sigurgeir L. Ingólfsson, Leikfélagi Rangæinga
Fjóla Egedía Sverrisdóttir, Leikfélagi Fljótsdalshéraðs
Almenn starfsemi
1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.
Mikil ánægja með störf þjónustumiðstöðvar, en spurt hvort ekki væri hægt að fá einhvers konar lögfræðiálit eða umsögn fasteignasala um það hvort hægt væri að láta sölu hússins á Laugarvegi ganga til baka.
Leiklistarskólinn:
Spurt var hvort hægt væri að hafa grunnnámskeið í leiklist til boða á hverju ári, bæði vegna þess að það virðist orðið erfitt að halda skólanum úti vegna fámennis og að stór hluti þeirra sem taka þátt í starfsemi leikfélaga hafa aldrei sótt nein námskeið. Aldurstakmark í skólann er 18 ár. Er möguleiki að taka inn nemendur sem eru yngri? Væri hægt að flytja skólann eða hluta hans á milli landshluta til skiptis? Er hægt að setja upp farandnámskeið sem félög geta fengið til sín? Leikfélög myndu halda uppi kennurum og útvega húsnæði.
Leiklistarvefurinn:
Vefurinn almennt mjög góður og til sóma. Leitaraðferðir í leikritasafninu góðar en mætti bæta útdrætti. Koma Lestarhestum aftur af stað? Félög mættu þó vera duglegri að senda fréttir inn á vefinn.
2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.
Stjórnin hvött til áframhaldandi góðra verka. Bent á að stórfyrirtæki eins og Alcoa, Alcan og fleiri styrkja starfsmenn sína til áhugastarfa og því spurning hvort BÍL getur sótt til þeirra. Senda þarf stanslaust upplýsingar til þingmanna frá félögunum og bjóða þeim á sýningar hvar sem þeir eru á landinu.
3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.
Já takk.
Sérverkefni
1. Taka þátt í Stuttverkahátíð í Færeyjum 15. október 2011
Almennur áhugi á verkefninu innan hópsins.
Bryndís Halldórsdóttir flutti skýrslu Hóps 2
Hópinn skipuðu:
Hanna Margrét Kristleifsdóttir, Halaleikhópnum, hópstjóri
F. Elli Hafliðason, Leikfélagi Selfoss
Axel Vatnsdal, Leikfélagi Hörgdæla
Hörður Sigurðarson, Leikfélagi Kópavogs
Eyþór Brynjólfsson, Umf. Gnúpverja, leikdeild
Einar Andrésson, Halaleikhópnum
Kristín Rós Birgisdóttir, Leikfélagi Hafnarfjarðar
Árný Leifsdóttir, Leikfélagi Ölfuss
Bryndís Halldórsdóttir, Leikfélagi Fljótsdalshéraðs.
Almenn starfsemi
1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.
Það var almenn aðdáun og ánægja með starfsfólk þjónustumiðstöðvarinnar. Þjónustan er góð og skjót. Allir geta leitað til þeirra. Vettvangur fyrir höfunda. Handritaþjónusta – skipulagt og flott starf. Við ræddum um verkefnið „Lestrahestarnir“,  þeir áttu að fá send handrit til yfirlestrar og gera útdrátt úr verkunum til að setja á vefinn. Við erum með tillögu um það verkefni. Það mætti bæta handritaupplýsingar en það eru tæknivandamál sem þarf að leysa áður en úr því verður hægt að bæta.
Okkur líst vel á „nýja“ húsnæðið þrátt fyrir loftleysi og vatnsleysi. Allt hægt að gera. Rætt var um framtíðarplön á varanlegri eign leiklistarskólans. Hann er dýr en alls ekki ósanngjarn! Þurfum að árétta til leikfélaganna að senda félagsfólk í skólann. Leikfélög fá endurgreiddar 5000 kr. frá Bandalaginu fyrir hvern félagsmann sem félögin styrkja til að fara í skólann. Spurning um að senda nemendur svo í önnur félög til að kynna og segja frá skólanum. Spurning um vinnustaði sem gætu styrkt starfsmenn sína í skólann. Verkalýðsfélög veita mörg slíka styrki. Um að gera að kynna fólkinu okkar þetta! Töluðum um leiklistarnámskeið fyrir börn og hvernig best væri að finna leiðbeinendur, bent var á að þá má finna á leikstjóralista á Leiklistarvefnum eða hringja á skrifstofuna og leita ráða.
2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.
Já! Allir að leggja sig fram, berjast fyrir að ekki verði skorið meira „af okkur“ og minna á okkur. Rætt um hvort menningarsjóðir væru að virka og standa sig í að styrkja leiklist. „The show must go on“!
3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.
Ekki spurning! Að okkar mati má þetta alls ekki detta upp fyrir.
Sérverkefni
1. Taka þátt í Stuttverkahátíð í Færeyjum 15. október 2011
Spurning um hvort einhver útlagður kostnaður yrði fyrir Bandalagið? Kemur í staðinn fyrir Margt smátt, sprettur uppúr því. Gaman að Norðmenn verða með. Mikill áhugi á Færeyjaferð og þetta væri skemmtileg nýbreytni. Spurning hvort það eigi að keppa á milli félaga um besta(u) stuttverkið(in), hvort það verður valnefnd eða hvað. Kostnaður fellur væntanlega á þau leikfélög sem fara. Nett og lítið í sniðum, leikarar færri og fl. Spurning um að fá tilboð í leiguflug? Er Bandalagið búið að mynda sér einhverskonar skipulag eða verklagsreglur í sambandi við þessa hátíð?
Hópurinn lagði til að eftirfarandi yrði bætt á starfsáætlun sem sérverkefni:
„Að bæta handritasafn Bandalagsins, m.a. með því að koma á fót hópi Lestrahesta.“
Íris Árný Magnúsdóttir kynnti hugmyndir Hóps 3
Hóp 3 skipuðu:
Íris Árný Magnúsdóttir, Leikfélagi Selfoss, hópstjóri
Gunnhildur Sigurðardóttir, Leikfélagi Mosfellssveitar
Þröstur Jónsson, Halaleikhópnum
Magnþóra Kristjánsdóttir, Leikfélagi Ölfuss
Sólveig Heiðrún Stefánsdóttir, Leikfélagi Fljótsdalshéraðs
o.fl.
1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.
a) Rekstur þjónustumiðstöðvar
– Bráðnauðsynleg.
– Lýsum yfir ánægju með vinnu starfsmanna og stjórnar við að reka miðstöðina vel.
– Áhyggjur af því að starfsmenn miðstöðvar séu að fara í verri aðstöðu og þökkum fórnfýsi þeirra.
– Viljum halda þjónustunni við leikfélögin eins góðri og framast er kostur.
b) Leiklistarskólinn
– Hvetjum leikfélögin til að kynna skólann vel fyrir félagsmönnum og ítrekum að fólki sé bent á að sækja um styrki í stéttarfélög sín.
– Kynna betur að fólk getur sótt um á Leiklist 2 þó það hafi ekki sótt Leiklist 1 ef það hefur næga leikreynslu.
– Gamlir nemendur fari í framhaldsskólana og kynni skólann, sem og til annarra leikfélaga.
– Hafa það skýrar í bæklingi hverjir mega fara í skólann.
c) Leiklistarvefurinn
– Ítreka það sem áður hefur komið fram að fréttir hverfa of fljótt af forsíðu, við vitum að það er hægt að finna þær undir fréttaflipa en spurning um hvort ekki væri hægt að hafa á forsíðu (neðst) „eldri fréttir“ rétt eins og er á fréttasíðu.
– Ánægja með handritasíður, mætti hafa aðgengi að henni greinilegra eins og með stærri flipa á forsíðu (eins og er með leiklistarskólann).
– Minna leikfélög á að senda lýsingar á þeim verkum sem þau setja upp svo hægt sé að setja í útdrátt í handritasafni.
– Minna fólk á að senda inn reglulegar frétttir af starfsemi sinni.
d) Fastir liðir
– Leggjum til að þeim verði haldið föstum.
2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.
– Ekki margar hugmyndir hér um í hvaða sjóði hægt er að sækja, hvorki úr opinberum né frá einkaaðilum.
– Veltum fyrir okkur almennri kynningarstarfsemi á störfum BÍL út á við.
– Minnum á kynningu á BÍL í leikskrám.
– Markaðssetja BÍL í tengslum við atburði (hátíðir og fleira).
3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.
– Umræður um hvað leikfélögin telja áhugaverða sýningu – á alltaf að sækja um?
– Gott að sama gildi nú um allar sýningar, þ.e. að dómnefnd sjái allar sýningar á DVD.
– Góð kynning fyrir Bandalagið og erfiðisins virði.
– Umræður um upptökur, félög leggja mismikla vinnu í upptökur, spuringar um hvort það hafi áhrif á val (sem við væntum að dómnefnd ein geti svarað en ekki stjórn BÍL, stjórn gæti þó komið þessari fyrirspurn á framfæri)
Sérverkefni
1. Taka þátt í Stuttverkahátíð í Færeyjum 15. október 2011
Gott mál – auglýsa eins fljótt og auðið er.
Auka umræður
Óskað eftir nánari skýringu á gagnrýnendasjóði – ekki nægilega mikil vitneskja um hann.
Þrúður Sigurðar flutti skýrslu hóps 4.
Hópinn skipuðu:
Þrúður Sigurðar, Leikfélagi Ölfuss, hópstjóri
Sigrún Sighvatsdóttir, Leikfélagi Selfoss
Ásgeir Hvítaskáld, Leikfélagi Fljótsdalshéraðs
Katrín Eiðsdóttir, Umf. Reykdæla
Gerður H. Sigurðardóttir, Leikfélagi Selfoss
Guðrún Kristín Jóhannsdóttir, Leikfélagi Húsavíkur
Rebekka Atladóttir, Umf. Skallagrími, leikdeild
Hulda Gunnarsdóttir, Leikfélagi Ölfuss
Almenn starfsemi
1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.
– Vilborg má hvorki hætta né falla frá 😉
– Mikil ánægja er með störf þjónustumiðstöðvar.
– Poppa þarf upp bæklinginn um skólann.
– Benda þarf á að ekki sé nauðsynlegt að hafa tekið Leiklist 1 ef viðkomandi hefur næga leikreynslu.
– Námskeiðssjóður góð hugmynd frá Freyvangi, það að taka andvirði einnar sýningar á ári og setja í sjóð til að greiða fyrir félaga í skólann.
– Á vefinn vantar útdrætti við mörg leikritanna.
– Þyrfti að gera vefinn meira „sexý“.
– Það væri gott ef hægt væri að fá handrit á tölvutæku formi.
2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.
Veitum stjórn stuðning í því máli en eftirlátum henni annars að finna leiðir.
3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.
Misjafnar skoðanir á Þjóðleikhússýningunni innan hópsins, vorum sammála um að vera ósammála. En meirihluti þó mjög ánægður með Þjóðleikhúsið.
Sérverkefni
1. Taka þátt í Stuttverkahátíð í Færeyjum 15. október 2011
Já frábært. Einnig mætti vera meira samstarf innan Íslands, leikferðir á milli staða hér heima.
Umræða um niðurstöður hópa.
Vilborg Valgarðsdóttir benti á að nýbúið væri að senda út á leikfélögin leiðbeinandi yfirlit um hvernig fréttir ættu að vera og hvað væri fréttnæmt.
Þorgeir Tryggvason svaraði spurningum um stuttverkahátíðina í Færeyjum, sagði að valforsendur myndi MÁF úttfæra en kostnaður lenti örugglega á þeim leikfélögum sem færu á hátíðina.
Gunnhildur Sigurðardóttir svaraði athugsemdum um skólann. Hún sagði að það væri erfitt að hafa Leiklist 1 á hverju ári því það kallaði á Leiklist 2 á hverju ári sem væri ekki raunhæft. Upphafleg hugmynd var að hafa skólann sem farandskóla en fallið hafi verið frá því vegna þess hve erfitt hefði verið að finna staði sem hentuðu og voru á ásættanlegu verði. Eftir að misheppnuð tilraun var gerð til að halda sumarnámskeið fyrir unglinga var ákveðið að barna- og unglinganámskeið ættu heima hjá leikfélögunum. Það virtist einfaldlega ekki vera áhugi fyrir slíku námskeiði yfir sumarið.
Guðjón Ólafsson sagði að í öllum grunn- og framhaldsskólum væri hópur stráka (og stelpna) sem væri til í að taka á myndbönd nánast hvað sem er og helst meira en maður kærði sig um. Og væru sumir bara býsna góðir í því. Þetta gætu leikfélög e.t.v. nýtt sér. Hann vildi líka meina að Leiklist 1 þyrfti ekki endilega að kalla á Leiklist  2 strax árið eftir, fólk gæti alveg beðið eftir Leiklist 2 en ef það kæmist ekki á Leiklist 1 þegar það vildi, kæmi það bara ekki.
Embla Guðmundsdóttir sagði að skólinn væri alls ekki dýr, hann væri í raun mjög ódýr og hún bar saman verðið á gistingunni þarna á þinginu og skólanum þar sem helgin kostaði meira en helming af því sem það kostaði að vera á námskeiði í fullu fæði og gistingu í rúma viku.
Hrefna Friðriksdóttir sagði að aðalástæðan fyrir því að erfitt væri að reka námskeið fyrir börn væru ströng lög um forsendur til að halda svoleiðis. Hún hvatti leikfélögin til að að styrkja fólk í skólann þótt ekki væri nema táknrænt. Hún sagði að það virðist hafa hentað vel að manna skólann með 3 námskeiðum sem þýddi auðvitað að það væri aldrei hægt að fullnægja öllum þörfum á hverju ári. Hún sagði að það yrði tekið til skoðunar að „poppa upp“ bæklinginn.
F. Elli Hafliðason benti á að ef vel ætti til að takast við upptöku á sýningu þyrfti að breyta lýsingu og í raun lýsa sýninguna upp á nýtt. Það væri erfitt en ekki ógerlegt. Hann sagði að aðkeyptir upptökumenn skiluðu oft ekki betra verki en tækju gjarnan mikið fyrir vinnuna. Hann sagði jafnframt mikilvægt að þeir sem hafa farið í skólann kynntu hann fyrir öðrum, benti á að einþáttungahátíðin kvöldið áður væri gott dæmi um hverju skólinn hafi skilað, langflestir höfundar, leikstjórar og leikarar hafi sótt skólann.
Hörður Sigurðarson svaraði fyrirspurn um vefinn. Hann sagði að það væri eðli vefsins að fréttir dyttu út. Hann benti á að það væru aðferðir til að finna þær t.d. með leitarorði. Hann sagðist ætla að skoða það með að setja „minni“ fréttir á einhverskonar rúllandi borða.
Þorgeir Tryggvason vildi meina að það vantaði það fáa til að ná lágmarksfjölda í skólann í ár að það væri ekki ástæða til að örvænta. Hann sagði að kannski væri ástæða til að halda Leiklist 1 á hverju ári og þá með mismunandi kennurum. Hann sagðist halda að það hefði verið fyrst nú í ár sem valnefnd Þjóðleikhússins horfði á allar sýningar eingöngu af myndbandi vegna krafna frá aðildarfélögum Bandalagsins. Valnefndin setti engin skilyrði um hvernig þær upptökur væru, öfugt við Bandalagið sem vill fá eina samfellda töku af sýningum með styrkumsóknum þannig að tímamælingar séu marktækar.
Ása Hildur Guðjónsdóttir sagði að leikhús hentuðu mjög mismunandi vel til myndatöku. Halinn væri t.d. það grunnur og breiður að það yrði að klippa upptökur svo að gagn væri af upptökunum.
Ásgeir Hvítaskáld sagði að kvikmyndaformið væri svo ólíkt leikhúsforminu í leikstíl að það þyrfti að vara sig á að vera að fara mikið í nærmyndir.
Ármann Guðmundsson sagði að sér þætti orðalag tillögu hóps 2 óþarflega loðið þar sem hugmyndin á bakvið hana væri í raun eingöngu að koma á fót lestrarhestahópnum. Hann sagði það alveg óljóst hvað átt væri við með „að bæta handritasafnið“ að það ætti bara að vera „meðal annars“ með því að virkja lestrarhesta. Hann lagði til að orðalagi yrði breytt og það gert nákvæmara.
Hörður Sigurðarson sakaði Ármann um orðhengilshátt og sagði að sér þætti ekkert athugavert við þetta orðalag.
11.     Kjörnefnd tilkynnir niðurstöður sínar og mælir með a.m.k. 1 aðila í hvert sæti sem kjósa skal í.
Kjörnefnd gerði grein fyrir stöðu mála og óskaði eftir framboðum.
12.     Lagabreytingar.
Engar lagabreytingar lágu fyrir fundinum.
13.     Tillögur lagðar fyrir fundinn.
Engar tillögur voru lagðar fyrir fundinn.
14.     Starfsáætlun afgreidd.
Tillaga stjórnar að viðbættri tillögu hóps 2 samþykkt. Starfsáætlun fyrir leikárið 2011–12 er því eftirfarandi:
Starfsáætlun Bandalags íslenskra leikfélaga leikárið 2011–2012
Almenn starfsemi 

1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.
2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.
3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.
Sérverkefni ársins
1. Taka þátt í Stuttverkahátíð í Færeyjum 15. október 2011
2. Að bæta handritasafn Bandalagsins, m.a. með því að koma á fót hópi Lestrarhesta.
15. Stjórnarkjör
Þorgeir Tryggvason og Ólöf Þórðardóttir áttu að ganga úr stjórn og gáfu kost á sér aftur. Engin mótframboð bárust.
Hjalti Stefán Kristjánsson, Elva Dögg Gunnarsdóttir og Magnús J. Magnússon áttu að ganga úr varastjórn. Hjalti og Elva Dögg gáfu ekki kost á sér til endurkjörs.
Stjórn stakk upp á Þrúði Sigurðar og Emblu Guðmundsdóttur ásamt Magnúsi J. Magnússyni í varastjórn.
Þorgeir Tryggvason og Ólöf Þórðardóttir sjálfkjörin í stjórn og Magnús J. Magnússon, Þrúður Sigurðar og Embla Guðmundsdóttir í varastjórn.
Þorgeir Tryggvason þakkaði traustið og fráfarandi fólki fyrir samstarfið.
16.     a. Kosning 3ja manna kjörnefndar og eins varamanns til eins árs.
          b. Kosning 2ja skoðunarmanna reikninga og eins til vara til eins árs.
Þorgeir Tryggvason stakk upp á að Dýrleif Jónsdóttir og Gerður H. Sigurðardóttir sitji áfram í kjörnefnd og að Sigríður Lára Sigurjónsdóttir taki við sem aðalmaður í kjörnefnd í stað Emblu þar sem hún sitji nú í varastjórn. Samþykkt einróma, Gunnhildur Sigurðardóttir kosin sem varamaður í kjörnefnd.
Hrefna Friðriksdóttir og Anna Jórunn Stefánsdóttir, Leikfélagi Hveragerðis, kosnar sem skoðunarmenn og Júlía Hannam, Hugleik, til vara.
17.     Ákveðið árgjald til Bandalagsins.
Stjórn leggur fram eftirfarandi tillögu:
Tillaga stjórnar að árgjaldi 2011–2012
Stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga leggur til að árgjöld aðildarfélaga fyrir leikárið 2011–2012 verði kr. 50.000.
Félög sem setja upp tvær styrkhæfar sýningar á leikárinu borgi eitt og hálft gjald eða 75.000 og félög sem setja upp þrjár sýningar eða fleiri borgi tvöfalt gjald eða kr. 100.000.
Félög sem setja ekki upp styrkhæfa sýningu á leikárinu borgi hálft árgjald eða kr. 25.000.
Samþykkt einróma.
18.     Önnur mál
Þrúður Sigurðar ræddi gagnrýnisjóðsmál og var mjög ósátt við framkvæmd þeirra. Gagnrýnandi mætti ekki fyrr en á 13. sýningu hjá Leikfélagi Ölfuss sem væri ekki ásættanlegt. Hún spurði hvort þetta stæði til bóta.
Hörður Sigurðarson svaraði og útskýrði fyrir fundarmönnum út á hvað gagnrýnisjóður gengi. Hann rakti sögu gagnrýnimála frá því að gagnrýni lagðist af í dagblöðum. Hann sagði að það væri búið að taka tillit til framkominna athugasemda um framkvæmd og setja verklagsreglur, þar er t.d. kveðið á um að það þarf að skila gagnrýni inn til birtingar ekki síðar en tveimur dögum eftir að gagnrýnandi sér sýningu. Hann auglýsti eftir að fólk kæmi athugasemdum til sín beint og lofaði að þær yrðu teknar til alvarlegrar athugunar.
F. Elli Hafliðason óskaði eftir að leikfélögin fengju þessar verklagsreglur sendar.
Þorgeir Tryggvason sagðist telja eitt af vandamálunum sé að það vantar vettvang fyrir umræður um fyrirkomulag framkvæmdar á gagnrýninni. Hann taldi að þann vettvang þyrfti að búa til og það stæði upp á leikfélögin sem að þessu standa.
Hörður Sigurðarson tók undir með Þorgeiri. Hann lagði til að þau félög sem hafa áhuga á að taka þátt í þessu samstarfi haldi fund og stofni þetta gagnrýnibandalag formlega. Hann varaði þó við að þetta yrði gert að of miklu bákni.
Íris Árný Magnúsdóttir ræddi starf og námskeið fyrir börn. Hún taldi að leikfélögin ættu að hjálpast að við að byggja upp leiklistarstarf fyrir börn og bauð fram aðstoð Leikfélags Selfoss sem hefur haldið úti öflugu barnastarfi á sumrin.
Ásgeir Hvítaskáld auglýsti eftir samstarfi en hann hefur í samvinnu við Leikfélag Fljótsdalshéraðs gert kvikmynd og önnur er í bígerð. Hann auglýsti eftir samvinnu við önnur leikfélög með leikara, búninga og annað slíkt.
Ólöf Þórðardóttir vildi ítreka að það þyrfti fullt af fólki til aðstoðar við yfirvofandi flutninga þjónustumiðstöðvarinnar, það þyrfti að mála, smíða, bera og m.fl.
Embla Guðmundsóttir sagði að sér hefði verið falið fyrir löngu að koma á endurfundum grænbolagengisins frá NEATA-hátíðinni sl. sumar en það hefði ekki tekist. Hún tilkynnti að það yrði haldið að Reykholti þann 20. ágúst nk. Þetta verður nánar auglýst síðar.
Stefán Ólafsson sagði að talað hefði verið um að Bandalagið vantaði fé en hann minnti fólk á að Bandalagið ætti kindina Beitu frá Öngulstöðum. Halldór Sigurgeirsson sagði hana hafa borið lambi daginn áður. Stefán fagnaði því og sagði þetta fé greinilega í góðri ávöxtun.
19.     Næsti aðalfundur, hugmyndir reifaðar um stað og stund.
Þröstur Ólafsson bauð fundargestum til Ísafjarðar á vegum Litla leikklúbbsins að ári.
Þorgeir Tryggvason þakkaði Þresti fyrir boðið og fundarmönnum fyrir afar góðan og skilvirkan fund. Að því loknu sleit hann fundinum.

Fundargerð rituðu Ármann Guðmundsson
og Sigríður Lára Sigurjónsdóttir