Aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga
haldinn að Sveinbjarnargerði í Eyjafirði
1.- 2. maí, 2010

1. Fundarsetning. Kosning 2ja fundarstjóra og 2ja fundarritara, sem taka þegar til starfa. Lögmæti fundarins kannað.
Þorgeir Tryggvason formaður setti fundinn og stakk upp á Bernharð Arnarssyni, Leikfélagi Hörgdæla, og Ingólfi Þórssyni, Freyvangsleikhúsinu, sem fundarstjórum og Ármanni Guðmundssyni, ritara þjónustumiðstöðvar, og Guðfinnu Gunnarsdóttur, Leikfélagi Selfoss, sem riturum. Gengið úr skugga um að löglega hafi verið boðað til fundarins.
2. Kjörnefnd afgreiðir kjörbréf og afhendir atkvæðaspjöld, skýrir stöðu mála varðandi stjórnarkjör og auglýsir eftir tillögum.
Kjörnefnd tók til starfa. Hana skipuðu Embla Guðmundsdóttir, Umf. Reykdæla, Halldór Sigurgeirsson, Freyvangsleikhúsinu, og Gerður Halldóra Sigurðardóttir, Leikfélaginu Sýnir og Leikfélagi Selfoss. 19 félög voru með atkvæði á fundinum.
3. Menningarstefna Bandalagsins lesin og rædd.
Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, Hugleik, las Menningarstefnu Bandalagsins.
Engar umræður.
4. Staðfest inntaka nýrra félaga, félög tekin af félagaskrá.
Ólöf Þórðardóttir, Leikfélagi Mosfellssveitar, kynnti hvaða félög hafa gengið í og úr Bandalaginu. Leikfélagið Skagaleikflokkurinn óskaði eftir inngöngu í Bandalagið og var samþykkt. Leikfélagið M.a.s og Nafnlausi leikhópurinn sögðu sig úr því og Leikhópurinn Vaka á Borgarfirði eystri er tekið af félagaskrá vegna árgjaldaskulda.
5. Fundargerð síðasta aðalfundar afgreidd.
Fundargerð síðasta aðalfundar samþykkt.
6. Skýrsla stjórnar.
Þorgeir Tryggvason flutti skýrslu stjórnar:
Skýrsla formanns á aðalfundi Bandalags íslenskra leikfélaga í Sveinbjarnargerði 1. maí 2010
I – Stjórn
Stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga var þannig skipuð á árinu:
Þorgeir Tryggvason, Reykjavík, formaður
Ingólfur Þórsson, Eyjafjarðarsveit, varaformaður
Guðfinna Gunnarsdóttir, Selfossi, ritari
Hörður Sigurðarson, Reykjavík, meðstjórnandi
Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, Reykjavík, meðstjórnandi
Í varastjórn sátu Ólöf Þórðardóttir, Hjalti Stefán Kristjánsson, Halla Rún Trygvadóttir, Elva Dögg Gunnarsdóttir og Magnús J. Magnússon.
Í þjónustumiðstöðinni starfa síðan Vilborg Árný Valgarðsdóttir framkvæmdastjóri og ritarinn Ármann Guðmundsson.
Fimm stjórnarfundir voru haldnir á árinu, flestir í höfuðstöðvunum í Reykjavík, en einnig í tengslum við aðal- og haustfundi. Stjórnarmönnum og starfsfólki er þakkað fyrir góða og vinnusama fundi á starfsárinu.
II – Starfsemi félaganna
Fjörutíu og þrjú aðildarfélög Bandalagsins sendu inn styrkumsóknir fyrir alls 118 verkefni leikárið 2008-2009. Fullur styrkur reyndist vera 378.000 krónur. Ársritið okkar inniheldur síðan allar frekari upplýsingar um starfsemina. Ekki liggja fyrir tölur um umfang starfsins á þessu leikári en engin ástæða til að ætla annað en það sé svipað og verið hefur. Félögin í Bandalaginu eru nú sextíu og tvö.
III – Starfsáætlun
Á síðasta aðalfundi var að venju samþykkt starfsáætlun og mun ég fara yfir hana og geta þess hvernig unnið var að hverjum lið fyrir sig.
Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.
Fulltrúar skóla- og vefnefndar munu gera grein fyrir því sem lýtur að skólanum og Leiklistarvefnum, og rekstrarmál þjónustumiðstöðvarinnar koma best fram í ársreikningum sem framkvæmdastjóri skýrir síðar á dagskránni.
Reksturinn er óneitanlega með erfiðasta móti, enda voru framlög til þjónustumiðstöðvarinnar skorin rækilega niður. Þá er áframhaldandi óvissa með lyktir húsnæðismálanna illþolandi. Enn hefur endanlegt uppgjör við kaupanda húseignarinnar við Laugaveg ekki farið fram. Stjórn hefur sett í gang vinnu við að leita að hentugu húsnæði til kaups, og verður lausn á þessu ástandi að öllum líkindum forgangsverkefni um leið og leiklistarhátíðin í sumar verður afstaðin.
Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.
Þegar fjárlagafrumvarp síðasta árs leit dagsins ljós var það mikið áfall fyrir okkur áhugaleikhúsfólk. Vissulega áttum við von á niðurskurði en stærðargráðan var þannig að við það varð ekki unað, sérstaklega í samanburði við þá liði fjárlaga sem eðlilegast er að bera okkur saman við. Samkvæmt frumvarpinu skyldu framlög til leikfélaganna lækka úr 25,9 milljónum í 11,4 og til þjónustumiðstöðvarinnar úr  7,5 í 4.
Á kröftugum haustfundi að Öngulstöðum var smíðuð aðgerðaáætlun sem snerist um maður-á-mann nálgun á meðlimi fjárlaganefndar, þar sem þeir sem þekktu til þeirra einstaklinga höfðu samband við þá með röksemdir okkar að vopni. Þessi taktík dugði til þess að framlög til félaganna hækkuðu í 20 milljónir, en framlög til þjónustumiðstöðvarinnar voru eftir sem áður fjórar.
Framkvæmdastjóri og formaður hafa óskað eftir viðtali við menntamálaráðherra sem verður fyrsta skrefið í baráttu fyrir betri útkomu á næstu fjárlögum. Reynsluna frá Öngulstöðum munum við að sjálfsögðu nýta, og ljóst að þessi glíma verður löng og ströng.
Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.
Þetta ágæta samstarf gengur sinn vanagang. Freyvangsleikhúsið var fulltrúi okkar á fjölum Þjóðleikhússins 2009 með söngleikinn Vínland og í kvöld fáum við að vita hver verður þar í vor.
Halda áfram undirbúningi NEATA-leiklistarhátíðar á Akureyri í ágúst 2010.
Í vetur var loksins hægt að taka endanlega ákvörðun um að halda hátíðina þegar styrkur til þess fékkst frá Nordisk Kulturfond. Í framhaldinu hefur vinna við undirbúninginn farið á flug og mun formaður framkvæmdanefndarinnar gera grein fyrir stöðu þeirra mála. Við gerum ráð fyrir að nýta hluta af þessum fundi til að ræða málefni hátíðarinnar og koma okkur í hátíðarskap. Já, og kannski til að biðja þess að Katla byrji ekki að gjósa fyrr en í fyrsta lagi í september.
Halda Íslensk-Færeyska stuttverkahátíð í Reykjavík haustið 2009.
Stuttverkaformið varð að útflutningsgrein á árinu, en Færeyingar hafa tekið það upp á arma sína og Norðmenn fylgjast spenntir með á hliðarlínunni. Hópur færeyskra áhugaleikara mættu í Félagsheimili Seltjarnarness 10. október og léku með okkur hinum. Útkoman var stórskemmtileg og þegar er hafinn undirbúningur að þeirri næstu sem verður í Færeyjum og að öllum líkindum með norskri þátttöku. Margt-smátt nefndin mun skila skýrslu um þennan viðburð síðar á fundinum.

Halda haustfund haustið 2009 helgaðan leiklistarhátíðinni á Akureyri.
Fundurinn var haldinn að Öngulstöðum hér í Eyjafirði í nóvember og tókst afbragðs vel. Ég er búinn að minnast á framúrskarandi meðferð hans á fjárlagamálum, en að öðru leyti snerist hann að mestu um leiklistarhátíðina í sumar, þó ekki væri búið að ganga frá fjármögnun hennar þegar þar kom sögu.
Þá fékk fundurinn í heimsókn þær Kolbrúnu Halldórsdóttur og Steinunni Knútsdóttur sem kynntu bækling sem leikstjórafélagið hefur unnið og er ætlað að hjálpa til við samskipti leikfélaga og leikstjóra. Þetta er frábært framtak hjá félaginu, þrátt fyrir að þar á bæ sé enn gengið út frá þeim skilningi að í gildi sé samningssamband Bandalagsins og leikstjórafélagsins, og þess sjái stað í bæklingnum. Það verður ekki of oft ítrekað að það er okkar skilningur að leikstjórafélaginu sé óheimilt að gefa út verðskrá og vísa í uppreiknaðan gamlan samning.
Fyrir utan þetta ágreiningsmál er bæklingur leikstjóranna framúrskarandi og mun áreiðanlega hjálpa óvönum félagastjórnum samskipti og samvinnu við leikstjóra og eins að tryggja betri vinnubrögð leikstjóra sem til okkar ráðast.
Unnið verði áfram að því að koma gagnrýnisskrifum í farveg og finna útfærslu á framkvæmdinni.
Leikfélögin á stór-höfuðborgarsvæðinu tóku sig saman og útfærðu eina leið til að tryggja umfjöllun á leiklistarvefnum sem hefur gengið nokkuð vel. Hörður Sigurðarson mun segja frá tilrauninni hér á fundinum, en í ráði er að hittast með haustinu, meta árangurinn og ákveða með framhaldið. Það er rétt að taka fram að það er auðvitað ekkert því til fyrirstöðu að önnur landsvæði myndi með sér hliðstæð samlög og styðjist við reynslu suðsvesturhornsins, eða finni upp eitthvað alveg nýtt módel.
Þessu tengt þá héldu undirritaður og Hrund Ólafsdóttir námskeið í gagnrýniskrifum í Þjónustumiðstöðinni í september. Í nóvember heimsóttu síðan við ritarinn Ármann Leikfélag Sauðárkróks og héldum erindi um starfsemi Bandalagsins og leiklistargagnrýni fyrir viðstadda Sauðkrækinga auk fulltrúa frá Leikfélagi Siglufjarðar.
Haldið verði áfram að kanna grundvöll samstarfs BÍL við Þjóðleikhúsið um búningaleigu, en einnig verði horft til samstarf við Borgarleikhúsið og Ríkissjónvarpið í þessum efnum.
Það er skemmst frá því að segja að nánari athuganir á þessu máli benda ekki til að neinn raunhæfur grundvöllur sé fyrir slíku samstarfi.
Bandalagið útfæri til eins árs tilraunaverkefni sem snúi að því að efla húsnæði BÍL enn frekar sem miðstöð leiklistar.
Ekki varð mikið úr þessari verðugu hugmynd, þó svo það megi með góðum vilja fella gagnrýniskrifanámskeiðið hér undir. Ljóst er að næstu mánuði verður orka okkar helguð hátíðinni, og ekki er ólíklegt að með haustinu verðum við farin að huga að flutningi í annað húsnæði sem kannski og kannski ekki býður upp á svona notkun. Sjáum til.

Lýkur þar með yfirferð yfir starfsáætlun síðasta starfsárs.
IV – Erlent samstarf
Formaður og framkvæmdastjóri sátu ársfundi NEATA og IATA í Mónakó síðasta sumar. Á NEATA-fundinum var gott að finna fyrir eindregnum stuðningi við það að við héldum hátíðina, og nokkur landanna buðust til að standa alfarið straum af kostnaði við sína hópa. Það er því gleðilegt að af þessari hátíð getur orðið og magnað ef okkur tekst að gera hana jafn eftirminnilega og okkur dreymir um.
Þá sótti formaður og framkvæmdastjóri síðasta fund NAR í núverandi mynd í Kaupmannahöfn í haust. NAR hefur nú breytt um eðli og verður fyrst og fremst óformlegur menningarpólitískur vettvangur fyrir Norðurlöndin og hyggst halda fundi/málþing árlega um tiltekin efni. Fyrsta ráðstefnan af því tagi er nú í undirbúningi í Noregi.
Síðasta verkefni hins gamla NAR var að standa fyrir ritun og þýðingum á barnaleikritum í öllum löndunum. Hvert land lagði fram eitt leikrit sem síðan voru þýdd á öll hin málin og standa áhugasömum hópum til boða höfundargjaldalaust í tvö ár. Framlag Íslands var verkið Uppreisn Æru eftir Ármann Guðmundsson sem Hulda B. Hákonardóttir þýddi á dönsku og flest hinna landanna nýttu síðan þá þýðingu. Hulda þýddi einnig hin norrænu verkin. Það kennir ýmissa grasa í þessum potti og ástæða til að hvetja alla sem stunda leiklist með börnum að kynna sér verkin og nýta sér þetta góða boð.
V – Lokaorð
Erfiðu starfsári í sögu Bandalagsins er lokið og ekki er endilega útlit fyrir að það næsta verði ýkja auðvelt. En það verður líka spennandi og ber þar hátíðina hæst. Og það sem ég hef séð af uppfærslum félaganna í vetur segir mér að kjarninn í starfseminni er að minnsta kosti jafn magnaður og hann hefur löngum verið. Sköpunarkrafturinn og eldmóðurinn – þörfin til að miðla, snerta, hreyfa við, læra, eflast og þroskast. Áfram við.

Reykjavík, 29. apríl 2010
Þorgeir Tryggvason

7. Framkvæmdastjóri leggur fram endurskoðaða reikninga síðasta árs og skýrir þá.
Vilborg Valgarðsdóttir framkvæmdastjóri lagði fram ársreikninga Bandalagsins.
Tap á rekstri var 2,4 milljónir; rikisstyrkurinn lækkaði um 1 milljón milli ára og ekki fengust áætlaðir vextir af söluverði Laugavegs 96 en innlánsvextir hafa lækkað um u.þ.b. 10% frá miðju sumri 2008 þegar ákvörðun um að selja var tekin. Enn eru útistandandi tæpar 10 milljónir af söluverðinu. Húsaleigan að Suðurlandsbraut 16 hefur einnig hækkað um 50 þúsund á mánuði vegna vísitölutengingar frá miðjum ágúst 2008. Ljóst er að búast má við amk. helmingi hærri taprekstrartölu í árslok 2010 ef ekki verður gripið til einhverra ráðstafana og/eða hækkun fengin á ríkisstyrkinn.
8. Umræður um skýrslu stjórnar og afgreiðsla reikninga.
Umræður um stöðu húsnæðismála og niðurstaðan sú að lítið sé hægt að gera nema sjá til hvernig þau mál þróast. Vilborg sagði það ljóst að ekki væri hægt að ráðast í kaup á húsnæði á meðan við vissum ekki hvort við fengjum borgaða lokagreiðslu frá kaupanda Laugavegs 96 sem greiða á í september.
Reikningar samþykktir með öllum greiddum atkvæðum.
9. Skýrslur nefnda og umræður um þær.
a. Hörður Sigurðarson flutti skýrslu vefnefndar
Leiklistarvefurinn – Skýrsla vefnefndar 2010
Lögð fram á aðalfundi BÍL í Sveinbjarnargerði 1.-2. maí 2010
Leiklistarvefurinn var rekinn með venjubundnum hætti á því leikári sem nú er að ljúka enda er vinnan við vefinn löngu komin í fastar skorður. Starfsmenn Þjónustumiðstöðvar, þau Vilborg og Ármann sjá um daglegan rekstur sem nýst aðallega um að setja innsent fréttaefni í búning og setja á vefinn en einnig er drjúgur hluti efnisins upplýsingar frá Þjónustumiðstöð til aðildarfélaganna og annarra sem láta sig leiklist varða. Viðhald og ýmis tæknileg atriði eru að jafnaði á hendi Lénsherra sem er í reglulegu sambandi við starfsmenn Þjónustumiðstöðvar vegna ýmissa mála.
Fyrir rúmu ári að settum við inn viðbætur við vefumsjónarkerfið til að hægt væri á einfaldan máta að senda út fréttabréf á skilgreinda hópa. Í rúmt ár hefur því nú á hverjum föstudegi verið sent út fréttabréf með fréttum liðinnar viku. Þeir sem áhuga hafa á að fá þetta fréttabréf geta skráð sig á lista á Leiklistarvefnum. Það er von mín að umrædd fréttabréfsviðbót verði nýtt enn betur þannig að fjöldasendingar pósts frá Þjónustumiðstöð fari meira og minna fram í gegnum vefinn.
Fyrr í vetur voru einnig gerðar nokkrar breytingar á vefnum, m.a. á útliti hans en þær voru ekki stórvægilegar og óvíst hvort fólk almennt tók eftir þeim. Þær voru þó mjög til bóta þykir okkur sem vinnum við vefinn. Þá var gagnagrunnurinn okkar sem við notum til að halda utan um leikritasafnið uppfærður og endurbættur. Þær breytingar voru fyrst og fremst til að bæta skráningu og auðvelda leit í safninu. Einnig má nefna að nú er mögulegt að setja inn umsagnir um leikrit í gegnum vefinn sem veitir ýmsa möguleika á að bæta skráningu og uppfæra upplýsingar um einstök handrit í safninu. Ýmislegt hefur sem sé verið gert en líkt og með aðrar breytingar er ekki víst að margir hafi tekið eftir þeim.
Alltaf reytist eitthvað inn af auglýsingum á vefinn og eru þar fremstir í flokki breskir leiklistarskólar að finna sér íslenska nemendur. Það er gamall söngur að ýmsir möguleikar eru á aukningu auglýsingatekna og er hann hér með endurtekinn.
Leiklistarvefurinn verður 10 ára á næsta ári. Vefurinn er tæki sem nýtist Bandalaginu og áhugahreyfingunni til ýmissa hluta. Vefurinn er orðinn það fastur liður í starfi Bandalagsins og Þjónustumiðstöðvarinnar að undirritaður hefur spurt sjálfan sig hvort ástæða sé til þess lengur að flytja sérstaka skýrslu um hann á aðalfundum, ekki frekar en við flytjum skýrslu um símann eða ljósritunarvélina. Við smá umhugsun er þetta þó ekki góð samlíking.
Leiklistarvefurinn er fréttamiðill sem á síðasta ári flutti á þriðja hundrað almennar leiklistarfréttir auk greina um leiklist, umfjöllunar um leiksýningar og annars efnis af skyldu tagi. Leiklistarvefurinn er upplýsingabanki fyrir leiklistaráhugafólk á Íslandi sem m.a. geymir upplýsingar um öll áhugaleikfélög landsins, veitir leitaraðgang að stærsta leikritasafni landsins, birtir lista yfir leikstjóra sem bjóða sig fram til starfa hjá leikfélögum og veitir upplýsingar um leiklistarmenntun af ýmsu tagi svo eitthvað sé nefnt.
Leiklistarvefurinn er rekinn af Bandalagi íslenskra leikfélaga. Leiklistarvefurinn er eitt af sameiningartáknum íslenskrar áhugaleiklistar. Leiklistarvefurinn er fjölbreyttasti og öflugasti leiklistarvefur á landinu.
Leiklistarvefurinn er tákn um þann kraft sem býr í samtökum áhugaleikfélaga á landinu.
Svo lýkur skýrslu vefnefndar.

Fyrir hönd vefnefndar,
Hörður Sigurðarson

b. Hrefna Friðriksdóttir flutti skýrslu skólanefndar
Skýrsla skólanefndar á aðalfundi BÍL 1.-2. maí 2010.
Engar breytingar urðu á skipan skólanefndar á árinu, hana skipuðu auk mín Dýrleif Jónsdóttir, Gunnhildur Sigurðardóttir, Herdís Þorgeirsdóttir og Sigríður Karlsdóttir.
Leiklistarskólinn var settur í 13. sinn þann 13. júní 2009 að Húsabakka í Svarfaðardal. Skólann sóttu alls 38 nemandi en þar voru í boði 3 námskeið:
1. Byrjendanámskeið í söng- og raddbeitingu út frá Complete Vocal Technique kerfinu. Þarna kenndi hjá okkur í fyrsta skipti Þórhildur Örvarsdóttir.
2. Sérnámskeið fyrir leikara, kennari Rúnar Guðbrandsson, þetta námskeið var með svipuðu sniði og Rúnar bauð upp á árið 2001.
3. Framhaldsnámskeið í leikritun, kennari Bjarni Jónsson, en þarna var um að ræða framhald af námskeiði sem Bjarni var með sumarið áður.
Niðurstöður viðhorfskönnunar benti til mikillar ánægju með skólastarfið.
Ráðgert var að halda metnaðarfullt sérnámskeið um samþættingu tækni í leikhúsinu með Agli Ingibergssyni í lok maí/byrjun júní 2009 en það féll því miður niður vegna dræmrar þátttöku.
Eins og lofað var í fyrra þá var boðið upp á leikgerva- og búninganámskeið sl. vetur, nánar tiltekið í október 2009. Kennarar voru Ásta Hafþórsdóttir og Alda Sigurðardóttir og var námskeiðið með svipuðu sniði og þær hafa haldið áður á vegum skólans. Þátttakendur voru því miður ekki nema sjö talsins en allir sem einn lýstu þeir mikilli ánægju með námskeiðið.
Árið 2010 markar tímamót í sögu Leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga. Frá upphafi hefur skólinn átt sitt aðalaðsetur að Húsabakkaskóla í Svarfaðardal en núna á þessu fjórtánda starfsári verður skólinn fluttur um set og settur að Húnavallaskóla í Húnavatnshreppi. Eins og kunnugt er þá hefur það lengi verið markmið Bandalagsins að reyna að tryggja betur aðgengi fatlaðra að starfsemi skólans. Í fyrra sendi skólanefnd öllum sveitarfélögum landsins bréf með fyrirspurn um vænlegt húsnæði. Farið var í gegnum öll þau svör sem bárust, valið að heimsækja Húnavallaskóla og skemmst frá að segja að við teljum okkur hafa fundið húsnæði sem við viljum láta á reyna. Aðgengi fyrir fatlaða er ekki eins og allra best verður á kosið en við leyfum okkur að halda því fram að aðgengi sé til staðar. Þess má geta að skólanefndin bauð formanni Halaleikhópsins á fund eftir að ákvörðun hafði verið tekin um flutning skólans og auk þess mættu skólastjórar á sérstakan félagsfund hjá Halaleikhópnum til að kynna aðstöðuna og námskeiðin í sumar.
Að Húnavöllum verður rúm fyrir ívið fleiri nemendur en var að Húsabakkaskóla. Við hlökkum til að láta á það reyna hvernig húsnæðið mun nýtast og að skoða möguleika á að enn öflugara og fjölbreyttara skólastarfi í framtíðinni.
Leiklistarskólinn verður settur að Húnavallaskóla þann 12. júní nk. Að þessu sinni verða þrjú námskeið í boði og sem fyrr hefur skólanefnd lagt sig fram um að fá færustu kennara sem völ er á. Sumarið 2010 verður lögð áhersla á byrjendanámskeið. Ágústa Skúladóttir mun kenna Leiklist I og leiða nýliðana inn í undraveröld leiklistarinnar eins og henni einni er lagið. Ágústa hefur kennt fjölbreytt námskeið við skólann en þetta er í annað sinn sem hún kennir Leiklist I. Þá er það fagnaðarefni að fá Sigrúnu Valbergsdóttur til liðs við okkur enn og aftur. Þetta verður í fjórða sinn sem Sigrún kennir Leikstjórn I, sem segir allt sem segja þarf um hinn trausta og staðgóða grunn sem námskeiðin hennar eru fyrir leikstjóraefni. Að lokum er okkur ánægjuefni að bjóða Þórhildi Örvarsdóttur velkomna aftur með framhald af hinu vinsæla námskeiði frá því í fyrra um röddina í leikhúsinu út frá Complete Vocal Technique kerfinu.
Í sumar verður einnig bryddað upp á þeirri skemmtilegu nýbreytni að bjóða höfundum að dvelja á staðnum við skapandi skrif. Ekki er um að ræða námskeið eða leiðsögn heldur gefst höfundum þarna fyrst og fremst tækifæri til að vinna í friði en um leið að njóta samvista við nemendur skólans og taka þátt í skólastarfi utan hefðbundinna kennslustunda.
Skráðir þátttakendur eru 49, fullt er á byrjendanámskeiðin en laus pláss á framhaldsnámskeiðið um röddina í leikhúsinu.
Að lokum – Húsabakkaskóli hefur verið hreiður og hjarta skólastarfsins frá upphafi og við tökum með okkur ríkulegar minningar um fallegt umhverfi, góðan anda, vináttu og stuðning. Um leið er það tröllatrú okkar að hinn eini sanni skólaandi fylgi okkur hvert sem við förum og að á nýjum stað finnum við hinn sama ógleymanlega kraft, sköpun og gleði.
Ég þakka samnefndarkonum mínum vel unnin störf.

Hrefna Friðriksdóttir

c. Ármann Guðmundsson flutti skýrslu Handritasafnsnefndar
Skýrsla Handritasafnsnefndar Bandalags íslenskra leikfélaga
flutt á aðalfundi í Sveinbjarnargerði, Eyjafirði 1. maí 2010
Handritasafnsnefnd skipa Ármann Guðmundson, Hrefna Friðriksdóttir og Örn Alexandersson.
Nefndin fundaði einungis einu sinni ár leikárinu en vinnur nú að mótun reglna Handritasafnins og hugmyndum um næstu skref til að efla safnið og auka aðföng þess. Í ljósi efnahagsástands hafa allar hugmyndir sem þýða mundu einhver fjárútlát eða kostnað fyrir Bandalagið verið settar í salt.
Af vinnu við skönnun safnsins er það hins vegar það að frétta að nú hafa um 2.400 titlar (af tæplega 3.000) verið skannaðir inn og einungis er eftir að skanna inn handrit sem eru á einhvern hátt erfið í innskönnun eða eru einungis til á bókum. Reiknað er með að skönnun „erfiðra“ handrita ljúki á þessu ári.

f.h. Handritasafnsnefndar,
Ármann Guðmundsson

d. Ármann Guðmundsson flutti skýrslu Margt smátt nefndar
Skýrsla framkvæmdanefndar Stuttverkahátíðarinnar Margt smátt 2010
Nefndina skipa þau Hjalti Stefán Kristjánsson, Hrund Ólafsdóttir og Þorgeir Tryggvason, ásamt undirrituðum.
Við skildum við fimmtu Margt smátt stuttverkahátíðina fyrir ári síðan þar sem henni hafði verið frestað frá haustinu 2008 til vorsins 2009 vegna erfiðleika við að finna tíma sem hentaði bæði okkur og Borgarleikhúsinu. Ætlunin var þá að halda hátíðina 23. maí en áhugi á þátttöku reyndist þegar upp var staðið það lítill að ákveðið var að halda hana að hausti og þá með gestasýningum frá Færeyjum eins hugmyndir höfðu verið uppi um.
Ljóst var þá að áhugi af hálfu Borgarleikhúsmanna hafði enn dvínað og þegar til kom reyndist ekki mögulegt að finna tíma í Borgarleikhúsinu sem hentaði okkur og því var leitað til Leiklistarfélags Seltjarnarness með að fá að halda hátíðina í Félagsheimili Seltjarnarness. Þessari málaleitan tók leikfélagið opnum örmum og stóð með okkur að hátíðinni með miklum sóma.
Fyrir valinu varð dagsetningin 10. október. Framkvæmdanefnd ákvað að hafa hátíðina með mjög svipuðu sniði og þá síðustu, sýningar hæfust snemma dags og þeim lyki síðdegis, síðan yrði hátíðarkvöldverður um kvöldið.
Meginfélag áhugaleikara, „Bandalag“ Færeyinga, sendi fimm leikþætti sem allir voru nýskrifaðir en auk þeirra tóku sjö íslensk félög þátt í hátíðinni, Hugleikur með 6 verk, Leikfélag Hafnarfjarðar með 3 verk og Halaleikhópurinn, Leikfélag Kópavogs, Leikfélag Mosfellssveitar og Leikfélag Selfoss með eitt verk hvert félag, auk þess sem heimamenn brutu upp hátíðina með örstuttum sketsum inn á milli sýninga. Sigrún Valbergsdóttir fjallaði svo um sýningarnar í lok hátíðar.
Auk færeysku gestanna kom formaður norska áhugleikhússambandsins Svein J. Sveinson á hátíðina. Hann lýsti yfir mikilli ánægju með upplifunina og áhuga á að koma af stað einhvers konar sambærilegu starfi í Noregi og þá jafnvel með samstarf við okkur í huga. Færeyingar bættu þó um betur því formaður MÁF, Hilmar Joensen boðaði til stuttverkahátíðar í Færeyjum í maí 2011 og bauð Bandalaginu að taka þátt í henni.
Ekki hefur verið ákveðið hvar né hvenær næsta Margt smátt hátíð verður haldin. Það má þó reikna með að samstarfi við Borgarleikhúsið sé úr sögunni þar sem áhugi af þeirra hálfu virðist einfaldlega ekki vera fyrir hendi. Það er þó ekkert sem bendir til annars en að stuttverkahátíðir geti lifað góðu lífi þrátt fyrir það.

F.h. Margt smátt nefndar,
Ármann Guðmundsson.

e. Vilborg Valgarðsdóttir, Þráinn Sigvaldason og Hörður Sigurðarson fluttu skýrslu framkvæmdanefndar NEATA-hátíðar
Alþjóðleg leiklistarhátíð NEATA á Akureyri 10.–15. ágúst 2010
Skýrsla framkvæmdanefndar á aðalfundi Bandalagsins 1. maí 2010
Þó nokkur hópur Bandalagsfólks sótti þriðju alþjóðlegu leiklistarhátíð NEATA í Viljandi í Eistlandi í ágúst 2004. Á ársfundi NEATA, sem haldinn var í tengslum við hátíðina, bauð íslenska sendinefndin til NEATA-hátíðar á Íslandi árið 2010. Bæði vegna þess að einhvern tímann varð að koma að okkur og eins vegna þess að þetta er sextugasta afmælisár Bandalagsins. Dagsetningin var þá lengst í fjarskanum en núna eru aðeins rúmir þrír mánuðir í hátíðina.
Undirbúningsnefnd hefur verið að störfum lengi. Í henni voru þau Lárus Vilhjálmsson, Guðrún Halla Jónsdóttir, Hörður Sigurðarson og Ólöf Þórðardóttir. Sú nefnd lauk störfum þegar kom í ljós að við fengjum styrk frá Norræna menningarsjóðnum og af hátíðinni yrði. Þá þurfti að skipa framkvæmdanefnd. Það var gert á stjórnarfundi í janúar og hana skipa Þráinn Sigvaldason, Hörður Sigurðarson, Ólöf Þórðardóttir og undirrituð.
Búið er að hnýta flesta enda varðandi umgjörðina, sýningar, leiksmiðjur, gagnrýni, hátíðarklúbb, upplýsingamiðstöð, gististaði, mat og þess háttar. Íslensku sýningarnar verða þrjár. Valnefnd skipuð þeim Sigrúnu Valbergsdóttur, Gunnari Birni Guðmundssyni og Huld Óskarsdóttur völdu þær úr þeim sjö sýningum sem sóttu um en þær voru frá 6 leikfélögum. Félögin sem verða með sýningar á hátíðinni eru Leikfélag Kópavogs, Leikfélag Selfoss og Freyvangsleikhúsið.
Allar sýningar og aðrir viðburðir hátíðarinnar verða í Menningarhúsinu Hofi. Þar verður einnig starfrækt mötuneyti og þar verður upplýsingamiðstöðin sem Sigríður Lára Sigurjónsdóttir mun stýra. Gististaðir á vegum hátíðarinnar eru eftirtaldir: Gistiheimili Akureyrar að Skipagötu 4, Hafnarstræti 104 og 108. Gistihúsið Hrafninn, Hótel Edda, Gistiheimilið Súlur og Gistiheimilið Gula villan.
Hátíðin verður sett þriðjudagskvöldið 10. ágúst kl. 20.00 með opnunarathöfn í stóra salnum í Hofi. Leikstjóri athafnarinnar verður Rúnar Guðbrandsson og vonast er til að forseti Íslands, sem er verndari hátíðarinnar, verði viðstaddur. Formaður Bandalagsins mun setja hátíðina formlega. Að öðru leiti er opnunarathöfnin enn óskipulögð. Við gerum ráð fyrir að athöfnin standi í ca. 30-45 mínútur, þá verði gert stutt hlé og fyrsta sýning hátíðarinnar byrji kl. 21.00. Það er Leikfélag Kópavogs sem ríður á vaðið.
Miðvikdagurinn 11. ágúst hefst á stjórnarfundi NEATA. Eftir hádegið og fram á kvöldið verða næstu 4 sýningarnar, Noregur og Rúmenar í litla salnum og Litháar og Svíþjóð í stóra salnum.
Dagskrá fimmtudagsins 12. ágúst hefst kl. 9.00 en þá byrja þrjú atriði samtímis. Það eru tvær leiksmiðjur sem þau Ágústa Skúladóttir og Rúnar Guðbrandsson stýra til hádegis og gagnrýni á 5 fyrstu sýningar hátíðarinnar verður einnig frá kl. 9.00 til kl. 12 á hádegi. Utanumhald leiksmiðja hefur Ólöf Þórðardóttir. Gagnrýnendur hátíðarinnar verða þau Þorgeir Tryggvason, formaður Bandalagsins og fyrrum leiklistargagnrýnandi Morgunblaðsins, og dr. Danute Vaigauskaite, formaður Litháíska Bandalagsins. Einnig er fyrirhugað að hafa ávallt einn gestagagnrýnanda út röðum áhorfenda. Hörður Sigurðarson sér um skipulagningu gagnrýninnar.
Eftir hádegið verða svo næstu 4 sýningar hátíðarinnar, Frakkland og Finnland í stóra salnum og Selfoss og Lettland í litla salnum.
Föstudagurinn 13. byrjar eins og fimmtudagurinn en þá verða báðar leiksmiðjurnar endurteknar og gagnrýni flutt á sýningar fimmtudagsins. Eftir hádegið mun Danmörk ríða á vaðið með útisýningu sem hefjast mun í Hofi og færast síðan í göngugötuna og til baka. Þar munu svo síðustu sýningar hátíðarinnar fara fram, Færeyjar sýna í litla salnum og Freyvangur um kvöldið í stóra salnum.
Á laugardagsmorguninn hefst dagskráin kl. 9.00 með gagnrýni á sýningar föstudagsins, kl. 9.30 hefst svo fyrirlestur með sýnikennslu. Það er brúðuleikhúsmaðurinn kunni Bernd Ogrodnik sem upplýsir okkur um leyndardóma brúðugerðar og brúðustjórnunar. Eftir hádegisverðinn verður svo farið með alla þátttakendur hátíðarinnar í skoðunarferð með leiðsögn að Mývatni. Það er formaður Freyvangsleikhússins, Halldór Sigurgeirsson, sem skipuleggur ferðina. Á laugardagskvöldið verður svo lokahófið þar sem við borðum veislumat og skemmtum okkur saman, þar verður hátíðinni að lokum formlega slitið. Þráinn Sigvaldason mun hafa umsjón með hófinu.
Hátíkðarklúbbur verður starfræktur í Hofi frá þriðjudagskvöldi til föstudagskvölds. Umsjónarmaður verður Ingólfur Þórsson.
Brottför er svo á sunnudaginn, þann 15. ágúst.
Byrjað er að skrá sjálfboðaliða til starfa á hátíðinni og hafa 16 manns boðið fram aðstoð sína auk stjórnarmanna, samtals 22 með mér og Ármanni. En okkur vantar fleira fólk, sérstaklega í hlutverk leiðsögumanna leikhópanna. Reyndar sé ég nú ekki að allir hóparnir þurfi leiðsögumenn allan tímann þar sem vegalengdir eru stuttar og allt fer fram á sama stað en flestir þurfa að láta taka á móti sér á flugvellinum á Akureyri og koma sér á gististað og fylgja sér fyrstu sporin meðan verið er að átta sig á umhverfinu. Og hóparnir þurfa aðstoð a.m.k. þar til sýningum þeirra lýkur með eitt og annað sem að sýningunum snýr.
Eins vantar okkur fólk til að taka þátt í opnunarhátíðinni. Ég hef nefnt það við formann Leikfélags Hörgdæla og hann ætlar að athuga hvort einhverjir sinna félagsmanna vilja ekki vera með. Þetta þurfa helst að vera heimamenn í Eyjafirði vegna þess að leikstjórinn mun æfa þetta helgina fyrir hátíð eða laugardaginn 7. og sunnudaginn 8. ágúst.
Þátttaka á hátíðinni er annars mjög góð, samtals eru 210 þátttakendur skráðir til leiks. Í leikhópunum eru 167 manns, þar af 99 útlendingar, aðrir erlendir gestir eru 21 og restin eru starfsmenn hátíðarinnar.
Stjórn Bandalagsins ákvað á fundi sínum í mars að bjóða Akureyringum frítt inn á sýningarnar í stóra salnum í Hofi, en reikna má með miklum áhuga heimamanna á því að koma á fyrstu viðburðina sem sýndir verða í þessu nýja menningarhúsi. Ég hef lagt til við Menningarmálafulltrúa Akureyrarbæjar að í staðinn fáum við kannski frá bænum einhverja sérvalda og áletraða gripi sem viðurkenningar til leikhópanna á hátíðinni.
Með heilmiklum niðurskurði er búið að koma kostnaði við hátíðina niður í ca. 1/3 af fyrstu fjárhagsáætlun en hún var uppá rúmar 30 milljónir. Það er svo sem ýmislegt óákveðið ennþá en stærstu póstarnir eru og hafa alla tíð verið gisting og matur en það er regla þegar þessar hátíðir eru haldnar að hátíðarhaldarar bjóða leikhópunum sem sýna frían mat og gistingu fyrir 10 manna hópa.
Hátíðin fær tvo stóra styrki, frá Norræna menningarsjóðnum fáum við 250.000 kr. danskar (sem eru nú uþb. 5,750.000 íslenskar) og frá Menntamálaráðuneytinu fáum við 2 milljónir kr. Þráinn ætlar hér á eftir að segja stuttlega frá annarri fjáröflun og Hörður segir frá kynningu og vefmálum.

Gert í Reykjavík 26. apríl 2010,
Vilborg Valgarðsdóttir

Þráinn gerði grein fyrir öflun fjárstyrkja til hátíðarinnar en þrátt fyrir talsverða vinnu við að sækja um styrki í hina ýmsu menningarsjóði, sveitarfélaga og fyrirtækja, tókst ekki að fá svo mikið sem krónu í styrk, ef frá er talið það sem Vilborg greindi frá.
Hörður gerði fyrir grein fyrir þeim upplýsingum sem komnar eru inn á vef um NEATA-hátíðina. Þær eru alþjóðlegu eðli hátíðarinnar samkvæmt, að mestu á ensku.
Umræður um skýrslur nefnda
Theodór Ólafsson, Freyvangsleikhúsinu, spurði hvort umsjón með Margt smátt stuttverkahátíðin muni þá mögulega flakka á milli félaga, ef Borgarleikhúsið er úr sögunni.
F. Elli Friðjónsson, Leikfélagi Selfoss, lýsti yfir mikill ánægju með Margt smátt hátíðina og samstarfið við Færeyinga.
Ása Hildur Guðjónsdóttir, Halaleikhópnum, spurði um hvort upplýsingar um NEATA-hátíðina yrðu ekki settar á Leiklistarvefinn á íslensku og hvort upplýsingar um gistimöguleika yrðu þar aðgengilegar fyrir þá sem kæmu bara til að horfa á sýningar, en ekki taka beinan þátt hátíðinni.
María Guðmundsdóttir, Leikfélagi Mosfellssveitar, spurði hvort skilyrði hefði verið að vera búin að frumsýna verk sem boðin voru á NEATA-hátíðina. Hvort ekki hefði komið til greina að frumsýna verka á hátíðinni.
F. Elli spurði út í framkvæmd leiksmiðja.
Vilborg svaraði að þeir sem væru skráðir á hátíðina gengju fyrir á leiksmiðjur. Þeir kæmu til með að skrá sig í upplýsingamiðstöðinni. Hún svaraði Maríu því að til að valnefnd hefði forsendur til að meta gæði sýninga þyrfti að vera búið að frumsýna þær þegar umsóknar frestur rann út. Ásu Hildi svaraði hún að Bandalagið útvegaði ekki gistingu fyrir þá sem ekki taka beinan þátt í hátíðinni.
Hörður svaraði að upplýsingar á íslensku yrðu settar inn fljótlega. Eins með tengil á upplýsingar um leiksmiðjur.
Þorgeir sagði að hann teldi að kynning innan þátttakendahópanna væri mikilvægust, svo kynning innan hreyfingarinnar og loks kynning út á við. Hann sagðist vilja leggja áherslu á að leikhóparnir dreifðu góðri útlistun á söguþræði sýninganna til áhorfenda en ekki bara örstuttri lýsingu á innihaldi verskins.
Embla spurði hvers vegna ekki yrði selt inn á sýningar frekar en að bjóða fólki. Einnig hvernig matarmálum yrði háttað á hátíðinni.
Halldór sagði að fyrirtæki væru miklar frekar til í að styrkja hátíðina með matarframlagi en peningum. Hann hvatti menn til að nota sambönd sín til að útvega matvæli.
Vilborg svaraði Emblu um hvernig matarmálum yrði háttað en tveir kokkar á Akureyri hafa tekið að sér að reka mötuneyti í Hofi fyrir þátttakendur. Hugsunin á bakvið að bjóða uppá sýningar ókeypis væri að fá fólk á sýningar, miðasala á hátíðum hingað til hafi verið það lítil að hún breytir engu fjárhagslega. Hins vegar telji nefndin það gott að fá velvilja frá bæjarbúum og bæjaryfirvöldum með að bjóða þeim á sýningar auk þess sem stóri salur Hofs taki um 500 manns og skemmtilegra sé að sýna fyrir fullum sal en hálfum.
10. Drög að starfsáætlun næsta árs kynnt og skipað í starfshópa.
Guðfinna Gunnarsdóttir lagði fram drög stjórnar að starfsáætlun fyrir leikárið 2010-2011. Skipt var í hópa og þeir hófu vinnu við starfsáætlun.
11. Kjörnefnd tilkynnir niðurstöður sínar og mælir með a.m.k. 1 aðila í hvert sæti sem kjósa skal í.
Embla gerði grein fyrir stöðu framboðsmála.
12. Lagabreytingar.
Engar lagabreytingar lágu fyrir fundinum.
13. Tillögur lagðar fyrir fundinn.
Vilborg lagði eftirfarandi tillögu fyrir fundinn:
Ég legg til að 2 milljónir kr. af verkefnastyrk aðildarfélaganna verði látnar ganga til reksturs þjónustumiðstöðvarinnar.
Vilborg Valgarðsdóttir
Fundargestir spurðu hvort þetta mundi duga til að stoppa í fjárlagagatið. Vilborg svaraði að þetta mundi hvergi nærri duga og við myndum halda áfram að borga mismuninn með peningunum sem við fengum fyrir húsnæðið við Laugarveg. Við ættum þó í það minnsta þessa peninga og værum ekki á hausnum.
Þorgeir sagði þrátt fyrir að við vissum lítið um framtíðina yrðum við að líta á þetta ár sem undantekningu, bæði út af stöðunni í húsnæðismálum og vegna þess að við teljum að niðurskurðurinn á styrknum til Þjónustumiðstöðvarinnar sé vanþekkingu á starfsemi okkar að kenna og að þar þyrfti að ráða bót á. Hann benti á að ef við hefðum ekki selt Laugarveginn værum við í óseljanlegu húsnæði (að vísu skuldlausu), með stórskert framlög en enga sjóði.
María Guðmundsdóttir og Ólöf Þórðardóttir, Leikfélagi Mosfellssveitar, lögðu til að þessi tillaga yrði rædd í samhengi við liðin Árgjald Bandalagsins. Þær lögðu, ásamt öðrum fulltrúum Leikfélags Mosfellssveitar, jafnframt fram tillögu um að árgjaldið yrði hækkað um 10 þúsund krónur til viðbótar við þessar 2 milljónir.
Bernharð fór fram að þetta yrði afgreitt í sitthvoru lagi og féllust þær á það.
Tillaga Vilborgar um að taka 2 milljónir af ríkisstyrk til reksturs Þjónustumiðstöðvar Bandalagsins samþykkt einróma.
Þröstur Guðnason, Leikfélagi Rangæinga, spurði hvort stjórn hefði ætlað að leggja til óbreytt árgjald. Þorgeir sagði svo vera. Hörður bætti því við að stjórn hefði rætt þetta en hún ekki talið að það hlyti hljómgrunn hjá félögunum.
Gerður Sigurðardóttir  að sagði þótt 10-20 þúsund kr. skipti sum leikfélög ekki höfuðmáli, væru til félög sem munaði talsvert um þessa upphæð. Bandalagið hefði í það minnsta varasjóði að ganga í, ólíkt sumum leikfélögum.
F. Elli sagðist styðja tillöguna þar sem hann teldi það mjög mikilvægt að halda fullri þjónustu skrifstofunnar.
Nokkrar umræður um þetta, fólk taldi ýmis rök með og á móti.
Tillaga um að hækka árgjald samþykkt sem hér segir:
Lagt er til að árgjöld aðildarfélaga fyrir leikárið 2010-2011 verði kr. 50.000.
Félög sem setja upp tvær styrkhæfar sýningar á leikárinu borgi eitt og hálft gjald eða 75.000 og félög sem setja upp þrjár sýningar eða fleiri borgi tvöfalt gjald eða kr. 100.000.
Félög sem setja ekki upp styrkhæfa sýningu á leikárinu borgi hálft árgjald eða kr. 25.000.

14. Starfsáætlun afgreidd.
Forsvarsmenn hópa kynntu niðurstöður hópvinnu.
HÓPUR 1
Hópinn skipa:
Hulda Gunnarsdóttir, Leikfélagi Ölfuss
Eva Björg Harðardóttir, Leikfélagi Mosfellssveitar
Hlynur Wiium Finnbogason, Leikfélagi Blönduóss
Sólveig Heiðrún Stefánsdóttir, Leikfélag Fljótsdalshéraðs
Dóra Ármannsdóttir, Leikfélagi Húsavíkur
Jón Benjamín Einarsson, Leikfélaginu Peðið
Íris Árný Magnúsdóttir, Leikfélagi Selfoss
Brynhildur Sveinsdóttir, Leikfélagi Mosfellssveitar
Elísabet Friðriksdóttir, Freyvangsleikhúsinu
Elísabet Friðriksdóttir kynnti afrakstur vinnu hóps 1
1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, leiklistarskóla, leiklistarvefsins og annar fastra liða í starfseminni.
Þjónustumiðstöðin
• Húsnæðið er stórt. Spurning um hvort hægt sé að skipta því meira niður og fá inn einhverja meðleigjendur. Hópurinn telur það samt frekar óraunhæfan kost.
• Hugmynd um að efla verslunina, gera hana sýnilegri fyrir almenning. Leita að húsnæði til dæmis við Laugarveg þannig að fólk gæti komið inn af götunni.
• Hópurinn telur að skynsamlegast sé að leita að hentugu leiguhúsnæði með sál.
• Hópurinn leggur til að skoðað verði víðara svæði en bara Reykjavík.
Leiklistarskólinn
• Leiklistarskólinn er í mjög góðum farvegi. Allt jákvætt um hann að segja.
• Nú þegar skólinn er kominn á nýjan stað mætti halda kynningarstarfsemi opinni. Kynna hann líka fyrir fólki sem aldrei hefur komið, til dæmis í framhaldsskólunum.
• Á vefnum mætti vera stór linkur með mynd um Leiklistarskólann, svipað og fyrir NEATA-leiklistarhátíðina.
Leiklistarvefurinn
• Hópurinn leggur það til að Bandalagið fari á facebook sem manneskja. Þannig komast upplýsingar hratt til vina. Býður upp á umræður sem yrðu kannski öflugri en umræðurnar á heimasíðunni.
Aðrir fastir liðir
• Hópurinn er hrifinn af þeirri hugmynd að láta stuttverkahátíðina Margt smátt rótera á milli leikfélaga, fara líka út á land.
• Hópurinn var að velta því fyrir sér hvernig fyrirkomulagið verður þegar búið verður að skanna inn öll leikrit. Munu leikfélögin áfram fá leikritin ljósrituð eða send á tölvutæku formi og hvað mun það þá kosta?
• Mikilvægt að halda inni haustfundum.
• Gaman væri samhliða haust- og aðalfundi að bjóða upp á námskeið, sýningar eða stuttverkahátíðir o.þ.h.
• Endurvekja óvissuferðir á aðalfundi, gera það að árvissum viðburði.  Það hristir hópinn svo vel saman.
2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.
• Spurning hvort leitað hafi verið styrkja úr menningarsjóðum innan EES.
• Er vilji fyrir því að hækka árgjöld, eða bjóða upp á frjáls framlög frá leikfélögunum þegar eitthvað sérstakt stendur til eins og NEATA-hátíðin núna í ár.
• Leita eftir fjárframlögum frá einstaklingum.
3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið um Athygliverðustu áhugaleiksýningu ársins.
• Já, að sjálfsögðu.
HÓPUR 2
Hópinn skipa:
Bernharð Arnarson, Leikfélagi Hörgdæla
Halldór Sigurgeirsson, Freyvangsleikhúsinu
Freydís Anna Arngrímsdóttir, Umf. Eflingu
Gunnar Freyr Árnason, Leikfélaginu Peðið
F. Elli Hafliðason, Leikfélagi Selfoss
Katrín Eiðsdóttir, Umf. Reykdæla
Þrúður Sigurðardóttir, Leikfélagi Ölfuss
Þráinn Sigvaldason, Hugleik
Þráinn Sigvaldason kynnti hugmyndir hóps 2
1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, leiklistarskóla, leiklistarvefsins og annar fastra liða í starfseminni.
Rekstur Þjónustumiðstöðvar
•  Það er okkar mat að best væri að ná góðum samningum við núverandi leigusala.
•  Það þarf að vera búið að kanna viðræðugrundvöll fyrir 15. ágúst.
•  Spurning um að finna minna húsnæði ef ekki nást samningar.
•  Fá ábendingar um húsnæði frá félagsmönnum.
•  Það er verið að vinna gott starf innan þjónustumiðstöðvarinnar.
•  Spurning um að bæta lagerinn aðeins.
Leiklistarskólinn
•  Við lýsum ánægju með nýja staðsetningu á skólanum þó eftirsjá verði af Húsabakka.
•  Spurning um að leikfélögin geti óskað eftir kynningu á skólanum til sín. Nýta eldri nemendur kannski?
•  Greinilegt að það er verið að gera rétt í námskeiðsstefnu skólans. Það sést best á aðsókninni.
•  Þyrfti að hlúa betur að tækninámskeiðum.
•  Er hægt að setja þau inn samhliða skólanum á Húnavöllum? Kannski á Blönduósi?
Leiklistarvefurinn
•  Allir í hópnum nota vefinn.
•  Er eitthvað búið breyta fídusum í handritavefnum? Virðist vera erfiðara að finna handrit.
•  Nauðsynlegt að hafa rétta tengiliði frá félögunum á vefnum. Gamlir tengiliðir vilja daga uppi.
•  Mikil ánægja með að fá vikulega fréttabréf.
•  Flottar og góðar upplýsingar um NEATA-hátíð. Þyrfti samt að hafa upplýsingar á íslensku.
•  Spurning um að setja inn atburðalýsingar leikritanna á NEATA-hátíðinni inn á vefinn.
Aðrir fastir liðir í starfseminni
•  Spurning um að hafa eitthvað félagsstarf í húsnæði Bandalagsins. Samlestur og þess háttar.
•  Hver er staðan á lestrarhesta verkefninu? Þarf að þrykkja því áfram þannig að hægt sé að hafa á vefnum um hvað leikritin eru.
2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.
•  Halda áfram að herja á fyrirtæki vegna NEATA-hátíðar.
•  Þarf að hnykkja á hugmyndinni um leikhúsrottuna. Er það mögulegt fyrir NEATA-hátíðina?
•  Halda áfram þrýstingi á opinbera aðila sem fór af stað eftir haustfund.
3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið um Athygliverðustu áhugaleiksýningu ársins.
•  Já.
•  Við höldum að það verði fleiri umsóknir í framtíðinni.
•  Þeir sem voru í hópnum og höfðu farið með sýningu í Þjóðleikhúsið lýstu ánægju með þjónustuna sem húsið veitti.
Sérverkefni
1. Halda NEATA- leiklistarhátíð á Akureyri 10. – 15. ágúst 2010.
•  NEATA-hátíðin er greinilega í góðum farvegi.
•  Þarf að halda áfram að hvetja fólk að koma og taka þátt.
•  Þrýsta á rekstrarfélagið Hof og Akureyrarbæ um að auglýsa þetta með okkur.
•  Við seljum ekki miða en ættum að selja rottuna við innganginn.
•  Dreifa kynningarbæklingi um Bandalagið á hátíðinni. Er hægt að vera með kynningarbás Bandalagsins á svæðinu?
•  Væri kannski hægt að vera með sölubás á ráðhússtorginu?
HÓPUR 3
Hópinn skipa:
Axel Vatnsdal, Leikfélagi Hörgdæla
Ása Dóra Garðarsdóttir, Umf. Skallagrími
Brynjar Schiöth, Freyvangsleikhúsinu
Gerður Sigurðardóttir, Leikfélagi Selfoss/Sýnir
Katrín Líney Jónsdóttir,  Litla leikklúbbnum
Sigrún Tryggvadóttir, Leikfélagi Kópavogs
Steingrímur Magnússon, Freyvangsleikhúsið
Gerður Sigurðardóttir kynnti tillögur hóps 3
1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, leiklistarskóla, leiklistarvefsins og annar fastra liða í starfseminni.
Almenn starfsemi
•  Rekstur þjónustumiðstöðvar: Lagt til að miðað við óbreytta úthlutun ríkisins til skrifstofunnar verði hluti af úthlutun til verkefna lagður til reksturs skrifstofu.
•  Leiklistarskólinn: Lýsum ánægju okkar með að höfundar hafi aðstöðu á Húnavöllum. Rætt um tímasetningu Leiklistarskólans, að fólk komi uppfullt af leiklistarlegum krafti úr skólanum en eigi erfitt með að fá útrás fyrir hann í sinni heimabyggð svona um mitt sumar og kannski jafnvel ekki fyrr en mörgum mánuðum síðar.
•  Leiklistarvefurinn: Bara mjög fínn.
•  Hugmyndir komu fram um að vera með aukna starfsemi í húsi Bandalagsins, e.t.v. kvöldfundi eða annað slíkt, en í ljósi mikils umstangs við leiklistarhátíð framundan og óvissu í húsnæðismálum næsta vetur fannst okkur ekki tímabært að leggja slíkt til á næsta starfsári.
2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.
•  Halda áfram að minna opinbera aðila á áhugaleikhúsið og mikilvægi þess og reyna að fá styrki frá öllum sem hægt er, e.t.v. kannski frekar í vörum (kannski tóner gegn auglýsingu á vef?) en peningum.
3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið um Athygliverðustu áhugaleiksýningu ársins.
•  Endilega halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið.
Sérverkefni
1. Halda NEATA- leiklistarhátíð á Akureyri 10. – 15. ágúst 2010.
•  Nota tækifærið sem býðst með NEATA-hátíðinni til að kynna starfsemi áhugaleikhúshreyfingarinnar , herja á fjölmiðla, senda út fréttatilkynningar og fleira.
HÓPUR 4
Hópinn skipa:
Ása Hildur Guðjónsdóttir, Halaleikhópnum
Magnþóra Kristjánsdóttir, Leikfélagi Ölfuss
Fanney Valsdóttir, Leikfélagi Hörgdæla
Ólafur Halldórsson, Litla leikklúbbnum
Theodór Ingi Ólafsson, Freyvangsleikhúsinu
Þröstur Guðnason, Leikfélagi Rangæinga
Ása Hildur Guðjónsdóttir kynnti hugmyndir hóps 4
1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, leiklistarskóla, leiklistarvefsins og annar fastra liða í starfseminni.
•  Húsnæðismál skrifstofu áhyggjumál sem vonandi leysist. Mikilvægt að reyna að ljúka því farsællega. Leita að betra og ódýrara húsnæði.
•  Gott mál með skólann og nýja staðsetningu hans.
•  Vantar betri kynningu á skólanum innan leikfélaganna.
•  Hvetja alla til að skrá sig á póstlista Leiklistarvefsins til að fá alltaf allar upplýsingar.
•  Kannski mætti halda námskeið í kynningarmálum og markaðssetningu leikfélaga.
2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.
•  Bendum á Handbók um styrki sem Háskóli Íslands gefur út (gúggla það). Þar er að finna góðar upplýsingar um allskonar styrki bæði innanlands og erlendis sem hægt er að sækja í.
•  Halda áfram að þrýsta á stjórnvöld að styrkja áhugaleikhúsin eins og verið hefur. Ánægja með árangur af haustfundi varðandi þetta. Láta ekki deigan síga. Vinna að því að sækja um styrki í formi einhvers annars en peninga, sbr. mat á hátíðir o.þ.h.
•  Mikilvægt að viðhalda menningarsjóðum í héraði. Virkja öll leikfélög í að leita styrkja um allt land.
3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið um Athygliverðustu áhugaleiksýningu ársins.
•  Gott mál. Eftirtektarvert að umsóknum fækkaði milli ára en líklega má kenna efnahagsaðstæðum um.
•  Hvetja félög til að sækja um þar sem þetta er góð tenging milli áhuga- og atvinnuleikhúsa.
Sérverkefni
1. Halda NEATA- leiklistarhátíð á Akureyri 10. – 15. ágúst 2010.
•  Hafa NEATA-vefinn á íslensku.
•  Hvetja félögin til að mæta og upplifa.
•  Hafa sem skýrastar upplýsingar um aðstöðu og allt sem viðkemur hátíðinni.
•  Margt smátt. Góð hugmynd að hátíðin flakki milli félaga. Styrkir bæði og eflir félögin.
•  Hafa einþáttungahátíð í tengslum við næsta aðalfund.
HÓPUR 5
Hópinn skipa:
Embla Guðmundsdóttir, Ungmennafélagi Reykdæla
Guðrún Esther Árnadóttir, Leikfélagi Mosfellssveitar
María Guðmundsdóttir, Leikfélagi Mosfellssveitar
Fjóla Egedía Sverrisdóttir, Leikfélagi Fljótsdalshéraðs
Ása Gísladóttir, Leikfélagi Húsavíkur,
Rebekka Atladóttir, Leikdeild Skallagríms
Kristín Pála Sigurðardóttir, Leikfélagi Rangæinga
Embla Guðmundsdóttir kynnti niðurstöður hóps 5
1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, leiklistarskóla, leiklistarvefsins og annar fastra liða í starfseminni.
Þjónustumiðstöðin
•  Þar er unnið frábært starf og vel leyst úr erindum félaganna. Afskaplega vont ef skera þarf meira niður. Slæmt hvað bókin okkar selst illa og spurning hvort eitthvað sé hægt að gera í því.
Leiklistarskólinn
•  Húrra! Mikil ánægja með að tekist hafi að finna skólanum nýtt húsnæði þar sem aðgengismál og aðstaða er betri en áður, þó eðlilega sé eftirsjá að Húsabakka. Spennandi að sjá hvernig fyrsta skólaárið kemur út á Húnavöllum og hvort þarna sé ekki kominn framtíðarstaður.
•  Nokkuð rætt um „hliðarnámskeið“, tækni, förðun, búninga og fleira. Er hægt að færa þau út um landið? T.d. ef að félög á ákveðnu svæði taka sig saman og áhugi og næg þátttaka er þá muni skólinn sjá um að útvega kennara.
•  Skólanefndin er fyrirmyndarnefnd, skipuð fyrirmyndarfólki og allt gott um þeirra starf að segja!
Leiklist.is
•  Vefurinn er góður og lifandi. Nokkrar í hópnum skoða hann í hverri viku.
•  Spurning um að hvetja stjórnir félaga til að kynna vefinn fyrir sínu fólki.
•  Lénsherrann fær bestu þakkir fyrir gott starf og vonandi sinnir hann vefnum sem lengst.
2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.
•  Halda áfram að tala máli okkar hjá fjárlaganefnd og nú er mikilvægt að sú ágæta nefnd læri líka hversu mikilvæg þjónustumiðstöðin er en hún þjónar svo miklu fleirum en áhugaleikhúsfólki.
•  Við þurfum að minna sífellt á mikilvægi leiklistarinnar fyrir alla aldurshópa og alla landshluta. Leiklist er líka uppeldis- og forvarnarstarf – líka byggðamál – líka mannbætandi og allt!
•  Félögin þurfa sjálf að sinna fjáröflun í héraði. Gott að vera nokkuð samstíga í rökstuðningi og stolt af okkar starfi.
•  Fundurinn á Öngulstöðum í haust var mjög góður og sú samstaða og baráttuandi sem þar myndaðist frábær. Höldum áfram í þeim anda.
3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið um Athygliverðustu áhugaleiksýningu ársins.
•  Já, já. Bara gaman, skemmtilegt og hvetjandi fyrir þau félög sem áhuga hafa. Vekur líka á okkur athygli.
Sérverkefni
1. Halda NEATA- leiklistarhátíð á Akureyri 10. – 15. ágúst 2010.
•  Undirbúningur hátíðarinnar er greinilega í góðum farvegi og duglegt fólk sem stendur sig afskaplega vel að störfum.
•  Hvetjum alla þá sem mögulega geta unnið við hátíðina eða lagt henni lið á einhvern hátt að gera það.
Fleira ekki gert. Fundargerð ritaði Embla Guðmundsdóttir.
Umræður um tillögur hópa
Þorgeir benti á að vilji menn koma einhverju inn á starfsáætlun þurfi þeir að leggja fram tillögu þar að lútandi.
Halldór vildi að tækifærið yrði notað á NEATA-hátíðinni til að kynna Bandalagið. Hægt væri t.d. að gera kynningarbækling og dreifa auk þess sem að mikilvægt væri að kynna þessa hátíð vel innan aðildarfélaganna.
Hörður svaraði nokkrum atriðum sem komu fram í skýrslum hópa. Hann furðaði sig á því að einhver hefði kvartað yfir því að það væri erfiðara að finna leikrit á leitarvef handritsafnsins, það ætti þvert á móti að vera orðið auðveldara eftir nýlegar breytingar.
Vilborg gerði það að tillögu sinni að aðildarfélög gætu fengið handrit send á tölvutæku formi sér að kostnaðarlausu. Hún óskaði einnig eftir að fram kæmi hrein tillaga að leikhúsrottu ef eitthvað ætti að vera hægt að gera með þá hugmynd.
Hrefna varaði við að farið yrði í stórtæka dreifingu á handritum án þess að fyrst sé rætt við hlutaðeigandi aðila þar sem slíkt væri á dökkgráu svæði lagalega.
Hörður sagði að það lægi ekki á að þessi fundur samþykkti svona tillögu, það væri eðlilegra að stjórn, framkvæmdastjóri og handritasafnsnefnd mótuðu tillögur um hvernig dreifingu tölvutækra handrita yrði háttað.
Hópur 4 lagði fram eftirfarandi tillögu:
Við leggjum til að stefnt verði að því að halda einþáttungahátíð í tengslum við aðalfund 2011.
Tillaga stjórnar að Starfsáætlun Bandalagsins 2010 borin upp og samþykkt, að viðbættri tillögu hóps 4.
Starfsáætlun Bandalags íslenskra leikfélaga leikárið 2010-2011
Almenn starfsemi:
1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.
2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.
3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.

Sérverkefni ársins

1. Halda NEATA-leiklistarhátíð á Akureyri 10.–15. ágúst 2010.
2. Stefnt  skal að því að halda einþáttungahátíð í tengslum við aðalfund 2011.
Fundi frestað til næsta dags
15. Stjórnarkjör.
Úr stjórn áttu að ganga Guðfinna Gunnarsdóttir, Hörður Sigurðarson og Ingólfur Þórsson en þeir tveir síðast nefndu gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.
Til aðalstjórnar gáfu kosta á sér auk ofangreindra:
Ása Hildur Guðjónsdóttir, Halaleikhópnum
Gerður Sigurðardóttir, Leikfélaginu Sýnir og Leikfélagi Selfoss
Ólöf Þórðardóttir, Leikfélagi Mosfellssveitar
Halldór Sigurgeirsson, Freyvangsleikhúsinu
Frambjóðendur kynntu sig.
Sigríður Lára bað um orðið og kvaðst hafa þá skoðun að stjórnina ætti að skipa fólk frá sem flestum leikfélögum og þar sem hún væri ein af þremur úr sama leikfélagi hefði hún að vandlega ígrunduðu máli ákveðið að segja sig úr stjórn.
Gerður sagðist vera sammála Sigríði Láru og dró framboð sitt einnig til baka.
Í aðalstjórn hlutu kosningu til tveggja ára Guðfinna Gunnarsdóttir, Ása Hildur Guðjónsdóttir og Halldór Sigurgeirsson og til eins árs Ólöf Þórðardóttir.
Úr varastjórn áttu að ganga Halla Rún Tryggvadóttir og Hjalti Stefán Kristjánsson og gáfu bæði kost á sér. Auk þeirra gáfu kost á sér Bernharð Arnarsson og Theodór Ólafsson. Halla Rún og Bernharð hlutu kosningu til tveggja ára og Hjalti til eins árs.
16. a. Kosning 3ja manna kjörnefndar og eins varamanns til eins árs.
Embla Guðmundsdóttir, Gerður Sigurðardóttir og Dýrleif Jónsdóttir voru endurkjörnar í kjörnefnd og Sigríður Lára Sigurjónsdóttir kosin varamaður.
16. b. Kosning 2ja skoðunarmanna reikninga og eins til vara til eins árs.
Hrefna Friðriksdóttir og Anna Jórunn Stefánsdóttir, Leikfélagi Hvergerðis, voru endurkjörnar sem félagslegir skoðunarmenn og Júlía Hannam, Hugleik, til vara.
17. Ákveðið árgjald til Bandalagsins.
Árgjaldið var afgreitt undir lið 13.
18. Önnur mál
Sigríður Lára Sigurjónsdóttir benti fólki á boð á námskeið í leikmyndahönnum frá leiklistarskóla MÁF í Færeyjum og mælti eindregið með að leikfélög sendu einhvern á það.
Vilborg vakti athygli fundarins á alþjóðlegu leiklistarhátíðinni í Tromsö í Noregi 2011 og bauð fundarmönnum eintök af Handbók leikstjórans.
Íris Árný Magnúsdóttir, Leikfélagi Selfoss, þakkaði fráfarandi stjórn fyrir vel unnin störf og sína upplifun af fundinum sem henni fannst afar jákvæð.
Halldór Sigurgeirsson þakkaði fyrir kjörið, þakkaði Hörgdælum samstarfið og þakkaði staðarhaldara  að Sveinbjarnargerði fyrir góðar móttökur.
Bernharð þakkaði Halldóri fyrir góð störf við undirbúning fundarins.
Þorgeir ítrekaði boð Færeyinga, sagði kennarann afar færan og skemmtilegan.
Guðfinna þakkaði fyrir kjörið og fráfarandi stjórn fyrir samstarfið.
Vilborg þakkaði fráfarandi stjórn fyrir samstarfið og bauð nýja stjórn velkomna til starfa.
19. Næsti aðalfundur, hugmyndir reifaðar um stund og stað.
Ólöf Þórðardóttir, Leikfélagi Mosfellssveitar bauð fyrir hönd félagsins til aðalfundar að ári.
Fundarstjóri þakkaði fyrir sig og gaf formanni orðið.
Þorgeir þakkaði fráfarandi stjórnarfólki fyrir samstarfið og bauð nýtt fólk velkomið til starfa. Þakkaði Hörgdælum og Freyvangi fyrir vel undirbúinn fund og þakkaði jafnframt Leikfélagi Mosfellsveitar fyrir boð á aðalfund að ári. Benti á að mörg brýn verkefni séu framundan.  Að því loknu sleit hann fundi.

Fundargerð rituðu
Ármann Guðmundsson og
Guðfinna Gunnarsdóttir