Aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga 1.-2. maí 2009

Aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga, haldinn í Hlíð Ölfusi 1.-2. maí 2009

1. Fundarsetning. Kosning 2ja fundarstjóra og 2ja fundarritara, sem taka þegar til starfa. Lögmæti fundarins kannað.
Þorgeir Tryggvason, formaður Bandalagsins, setti fundinn og stakk upp á Sigríði Karlsdóttur og Guðrúnu Höllu Jónsdóttur sem fundarstjórum og Ármanni Guðmundssyni og Sigríði Láru Sigurjónsdóttur sem fundarritum. Samþykkt. Fundurinn lögmætur.

2. Kjörnefnd afgreiðir kjörbréf og afhendir atkvæðaspjöld, skýrir stöðu mála varðandi stjórnarkjör og auglýsir eftir tillögum.
Formaður kjörnefndar, Dýrleif Jónsdóttir Leikfélagi Hafnarfjarðar, kynnti stöðu framboðsmála. Atkvæðaspjöldum dreift.

3. Menningarstefna Bandalagsins lesin og rædd.
Hörður Sigurðarson las Menningarstefnu. Engar umræður um hana.

4. Staðfest inntaka nýrra félaga, félög tekin af félagaskrá.
Guðfinna Gunnarsdóttir kynnti. Eitt félag hefur sótt um aðild, Borgarbörn í Reykjavík og stjórn samþykkt hana. Fundurinn staðfestir samþykkt stjórnar. Leikfélag Djúpavogs og Reykvíska listaleikhúsið hafa sagt sig úr Bandalaginu.

5. Fundargerð síðasta aðalfundar afgreidd.
Fundargerð síðasta aðalfundar borin undir atkvæði. Samþykkt án athugasemda.

6. Skýrsla stjórnar.
Þorgeir Tryggvason flutti skýrslu stjórnar.

Aðalfundur Bandalags Íslenskra leikfélaga 2009 – Skýrsla stjórnar

I Stjórn, starfsfólk og stjórnarfundir

Stjórn Bandalagsins var þannig skipuð á starfsárinu:

Þorgeir Tryggvason, Hugleik í Reykjavík, formaður
Ingólfur Þórsson, Freyvangsleikhúsinu, varaformaður
Þórvör Embla Guðmundsdóttir, Umf. Reykdæla, ritari
Guðfinna Gunnarsdóttir, Leikfélagi Selfoss, meðstjórnandi
Hörður Sigurðarson, Leikfélagi Kópavogs, meðstjórnandi

Í varastjórn sátu þau Ólöf Þórðardóttir, Leikfélagi Mosfellssveitar, Hjalti Stefán Kristjánsson, Hugleik, Halla Rún Tryggvadóttir, Leikfélagi Húsavíkur, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, Hugleik og Elva Dögg Gunnarsdóttir, Leikfélagi Hafnarfjarðar.
Við þjónustumiðstöðina störfuðu þau Vilborg Valgarðsdóttir framkvæmdastjóri og Ármann Guðmundsson ritari.

Öllu þessu fólki ber að þakka vel unnin störf á árinu, svo og nefndarfólki og öðrum þeim sem leggja hönd á Bandalagsplóginn.

Sex stjórnarfundir voru haldnir á starfsárinu. Flestir í höfuðstöðvunum, en einnig í tengslum við aðalfundinn í Skagafirði og núna hér í Ölfusi. Stjórnarstörf gengu almennt vel fyrir sig. Fundargerðir eru að aðgengilegar á Leiklistarvefnum og birtast einnig í ársritinu.

II Starfsemi leikfélaganna

Aðildarfélög Bandalagsins eru nú 62 talsins. Nákvæmar tölur um fjölda starfandi félaga og verkefna þeirra verða ekki fyrirliggjandi fyrr en styrkumsóknir berast.
Á síðasta leikári voru styrkhæf verkefni 96 (80 leikrit og leikþættir, 16 námskeið) og fullur styrkur reyndist vera 450.000 kr.

Úthlutun styrkja eru sem fyrr eitt ábyrgðar- og fyrirferðarmesta verkefni stjórnar, og viðamesti stjórnarfundur ársins er einatt haldinn um mitt sumar til að fara yfir styrkumsóknir og ganga frá tillögum til menntamálaráðuneytisins.

III Starfsáætlun

Á síðasta aðalfundi var samþykkt starfsáætlun sem nú verður farið yfir og staldrað við hvern lið.
Almenn starfsemi

1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.

Á starfsárinu urðu þau tímamót að Bandalagið seldi fasteign sína að Laugarvegi 96 og flutti í ný, glæsileg og þó fyrst og fremst hentug og aðgengileg húsakynni að Suðurlandsbraut 16. Flutningarnir fóru fram í byrjun september og mæddi vitaskuld mest á starfsmönnum Bandalagsins, þó fleiri hafi lagt hönd á plóg og skal þeim þakkað fyrir framlag sitt. Hin nýja þjónustumiðstöð var síðan formlega opnuð 8. september. Smám saman hefur verið unnið að því að koma starfseminni betur fyrir á nýja staðnum og ljóst að enn eigum við eftir að fullnýta möguleika húsnæðisins. Tími og fjárhagur setja þessari vinnu þó skorður, sem og því forgangsverkefni að gera húsnæðið jafn aðgengilegt fötluðum og það hefur alla burði til að verða.
Kreppunni tókst auðvitað að setja sitt strik í húsnæðismálin. Eins og greint var frá á síðasta aðalfundi var Laugavegsfasteignin seld, en hin nýja leigð, allavega meðan við fyndum okkur varanlegan samastað eða ákvæðum að festa kaup á hinni nýju. Vegna bankahrunsins hefur kaupandi Laugarvegarins hins vegar ekki getað staðið við sinn hluta og greitt okkur nema fyrstu útborgun. Samið var við hann um að þangað til bankakerfið fer af stað aftur, greiði hann Bandalaginu 200.000 kr. á mánuði, sem er um það bil tveir þriðju húsaleigunnar á Suðurlandsbrautinni. Þetta er vitaskuld engin óskastaða, en vonandi fara hjól fjármálalífsins að seiglast af stað fljótlega svo hægt sé að ljúka þessu máli.

Framkvæmdastjóri mun gera betur grein fyrir þessari stöðu þegar reikningarnir verða skýrðir. Um aðra þætti í fastri starfsemi verður síðan fjallað í skýrslum viðkomandi nefnda.

2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.

Eins og nærri má geta hafa framlög hins opinbera nú ekki hækkað á árinu, og lítil von til að sækja fúlgur í vasa fyrirtækja. Flatur niðurskurður á fjárlögum kom við okkur eins og aðra og lækkuðu styrkir til starfsemi leikfélaganna úr 28,4 milljónum í 25,9 og styrkurinn til skrifstofunnar lækkaði úr 8,3 milljónum í 7,5.
Fyrir liggur að halda málstað okkar rækilega á lofti á næstu mánuðum gagnvart nýjum stjórnvöldum og nýjum menntamálaráðherra. Og vona að við stöndum sæmilega af okkur fyrirsjáanlegan niðurskurð í fjármálum ríkisins.

3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.

Á síðasta aðalfundi tilkynnti Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri að sigurvegari keppninnar leikárið 2007-2008 væri uppsetning Halaleikhópsins og Guðjóns Sigvaldasonar á Gaukshreiðrinu. Halamenn mættu í Þjóðleikhúsið snemmsumars og tókst það allt saman hið besta.

Sérverkefni ársins

1. Halda áfram undirbúningi NEATA-hátíðar 2010 og hefja fjármögnun hennar, m.a. með umsókn í menningarsjóð ESB.

Skýrsla undirbúningsnefndar verður flutt undir liðnum skýrslur nefnda.

2. Hefja skönnun á handritasafni Bandalagsins.

Í tengslum við flutninga þjónustumiðstöðvarinnar var skipt um ljósritunarvél, enda sú gamla orðin nokkuð brokkgeng eins og gengur. Sú nýja er hinsvegar nútímavædd fjölnotamaskína sem meðal annars skannar pappírsgögn og vistar sem stafrænar eftirmyndir. Skönnun á handritasafninu er því hafin, og vindur ágætlega fram. Það hyllir því undir að við höfum komið þessu stærsta leikhandritasafni landsins á stafrænt form, sem verður að teljast mikið menningarþrifamál.

3. Margt smátt verði haldin í haust í svipuðu formi og verið hefur.

Hátíðin hefur farið marga kollsteypuna á árinu, en nú bendir allt til þess að hún verið haldin með pomp og prakt laugardaginn 23. maí. Undirbúningsnefnd flytur skýrslu með nánari útlistunum undir liðnum skýrslur nefnda.

4. Starf handritasafnsnefndar haldi áfram í samræmi við bókun síðasta aðalfundar og að stjórn móti frekar hlutverk nefndarinnar.

Handritasafnsnefnd mun flytja skýrslu sína undir liðnum skýrslur nefnda.

5. Skólanefnd skoði möguleika á að skipuleggja næsta vetur námskeið um stjórnun leikfélaga, kynningarmál og umfjöllun/gagnrýniskrif um leiksýningar.

Námskeið um stjórnun leikfélaga og kynningarmál var haldið í tengslum við haustfund. Enn hefur ekki orðið af gagnrýnendanámskeiði, en sú hugmynd er geymd en ekki gleymd.

6. Að haldinn verið haustfundur 2008.

Haustfundur var haldinn í nýjum húsakynnum Leikfélags Kópavogs. Fundurinn hófst reyndar á fyrirlestrum nokkurra stjórnar- varastjórnar- og starfsmanna Bandalagsins um ýmislegt sem lýtur að stjórn leikfélaga, kynningarmálum og fleiru. Það fer ekki vel á því að ég tjái mig um ágæti námskeiðsins, en fundurinn var prýðilegur. Fundargerð hans er að finna á leiklist.is.
Í tengslum við fundinn lauk síðan einni af lengri framhaldssögum síðustu ára þegar haldið var útgáfuteiti Sögu Bandalagsins, Allt fyrir andann. Bók Bjarna Guðmarssonar er afbragðs rit og skyldueign á heimili hvers áhugaleikara, enda verður hún til sölu hér á þinginu. Bókin hlaut ágæta dóma hjá sjálfum Jóni Viðari Jónssyni sem skrifaði í DV að hér væri komið fram mikilvægt rit í sögu íslenskrar leiklistar.

7. Mótaðar verði tillögur að skipulegri umfjöllun um leiksýningar áhugaleikfélaganna, t.d. með stofnun sjóðs sem Bandalagið annarsvegar og áhugaleikfélögin hinsvegar greiða í árlega til að standa straum af kostnaði.

Á fyrrnefndum haustfundi setti Hörður Sigurðarson fram hugmyndir um fyrirkomulag umfjöllunar á leiklist.is. Gengu þær út á að leikfélög einstakra landshluta bindust samtökum um að standa straum af kostnaði við þóknun fyrir skrif á því svæði. Hugmyndirnar þóttu góðar, en svo fór þó að þeim hefur hvergi verið hrint í framkvæmd. Vel má vera að meiri eftirfylgni frá stjórn Bandalagsins þurfi til að koma þessu af stað.

IV Erlent samstarf

NAR
Eins og fram kom á síðasta aðalfundi þá hefur Norræna áhugaleikhúsráðið, NAR, misst sína fjárhagslegu stöðu með skipulagsbreytingum innan norrænnar samvinnu. Stefnt er að því að samstarfið haldi áfram á grundvelli þátttökugjalda og umsókna um styrki til einstakra verkefna. Fyrst um sinn er stefnt að því að halda árlegan fund þar sem sameiginleg baráttumál og menningarpólitískar áherslur verða ræddar.
Leifarnar af starfsemi NAR eru þó enn til staðar. Síðustu tvö verkefnin sem síðustu fjárveitingarnar dugðu fyrir eru í vinnslu einmitt núna.
Annarsvegar er um að ræða samnorrænt barnaleikritaverkefni. Hvert land leggur til eitt barnaleikrit, sem síðan er þýtt á hin norðurlandamálin og gefst aðildarfélögum viðkomandi bandalaga kostur á að setja þau upp án höfundagreiðslna í tvö ár. Verkefnið er í vinnslu og framlag Íslands er Uppreisn Æru eftir Ármann Guðmundsson.
Hitt verkefnið er þátttaka Færeyinga í Mörgu Smáu, sem verður reyndar ekki af núna í maí, en vonandi næst, eins og nánar verður komið inn á undir skýrslu Margs smás.

SENTRAMÓT
Fundir starfsfólks þjónustumiðstöðvanna á Norðurlöndum er haldinn reglulega. Í nóvember var slíkt mót haldið á Íslandi og tókst með ágætum.

NUTU
Samstarf ungmenna í áhugleikhúsinu á Norðurlöndum hefur blómstrað undanfarin ár. Sumarskóli NUTU starfar af krafti og vonir standa til að þessi þáttur samstarfsins hljóti náð fyrir augum styrkveitingavaldsins áfram. Stefnt er að því að víkka samstarf þetta út þannig að eystrasaltslöndin verði með. Fulltrúi Íslands í NUTU-nefndinni er Alma Mjöll Ólafsdóttir.

NEATA
Stjórnarmenn, framkvæmdastjóri og nefndarmenn vegna NEATA-hátíðarinnar 2010 sóttu aðalfund NEATA í Riga sl. sumar. Þar tók Ísland að sér umsjón með vef NEATA, sem hefur verið í umsjá Danmerkur. Ekki hefur enn orðið af þessum skiptum en stefnt er að því að nýta vefinn meira en áður hefur verið gert til að kynna hátíðina 2010.

HÁTÍÐIR
Rigafundurinn var haldinn í tengslum við leiklistarhátíð NEATA. Fulltrúar Íslands voru Hugleikur og Leikfélag Kópavogs sem sýndu Bingó eftir Hrefnu Friðriksdóttur í leikstjórn Ágústu Skúladóttur við frábærar undirtektir.

V Lokaorð

Við lifum mikla óvissutíma. Vafasamt er að við getum á vísan róið hvað varðar styrkveitingar og stuðning við starfsemi áhugaleikhússins. Á hinn bóginn er ekkert sem bendir til annars en að kjarni starfseminnar sé traustur. Vinnugleði, sköpunarkraftur og almenn uppátækjasemi áhugaleiklistarfólks er í góðum gír. Og það skiptir mestu. Dragðu ekki það að leika – leikum núna.

Reykjavík 30. apríl 2009

Þorgeir Tryggvason, formaður

7. Framkvæmdastjóri leggur fram endurskoðaða reikninga síðasta árs og skýrir þá.

Ársreikningur Bandalags ísl. leikfélaga fyrir árið 2008 er um margt ólíkur reikningum fyrri ára.

Þetta er það helsta:

1. Við seldum húseignina að Laugavegi 96.

2. Við gerðum leigusamning vegna húsnæðis að Suðurlandsbraut 16.

3. Við gáfum loksins út Sögu Bandalagsins sem verið hefur í vinnslu í nærri áratug.

4. Við tókum ljósritunarvél á kaupleigu til 4 ára.

Hrun bankanna kom víða við í okkar rekstri eins og annarra.

Fyrst má nefna að kaupanda að Laugavegi 96 tókst ekki að fá lán til greiðslu eftirstöðva kaupverðs sem greiða átti við afhendingu, upphæðin er 23,3 milljónir kr. Við hann var samið í janúar um greiðslu vaxta mánaðarlega að upphæð 200.000 kr. Hluti þessara peninga var greiddur fyrir áramótin en restin var greidd í janúar. Samningurinn við hann gildir fram í júlí en þá skal athugað hvernig bankamálum í þessu landi líður. Þessar 23,3 milljónir áttu annars að fara inn á bankareikning og vextirnir að borga húsaleiguna að fullu.

Annað er að gengi krónunnar var svo óhagstætt síðustu mánuði ársins að vörur í verslunina hækkuðu um helming í innkaupum og sér á að hagnaður af sölu förðunarvara er ekki nema um 400.000 kr. en var um 800.000 kr. árið áður. Vörubirgðir í árslok voru af þessum sökum umtalsvert verðmeiri og þótti endurskoðendum okkar rétt að breyta uppsetningu í ársreikningnum og færa mismun birgða milli ára á rekstarreikning (sjá bls. 4) í Kostnaðarverð seldra vara. Þar inní eru auðvitað líka bókabirgðir uppá ríflega 2 milljónir kr.. Þetta skekkir heildarniðurstöðu á þessum lið miðað við síðustu ár en verður fært svona framvegis.

Við gerðum leigusamning vegna nýja húsnæðisins í ágúst til tveggja ára. Hann er náttúrulega bundinn vísitölu neysluverðs og hefur hækkað reglulega milli mánaða. Upphæðin var 280.000 kr. í upphafi en er orðin 307.000 kr. núna Þetta er auðvitað ansi súrt í þessu árferði þegar leiguverð hefur lækkað umtalsvert að sögn kunnugra. Það sama má segja um samning vegna kaupleigu á ljósritunarvél, mánaðarlegar afborganir hafa hækkað úr 35.000 kr. í 41.000 kr. frá 1. september.

Svo merkilegt sem það nú er þá var eins og allt sem krafðist verulegra útgjalda á árinu þyrfti að gerast í kringum bankahrunið. Við gáfum loks út Sögu Bandalagsins og var ekki að sökum að spyrja, samningur um prentun var í evrum og hækkaði upphæðin úr ríflega 500.000 kr. í 900.000 kr. frá því hann var gerður um sumarið og þar til bókin kom úr prentun í október. Kostnaður við útgáfuna var um 1.250.000 kr. á árinu en ég hef tekið það saman að allur kostnaður frá upphafi vinnu við bókina er um þrjár og hálf milljón kr. samtals. Við seldum bækur fyrir tæpar 600 kr. þúsund á árinu en eitthvað að þeim kom til baka frá bókabúðum eftir áramótin.

Við skipulögum norrænt skrifstofumót í nóvember. Hingað komu kollegar okkar Ármanns frá hinum norðurlöndunum til helgarfundar. Okkur tókst að græða smávegis á þeim, það er það eina sem við þökkum gengishruninu fyrir, en eftir sátu í okkar fórum um 350.000 kr. þegar upp var staðið.

Flutningunum sjálfum fylgdu heilmikil útgjöld, en í þá og ýmsan kostnað við að koma sér fyrir á nýja staðnum fóru u.þ.b. ein og hálf milljón króna.

Ef við förum yfir niðurstöður ársreikningsins þá er hagnaður ársins af rekstri tæpar 8 milljónir króna. Þar af er söluhagnaður vegna fasteignar um 6 milljónir króna en það er eins og áður sagði ógreitt ennþá. Styrkur ríkisins hækkaði um tæpar 3 milljónir króna og vaxtatekjur voru tæp milljón krónur.

Á efnahagsreikningi eru eigið fé og skuldir tæpar 31,7 milljónir króna, fasteign þurrkast út en útistandandi kröfur eru uppá tæpar 24 milljónir króna, 1,7 milljón króna liggja á bankareikningi sem trygging fyrir 6 mánaða húsaleigu, vörubirgðir þ.e. farði og bækur eru tæpar 5 milljónir króna, yfirdráttarlán stóð í 1,4 miljón króna um áramótin og aðrar skuldir voru tæp milljón.

Óvenjulegt ár og óvenjulegar tölur svo ekki sé meira sagt.

Vilborg Árný Valgarðsdóttir

8. Umræður um skýrslu stjórnar og afgreiðsla reikninga.

Magnús J. Magnússon, Leikfélagi Hornarfjarðar og Leikhópnum Lopa, sagði að erfitt væri að ræða þessa reikninga, þeir væru svo ólíkir öllu sem við hefðum áður séð. En hann hvatti leikfélögin til að styðja fjárhagslega við bakið á Bandalaginu ef allt fer versta veg.

Silja B. Huldudóttir, Hugleik, spurði hvort það gæti haft áhrif á ríkisvaldið að við ættum milljónir í eignum, hvort það mundi mögulega ætlast til að við notuð það fé til reksturs okkar.

Þorgeir Tryggvason benti á að við hefðum átt þetta í nokkurn tíma, bara í formi fasteignar, og það virtist ekki hafa truflað neinn.

9. Skýrslur nefnda og umræður um þær.

A. Skýrsla skólanefndar, Hrefna Friðriksdóttir flutti.

Skýrsla skólanefndar á aðalfundi BÍL 1.-2. maí 2009.

Rétt er að gera fyrst grein fyrir námskeiðum umliðins árs.

Leiklistarskólinn var settur í 12. sinn 7. júní 2008 að Húsabakka í Svarfaðardal. Skólann sóttu alls 41 nemandi en þar voru í boði 3 námskeið:

1. Leiklist II, kennari Ágústa Skúladóttir, nemendur voru 18 talsins, þetta námskeið var haldið í framhaldi af Leiklist I sumarið 2007.
2. Sérnámskeið fyrir leikara, kennari Rúnar Guðbrandsson, nemendur voru 13, þetta námskeið var með svipuðu sniði og Rúnar bauð upp á árið 2005.
3. Grunnnámskeið í leikritun, kennari Bjarni Jónsson, en það sóttu alls 10 nemendur. Þetta námskeið var haldið til að koma til móts við vaxandi fjölda leikskálda innan Bandalags íslenskra leikfélaga en ekki hafði verið boðið upp á grunnnámskeið í leikritun síðan 2002.

Umsóknir um skólavist 2008 voru nokkuð fleiri en unnt var að anna
og niðurstaða viðhorfskönnunar benti til mikillar ánægju með skólastarfið.

Auglýst var framhaldsnámskeið í leikhúsförðun undir stjórn Grétu Boða í október 2009 en einungis 6 sóttu um svo ákveðið var að fella námskeiðið niður.

Talsverðar umræður urðu um tækninámskeið. Í kjölfar niðurstöðu könnunar meðal leikfélaganna um þörf fyrir ljósanámskeið var ákveðið að ráðist í slíkt. Skólanefnd ræddi við Egil Ingibergsson sem var með mjög spennandi hugmyndir um byrjenda og framhaldsnámskeið í samþættingu tæknibragða, fyrst og fremst ljós-, hljóð- og videó/tölvutækni. Haldið var byrjendanámskeið í húsnæði Listaháskólans í janúar og febrúar 2009 og það sóttu alls 12 nemendur.

Næst er að segja frá fyrirhuguðum námskeiðum. Þar er fyrst að nefna sérnámskeið Egils Ingibergssonar um samþættingu tækni í leikhúsinu. Þetta námskeið er hugsað sem eins konar framhald af námskeiðinu sem haldið var fyrr á þessu ári en einnig eru velkomnir nemendur sem hafa grunn annars staðar frá. Það eru nokkur vonbrigði hversu fáir hafa sótt um. Umsóknarfrestur hefur verið framlengdur til 4. maí nk. og vil ég nota þetta tækifæri til að hvetja alla viðstadda til að skoða gaumgæfilega þetta einstaka tækifæri. Ég vil einnig hvetja sérstaklega alla formenn eða fulltrúa þeirra til að grandskoða hvort ekki eru einhverjir félagsmenn sem vantar einmitt að fara á svona námskeið. Ef næg þátttaka fæst þá verður námskeiðið haldið 27. maí til 1. júní í húsnæði Listaháskóla Íslands. Markmiðið með námskeiðinu er að þátttakendur fái innsýn í heim tæknisamþættingar. Og eins og Egill segir: „Með því að nýta sér þessa tækni má … framkvæma galdra sem næstum væru óhugsandi.“

Haldin verða 3 námskeið í Svarfaðardalnum frá 13.-21. júní nk. Þau eru:
1. Framhaldsnámskeið í leikritun, kennari Bjarni Jónsson
2. Röddin í leikhúsinu, kennari Þórhildur Örvarsdóttir
3. Sérnámskeið fyrir leikara, kennari Rúnar Guðbrandsson.

Það fylltist mjög hratt og örugglega á öll þessi námskeið, skráðir þátttakendur koma frá 11 leikfélögum og nokkrir eru á biðlista.

Þá gerum við ráð fyrir að bjóða upp á námskeið í leikmynda-, búningahönnun og leikgervum næsta haust en það verður nánar auglýst síðar.

Og svo eru það húsnæðismálin.

Eins og sumarið 2007 urðum við að vera án litla leikfimisalarins að Húsabakka sumarið 2008 en kennurum tókst af stakri lipurð og góðum vilja að nýta það rými sem var í boði. Húsnæði og aðstaða var að öðru leyti óbreytt. Við fréttum af ákvörðun bæjarstjórnar Dalvíkur um að stofna Náttúrusetur að Húsabakka og ráðningu Hjörleifs Hjartarsonar sem verkefnisstjóra. Fyrirhugaðar eru breytingar á húsnæðinu sem gætu haft áhrif á framtíð skólans á staðnum en þessu fylgja hugsanlega hvort tveggja kostir og gallar. Þannig er rætt um að bæta aðgengi fatlaðra en einnig hugsanlega að breyta hluta húsnæðisins þannig að það nýtist síður sem kennslurými. Við hlökkum til að heyra frekar af þessum ráðagerðum.

Á síðasta aðalfundi var sagt frá hugmynd um skólahald á Hallormstað en þessum hugmyndum var fylgt eftir á liðnu ári. Ég vil, eins og í fyrra, þakka Þráni Sigvaldasyni, fyrrverandi formanni Leikfélags Fljótsdalshéraðs, sérstaklega fyrir ómælda aðstoð í þessum efnum. Ég fór ásamt Vilborgu framkvæmdarstjóra til að skoða húsnæðið betur og funda með þeim sem öllu ráða á staðnum. Strax kom í ljós að ykki yrði hægt að koma til móts við þá drauma sem við höfðum um afnot af húsnæði, a.m.k. alls ekki sumarið 2009. Við ákváðum að skoða alla möguleika, fengum tilboð í tiltekin hluta húsnæðisins fyrir sumarið 2009 en þar sem húsnæðið hentaði alls ekki fyrir fatlaða tóku skólanefnd og stjórn Bandalagsins að lokum ákvörðun um að hafna því. Draumurinn um Hallormstað er þó ekki alveg dáinn, það er búið að taka ákvörðun um að ráðast í byggingarframkvæmdir á staðnum sem að gætu opnað frekari möguleika fyrir okkur og við ætlum okkur að fylgjast vel með framvindu mála.

Þess má geta að nýlega barst tilboð frá staðarhöldurum að Núpi í Dýrafirði. Þeir hafa því miður staðfest að þarna er ekki aðgengni fyrir fatlaða auk þess sem tilboð þeirra er allmikið hærra en við eigum að venjast.

Þá vil ég segja frá því að skólanefnd hefur hafið undirbúning að því að senda öllum sveitastjórnum landsins fyrirspurn um vænlegt húsnæði. Verður bréf sent fljótlega.

Að lokum – skólanefndin sér fram á skemmtilegt og krefjandi skólaár eins og ævinlega og ég þakka samnefndarkonum mínum vel unnin störf.

Skólanefnd:
Hrefna Friðriksdóttir
Dýrleif Jónsdóttir
Herdís Þorgeirsdóttir
Gunnhildur Sigurðardóttir
Sigríður Karlsdóttir

Umræður

Sólveig Rögnvaldsdóttir, Leikfélagi Dalvíkur, bauð fram Ungó, leikhúsið á Dalvík, ef það gæti nýst skólanum.

B. Skýrsla NEATA-nefndar, Guðrún Halla Jónsdóttir flutti.

NEATA-hátíð á Akureyri 3.-8. ágúst 2010

Í nefndinni, sem skipuð var af stjórn eftir síðasta aðalfund, eru:
Lárus Vilhjálmsson, formaður
Guðrún Halla Jónsdóttir
Hörður Sigurðarson
Olöf Þórðardóttir

Aðstaða á Akureyri
Búið er að ræða við Akureyrarbæ um afnot af Hofi, nýja glæsilega menningarhúsinu þeirra Akureyringa. Það verður tilbúið í ágúst 2010 og gæti okkar hátíð verið með fyrstu viðburðum í húsinu. Þar yrði pláss fyrir allar leiksýningar, leiksmiðjur, gagnrýni, hátíðarklúbb, þjónustumiðstöð og jafnvel mötuneyti. Þegar þetta er skrifað er ekki komið svar frá rekstarstjórn hússins um hvort þetta er mögulegt en ekki var fyrirhugað að opna húsið formlega fyrr en í endaðan ágúst.

Vilborg og Guðrún Halla fóru til Akureyrar í apríl, skoðuðu Hof og bókuðu gistipláss fyrir alla þátttakendur á eftirtöldum gistiheimilum:
Gulu villunni, hún tekur 50 manns í tveimur húsum, Gistiheimilinu Súlum, það tekur líka 50 manns í tveim húsum og svo hjá Gistiheimilum Akureyrar, en þau eru í nokkrum húsum í miðbænum. Þar bókuðum við fyrir 50-60 manns.
Meðalverð á gistingu með morgunverði er 5500-6000 kr. á mann nóttin, fyrir tveggja manna herbergi með w.c. og sturtu á gangi.

Fjármögnun
Í dag erum við ekki búin að fá loforð fyrir einni krónu til þessa verkefnis. Frá síðasta aðalfundi hefur verið sótt um styrk frá Evrópusambandinu, en þaðan kom neitun um miðjan apríl. Fyrir liggur að sækja um til Nordisk Kulturfond, frestur er til 1. september, Menntamálaráðuneytis, núna þegar komin er nýr menntamálaráðherra, og til Akureyrarbæjar (sú umsókn er farin) og svo einhverra fyrirtækja.

Kostnaðaráætlun vegna hátíðarinnar er uppá 15-20 milljónir króna þannig að ljóst er að núna þarf að leggjast á árarnar af fullum þunga til að útvega peninga ef eitthvað á að geta orðið af þessu verkefni.

Umræður

Ása Hildur Guðjónsdóttir, Halaleikhópnum, spurði um aðgengi á gististöðum á Akureyri. Guðrún Halla sagði að það hefði verið haft í huga við val á gistiheimilum.

C. Skýrsla handritasafnsnefndar, Ármann Guðmundsson flutti.

Skýrsla handritasafnsnefndar 2009

Handritasafnsnefnd skipa Ármann Guðmundsson, Hrefna Friðriksdóttir og Örn Alexandersson. Nefndin fundaði tvisvar á leikárinu. Samkvæmt skipunarbréfi sínu á nefndin „að móta tillögur að framtíðarskipulagi og hlutverki handritasafns Bandalagsins“ og er sú vinna í gangi þótt því miður hafi ekki tekist að ljúka henni fyrir þennan aðalfund sökum anna nefndarmanna. Ætlunin er þó að skila hugmyndum nefndarinnar til stjórnar á næstu vikum.

Af handritasafninu er það frétta að fjöldi titla mun væntanlega fara langleiðina í 3000 þegar handrit skila sér inn frá Bandalagsfélögum og atvinnuleikhúsum í vor og nú eru hátt í 600 titlar til í tölvutæku formi, ýmist í PDF- eða doc-formati. Stefnt er að því að minnsta kosti annað eins í viðbót verði orðið tölvutækt í lok árs.

Núna fljótlega er ætlunin að hleypa (loksins segja væntanlega einhverjir) af stokkunum Lestrahestaverkefninu þar sem áhugasamir geta fengið send leikrit og skrifað útdrátt úr þeim og lagað ófullkomnar skráningar. Verður þeim sem skráð hafa sig í þetta verkefni á næstu dögum send leikrit og skjal til að færa inn á þær upplýsingar sem skrá þarf. Þeir sem vilja bætast í hópinn er bent á að skrá sig hjá undirrituðum hér á fundinum, þeir sem hafa þegar skráð sig þurfa ekki að gera það aftur.

f.h. handritasafnsnefndar
Ármann Guðmundsson

Umræður

F. Elli Hafliðason, Leikfélagi Selfoss, spurði í hverju Lestrarhestaverkefnið fælist. Ármann sagði það sem lestrarhestar þyrftu að gera væri að gera ca. 10 lína útdrátt af söguþræði leikrita og laga skráningar sem fyrir eru ef ástæða er til.

Ásta Margrét Grétarsdóttir, Leikfélagi Ölfuss, spurði hvort senda ætti Bandalaginu leikrit sem slegin hefðu verið inn upp úr eldri handritum. Ármann svaraði því játandi.

D. Skýrsla Margt smátt nefndar, Ármann Guðmundsson flutti.

Skýrsla framkvæmdanefndar stuttverkahátíðarinnar Margt smátt 2009

Nefndina skipa þau Hjalti Stefán Kristjánsson og Hrund Ólafsdóttir ásamt undirrituðum og hefur hún fundað tvisvar á leikárinu.

Á síðasta aðalfundi var ákveðið að stefna að því að halda Margt smátt sl. haust en vegna þess hve þétt sýningarplan Borgarleikhúsins var reyndist það ekki mögulegt. Eftir ágætan fund með nýjum Borgarleikhússtjóra, Magnúsi Geir Þórðarsyni og dramatúrg Borgarleikhússins, Hafliða Hallgrímssyni, þar sem niðurstaðan var að maí hentaði sennilega báðum aðilum best úr því sem komið var, gafst okkur kostur á að velja á milli 16. eða 23. maí og varð síðarnefnda dagsetningin fyrir valinu þar sem hin þótti helst til nálægt aðalfundi.

Síðan gerðist það að á NAR-fundi sagði Þorgeir formaður okkar norrænu vinum frá hátíðinni og vakti hún þar talsverðan áhuga, sérstaklega hjá færeyingum en þeir hafa einmitt verið að nota módelið okkar að Bandalagsskólanum. M.a. fengu þeir Karl Ágúst Úlfsson til að vera með leikritunarnámskeið þar sem unnið var með stuttverk og þau svo sýnd við gríðarlegan fögnuð. Það var því ákveðið að bjóða þeim að senda nokkur verk á Margt smátt sem þeir og hugðust gera en því miður kom í ljós að dagsetning hentaði þeim engan veginn því að MÁF er einmitt með leiklistarskóla sinn þessa sömu helgi. Þegar ekki tókst að finna aðra hentugri dagsetningu í vor var ákveðið halda áfram með hátíðina eins og upphaflega var ætlað en skipuleggja næstu hátíð þannig að gestasýningar frá Færeyjum (og þess vegna fleiri Norðurlöndum) geti tekið þátt. Og það jafnvel strax næsta haust.

En aftur að sjálfri hátíðinni. Ákveðið var að hafa hana með sama sniði og síðustu hátíð sem þótti takast ákaflega vel og enda svo daginn með partýi þar sem þátttakendur og aðrir áhugaleikarar hittast, borða saman og skemmta sér og öðrum. Ekkert forval verður annað en tímarammi sýninga sem er 15. mínútur í hámark og heildartímarammi hátíðarinnar sem er 4 tímar. Ef að útlit er fyrir að hann verði sprengdur verður þeim leikfélögum sem flestar sýningar leggja fram gert að fækka þeim uns tímaramma er náð.

Í dag, daginn sem auglýstur umsóknartími rennur út, hafa 2 félög sótt með alls 9 sýningar en við í undirbúningsnefnd hvetjum eindregið fleiri félög til að senda leikverk og sérstaklega væri gaman að sjá fleiri sýningar frá félögum utan af landi. Það skal ítrekað að ekki er skilyrði að um frumflutning á verki sé að ræða og er undirritaður boðinn og búinn að veita félögum aðstoð við leit að verkum. Einnig ætlum við að lengja frestinn til að skila inn umsóknum fram til mánudagins 4. maí og vonum að það verði til þess að fleiri félög sæki um.

f.h. framkvæmdanefndar
Ármann Guðmundsson

E. Skýrsla vefnefndar, Hörður Sigurðarson flutti.

Leiklistarvefurinn – Skýrsla vefnefndar 2009
Lögð fram á aðalfundi Bandalagis íslenskra leikfélaga á Hótel Hlíð í Ölfusi 1.-2. maí 2009.

Rekstur á Leiklistarvefnum er orðinn svo venjubundinn að nánast væri hægt að endurtaka skýrslu síðasta árs með örfáum breytingum. Í vefnefnd eru undirritaður og starfsmenn skrifstofu. Engar meiriháttar breytingar voru gerðar á vefnum á liðnu ári en nokkrar þó. Vefnefnd hefur komið saman til eins formlegs fundar á árinu og var á þeim fundi lögð drög að þeim breytingum sem gerðar voru á liðnu ári. Auk þess eru starfsmenn skrifstofu og Lénsherra í sambandi í hverri viku vegna ýmissa mála og því hefur ekki reynst þörf á formlegra fyrirkomulagi funda.

Ekki er víst að allir átti sig á þeirri fjölbreyttu þjónustu sem veitt er í gegnum vefinn og er því hér talið upp það helsta. Á Leiklistarvefnum er að finna:
– Fréttir af aðildarfélögum Bandalagsins, sýningum á þeirra vegum og öðrum viðburðum.
– Fréttir af leiklist á Íslandi í víðu samhengi.
– Handritasafn Bandalagsins þar sem hægt er að leita að verkum eftir fjölbreyttum skilyrðum.
– Upplýsingar um vörur í verslun Þjónustumiðstöðvar.
– Spjallborð um leiklistartengd málefni.
– Eyðublöð vegna umsókna um styrki og fleira.
– Upplýsingar um námskeið og leiklistarhátíðir innanlands sem utan.
– Upplýsingar um öll aðildarfélög BÍL og tenglar á vefi þeirra sem hafa slíka.
– Upplýsingar um félög og stofnanir sem sinna eða tengjast leiklist á Íslandi sem og utanlands.
– Upplýsingar um leiklistarnám á Íslandi sem og utanlands.
– Greinar og umfjöllun um leiksýningar og ýmislegt annað sem tengist leiklist.
– Upplýsingar um leikstjóra sem gefa kost á sér til vinnu með áhugaleikfélögunum.
– Upplýsingar um leiklistartengda styrki.
– Fundargerðir stjórnar- og aðalfunda BÍL.
– Upplýsingar um Leiklistarskóla Bandalagsins.

Eins og venjulega er það starfsmenn Þjónustumiðstöðvar sem sinna að mestu daglegum rekstri með því að setja inn fréttir og viðburði auk þess að sjá um uppfærslu leikritasafns. Í skýrslu síðasta árs kemur fram að mjög hafi dregið úr gagnrýni og umfjöllun um leiksýningar á vefnum en það hefur hinsvegar ræst töluvert úr því á liðnu ári og er það gleðilegt. Nokkur hefur verið um að nýir gagnrýnendur hafi fjallað um leiksýningar og vonandi að svo verði áfram.
Þá er jafnframt gleðilegt að félög virðast orðin duglegri að senda inn fréttir af starfinu en það hefur frá upphafi verið vandamál hve mikill tími hefur farið í að sækja fréttir til félaganna. Það má hinsvegar ítreka hér þá árlegu bón að félög verði enn duglegri í þeim efnum.

Tæknilega hefur reksturinn gengið betur en undanfarin misseri og engin stærri vandamál komið upp. Til að minnka álag á vefmiðlara var tekin sú ákvörðun að minnka skráningu á aðsókn og því hefur ekki verið tekin saman tölfræði um hana eins og oftast. Hinsvegar er ekki annað að merkja en að aðsókn sé í svipuðu horfi og undanfarið og jafnvel aukning ef eitthvað er.

Helstu breytingar sem gerðar hafa verið á vefnum á liðnu ári eru eftirfarandi:
Settur hefur verið upp svokallaður fréttabréfs- og póstlistamódúll. Hann gerir starfsmönnum það kleift að halda utan um marga mismunandi póstlista og senda út fréttabréf af ýmsu tagi. Nú er þegar byrjað að senda út í lok hverrar viku, fréttabréf sem innihalda allar fréttir liðannar viku af vefnum. Skráðir notendur á Leiklistarvefnum geta sjálfir skráð sig á póstlista og er stefnt er að því að innan skamms verði mest af þeim miklu upplýsingum sem flæða frá skrifstofunni s.s, formannapósturinn, send með hjálp fyrrnefndrar fréttabréfseiningar.
Skráning leikritasafns hefur jafnframt verið bætt umtalsvert og verið er að vinna í að einfalda skráningarferlið.

Ýmis sóknarfæri eru í sölu auglýsinga á vefinn en eins og stundum er ekki mannskapur né tími til að sinna því. Einstaka leikfélög og tengdir aðilar hafa keypt auglýsingu á undanförnu ári og þó þar sé ekki um háar upphæðir að ræða munar vefinn þó um þær.

Fyrir hönd vefnefndar,
Hörður Sigurðarson

Umræður

Árný Leifsdóttir, Leikfélagi Ölfuss, sagði það synd hversu lítið spjallið væri notað. Hörður sagði ýmislegt hafa verið reynt til að hleypa lífi í spjallið en án sjáanlegs árangur. T.d. væri möguleiki að nýta spjallið fyrir ákveðna hópa eins og lestrarhesta.

Sigríður Lára Sigurjónsdóttir lagði til að spjallið yrði opnað fyrir nafnlausar skráningar þar sem það væri líklegast til að lífga við spjallið.

10. Drög að starfsáætlun næsta árs kynnt og skipað í starfshópa.

Ingólfur Þórsson kynnti tillögur að starfsáætlun næsta leikárs og skipti fundargestum í vinnuhópa.

Tillaga stjórnar að starfsáætlun Bandalags íslenskra leikfélaga leikárið 2009-2010

Almenn starfsemi

1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.

2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.

3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.

Sérverkefni ársins

1. Halda áfram undirbúningi NEATA-leiklistarhátíðar á Akureyri í ágúst 2010.

2. Halda Íslensk-Færeyska stuttverkahátíð í Reykjavík haustið 2009.

3. Halda haustfund haustið 2009 helgaðan leiklistarhátíðinni á Akureyri.

11. Kjörnefnd tilkynnir niðurstöður sínar og mælir með a.m.k. 1 aðila í hvert sæti sem kjósa skal í.
Þórvör Embla Guðmundsdóttir gefur ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu en Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, Hjalti Stefán Kristjánsson og Ólöf Þórðardóttir gefa kost á sér í aðalstjórn.

12. Lagabreytingar.
Engar lagabreytingartillögur lágu fyrir fundinum.

13. Tillögur lagðar fyrir fundinn.
Lið frestað þar til eftir hópavinnu sem hófst þar með.

14. Starfsáætlun afgreidd.
Kynntar niðurstöður úr hópa vinnu.

Silja Björk Huldudóttir kynnti hugmyndir hóps 1

Almenn starfsemi
1) Almenn ánægja er með rekstur þjónustumiðstöðvarinnar sem og Leiklistarskólann. Hins vegar var gagnrýnt að ekki hefði verið haldið byrjendanámskeið tvö ár í röð og ítrekað mikilvægi þess að halda í þá meginreglu að hafa byrjendanámskeið annað hvort ár.

Mikið var rætt um Leiklistarvefinn og möguleika þess að tengja hann betur við Facebook. Lagt til að Facebook verði nýtt til þess t.d. að senda út boð á Margt smátt, aðalfundi, haustfundi, Athyglisverðustu áhugaleiksýningu í Þjóðleikhúsinu o.s.frv. Mikill áhugi var fyrir því að virkja spjallið með því að opna það alveg (eins og var), en setja inn flipa eða hnapp þar sem hægt sé að tilkynna vefstjóra um óviðeigandi ummæli með einum smelli (sambærilegt við það sem finna má á Eyjunni og Mbl.is). Með þessu móti væri búin til innri ritskoðun, sem þýðir að vefstjóri þurfi ekki einn að fylgjast með athugasemdum.

Opnun hins almenna spjalls útiloki hins vegar ekki að líka verði stofnaðir lokaðir hópar fyrir sérverkefni og nefndir. Fram kom ósk um að á Leiklistarvefnum verði kynning á leikfélagi mánaðarins. Einnig var óskað eftir því að myndir á vefnum væru stærri og að búin verði til sérstök myndasíða.

2) Í hópnum komu fram áhyggjur af styrkjamálum og var rætt um að hugsanlega þyrfti fyrst og fremst að vinna varnarsigra í þeim efnum, þ.e. að halda í það sem við höfum. Fram kom að mikilvægt væri á þessum umbrotatímum að leggja ekki aðeins áherslur á hið menningar- og félagslega hlutverk áhugaleikhússins í leiklistarflóru landsins heldur ekki síður á hið mannbætandi hlutverk starfseminnar. Þannig þyrfi nauðsynlega að halda því betur á lofti að þátttakendur í áhugaleikfélögum öðlast með leiklistarstarfi sínu aukna félagslega færni sem nýst getur þeim á mörgum öðrum sviðum samfélagsins, t.d. á atvinnumarkaði. Í raun megi segja að það séu ákveðin sóknarfæri nú á tímum atvinnuleysis.

Þeirri spurningu var velt upp hvort leikfélögin geti leitað eftir samstarfi við Vinnumálastofnun og sveitarfélögum á hverjum stað og boðið þeim (gegn greiðslu) að skipuleggja og halda utan um námskeið eða leiklistarstarf fyrir atvinnulausa sem og börn og unglinga – sem vantar að hafa eitthvað fyrir starfi. Var t.d. nefnt námskeið fyrir 18-25 ára ungmenni í sumar sem ekki fái vinnu.

Einnig var þeirri spurningu velt upp hvort Bandalagið gæti gert sambærilegan samning við ríkið og leikfélög gera við sveitarfélögin um að standa fyrir ýmsum viðburðum (t.d. á 17. júní og slíku). Nefnt var hvort Bandalagið gæti fundið flöt á því að fara í einhvers konar almenna fjáröflun til viðbótar við þá styrki sem sótt er um.

3) Mikil ánægja var með samstarfið við Þjóðleikhúsið. Nefnt var að fresturinn til að sækja um væri á óheppilegum tíma þar sem leikárinu væri ekki lokið og ekki búið að frumsýna allar sýningar leikársins. Rætt var um hvort hægt væri að lengja frestinn. Sé það ekki mögulegt þá þyrfti að ýta betur við leikfélögunum og minna þau á að hyggist þau sækja um í Þjóðleikhúsinu þá þurfi þau e.t.v. að skipuleggja leikár sitt með tilliti til þessa. Ákveðin óánægja kom fram með það að valnefnd Þjóðleikhússins væri hætt að fara á sýningar og sæi sýningarnar einvörðungu á DVD-formi.

Sérverkefni ársins
1) Vinnuhópurinn hafði áhyggjur af fjáröflun fyrir NEATA-hátíðina. Taldi hann mikilvægt að það skýrist sem fyrst hvort raunhæft sé að Bandalagið geti fjármagnað hátíðina. Ef ekki, að við þá gefum verkefnið frá okkur í góðum tíma.

2) Mikil ánægja var með stuttverkahátíðina. Fram kom áhugi fyrir því að reyna að halda í framhaldinu systurhátíð Margs smás í Færeyjum þar sem við heimsækjum frændur okkar. Einnig kom fram sú hugmynd að sama stuttverkið (eitt eða fleiri) verði leikið bæði á íslensku og færeysku þar sem spennandi gæti verið að sjá ólíkar nálganir/uppfærslur á sama verkinu. Rætt var um hugmyndir um fjáröflun, s.s. jaðarbyggðastyrkir og Vestnorræna ráðið.

3) Gott mál að halda aðalfund í haust helgaðan leiklistarhátíðinni á Akureyri, verði af henni. En auðvitað er alltaf jákvætt að halda haustfund.

Tillögur vinnuhópsins að fleiri sérverkefnum ársins
4) Unnið verði áfram að því að koma gagnrýnisskrifum í farveg og finna útfærslu á framkvæmdinni.

5) Haldið verði áfram að kanna grundvöll samstarfs BÍL við Þjóðleikhúsið um búningaleigu, en einnig verði horft til samstarf við Borgarleikhúsið og Ríkissjónvarpið í þessum efnum.

6) BÍL útfæri til eins árs tilraunaverkefni sem snúi að því að efla húsnæði BÍL enn frekar sem miðstöð leiklistar.

Greinargerð með tillöguni:
BÍL útfæri til eins árs tilraunaverkefni sem snúi að því að efla húsnæði BÍL enn frekar sem miðstöð leiklistar með því að skipuleggja reglulegar samkomur/hittinga (t.d. fyrsta mánudag hver mánaðar) þar sem m.a. væru fyrirlestrar, skipulagðir leiklestrar, kynning á höfundum, mismunandi leikstílum, leikhúsvörum og leikfélögum. Markmið hittingsins væri einnig að stuðla að virkri umræðu milli leikfélaga þar sem þátttakendur gætu deilt reynslu sinni af verkefnavali, kynningarmálum, skipulagsvinnu o.s.frv. Stefnt skuli að því að nýta fjarfundarbúnað, Skype, vefmyndavél og/eða hlaðvarp til þess að þeir sem ekki hafi tök á að mæta á hittingana í eigin persónu geti fylgst með þeim á netinu.

Stofna þyrfti fræðslu- og skemmtinefnd húsnæðisins, sem mætti heita: “Nefnd um að gera hitt.”
Lagt til að skoðunarkönnun eða hugmyndabanka verði komið upp i á Leiklistarvefnum.

Maríanna Ósk Sigfúsdóttir kynnti hugmyndir hóps 2

1. Þjónustumiðstöðin
Mikil ánægja með þjónustumiðstöðina. Áhyggjur af fjárhag Bandalagsins og árferði. Verum jákvæð, fólk er skapandi á krepputímum.

Vefurinn.
Er mælir sem telur komur á síðuna? Væri gaman að hafa meiri gagnrýni á síðunni. Spjallið: Væri hægt að opna betur fyrir spjallið, bara athuga og sjá hvernig gengur?

Bandalagsþing.
Leiðinlegt að ekki séu fleiri leikfélög með fulltrúa hér. Kom fram að búið væri að gera könnun en flest félög svöruðu því að annað hvort höfðu þau ekki áhuga á Bandalaginu eða voru bara svo ánægð með sitt á sínum stað. Nú eða sauðburð ber upp á sama tíma.

Leiklistarskólinn
Vonum að húsnæðismál skólans leysist og trúum því. Þarf hann að vera stærri til að mæta aðsókn? Mikil ánægja með hvað byrjendanámskeiðin eru haldin reglulega. Tækninámskeiðið þótti okkur gott framtak, þurfum að þrýsta á fólkið okkar vegna þess að þetta er oft veikur hlekkur hjá félögum.

2. Verjum styrkina.
Mælum með því að allir fari að hamast í sínum þingmönnum og nýti kreppu og nýja ríkisstjórn. Ræddum kosti leiklistar fyrir börn og unglinga. Unglingar eru margir svo kvíðnir en leikhúsið er einmitt staðurinn til að taka á móti þeim og efla sjálfstraust. Bendum þingmönnum á að það er ódýrara að styðja leikfélögin heldur en að stækka geðdeild. Má alveg taka svolítið af athyglinni sem beinist að tónlistarfólkinu og koma leikatriðum meira inn á bæjarfögnuði, eiga til dæmis hugmyndakassa með nokkrum stuttum æfðum atriðum sem hægt væri að senda á staðinn. Markaðsmál áhugaleikfélaganna þarf að styrkja og ná fram jákvæðri og góðri ímynd hjá bæjarstjórnum, yfirvöldum og fyrirtækjum.

Sérverkefni ársins.

Leggjum til að sækja aftur um þegar við förum í aðildarviðræður við ESB.
Já, Færeyingar eru skemmtilegir og hugmyndin góð.
Viljum endilega halda haustfundinn.

Gunnhildur Sigurðardóttir kynnti hugmyndir hóps 3

Hópur 3
Hópurinn samþykkir tillögu að starfsáætlun BÍL óbreytta. Þessi ákvörðun var tekin í ljósi þess að á starfsáætluninni eru a.m.k. 2 stór verkefni, þ.e. leiklistarhátíðin 2010 og fjármál bandalagsins bæði hvað varðar almennt efnahagsástand og einnig fjáröflun fyrir leiklistarhátíðina. Eftirfarandi umræður áttu sér stað um innihald starfsáætlunar.

Almenn starfsemi
Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.

Þjónustumiðstöð
Stjórn BÍL og starfsfólk talið standa sig afar vel og ávalt gott að leita til skrifstofunnar varðandi alla þjónustu. Hins vegar þurfa leikfélögin að standa sig betur í því að senda efni og upplýsingar til skrifstofunnar svo og að kynna starfsemi BÍL meðal sinna félagsmanna.

Leiklistarskólinn
Almenn ánægja með starfsemi hans og störf skólanefndar. Ánægja með að leit að hentugu húsnæði fyrir skólann sé í góðum farvegi og er skólanefnd hvött til að halda því áfram.

Leiklistarvefurinn
Almenn ánægja með vefinn. Aðildarfélög BÍL eru hvött til að vera duglegri við að senda inn efni og hvetja félaga sína til að skoða og nýta sér vefinn. Í umræðunni kom upp gömul hugmynd um viskubrunn á vefnum einkum hvað varðar búningasafn leikfélaganna þar sem félögin sendi inn lista með búningasafni sínu. Engin tillaga kom fram um þetta en rætt um að ef að þessu verður standi þetta og falli með því að leikfélögin séu virk í að senda inn og uppfæra slíkan lista.

Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi leikfélaganna og sameiginlegra verkefna.
Stjórn og starfsmenn BÍL hafa mikla og góða reynslu af þessu og er treyst til halda því áfram og sækja um allt og alls staðar. Hópurinn beinir því til stjórnar hvort vænlegt væri að bjóða fyrirtækjum að vera árlegir styrktaraðilar BÍL með því að greiða lága upphæð (t.d. 5000 kr.) á ári. Þannig myndi margt smátt gera eitt stórt.

Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.
Samþykkt án mikillar umræðu. Almenn ánægja með þetta.

Sérverkefni

Halda áram undirbúningi NEATA-leiklistarhátíðar á Akureyri í ágúst 2010.
Rætt um áhyggjur varðandi fjáröflun til hátíðarinnar en reynsla og þekking frá fyrri leiklistarhátíðum reynist hátíðarnefndinni vonandi vel. Einnig rætt um að gott væri að hafa varaáætlun vegna húsnæðismála hátíðarinnar þar sem menningarhúsið á Akureyri á ekki að vera tilbúið fyrr en í ágúst 2010 og það sé ansi tæpt þar sem leiklistarhátíðin er á sama tíma.

Halda Íslensk-Færeyska stuttverkahátíð í Reykjavík haustið 2009.
Umræður um að heppilegra hefði verið að sameina Margt smátt og þessa stuttverkahátíð og hafa eina slíka í haust. Uppástunga um að gera tillögu þess efnis en hópurinn aflaði sér upplýsinga um það að kostnaður væri afar lítill við slíkar hátíðir og því hætt við að leggja hana fram.

Halda haustfund haustið 2009 helgaðan leiklistarhátíðinni á Akureyri.
Nauðsynlegt að halda haustfund og tillaga um að hann verði haldinn á Akureyri.

Gerður Halldóra Sigurðardóttir kynnti hugmyndir hóps 4

Liður 2: Leggja áherslu á að félögin séu dugleg að vekja á sér athygli, að starfsemin sé sýnileg. Í því samhengi skorum við á leikfélögin að leggja metnað sinn í að halda úti blómlegri starfsemi í sínu sveitarfélagi og gera sig sýnileg með öllum tiltækum ráðum.

Við vorum líka með hugmynd að sérverkefni:
Að skoða fyrirkomulag samsstarfssamninga leikfélaga við sveitarfélög, hvort það sé þróun í þá átt að gera slíka samninga hjá sveitarfélögunum (og hvort þau vilji þá kannski frekar en hreina styrki) og hver reynsla þeirra leikfélaga sé sem hafa gert slíka samninga.

Sigríður Lára Sigurjónsdóttir kynnti hugmyndir hóps 5

Námskeið í stjórnun leikfélaga
– Gagnasafn á leiklistarvefum. Handbók, skipurit, ýmis form
Hugmynd um að stjórnir leikfélaga sendi hugmyndir inn í hugmyndabanka, eftir því sem stjórnir og stjórnarmenn, þróa sitt starf.

Hugmynd kom fram um að halda hugsanlega aðgreind námskeið fyrir mismunandi embætti innan stjórna. Formenn, Gjaldkerar, Ritarar, til dæmis. Væri hægt að halda á sama tíma í litlum starfshópum.

– Rætt um vefi leikfélaga og talið mikilvægt að fulltrúar stjórna leikfélaga væru duglegir að senda nýjar upplýsingar til skrifstofu, bæði um stjórnamenn, ný netföng og símanúmer og það sem er í gangi í félögum. Eins að menn séu með kontaktpóstfang og númer á vefjum sinna félaga.

Rætt um styrki sem ríkið er að veita í verkefni til ráðningar á starfsmönnum til skemmri tíma. Velt upp hvort Bandalagið gæti notfært sér eitthvað slíkt, í sambandi við skönnun á handritum, eða NEATA-hátíðina.

Mönnum þótti þjónustumiðstöðin virka vel sem upplýsingamiðill, ekki síður í gegnum póstlista heldur en Leiklistarvefinn.

Stofna netföng á leikfélagið, gmail eða hotmail, þannig að alltaf sé eitthvað netfang virkt ef annað klikkar.

Rætt um Facebook sem kynningarmiðil, afar hentug leið til að kynna viðburði og dreifa upplýsingum um þá víða.

Meginfélag áhugaleikfélaga í Færeyjum er skemmtilegur Facebook-vinur.

Leiklistarskóli Bandalagsins:
Leiklistarskólapósturinn fer í Kaupfélagið á Seyðisfirði!

Menn ræddu um mikilvægi tengslanetsins milli leikfélaga sem gjarnan myndast á Bandalagsþingum og í Leiklistarskólanum.

Barna- og unglingastarf.
Hvatt til meiri samvinnu á milli leikfélaga og jafnvel landshluta í barna og unglingastarfi. Skiptast á heimsóknum með slík leikrit.
– Reynslan af Þjóðleik er góð fyrir austan og var fólk í hópnum bjartsýnt á að hægt væri að hafa slíkar heimsóknir víðar.
– Mikilvægt að hlúa að grasrótinni í leikfélögunum upp á framtíð starfsins. Auk þess sem þetta starf getur skipt sköpum í sjálfstyrkingu ungmenna, eins og reyndar allra.

Leikfélag Dalvíkur fékk hálfa milljón í styrk frá Samherja á Akureyri og er talið að unglingastarfið spili þar stóra rullu. Leikfélag Seyðisfjarðar hefur einnig fengið fína styrki úr sínu samfélagi. Talið er að leikfélög í smærri samfélögum búi kannski að því.

Aðeins rætt um miðaverð, t.d. þekkjast dæmi þar sem viðgengst ákveðið hámarksverð á kjarnafjölskyldu, hún borgar aldrei meira en þá upphæð sama hversu mörg börnin eru.

Hugmyndaauðgi í kynningarstarfi: Leikfélag Dalvíkur bíður alltaf „Konunni á kassanum í Kaupfélaginu á Dalvík á sýningu, og Leikfélag Selfoss hárgreiðslufólk á Selfossi. Þetta fólk hittir marga í starfi sínu og vantar alltaf góð umræðuefni.

NEATA-hátíð.
– Fá aðgengi að flinkum auglýsingasölumönnum fyrir NEATA-hátíðina.
– Leikfélög geti valið að styrkja Bandalagið og hátíðina. T.d. með innkomu af einni sýningu. Dæmi 25 manns, 1000 kall inn, 30 félög: 750.000 kall!
– Dagur Bandalagsins? Spurning um að fara í eitthvað sameiginlegt átak?

Ætlum öll að mæta á haustfund!

Umræður

Hörður Sigurðarson sagði að hægt væri að tengja vefinn við facebook og aðra tengslavefi. Leikfélag mánaðarins væri góð hugmynd en ylti á að leikfélögin tækju saman pakka um sjálf sig og sendu á skrifstofuna. Hugmyndir um stærri myndir og myndasíður ylti líka á að góðar myndir bærust. Í dag er hægt að skrifa nafnlaust á spjallið, maður þarf bara að skrá sig inn. Þá sér umsjónarmaður vefsins hver skrifar en enginn annar.

Hrefna Friðriksdóttir þakkaði hlý orð í garð skólans og taldi víst að byrjendanámskeið í leiklist verði sumarið 2010.

Þorgeir Tryggvason bað leikfélögin á höfuðborgarsvæðinu, sem eru með tillögu um gagnrýnimál, að setja ekki inn nákvæmar útlistanir á útfærslu þar sem það gæti flækt mál.

Guðrún Halla Jónsdóttir sagði að við gætum beðið með það fram í nóvember að taka endanlega ákvörðun um hvort við getum haldið NEATA-hátíðina þar sem þá færst úr því skorið hvort við fáum styrk frá Norðurlandabatteríinu.

Unnar Reynisson, Leikfélaginu Hallvarði súganda, fór fram á að fréttum um Bandalagsviðburði eins og námskeið, fundi og hátíðir væri haldið þannig að þeir væru aðgengilegir þar til þeir eru liðnir.

Hörður Sigurðarson sagði þetta góða ábendingu og kannski full ástæða að allir slíkir viðburðir fengju borða til hliðar og yrðu þannig alltaf aðgengilegar. Hann sagðist vonast til að póstlistamódúllinn leysti þetta vandamál að hluta.

Árný Leifsdóttir sagði frá reynslu sinn sem menningarfulltrúi Ölfuss af því skapa tímabundin átaksverkefni og hvatti leikfélögin til að leita til menningarfulltrúa síns héraðs ef þau hefðu verkefni sem þau vildu hrinda í framkvæmd.

Allir liðir starfsáætlunar stjórnar samþykktir.

Umræður um tillögur vinnuhóps 1 um viðbætur við starfsáætlun stjórnar

Viðbótartillaga 1: Unnið verði áfram að því að koma gagnrýnisskrifum í farveg og finna útfærslu á framkvæmdinni.

Hörður Sigurðarson rifjaði upp tillögur sínar frá haustfundi um að gagnrýnimál yrðu ekki mál stjórnar heldur tækju leikfélögin sig saman um að leysa þetta mál.

Nanna Vilhelmsdóttir, Hugleik, sagði hugmyndin væri að Bandalagið sæi um að halda um utan um greiðslur sem milliliður svo leikfélögin væru ekki að greiða beint fyrir gagnrýni á sig sjálf. Önnur framkvæmd væri á höndum leikfélaganna.

Þorgeir Tryggvason taldi að það væri óþarfi að binda þessháttar útfærslu í starfsáætlun

Tillagan samþykkt.

Viðbótartillaga 2: Haldið verði áfram að kanna grundvöll samstarfs BÍL við Þjóðleikhúsið um búningaleigu, en einnig verði horft til samstarf við Borgarleikhúsið og Ríkissjónvarpið í þessum efnum.

Magnús J. Magnússon spurði um hver væri staðan á þessu samstarfi í dag

Þorgeir Tryggvason sagði að lengi vel hefðu áhugaleikfélögin átt þess kost að fá búninga í Þjóðleikhúsinu en nú telur það sig ekki hafa mannskap til að veita þessa þjónustu. Þ.a.l. hafa hvorki leikfélögin né aðrir aðgang að búningasöfnum nema í gegnum klíkuskap.

Guðrún Halla Jónsdóttir velti upp þeirri hugmynd að fá starfsmann í gegnum vinnumálastofun til starfa í búningadeild Þjóðleikhússins til að þjónusta áhugaleikfélög og aðra sem á þurfa að halda .

Tillagan samþykkt einróma.

Viðbótartillaga 3: Bandalagið útfæri til eins árs tilraunaverkefni sem snúi að því að efla húsnæði BÍL enn frekar sem miðstöð leiklistar.

F. Elli Hafliðason velti fyrir sér hvort mikill kostnaður hlytist af þessu.

Þorgeir Tryggvson sagði sér þætti hugmyndin spennandi en hana þyrfti að útfæra. Nýja húsnæðið hentaði ágætlega til þessa og það væri spennandi verkefni að leysa.

Gerður Halldóra Sigurðardóttir, Leikfélalagi Selfoss, lagði til að námskeið í einstökum liðum í stjórnun leikfélaga yrði fellt inn í þetta.

Vilborg Valgarðsdóttir taldi að það þyrfti að stofna nefnd um þetta mál en þetta væri afar spennandi hugmynd.

Guðfinna Gunnarsdóttir spurði hvort hægt væri að útfæra það á vefnum að fólk gæti sent inn hugmyndir að efni. Hörður Sigurðarson taldi það lítið mál.

Elínrós Jóhannsdóttir sagði að það væri mikilvægt að leikfélögin út i á landi gætu fylgst með.

Tillagan samþykkt einróma.

Starfsáætlun leikársins 2009-2010

Almenn starfsemi

1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.

2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.

3. Halda áfram samstarfi við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.

Sérverkefni ársins

1. Halda áfram undirbúningi NEATA-leiklistarhátíðar á Akureyri í ágúst 2010.

2. Halda Íslensk-Færeyska stuttverkahátíð í Reykjavík haustið 2009.

3. Halda haustfund haustið 2009 helgaðan leiklistarhátíðinni á Akureyri.

4. Unnið verði áfram að því að koma gagnrýnisskrifum í farveg og finna útfærslu á framkvæmdinni.

5. Haldið verði áfram að kanna grundvöll samstarfs BÍL við Þjóðleikhúsið um búningaleigu, en einnig verði horft til samstarf við Borgarleikhúsið og Ríkissjónvarpið í þessum efnum.

6. Bandalagið útfæri til eins árs tilraunaverkefni sem snúi að því að efla húsnæði BÍL enn frekar sem miðstöð leiklistar.

13. Tillögur lagðar fyrir fundinn.

Vilborg Valgarðsdóttir lagði fram eftirfarandi tillögu:

Ég legg til að 1,5 milljónir af verkefnastyrk aðildarfélaganna 2009 verði látinn ganga til skrifstofunnar.

Húsalega að Suðurlandsbraut fyrir árið verður u.þ.b. 3,8 milljónir og á meðan kaupandi að Laugavegi 96 getur ekki fjármagnað kaupin borgum við tæp 40% af leigunni af rekstrarfé skrifstofunnar.

Vilborg Valgarðsdóttir.

Tillagan samþykkt einróma.

Þorgeir Tryggvason lagði fram eftirfarandi tillögu að ályktun:

Aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga, haldinn að Hlíð í Ölfusi 1. maí 2009 samþykkir svohljóðandi ályktun.

Öflug og fjölbreytt starfsemi íslenskra áhugaleikfélaga er sú grasrót sem leiklistarlíf þjóðarinnar sækir næringu sína í. Mikilvægi starfseminnar fyrir blómlega menningu um landið allt verður ekki dregið í efa. Fólk á öllum aldri og úr öllum stéttum og stöðum þjóðfélagsins sækir í leiklistarstarfið farveg fyrir listræna hæfileika sína, vaxa að trú á eigin getu og finna á eigin skinni hvernig einbeitt vinna að sameiginlegu marki skilar árangri.

Á þessum miklu óvissutímum getur starfsemi af þessu tagi skipt sköpum. Aldrei hefur verið mikilvægara að efla sjálfstraust þátttakenda og treysta þá í trú á gildi skapandi samvinnu. Nú sem aldrei fyrr þurfum við að rækta samlíðan okkar og hæfileika til að setja okkur í annarra spor. Skilja sálirnar og samfélagið og sannfærast um möguleika okkar til nýsköpunar og endurreisnar.

Til þessa er leikhúsið eitt sterkasta tækið. Bandalag íslenskra leikfélaga skorar á stjórnvöld að standa vörð um fjárhagsgrundvöll starfsemi áhugaleikfélaganna. Á móti heita leikfélögin því að halda áfram sínu metnaðarfulla starfi, landi og þjóð til gleði og hagsbóta.

Tillagan samþykkt einróma

15. Stjórnarkjör.

Þorgeir Tryggvason, Hugleik, einn í framboði til formanns og því sjálfkjörinn.

Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, Hugleik, Ólöf Þórðardóttir, Leikfélagi Mosfellssveitar og Hjalti S. Kristjánsson, Hugleik, í framboði til aðalstjórnar. Sigríður Lára hlýtur kosningu.

Magnús J. Magnússon, Leikfélagi Hornafjarðar og Leikhópnum Mána, Sólveig Rögnvaldsdóttir, Leikfélagi Dalvíkur, Hjalti S. Kristjánsson, Ólöf Þórðardóttir og Elva Dögg Gunnarsdóttir, Leikfélagi Hafnarfjarðar, í framboði varastjórnar. Magnús, Ólöf og Elva kosin til tveggja ára og Hjalti til eins árs.

16. a. Kosning 3ja manna kjörnefndar og eins varamanns til eins árs.
b. Kosning 2ja skoðunarmanna reikninga og eins til vara til eins árs.

Tillaga stjórnar að kjörnefnd: Dýrleif Jónsdóttir, Embla Guðmundsdóttir og Gerður H. Sigurðardóttir og Halldór Sigurgeirsson, Freyvangsleikhúsinu, til vara

Einróma samþykkt.

Tilllaga stjórnar að skoðunarmönnum reikninga er Hrefna Friðriksdóttir og Anna Jórunn Stefánsdóttir, Leikfélagi Hveragerðis. Júlia Hannam, Hugleik, til vara.

Einróma samþykkt.

17. Ákveðið árgjald til Bandalagsins.

Þorgeir Tryggvason lagði eftirfarandi til fyrir hönd stjórnar:

Stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga leggur til að árgjöld aðildarfélaga fyrir leikárið 2009-2010 verði kr. 40.000.

Félög sem setja upp tvær styrkhæfar sýningar á leikárinu borgi eitt og hálft gjald eða 60.000 og félög sem setja upp þrjár sýningar eða fleiri borgi tvöfalt gjald eða kr. 80.000.

Félög sem setja ekki upp styrkhæfa sýningu á leikárinu borgi hálft árgjald eða kr. 20.000.

Einróma samþykkt.

Fundi frestað til morguns.

Fundi framhaldið 2. maí

18. Önnur mál

Vigdís Jakobsdóttir kynnti leiklistarverkefnið Þjóðleik sem Þjóðleikhúsið stóð fyrir á Austurlandi í vetur. Verkefnið hafði fjögur meginmarkmið:

– Að hvetja ungt fólk til að taka þátt í leiklist.
– Að miðla fagþekkingu úr Þjóðleikhúsinu, bæði til stjórnenda og leikara.
– Að tengja Þjóðleikhúsið landbyggðinni.
– Að efla íslenska leikritinu.

Magnús J. Magnússon sagði frá sinni reynslu af Þjóðleik en hann sat í framkvæmdanefnd verkefnisins.

Umræður

Sólveig Rögnvaldsdóttir spurði hvort að handritin sem unnið var með yrðu aðgengileg öðrum félögum. Vigdís hvað svo vera.

Lilja Kristinsdóttir, Leikfélagi Seyðisfjarðar, sagði að leiklistarhátíðin og öll þessi helgi hefðu verið algjörlega mögnuð fyrir þá sem urðu vitni að Þjóðleik.

Vigdís Jakobsdóttir sagði að draumurinn væri að koma þessu verkefni á í fleiri landshlutum og jafnframt halda því áfram á Austurlandi. Hún þakkaði sérstaklega leikfélögunum á Austurlandi fyrir frábæran stuðning við hátíðina.

Vilborg Valgarðsdóttir þakkaði Þórvöru Emblu fyrir vel unnin stjórnarstörf. Hún bauð sögu Bandalagsins til sölu á þinginu með 20% afslætti.

Halla Rún Tryggvadóttir sagði frá reynslu Leikfélags Húsavíkur af sölu búninga úr búningasafni félagsins og það hefði verið ágætis fjáröflun.

Guðrún Halla Jónsdóttir sagði frá verkefninu Gestalæti sem hún vann með unglingum þegar hún bjó á Akureyri. Þar fengu um 30 unglingar vinnu yfir sumar við að skemmta ferðamönnum og lífga upp á bæjarlífið í 3 sumur. Hún taldi að þetta gætu flest leikfélög gert ef áhugi sveitarfélaga væri fyrir hendi.

Embla Guðmundsdóttir sagði frá vinnu Umf. Reykdæla við sýninguna Töðugjöld – sendu mér sms.

Ármann Guðmundsson minnti fólk á að enn vantaði sýningar á Margt smátt og bauðst til að aðstoða við finna verk.

19. Næsti aðalfundur, hugmyndir reifaðar um stað og stund.

Halldór Sigurgeirsson. Freyvangsleikhúsinu bauðst til að halda næsta haustfund og Bandalagsþing í Eyjafirði fyrir hönd Freyvangsleikhússins, Leikfélags Dalvíkur og Leikfélags Hörgdæla.

Þorgeir Tryggvason þakkaði fundarmönnum fyrir góðan fund. Hann ítrekaði áskorun um að senda sýningar á Margt smátt og sleit fundinum.

Fundargerð rituðu Ármann Guðmundsson og Sigríður Lára Sigurjónsdóttir

 

0 Comments Off on Aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga 1.-2. maí 2009 888 04 June, 2009 Aðalfundargerðir, Fundir June 4, 2009

Áskrift að Vikupósti

Karfa