Formaður Bandalagsins, Guðfinna Gunnarsdóttir setur fundinn kl. 13:00.

1. Fundarsetning. Kosning 2ja fundarstjóra og 2ja fundarritara sem taka þegar til starfa. Lögmæti fundarins kannað.
Þorvaldur Jónsson og Steinunn Garðarsdóttir frá Umf. Reykdæla skipaðir fundarstjórar og Ingveldur Lára Þórðardóttir Leikfélagi Hafnarfjarðar og Magnþóra Kristjánsdóttir Leikfélagi Ölfuss skipaðir fundarritarar. Fundur telst lögmætur.

2. Kjörnefnd afgreiðir kjörbréf og afhendir atkvæðaspjöld, skýrir stöðu mála varðandi stjórnarkjör og auglýsir eftir tillögum.
Kjörbréf afgreidd og atkvæðaspjöldum dreift. Dýrleif Jónsdóttir Hugleik sagði frá stöðu mála í stjórnarkjöri og lýsti eftir framboðum. Kosið verður um þrjá aðalmenn og tvo varamenn.

3. Menningarstefna Bandalagsins lesin og rædd.
Eftir að fundarmenn höfðu staðið upp og kynnt sig las Sigríður Hafsteinsdóttir Leikfélagi Selfoss Menningarstefnu Bandalags íslenskra leikfélaga. Gísli Björn Heimisson Leikfélagi Hafnarfjarðar steig í pontu og gerði athugasemd við orðalag menningarstefnunnar. Örn Alexandersson Leikfélagi Kópavogs benti á mikilvægi þess að leikfélögin hefðu aðstöðu til þess að sinna listinni sbr. klausu í menningarstefnunni.

4. Staðfest inntaka nýrra félaga, félög tekin af félagaskrá.
Þráinn Sigvaldason Leikfélagi Hörgdæla sagði frá því að engin félög hefðu sótt um aðild. Að því loknu las hann upp þrjú bréf sem stjórn hafði borist varðand úrsögn úr Bandalaginu. Jón Benjamín Einarsson frá Leikfélaginu Peðinu sendi hjartnæmt bréf um endalok Peðsins. Snúður og Snælda, leikfélag eldri borgara hefur einnig hætt störfum og Leikfélag Umf. Stafholtstungna segir sig einnig úr Bandalaginu. Leikfélag Reyðarfjarðar og Leikfélagið Hallvarður Súgandi eru einnig tekin af félagaskrá vegna vangoldinna árgjalda. Eru aðildarfélög Bandalagsins nú 48.

5. Fundargerð síðasta aðalfundar afgreidd.
Fundargerðin borin upp af fundarstjóra. Hún samþykkt.

6. Skýrsla stjórnar.
Guðfinna Gunnarsdóttir flutti skýrsluna:

Skýrsla stjórnar Bandalags íslenskra leikfélaga á aðalfundi að Logalandi, Reykholtsdal í Borgarfirði 5. maí 2018

I. Stjórn

Á starfsárinu skipuðu stjórn þau:

Guðfinna Gunnarsdóttir, Selfossi, formaður

Ólöf Þórðardóttir, Mosfellsbæ, varaformaður

Þráinn Sigvaldason, Hörgárdal, ritari

Bernharð Arnarsson, Hörgárdal, meðstjórnandi

Gísli Björn Heimisson, Reykjavík, meðstjórnandi.

Í varastjórn sátu:

Þrúður Sigurðardóttir, Salbjörg Engilbertsdóttir, Ágúst T. Magnússon, Embla Guðmundsdóttir og Sigríður Hafsteinsdóttir.

Framkvæmdastjóri í Þjónustumiðstöð er sem endranær Vilborg Valgarðsdóttir.

Stjórn hélt fimm starfsfundi á árinu. Einn að afloknum aðalfundi í Ölfussi og þrjá í þjónustumiðstöð okkar í Reykjavík og þann síðasta hér í Logalandi í gær. Fjarfundarbúnaður var notaður endrum og sinnum með góðum árangri þegar ritari vor Þráinn og meðstjórnandi Bernharð áttu ekki heimangengt úr Hörgárdalnum. Einnig hefur mjög skemmtilegur fésbókarhópur okkar stjórnarmanna verið nýttur til góðra samskipta stjórnarmanna árið um kring.

Er starfsfólki og stjórn þökkuð góð samvinna á árinu.

II. Starfsemi félaganna

31 aðildarfélög Bandalagsins sendu inn styrkumsóknir fyrir alls 86 leiksýningar og leikþætti, 18 námskeið og 37 skólanemendur fyrir leikárið 2016-2017. Fullur styrkur reyndist vera 330.746 krónur. Ársritið okkar inniheldur síðan allar frekari upplýsingar um starfsemina. Ekki liggja fyrir tölur um umfang starfsins á þessu leikári en engin ástæða til að ætla annað en það sé svipað og verið hefur. Félögin í Bandalaginu eru nú 48 talsins.

III. Starfsáætlun

Á síðasta aðalfundi var að venju samþykkt starfsáætlun og og verður nú farið yfir hana og sagt frá hvað gert var til að efna einstaka liði hennar.

Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.

Rekstur þjónustumiðstöðvar er alltaf í og við og kringum núllið og við alltaf í ákveðnum línudansi þar. Viðbótarstyrkur aðildarfélaganna sem samþykktur var á síðasta aðalfundi gerði gæfumuninn fyrir starfsárið og sést það glöggt á reikningum Bandalagsins sem kynntir verða hér á eftir.

Vilborg hefur setið fundi með hópi sem settur var af stað af menntamálaráðuneytinu um það sem þeir kalla Sameiningu/Hagræðingu í rekstri menningarstofnana. Engin niðurstaða liggur fyrir ennþá en síðasti fundurinn var í gær.

Um skólann og vefinn munu fulltrúar viðkomandi nefnda fjalla í sínum skýrslum.

Nýtt rafrænt umsóknarkerfi er nú orðið allsráðandi og hefur gefist vel.

Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.

Framlag til starfsemi áhugaleikfélaganna er nú 18,5 milj. kr. Til þjónustumiðstöðvarinnar er framlagið 6 milj. kr. á ári samkvæmt samningi sem gildir til loka ársins 2018. Vegna kosninga og því sem því fylgir höfum við ekki enn fengið fund um nýjan samning, en ef vel á að vera og skrifstofan rekin áfram með sama sniði og verið hefur, þyrftum við að fá ríflega hækkun á samningi og komast upp í 8.5 milljónir á ári til að halda sjó.

Við bíðum enn þá spennt eftir því að hitta nýjasta ráðherra menningar og munum freista þess að kynna okkar málefni fyrir honum á haustdögum.

Sérverkefni ársins

1. Að halda vinnustofunámskeið/fyrirlestra um t.d. vefgerð, Qlab, Office 365 ofl. í tengslum við næsta aðalfund.

Vinnustofur fóru fram í morgun við mikinn fögnuð allra viðstaddra.

2. Að haldin verði stuttverkahátíð í tengslum við aðalfund 2018.

Stuttverkahátið fór fram í gærkveld og ætlaði fagnaðarlátunum aldrei að linna.

3. Settur verði á laggirnar starfshópur sem hefji undirbúning að leiklistarhátíð í einhverju formi sem haldin yrði í tengslum við afmæli BÍL árið 2020.

Starfshópur hefur verið settur á laggir. Í honum sitja sú sem hér stendur, framkvæmdastjóri og Ólöf, varaformaður. Hópurinn tekur við öllum góðum ábendingum og gleðigjöfum og vonandi verða líflegar umræður um hátíðina hér í hópavinnu á eftir og helst slegist um að fá að halda han

IV – Önnur mál

Uppfærsla Leikfélags Hveragerðis á Naktir í náttúrunni í leikgerð og leikstjórn Jóns Gunnars Þórðarsonar var valin Athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins af valnefnd Þjóðleikhússins og var hún sýnd í Þjóðleikhúsinu 15. júní við góðan orðstír. Í ár eru sýningarnar 16 sem valið verður á milli og mun fulltrúi Þjóðleikhússins tilkynna um það undir borðum í Logalandi í kvöld.

Búið er að setja á fót gagnabanka þar sem hægt er að setja inn myndir af búningum og propsi til láns og leigu. Þessi banki er á Leiklistarvefnum. Lénsherra vor var ekki lengi að setja gagnabankann af stað, nú er það ykkar að njóta og nota.

Af erlendum vettvangi má geta þess að sýning Leikfélags Hafnarfjarðar, Ubbi kóngur, í leikstjórn Ágústu Skúladóttur var valin til þátttöku á IATA/AITA alþjóðlegu leiklistarhátíðinni í Mónakó sem fram fór seinni hluta ágústmánaðar. Er skemmst frá því að segja að sýningin sló algerlega í gegn og fékk frábærar viðtökur. Ubbi kóngur hefur ekki lokið sér af í sýningum, þrátt fyrir að Leikfélag Hafnarfjarðar sé, eftir því sem ég best veit, enn þá heimilislaust, þá víla Hafnfirðingar það ekki fyrir sér að ferðast með Ubba ár eftir ár til meginlandsins og leggja enn á ný land undir fót, að þessu sinni til Hronova í Tékklandi en þar sýna þau í ágúst nk.

Sýning Leikfélags Kópavogs, Svarti kassinn eftir Hrefnu Friðriksdóttur í leikstjórn Ágústu Skúladóttur, verður fulltrúi Íslands á NEATA leiklistarhátíðinni „Baltic Flight“ sem haldin verður í bænum Anykschiai í Litháen.

Sem fyrr sagði sóttu formaður og framkvæmdastjóri aðalfund IATA/AITA í Mónakó, en fundurinn var lengri en venjulega þar sem lagðar voru fram heildarbreytingar á lögum samtakanna.  Ekki var nú allt samþykkt, þó svo að breytingarnar hefðu eflaust hjálpað til við að opna samtökin meira en nú er. Ákveðið var að fækka í stjórn og formaðurinn tekur strax við eftir stjórnarkjör. Allar hugmyndir um að stækka og opna félagsskapinn voru skotnar í kaf á fundinum. Mikil hagsmunapólitík var í gangi meðal frönskumælandi fulltrúanna og sterk andstaða við þær breytingar sem lagðar höfðu verið fyrir fundinn. Fundurinn var áhugaverður og gagnlegur, en mögulega blikur á lofti og frekari breytingar gætu orðið innan fárra ára, sem væri kostur. Ársfundur NEATA var einnig haldinn í Mónakó, en þar var aðalumræðuefnið komandi leiklistarhátið í Lithaén, þar sem fagnað verður 20 ára afmæli NEATA. Formaður og framkvæmdastjóri mun sækja téða hátíð heim.

María Björt Ármannsdóttir hefur verið fulltrúi okkar í NEATA Youth og mun sækja fund og leiksmiðju fyrir okkar hönd ásamt Söru Rós Guðmundsdóttur í tengslum við NEATA hátíðina.

Okkur var boðið að taka þátt í barnaleiklistarhátið fyrir börn á aldrinum 13-15 ára sem nefnist Edered og verður (vonandi) haldin í Toulouse í Frakklandi 11. – 22. júlí. Við ákváðum að taka þátt í hátíðinni í samstarfi við Færeyinga, þar sem okkur fannst umfangið heldur mikið fyrir okkur einsömul. Til stendur að senda 4 börn frá Íslandi, 4 börn frá Færeyjum, workshopkennara frá  Færeyjum og umsjónarmann með hópnum frá Íslandi. Við bíðum spennt eftir að vita hvort hátíðin verði haldin yfirhöfuð, þar sem legið hefur á svörum um framgang mála. Kristín Svanhildur Helgadóttir mun fylgja börnunum út ef af verður.

Kannað hefur verið hvort við fáum ekki til afnota eða eignar upptökur frá RÚV frá heimsókn „Landans“ í Bandalagsskólann síðastliðið sumar, sem og samskonar upptökur úr þættinum „Út og suður“, þar sem skólinn var einnig heimsóttur þegar hann átti heima í Svarfaðadal, að mig minnir árið 2007. Gaman væri að eiga þessar upptökur og hafa til taks á vefnum okkar. Á skólasíðuna á Leiklistarvefnum er nú kominn hlekkur á klippuna úr Landanum frá síðasta sumri.

Hrútafjörður reyndist vera fyrirtaksstaður fyrir skólann okkar og ber að þakka skólastýrum fyrir að halda vel á skólaspöðunum og tryggja að þar eigum við samastað næstu árin. Lénsherra er enn fremur þakkað fyrir ævarandi þolinmæði og vöktun á kerfum vorum og vefsíðu.

Stjórn þakkar ennfremur Vilborgu framkvæmdastjóra fyrir frábært samstarf á árinu. Þetta er síðasti aðalfundur hennar sem starfsmaður Bandalagsins, en hún hefur ákveðið að hætta störfum frá og með næstu áramótum. Vilborg hefur starfað fyrir Bandalagið í 40 ár, fyrst sem starfsmaður á skrifstofu og svo undanfarin 25 ár sem framkvæmdastjóri. Orð fá ekki lýst hvers virði hún er okkur öllum og framlag hennar til leiklistarstarfs er ómetanlegt. Fyrir hönd allra sem hafa unnið með Bandalaginu undanfarin 40 ár segjum við takk takk takk.

Við hvetjum ykkur til að fylgjast með fréttum á heimasíðunni og vera í sambandi við okkur í stjórninni eða Vilborgu ef spurningar vakna.

Verum líka dugleg að styðja við bakið hvert á öðru. Mætum á sýningar, lækum færslur, viðburði, síður hjá leikfélögum um land allt. Hvetjum aðra til að stofna leikfélög eða endurvekja. Samtakamáttur okkar er mikill ef við viljum og við viljum virka leikhússtarfsemi um land allt.

Guðfinna Gunnarsdóttir, formaður

7. Framkvæmdastjóri leggur fram endurskoðaða reikninga síðasta árs og skýrir þá.
Vilborg Árný Valgarðsdóttir framkvæmdastjóri Bandalagsins kynnti reikningana. Hagnaður ársins var kr. 1.543.251.

8. Umræður um skýrslu stjórnar og afgreiðsla reikninga.
Hörður Sigurðarson, Leikfélagi Kópavogs ræddi um búningagagnagrunn sem hann setti á laggirnar eftir síðasta þing og benti á að enginn hefur nýtt sér hann þrátt fyrir að gagnagrunnurinn hafi verið kynntur. Hann hvetur leikfélögin til að nýta sér þetta til þess að skrá sérstaka muni sem eru í eigu þeirra. Skýrsla stjórnar borin undir fundinn og hún samþykkt. Reikningar bornir undir fundinn og þeir samþykktir.

9. Skýrslur nefnda og umræður um þær.
1. Hörður Sigurðarson flutti skýrslu vefnefndar Leiklistarvefsins:

Leiklistarvefurinn – Skýrsla vefnefndar 2018

Lögð fram á aðalfundi BÍL í Logalandi 5.-6. maí 2018

Hér kemur skýrsla vefnefndar Leiklistarvefsins. Í vefnefnd sitja undirritaður og framkvæmdastjóri Bandalagsins. 

Flest gengur sinn vanagang hjá Leiklistarvefnum. Engin stórtíðindi hafa verið í þróun á vefnum en vefurinn er þó sífellt í reglulegu viðhaldi, þar sem kerfið sjálft og allar þær fjömörgu viðbætur sem því fylgja eru uppfærðar. Þrjú ár eru nú liðin frá stóru uppfærslunni þegar við skiptum úr hinu aldna Joomla kerfi yfir í nýtískulegra WordPress kerfi og almenn ánægja með það hjá okkur sem vinnum við vefinn og vonandi hjá notendum einnig. Það má vel endurtaka það sem kom fram í síðustu skýrslu að kosturinn við nýja kerfið er vitaskuld sá að ekki þarf lengur að kaupa utanaðkomandi aðila til að sjá um allar mögulegar uppfærslur heldur eru þær yfirleitt tiltölulega einfaldar aðgerðir. Sveigjanleikinn í kerfinu er mikil breyting frá því sem áður var. Kosturinn sem fylgir því að ekki þurfi að kaupa vinnu að utan er þó auðvitað einnig galli þar sem nánast allt er nú gert innanhúss. Viðhald og umsjón tekur mun meiri tíma nú en áður enda er öll virkni og notkun margfalt meiri en áður var. 

Eins og áður hefur komið fram er mesta vinnan og viðhaldið í kringum umsóknakerfið sem krefst töluverðs utanumhalds og vinnu sérstaklega í kringum umsóknir og úthlutanir ríkisstyrksins. Stundum þarf að aðstoða notendur vegna ýmissa vandamála en þau eru þó yfirleitt einföld og auðleyst en taka alltaf einhvern tíma. Ekki er lengur hægt að skila inn umsóknum á pappír og nokkur félög eru enn að bætast við í hópinn sem er með aðgang að kerfinu. 

Umsóknirnar skila sér nú inn á rafrænu formi en enn má gera betur varðandi úrvinnslu gagna. Markmiðið er að fá fram meiri sjálfvirkni í þann hluta þannig að dragi úr þeirri vinnu sem lögð er á framkvæmdastjóra í tengslum við úthlutun. Þá má einnig nefna að frá og með næsta leikári verður sú breyting gerð með upptökur af sýningum að einungis verður tekið við upptökum á vef á YouTube eða Vimeo. Þetta verður gert i ljósi þess að mikil vandræði hafa verið með upptökur annarsstaðar frá. 

Að flestu leyti gengur vinnan við vefinn sinn vanagang. Vefverslunin skilar sínu þó eitthvað hafi dregið úr sölu enda heldur Vilborg vel utan um hana þannig að viðskiptavinir geta ávallt séð vöruúrvalið á hverjum tíma. Pantanir eru eitthvað færri en á síðasta ári. Ekki er enn búið að tengja greiðslugátt þannig að hægt sé að ganga frá kaupum en að því kemur um síðir. 

Við erum með hýsingu hjá fyrirtækinu 1984.is og eins og sumir hafa kannski heyrt lentu þeir í miklum hremmingum í vetur þegar kerfin þeirra hrundu. Þar á meðal var auðvitað Leiklistarvefurinn sem lá niðri í um sólarhring. Þessu var kippt í liðinn og engin gögn töpuðust hjá okkur.  

Undirritaður hefur rætt það við framkvæmdastjóra að nauðsynlegt sé að skjala kerfið svo aðrir eigi auðveldara með að setja sig inn í það. Ekki eru miklar breytingar  eða uppfærslur fyrirhugaðar á vefnum á næstunni. Eins og alltaf eru þó allar góðar ábendingar og hugmyndir varðandi Leiklistarvefinn vel þegnar. Á síðasta ári benti undirritaður á að farið væri að slá í ýmislegt í tölvukosti Þjónustumiðstöðvarinnar og þau orð eiga enn við. 

Lýkur svo skýrslu Vefnefndar.
F.h. vefnefndar,  Hörður Sigurðarson, lénsherra

 

2. Hrefna Friðriksdóttir flutti skýrslu skólanefndar Bandalagsins.

Skýrsla skólanefndar á aðalfundi BÍL 5.-6. maí 2018

Á liðnu starfsári sátu með mér í skólanefnd Dýrleif Jónsdóttir, Herdís Þorgeirsdóttir, Hrund Ólafsdóttir og Gísli Björn Heimisson.  Skólanefndin ber sem fyrr höfuðábyrgð á að skipuleggja starf leiklistarskóla Bandalagsins og fundar reglulega allt árið. Ég nota þetta tækifæri til að þakka kærlega öllu samnefndarfólki mínu fyrir metnaðarfullt og skemmtilegt samstarf.

Leiklistarskóli Bandalagsins var settur í 21. sinn þann 12. júní 2017. Það var heilmikil spenna í loftinu því við vorum að flytja okkur um set. Eftir nokkur farsæl ár að Húnavöllum í Húnavatnshreppi færðum við okkur yfir í Reykjaskóla í Hrútafirði. Eins og nefnt var á síðasta aðalfundi var helsta ástæðan fyrir flutningum aukinn ferðamannastraumur að Hótel Húna sem skapaði togstreitu um tímasetningar og verð. Reykjaskóli reyndist þvílíkur happafengur. Þar eru reknar skólabúðir yfir vetrartímann, rekstraraðilinn hefur engan áhuga á að hýsa ferðamenn á sumrin heldur vill helst af öllu fá hópa sem koma ár eftir ár. Aðstaðan hentaði okkur mjög vel, samstarfið gekk að óskum og við erum vongóð um að verða þarna áfram um ókomna tíð.

Skólann árið 2017 sóttu alls 39 nemendur. Námskeiðin voru:
1. Leiklist II – kennari Ágústa Skúladóttir
2. Sérnámskeið í leikstjórn – kennari Rúnar Guðbrandsson
3. Sérnámskeið fyrir leikara – kennari Þorsteinn Bachmann
Þá fengum við góðan hóp höfunda í heimsókn. Niðurstöður viðhorfskönnunar bentu til mikillar ánægju með skólastarfið.

Það er skemmtilegt að segja frá því að við fengum sjónvarpsfólk í heimsókn síðasta daginn, nánar tiltekið aðstandendur Landans á RÚV. Þau fylgdust með undirbúningi og upphafi leiklistarhátíðarinnar sem hefðbundið er að hafa á lokadaginn og tóku ýmis viðtöl. Afraksturinn var sýndur í sjónvarpi allra landsmanna 5. nóvember 2017 og krækja á skólaumfjöllun Landans er á skólasíðunni á Leiklistarvefnum.

Árið 2018 verður leiklistarskólinn settur í Reykjaskóla þann 9. júní. Sumarið verður óvenjulegt þar sem boðið verður upp á fjögur námskeið í stað þriggja eins og oftast áður.

Mig langar að byrja á því að rifja upp að á síðasta aðalfundi kynntum við þá ráðagerð að bjóða ekki upp á leiklist I sumarið 2018 og eftir vandlega íhugun varð það niðurstaðan. Til upprifjunar þá höfðu leiklist I og leiklist II verið haldin til skiptis frá árinu 2010 og aðsókn í síðustu syrpuna var ekki sem skyldi. Þá eru þessi grunnnámskeið plássfrek og hafa takmarkað að einhverju leyti val á sérnámskeiðum fyrir leikara. Við leggjum þó áherslu á að vera með námskeið fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna.

Fyrir þá sem hafa aldrei komið í skólann áður eru tvö námskeið í boði:
* Karl Ágúst Úlfsson verður með grunnnámskeið í leikritun. Námskeiðið er ætlað öllum sem hafa áhuga á að spreyta sig við leiktextasmíð. Skráðir nemendur eru 12 en möguleiki að taka 4 í viðbót.
* Þá er það okkur sérstök ánægja að bjóða upp á námskeið sem kallast Á bak við tjöldin undir styrkri stjórn Evu Bjargar Harðardóttur. Þetta er grunnnámskeið í hönnun leiksýninga og hentar öllum sem hafa áhuga á baksviðsvinnu í leikhúsinu, með áherslu á hönnun, gerva-, búninga-, leikmuna- og leikmyndagerð. Það hefur lengi verið kallað eftir námskeiði af þessari gerð. Skráðir nemendur eru einungis 9 talsins og hægt að bæta við nokkrum í viðbót.

Fyrir lengra komna eru einnig tvo námskeið í boði:
* Masterclassnámskeið fyrir leikstjóra, kennari Rúnar Guðbrandsson. Þar verður byggt ofan á fyrri námskeið og skráðir nemendur eru 7.
* Þá verður trúðanámskeið í boði fyrir þá sem hafa lokið grunnnámskeiðum í leiklist eða hafa umtalsverða reynslu, kennarar Ágústa Skúladóttir og Gunnar Björn Guðmundsson. Þetta námskeið reyndist mjög vinsælt, skráðir nemendur eru 18 og einn á biðlista.

Sumarið lítur sem sagt vel út og skólastýrur hlakka mikið til að njóta þess að fylgja nemendum eftir eitt árið enn. Segi ég þá lokið skýrslu skólanefndar. Takk fyrir!

Umræður:
Dýrleif hvatti alla í salnum til að senda fólk í skólann. Ekki urðu fleiri umræður um skýrslur nefnda.

10. Drög að starfsáætlun næsta árs kynnt og skipað í starfshópa.
Guðfinna kynnti tillögu að starfsáætlun næsta árs og skipti í hópa.

Tillaga stjórnar að starfsáætlun Bandalags íslenskra leikfélaga leikárið 2018-2019:
Almenn starfsemi:
1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.
2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.
3. Undirbúningur að leiklistarhátíð í einhverju formi sem haldin yrði í tengslum við 70 ára afmæli BÍL árið 2020.

Hópstjórar eru:
1. Anna María Hjálmarsdóttir Freyvangsleikshúsinu
2. Herdís Ragna Þorgeirsdóttir Halaleikhópnum
3. Gunnar Björn Guðmundsson Leikfélagi Hafnarfjarðar
4. Brynhildur Sveinsdóttir, Leikfélagi Mosfellssveitar
5. Jónheiður Ísleifsdóttir Leikfélagi Selfoss.

11. Kjörnefnd tilkynnir niðurstöður sínar og mælir með a.m.k. 1 aðila í hvert sæti sem kjósa skal.
Dýrleif auglýsti eftir framboði í varastjórn og óskaði eftir að kynna niðurstöður kjörnefndar síðar á fundinum.

12. Lagabreytingar.
Engar lagabreytingar.

13. Tillögur lagðar fyrir fundinn.
Stjórn BÍL lagði fram eftirfarandi tillögu:
„Stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga leggur til að 2,5 m.kr. af verkefnastyrk aðildarfélaganna verði látin ganga til rekstrar þjónustumiðstöðvar Bandalagsins.“

Tillagan samþykkt samhljóða.

14. Starfsáætlun afgreidd.
Starfshópar kynntu niðurstöður sínar:

Hópur 1
Almenn starfsemi
1. Rekstur þjónustustöðvar, leiklistarskóla, leiklistarvefsins og annara fastra liða í starfseminni.

Allskonar hugmyndir komu hvernig hægt sé að festa eða klóna Vilborgu áfram því við teljum að ekki sé auðvelt að feta í hennar fótspor en fylgjumst með hvernig komandi fundur verður með ráðuneyti. Herja þarf á mennta- og menningarmálanefnd. Allir í hópnum voru sammála að þessi starfsemi þarf að vera og í fullu starfi og þjónustan þarf að vera aðgengileg. Hvetja félög til að styrkja sitt fólk til að fara í skólann. Búa til kynningarmyndband um skólann til að auglýsa hann og kynna.

2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.

Að áhugaleikfélög myndi samstarf við sitt bæjar- eða sveitarfélag um námskeið, hvort sem það er í skólum eða öðrum vettvangi, sumarnámskeið. En það borgar sig að vera með stuttverkahátíð, það styrkir hækkun á styrkjum. Einnig að sveitir sameinist í stuttverkahátíð, bæði til að styrkja samstarf og til að styrkja leikfélögin.

3. sérverkefni

1. undirbúningur að leiklistarhátið í einhverju formi sem haldin yrði í tengslum við 70 ára afmæli BÍL árið 2020

Umræða var um hvar best væri að halda þessa hátið. Hrepparígur var og fannst hópnum best að þetta yrði út á landi og Akureyri væri vel til þess fallin.

Hópur 2
Hópstjóri: Herdís (Halaleikhópurinn)
Ritari: Dísa (Freyvangsleikhúsið)

Almenn starfsemi:
1. Þjónustumiðstöðin: Gegnir lykilhlutverki í starfsemi félagsins og mikil ánægja er með störf Vilborgar og það verður eftirsjá að henni. Hópurinn leggur til að leitað verði að eftirmanni hennar úr röðum félagsmanna.

Hópurinn leggur til að leitað verði leiða að samrekstri skrifstofu með fleirum s.s. annarri menningarstarfsemi eða kynningarmiðstöðvum. Slíkt fyrirkomulag býður upp á hagræðingu í rekstri og samnýtingu tækja.

Hugmynd: Verður þjónustumiðstöðin að vera staðsett á höfuðborgarsvæðinu? Getur verslunin verið bara á vefnum?

Leiklistarskólinn: Almenn ánægja með starf skólans og staðsetningu hans á Reykjum

Leiklistarvefurinn: Fram kom tillaga að því að öll félögin væru með bókunarvef undir einum hatti á leiklist.is (svipað fyrirkomulag og tix.is). Hópurinn leggur til að skoðað verði hver kostnaður yrði við að koma upp slíkum vef. Að sameina félögin á þennan hátt býður upp á einfaldari bókunarmöguleika, væntanlega ódýrari kost fyrir félögin og eykur umferð inn á vefinn sem gæti gefið færi á að selja auglýsingar á leiklist.is

Aðrir liðir: Áhugi var fyrir því að endurvekja stuttverkahátíð – það gæti einnig verið til fjáröflunar fyrir þjónustumiðstöð – stuðlar einnig að auknu samstarfi aðildarfélaga.

2. Framlög: Með aukinni umferð á vefnum leiklist.is (sbr.hugmynd um bókunarvef) væri e.t.v. möguleiki á að selja auglýsingar á vefnum.

Hugmynd: Hefur verið leitað eftir bakhjörlum fyrir starfsemina? Ef einhver fengist til að halda utan um slíkt ferli þá væri hægt að senda út bréf til álitlegra styrktaraðila. Því þarf svo að fylgja eftir með símtali eða fundi með viðkomandi til að ljá því aukið vægi.

Annað: Munum að tryggja gott aðgengi fyrir alla að fundum, skólanum, hátíðum og þingi á vegum bandalagsins.

Sérverkefni:
Leiklistarhátíð í tilefni að 70 ára afmæli BÍL 2020.

Hópurinn gerir það að tillögu sinni að hátíðin verði haldin á landsbyggðinni, Akureyri/Suðurland/ Borgarfjörður. Velja þarf fólk í undirbúningsnefnd sem fyrst til að setja fram ramma um dagskrá hátíðarinnar. Áhugi var fyrir að bjóða áhugaleikfélögum/samstarfsaðilum frá öðrum löndum að taka þátt.

Hópur 3
Kolbrún Húsavík, Stebba Halaleikhópi, Hulda Ölfus, Oddfreyja Ölfus, Hugrún Hveragerði, Sólveig Fljótsdalshéraði, Benni Axels Biskupstungna, Halldóra Freyvangi, Gunnar Björn Hafnarfirði, Inga Lára Hafnarfirði.

Almenn starfsemi
1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.

Þjónustumiðstöð. Til góðs að geta verið inni í aðstöðu með öðrum og ná þannig að spara húsnæðiskostnað, en við verðum að hafa gott aðgengi að okkar starfsmanni (framkvæmdastjóra). Huga þarf að aðgengi fyrir alla. Gríðarlega mikilvægt að hafa framkvæmdastjóra í fullu starfi. Þarf að fá öflugan einstakling úr röðum bandalagsins til þess að taka við af Vilborgu. Hætt við að það gæti lent í skúffu ef þetta fer í fangið á öðru batteríi. Þjón.miðstöðin er svo mikilvæg sem miðja sem heldur utanum alla starfsemi Bandalagsins.

Ekkert því til fyrirstöðu að reksturinn færi út á land, t.d. í Hörgárdalinn, ef svo ber undir.

Leggjum til að Þráinn taki framkvæmdastjórastöðuna að sér. Hörður kæmi sterkur inn. Það liggur á að huga að arftaka Vilborgar svo hægt sé að þjálfa viðkomandi í að taka við.

Leiklistarskóli. Allt í góðum höndum og góðum farvegi. Mikilvægt að hvetja félaga til þess að fara í skólann, það skilar sér margfalt inn í starfsemina. Við eigum þennan skóla.

Bjóða utanaðkomandi til að fullnýta skólann ef bandalagsfélagar nýta hann ekki.

Leiklistarvefur. Sömuleiðis allt í góðum höndum og farvegi.

Aðrir fastir liðir. Þarf að leita leiða til að kynna starfsemina betur, til að ná til leikfélaga sem eru minna virk. Leggjum til að BÍL-bíllinn fari um landið í sumar til að selja bókina, fær hagnaðinn af bókinni. Gott sumarstarf fyrir hressan einstakling. Mætti gera framhaldsseríu af bókinni þannig að þetta gæti orðið fast gigg fyrir viðkomandi árum saman. Gunnar Björn óskar eftir kvikmyndaréttinum því hann hefur gott aðgengi að ódýrum leikurum sem kunna handritið.

2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.

Tilíða. Nefnt að það sé hefð fyrir því í sumum sveitarfélögum (ef ekki flestum) að leita til banka eða annarra einkaaðila til stuðnings vegna verkefna. Sum sveitarfélög standa vel við bakið á sínum leikfélögum, önnur ekki.

Bandalagið. Ýmsir erlendir sjóðir til sem hægt er að leita í vegna tiltekinna verkefna, ss. fyrir 70 ára afmælinu. Halda áfram að vera úti með allar klær í styrkjamálum, bjóða sóðafyrirtækjum syndaaflausn.

Sérverkefni
3. Undirbúningur að leiklistarhátíð í einhverju formi sem haldin yrði í tengslum við 70 ára afmæli BÍL árið 2020.

Allar sýningar ársins hjá leikfélögunum afmælissýningar til heiðurs BÍL. Kafli um Bandalagið í öllum leikskrár. Yrðu léttfæranlegar sýningar svo hægt yrði að flytja þær á hátíð, ef áhugi er fyrir hendi hjá viðk. leikfélagi. Engar skorður á sýningum. Akureyri væri frábær staður, gætum sýnt víða.

Hópurinn vill benda á mikilvægi þess að menn tali skýrt og skorinort þegar þeir bjóða til veitinga svo þeir valdi ekki vonbrigðum.

Hópur 4

1. Almenn starfsemi

Þjónustumiðstöðin
Má reka þjónustumiðstöðina með annarri starfsemi, deila skrifstofukostnaði?
Er hægt að „outsource“ einhverjum hlutum starfseminnar?
Hvernig kemur ríkið að rekstri ungmennafélagana, erum við á svipuðum stað eða væri möguleiki að hafa þjónustumiðstöðina á öðrum stað, t.d. á landsbyggðinni, ódýrari leiga?

Leiklistarskólinn
Aðgengi fyrir fatlaða, eru betrumbætur mögulegar.
Tækninámskeið, ljós og hljóð?
Förðunarnámskeið?
Leikfélög að halda námskeið saman, þau sem kannski ekki henta skólanum.
Heitara og betra veður.

Leiklistarvefur og önnur föst starfsemi
Tækjabúnaður, má reyna að sækja um styrk til Advania eða sambærilegra til að endurnýja tækjabúnað gegn auglýsingum í einhvern tíma.

Almenn starfsemi, fjármagn.
Aukið fé og styrkir
Auglýsingaöflun í leikskrár og annað er minnkandi, hvers vegna, orðið meira rafrænt og sjálfvirkt hjá fyrirtækjum.
Ljóst að framlag stjórnvalda er mjög mikilvægt, hvers virði eru leikfélögin, hvað hafa íþróttafélögin fram yfir leiklistina?
Á hvaða forsendum erum við að sækja fé úr opinberum sjóðum, erum við að segja það sem sjóðirnir vilja heyra?
Er mögulegt að gera samning við eitthvert stórfyrirtækja líkt og íþróttafélögin?
Tala við KS
Erfitt að sækja fé í fyrirtæki, offramboð á menningu?

Sérverkefni, Leiklistarhátíð 70 ára afmæli BÍL 2020.
Sækja sérstaklega um styrk til hátíðarhaldanna, til ríkis eða stórfyrirtækis.
Dreifa á nokkur leikfélög á sama svæði og hátíðin haldin á svæðinu öllu, hálfgert HM leiklistarinnar.
Skrifa sérleg verk fyrir hátíðina, þema eða landsfjórðungatengt.
Þjóðleikskonceptið.
Verndari hátíðarinnar, forsetinn … Hann Forsetinn!
Vera sýnileg, vera grand, taka áhættu, hugsa stórt.
Opin leikhús um allt land þennan dag, auglýst á landsvísu.

Hópur 5
Almenn starfsemi
1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.
Við viljum lýsa ánægju okkar með frábæra þjónustu Vilborgar í þjónustumiðstöð BÍL síðustu 40 ár og munum við sakna hennar mikið.
Mikilvægt verður að velja nýjan framkvæmdastjóra vel og að rekstur haldi áfram í óbreyttri mynd en renni ekki inn í rekstur annarrar stofnunnar.

Mikil ánægja er með starfsemi Bandalagsskólans og var samvinna milli námskeiða á síðasta ári sérstaklega ánægjuleg. Ný staðsetning skólans er frábær og aðstaðan hentaði vel fyrir starfsemina.

Almenn ánægja er með vef Bandalagsins.

2. Leitað eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.
Við ræddum mikið hvaða rökum væri hægt að beita til að fá ríkið til að hækka styrki til bandalagsins og leikfélagana og hér er samantekt á þeim hugmyndum sem komu fram:
Aðstaða – leiklistariðkun þarfnast aðstöðu og rekstur og viðhald húsnæðis er kostnaðarsamur.
Menning og þátttaka í þroskandi menningarstarfi í nærumhverfi er mikilvæg samfélaginu og það þarf að vera einhver annar valkostur fyrir börn og unglinga en íþróttir. Mikilvægt er að efla grasrót menningarstarfsemi út um allt land með því að veita börnum og fullorðnum aðgang að metnaðarfullri listsköpun.
Styrkir hafa lítið hækkað síðan í hruninu fyrir 10 árum. Fyrr á árum var miðað við að fullur styrkur fyrir sýningu í fullri lengd dygði fyrir leikstjóralaunum. Á síðasta ári var hann u.þ.b. einn þriðji af þeim. Sem sýnir að þeir hafa alls ekki fylgt verðlag- og launaþróun síðustu ára.
Erfitt er að sækja aðra styrki til ríkis eða í aðra sjóði eins og t.d. til ferðalaga á leiklistarhátíðir og þurfa leikfélög og leikfélagar að standa straum af öllum kostnaði við þær, þó að íslenskt áhugaleikhús sé frábær fulltrúi menningarstarfsemi á Íslandi.
Við leggjum til að beðið verði um hækkun á styrk frá 18 milljónum í 50 milljónir. Það væri t.d. hægt að fækka alþingismönnum um tvo.
Einnig kom upp sú hugmynd að afla fjár með því að stofna smálánafyrirtæki BÍLLÁN en siðferði þeirrar hugmyndir mældist misjafnlega fyrir í hópnum :).

Sérverkefni
1. Undirbúningur að leiklistarhátíð í einhverju formi sem haldin yrði í tengslum við 70 ára afmæli BÍL.
Upp kom sú hugmynd að hafa samband við Listahátíð í Reykjavík og sjá hvort að leiklistarhátíð gæti fallið inn í dagskrá Listahátíðar 2020. Núverandi formaður listahátíðar er Vigdís Jakobsdóttir, sem starfaði um árabil með áhugaleikfélögum og þekkir því til þeirra og einnig hefur verið rætt um tengingu listahátíðar við alþýðumenningu, sem okkur þykir eiga vel við í tilfelli BÍL og áhugaleiklistar.

Einnig komum fram nokkrar tillögur að formi hátíðar:
Hvetja áhugaleikfélögin á næsta þingi til að setja upp “færanleg” verk sem hægt væri að taka með á téða leiklistarhátíð.
Semja eitt handrit sem félögin myndu svo koma með mismunandi atriði út.
Semja tvö stuttverka handrit sem félögin myndu setja upp þannig að við fengjum margar útgáfur af sama verki. (Þjóðleiksformið)

Tillaga stjórnar samþykkt án viðbóta.

Fundi frestað kl. 17.00.

 

Fundi framhaldið 6. maí kl. 10:00

15. Stjórnarkjör.
Í framboði til aðalstjórnar eru Þráinn Sigvaldason, Anna María Hjálmarsdóttir og Ólöf Þórðardóttir. Eru þau því sjálfkjörin í aðalstjórn. Bernharð Arnarson gaf ekki kost á sér.

Í framboði til varastjórnar eru Sigríður Hafsteinsdóttir, Hanna Margrét Kristleifsdóttir, Hafsteinn Þórisson og Magnþóra Kristjánsdóttir. Frambjóðendur héldu magnaðar framboðsræður og svo var gengið til kosninga. Kjör hlutu Sigríður og Magnþóra.

16. a. Kosning 3ja manna kjörnefndar og eins varamanns til eins árs. b. Kosning 2ja skoðunarmanna reikninga og eins til vara til eins árs.
a. Kjörnefnd skipa Dýrleif Jónsdóttir, Gerður H Sigurðardóttir, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir og Axel Vatnsdal til vara.
b. Skoðunarmenn reikninga verða Hrefna Friðriksdóttir, Jónheiður Ísleifsdóttir og Oddfreyja H Oddfreysdóttir til vara.

17. Ákveðið árgjald til Bandalagsins.
Gísli Björn Heimisson kynnti tillögu stjórnar.

Tillaga stjórnar að árgjaldi leikárið 2018-2019

Stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga leggur til að árgjöld aðildarfélaga fyrir leikárið 2018-2019 verði kr. 71.600.

Félög sem setja upp tvær styrkhæfar sýningar á leikárinu borgi eitt og hálft gjald eða kr.107.400 og félög sem setja upp þrjár sýningar eða fleiri borgi tvöfalt gjald eða kr. 143.200.

Félög sem setja ekki upp styrkhæfa sýningu á leikárinu borgi hálft árgjald eða kr. 35.800.

Gísli útskýrði að hækkunin væri í samræmi við launahækkanir VR á síðasta ári eða 4%.

Tillagan borin undir fundinn og samþykkt.

18. Önnur mál.
Vilborg Valgarðsdóttir kom í pontu og ræddi um aðgengi fyrir fatlaða í Bandalagsskólanum.  Ekki er von til þess að aðstæður í þeim efnum batni í Reykjaskóla, einkum vegna þess að þegar skólabúðirnar taka á móti fötluðum nemendum koma þeir undantekningarlaust með aðstoðarmenn með sér.
Anna María Hjálmarsdóttir kynnti hugmynd sem kviknaði varðandi sölu á bókinni góðu, Allt fyrir andann, það er að fá Herbert Guðmundsson til að selja hana. Herdís sagði frá því að hún væri dugleg að selja bókina á bókamörkuðum. Hafrún hvatti fundarmenn til þess að kaupa bókina.

Guðrún Esther Árnadóttir spurði hvort fólk fengi afslátt í skólann ef það þarf að hafa með sér aðstoðarmenn vegna skorts á aðgengi fyrir fatlaða.

19. Næsti aðalfundur, hugmyndir reifaðar um stað og stund.
Berglind Ósk Ingólfsdóttir og Kolbrún Ada Gunnarsdóttir frá Leikfélagi Húsavíkur bjóða þinginu heim að ári og var því fagnað með lófaklappi.

Guðfinna formaður steig í pontu og þakkaði gestgjöfunum fyrir góðar móttökur og fundarmönnum fyrir góðan fund. Einnig þakkaði hún þeim sem eru að hverfa úr stjórn og bauð nýtt fólk velkomið. Hún áréttaði mikilvægi þess að sveitarfélögin styðji við bakið á leikfélögunum og stefnir á að stjórn beiti sér í að þrýsta á sveitarfélögin að gera betur í þessum efnum. Hún hvatti félaga til að vera duglega að peppa hverja aðra upp og kynna starf leikfélaganna, deila viðburðum og segja frá sýningum.

Fundi slitið kl. 10:48.