1.

Fundarsetning.
Kosning 2ja fundarstjóra og 2ja fundarritara sem taka þegar til starfa. Lögmæti fundarins kannað.

Formaður Bandalagsins, Guðfinna Gunnarsdóttir setti fundinn kl. 9:07. Fundarstjórar eru Halla Rún Tryggvadóttir og Benóný Valur Jakobsson frá Leikfélagi Húsavíkur. Fundarritarar eru Magnþóra Kristjánsdóttir og Jónheiður Ísleifsdóttir.

Guðfinna byrjaði fundinn á því að flytja fundinum kveðju frá Leikfélagi Seyðisfjarðar en þau áttu ekki heimangengt á fundinn vegna fráfalls Lilju Sigurðardóttur. Hún var virkur félagi og kom á mörg Bandalagsþing. Fundurinn minntist Lilju með stuttri þögn.

2.

Kjörnefnd
Kjörnefnd afgreiðir kjörbréf og afhendir atkvæðaspjöld, skýrir stöðu mála varðandi stjórnarkjör og auglýsir eftir tillögum.
Dýrleif Jónsdóttir steig í pontu og auglýsti eftir kjörbréfum.

3.

Menningarstefna Bandalagsins lesin og rædd.
Gísli Björn Heimisson las menningarstefnu Bandalagsins fyrir fundinn.

MENNINGARSTEFNA BANDALAGS ÍSLENSKRA LEIKFÉLAGA
Blómleg starfsemi og fjöldi leikfélaga hér á landi vitnar um að leiklistin er almenningseign. Stór hópur fólks, óháð aldri, kyni og þjóðfélagsstöðu, nýtir frítíma sinn í skapandi starf og vinnur saman að leiklist. Bandalag íslenskra leikfélaga vill vinna að þróun og eflingu leiklistar með því að:
– stuðla að uppbyggingu leiklistarstarfs í öllum byggðarlögum.
– gera áhugafólki kleift að afla sér menntunar í listinni og skapa því aðstöðu til að þroskast í menningarlegu og faglegu tilliti.
– stuðla að því að börn og ungingar kynnist leiklist, jafnt sem þátttakendur og áhorfendur.
– starfa með atvinnufólki að því markmiði að leiklistinni verði ætíð tryggð þroskavænleg skilyrði.
– stuðla að samskiptum og samvinnu leiklistaráhugafólks á norrænum og alþjóðlegum vettvangi.
– hvetja til að listrænn metnaður og virðing fyrir leiklistinni sé leiðarljós allra áhugaleikara.
– halda á lofti gildi þeirrar reynslu sem fæst með samstarfi og í samneyti við annað fólk.
 

Hér kynntu fundargestir sig.

Kjörnefnd óskaði eftir því að fá að koma upp og kynna sín mál áður en dagskrá fundarins yrði fram haldið. Atkvæðaspjöldum var dreift og stjórnarkjör kynnt. Fólk beðið um að gefa sig fram við kjörnefnd ef það hefði hug á að bjóða sig fram í stjórn en um er að ræða tvo aðalmenn og þrjá varamenn. Salbjörg Engilbertsdóttir gengur úr varastjórn en aðrir gefa kost á sér.

4.

Staðfest inntaka nýrra félaga, félög tekin af félagaskrá.

Leikdeild Umf. Stafholtstungna óskaði eftir því að ganga í Bandalagið og fékk jákvætt svar og er því komin inn í Bandalagið. Eru þau boðin velkomin. Leikfélag Hvammstanga og Leikdeild Grettis sameinuðust í eina sæng og úr varð Leikflokkur Húnaþings vestra.

5.

Fundargerð síðasta aðalfundar afgreidd.

Fundargerð síðasta aðalfundar samþykkt.

6.

Skýrsla stjórnar

Guðfinna Gunnarsdóttir formaður Bandalagsins flutti skýrslu stjórnar.

Skýrsla stjórnar Bandalags íslenskra leikfélaga Flutt á aðalfundi á Húsavík 4. maí 2019
Á starfsárinu skipuðu stjórn þau:
Guðfinna Gunnarsdóttir, Selfossi, formaður
Ólöf Þórðardóttir, Mosfellsbæ, varaformaður
 Þráinn Sigvaldason, Hörgárdal, ritari
Anna María Hjálmarsdóttir, Akureyri, meðstjórnandi
 Gísli Björn Heimisson, Reykjavík, meðstjórnandi.
Í varastjórn sátu:
Þrúður Sigurðardóttir, Salbjörg Engilbertsdóttir, Embla Guðmundsdóttir, Sigríður Hafsteinsdóttir og Magnþóra Kristjánsdóttir.
Framkvæmdastjóri í Þjónustumiðstöð fram að áramótum var Vilborg Valgarðsdóttir og nýr framkvæmdastjóri, Hörður Sigurðarson, hóf störf í janúar 2019.
Stjórn hélt sex starfsfundi á árinu. Einn að afloknum aðalfundi í Logalandi, fjóra í þjónustumiðstöð okkar í Reykjavík og þann síðasta hér í Húsavík í gær. Fjarfundarbúnaður var notaður endrum og sinnum með góðum árangri þegar ritari vor Þráinn og meðstjórnandi Anna María áttu ekki heimangengt norðanífrá. Einnig hefur mjög skemmtilegur fésbókarhópur okkar stjórnarmanna verið nýttur til góðra samskipta stjórnarmanna árið um kring.
Er stjórn þökkuð góð samvinna á árinu. Vilborgu fáum við ekki fullþakkað, aldrei, en hún hefur reynst okkur og Herði vel í þeirri aðlögun sem nú stendur yfir. Herði er einnig þakkað gæfulegt upphaf á vonandi góðri samvinnu.

II. Starfsemi félaganna
28 aðildarfélög Bandalagsins sendu inn styrkumsóknir fyrir alls 47 leiksýningar og leikþætti, 17 námskeið og 30 skólanemendur fyrir leikárið 2017-2018. Fullur styrkur reyndist vera 438.673 krónur. Ársritið okkar inniheldur allar frekari upplýsingar um starfsemina. Ekki liggja fyrir tölur um umfang starfsins á þessu leikári en engin ástæða til að ætla annað en það sé svipað og verið hefur. Félögin í Bandalaginu eru nú 48 talsins.

III. Starfsáætlun
Á síðasta aðalfundi var að venju samþykkt starfsáætlun og og verður nú farið yfir hana og sagt frá hvað gert var til að efna einstaka liði hennar.

Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.
Rekstur þjónustumiðstöðvar er alltaf í járnum og engin breyting á því ástandi í sjónmáli. Viðbótarstyrkur aðildarfélaganna sem samþykktur var á síðasta aðalfundi gerði gæfumuninn fyrir starfsárið eins og sjást mun á reikningum sem kynntir verða hér á eftir.
Leiklistarvefurinn er enn okkar skilvirkasta tæki til upplýsingagjafar og samskipta við félögin og aðra sem nýta sér þjónustu okkar. Fréttir af sýningum aðildarfélaganna eru stærsta fréttaefnið á vefnum en einnig er eitthvað um almennar leiklistarfréttir. Enn er allt of algengt að félögin hafi ekki frumkvæði að því að senda fréttir og myndir af frumsýningum og öðrum viðburðum heldur þurfi að sækja það til þeirra. Töluverð vinna hefur átt sér stað í skráningum á leikritasafni undanfarið en það er mikilvægt eilífðarstarf. Annars eru engin stórtíðindi af Leiklistarvefnum á leikárinu sem er að líða. Ýmsar nýjungar eru þó í skoðun og ættu að skýrast er líða tekur á árið.
Um skólann mun fulltrúi skólanefndar fjalla í sinni skýrslu. Er skólanefnd og lénsherra þakkað fyrir frábæra vinnu og samstarf á árinu.Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.
Framlag til starfsemi áhugaleikfélaganna er nú 18,5 milj. kr. Til þjónustumiðstöðvarinnar er framlagið 6 milj. kr. á ári samkvæmt samningi sem við höfum ekki ennþá fengið sem er ferlegt. En við höfum fengið þau skilaboð úr ráðuneytinu að styrkupphæð til þjónustumiðstöðvar verði óbreytt, 6 milljónir á ári 2019-2021. Það er ekki nóg og enn höfum við ekki fengið fund með ráðherra og ekki fengið nein svör varðandi beiðni okkar um aukafjárveitingu vegna framkvæmdastjóraskipta. Ef vel á að vera og skrifstofan rekin áfram með sama sniði og verið hefur, þyrftum við að fá ríflega hækkun á samningi og komast upp í 8.5 milljónir á ári til að halda sjó.
Undirbúningur að leiklistarhátíð í einhverju formi sem haldin yrði í tengslum við 70 ára afmæli BÍL árið 2020.
Undirbúningsnefnd skipuð þeim Ólöfu, Vilborgu, Herði og Guðfinnu, settu saman tillögur að formi á leiklistarhátíð sem lagðar verða fram til umræðna í hópastarfi hér á fundinum.

IV – Önnur mál
Uppfærsla Leikfélags Keflavíkur á söngleiknum Mystery boy eftir Smára Guðmundsson í leikstjórn Jóels Sæmundssonar var valin Athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins af valnefnd Þjóðleikhússins og var hún sýnd í Þjóðleikhúsinu 24. Maí við góðan orðstír. Í ár eru sýningarnar 17 frá 15 leikfélögum sem valið verður milli og mun fulltrúi Þjóðleikhússins tilkynna um það undir borðum á Húsavík í kvöld.
Af erlendum vettvangi má geta þess að formaður og framkvæmdastjóri sóttu NEATA hátíð í Litháen. Hátíðin og umgjörð hennar var öll til fyrirmyndar og voru Litháar mjög stoltir af því að halda upp á 20 ára afmæli NEATA um leið, en Litháen var einmitt fyrsta þjóðin sem hélt NEATA hátíð árið 2000.
Fulltrúi Íslands á hátíðinni var sýning Leikfélags Kópavogs á Svarta kassanum eftir Hrefnu Friðriksdóttur í leikstjórn Ágústu Skúladóttur. Er skemmst frá því að segja að sýningin vakti mikla aðdáun og lukku meðal áhorfenda og fékk hópurinn allur mikið hrós fyrir sýninguna.
BÍL sendi 3 ungmenni á NEATA Youth námskeið sem haldið var í tengslum við hátíðina og sýndi hópurinn afrakstur námskeiðsins á opnunardegi hátíðarinnar. Ungmennin sáu svo um að skrifa fréttir í daglega fréttablaðið um hátíðina og aðstoðuðu leikhópana.
Að venju funduðu fulltrúar allra landana í NEATA og þar var ýmislegt rætt og ákveðið um framtíð samstarfsins. Nú eru breyttar aðstæður hjá NEATA varðandi IATA. NEATA og önnur svæðissambönd eiga ekki lengur sérstakan fulltrúa í stjórn alþjóðasamtakanna vegna beytinga á lögum IATA. Ákveðið var að fjarlægja IATA tengingar og nafn úr öllum gögnum NEATA – þ.e. stjórnarskrá og fleiru, þar sem það á ekki við lengur.
Næsta IATA festival 2019 verður í New Brunswick, Kanada í lok ágúst. Við sendum ekki fulltrúa þangað.
Ákveðið var að aðalmarkmið NEATA verði að halda sameiginlega hátíð á tveggja ára fresti og mynda þannig og viðhalda tengslum aðildarlandanna – það er aðalmarkmið NEATA og breytist ekki. Fjarvera úr stjórn IATA kemur því ekkert við.
Lagt var til að búa til róteringakerfi fyrir stjórn NEATA sem virki þannig að formaður verði sá sem er að fara að halda festival næst og varaformaður verði sá sem er nýbúinn að halda hátíð. Þannig færist þekking og reynsla á milli manna.
Ákveðið að stjórn NEATA verði óbreytt næsta ár og hún ásamt vinnuhópi um breytingar á stjórnarskrá NEATA skili af sér næsta sumar. Í vinnuhópnum eru Kristiina Oomer Eistlandi, Noomi Reinert Færeyjum og Peter Dahn Danmörku.
Formaður og framkvæmdastjóri voru að vonum mjög stoltar af fulltrúum BÍL á hátíðinni. Þetta var gott mót eins og maðurinn sagði.
Næsta NEATA hátið verður haldin í Eistlandi 2020.
Leikfélag Hafnarfjarðar fór enn á ný á flakk með leikritið Ubba kóng í leikstjórn Ágústu Skúladóttur, að þessu sinni á hátíð í Tékklandi.
Við tókum þátt í barnaleiklistarhátíðinni fyrir börn á aldrinum 13-15 ára sem nefnist Edered og var haldin í Toulouse í Frakklandi í júlí. Við ákváðum að taka þátt í hátíðinni í samstarfi við Færeyinga. Frá okkur fóru 4 börn, 4 börn frá Færeyjum auk workshopkennara frá Færeyjum og umsjónarmanns með hópnum frá Íslandi. Kristín Svanhildur Helgadóttir, var umsjónarmaður barnanna og stóð hún sig frábærlega sem og aðrir fulltrúar okkar á hátíðinni.
Nú liggja fyrir drög að nýjum sviðslistalögum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Við sendum inn nokkrar athugasemdir við frumvarpsdrögin í vetur, þar sem okkar hagsmunir og staða var áréttuð. Ein aðal breytingin sem kemur okkur við er að í frumvarpinu er lagt til að sett verði á fót svokallað sviðslistaráð sem úthluta muni úr sviðslistasjóði til okkar og annara aðila.
Gengið var frá ráðningu framkvæmdastjóra í september, en ákveðið var að ráða Hörð Sigurðarson sem hóf störf 2. janúar 2019. Við teljum það mikinn happafeng fyrir Bandalagið að fá hann til starfa og hlökkum til samstarfsins.
Lénsherra kveðjum við með virktum og þökkum fyrir óeigingjarnt starf í þágu BÍL.
Stjórn þakkar ennfremur Vilborgu framkvæmdastjóra fyrir frábært samstarf á árinu.
Við hvetjum ykkur til að fylgjast með fréttum á heimasíðunni og vera í sambandi við okkur í stjórninni eða Hörð ef spurningar vakna. Endilega sendið okkur fréttir af starfinu ykkar. Verum dugleg að koma okkar frábæra starfi á framfæri. Látum í okkur heyra. Leikum núna og svo alltaf meira.

7.

Framkvæmdastjóri leggur fram endurskoðaða reikninga síðasta árs og skýrir þá.

Hörður Sigurðarson framkvæmdastjóri Bandalagsins lagði fram reikninga bandalagsins.

Framkvæmdastjóri fór yfir rekstrartekjur og -gjöld. Tap var á rekstrinum upp á 150.300 kr.

Farið var yfir einstaka rekstarliði. Tölur voru svipaðar á milli ára.

Hagnaður árið á undan var ca. 1,5 milljónir þannig að það er talsverð breyting á milli ára en skýrist af ýmsum liðum. Meðal annars þátttöku á NEATA og fleiri atriðum.

8.

Umræður um skýrslu stjórnar og afgreiðsla reikninga.

Dýrleif steig í pontu og lýsti áhyggjum sínum af fjármálum Bandalagsins. Sérstaklega rekstri þjónustumiðstöðvar. Sagði að það sé óeðlilegt að styrkurinn hafi ekkert breyst á áranna rás og það sé ekki hægt að reka samtök á styrk sem dugir ekki fyrir launum og launatengdum gjöldum eins starfsmanns. Erfitt að reka samtök á blóðinu/gufunni.

Guðfinna steig í pontu til að svara. Styrkur var lækkaður í 5 milljónir árið 2008 og hefur síðan hækkað í 6 milljónir sem dugir engan veginn og hefur samþykkt aðalfundar á að veita hluta af styrk peningum leikfélagana til þjónustumiðstöðvar gert gæfumuninn.

Guðfinna talaði einnig eftir beiðni frá fundarstjóra um IATA og NEATA og skýrði hvað þessi samtök eru og hvaða þýðingu okkar aðild hefur og að við komumst ekki alltaf á fundi vegna fjárhagsstöðu Bandalagsins. Frábærar hátíðir og mikilvægt fyrir okkur að taka þátt. Ekki eru lengur fulltrúar frá álfusamtökunum í stjórn IATA, eftir lagabreytingu í fyrra í Monakó sem framkvæmdastjóri og formaður sóttu, en stjórn IATA er kosinn sérstaklega. Guðfinna hvetur alla til að velta fyrir sér áhuga á að sækja um þátttöku á NEATA hátíð í Eistlandi sumarið 2020, hátíðirnar eru yfirleitt haldnar í kringum verslunarmannahelgina.

Umræður úr sal um upplifanir á leikritum á öðru tungumáli.

Guðfinna talaði um mikilvægi þess að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi.

Spurning kom úr sal um liðinn “Aðrir styrkir” á rekstrarreikningi upp á 2,5 milljónir og svaraði Guðfinna því að þetta væri styrkur sem aðildarfélög bandalagsins samþykktu á síðasta fundi að veita af styrk leikfélagana til þjónustumiðstöðvar.

9.

Skýrslur nefnda og umræður um þær.

Dýrleif flutti skýrslu skólanefndar.

Skýrsla skólanefndar á aðalfundi BÍL 4.-5. maí 2019
Á liðnu starfsári sátu með mér í skólanefnd Hrefna Friðriksdóttir, Herdís Þorgeirsdóttir, Hrund Ólafsdóttir og Gísli Björn Heimisson. Skólanefndin ber sem fyrr höfuðábyrgð á að skipuleggja starf leiklistarskóla Bandalagsins og fundar reglulega allt árið. Ég nota þetta tækifæri til að þakka kærlega öllu samnefndarfólki mínu fyrir metnaðarfullt og skemmtilegt samstarf.
Leiklistarskólann árið 2018 sóttu alls 51 nemendi. Sumarið var óvenjulegt þar sem boðið var upp á fjögur námskeið í stað þriggja eins og oftast áður. Námskeiðin voru:
1. Leikritun 1 – kennari Karl Ágúst Úlfsson
2. Master Class í leikstjórn – kennari Rúnar Guðbrandsson
3. Trúðanámskeið sérnamskeið – kennarar Ágústa Skúladóttir og Gunnar Björn Guðmundsson.
4. Á bak við tjöldin – kennari Eva Björg Harðardóttir
Niðurstöður viðhorfskönnunar bentu til mikillar ánægju með skólastarfið og þökkum við nemendum fyrir ábendingar um námskeið og mun skólanefnd hafa þau til hliðsjónar þegar námskeið eru ákveðin á komandi misserum. Sérstaklega erum við að skoða framhaldi af námskeiðinu Á bak við tjöldin og má geta þess að skólanefnd er í samráði við Evu Björg kennara að finna flöt á framhaldi á námskeiðinu. Hvort það verður í vetur eða næsta sumar verður að koma í ljós en ég fullvissa ykkur um að það verður auglýst vel og rækilega þegar það er ljóst.
Árið 2019 verður leiklistarskólinn settur í Reykjaskóla þann 8. júní í 23. sinn. Að þessu sinni verða þrjú námskeið í boði.
Við bjóðum velkomna Aðalbjörgu Árnadóttur sem kennir hjá okkur í fyrsta sinn og mun taka á móti nýjum nemendahópi á Leiklist I.
Einnig fögnum við því að fá Árna Kristjánsson í kennarahópinn okkar. Hann mun sjá um Leikritun II sem er framhald af byrjendanámskeiðinu í leikritun sem Karl Ágúst Úlfsson var með í fyrrasumar.
Sérnámskeið í leiklist fyrir lengra komna verður í höndum hins þrautreynda kennara Rúnars Guðbrandssonar. Boðið hefur verið upp á sambærilegt námskeið áður og afar vel af því látið.
Þess má geta að nýi framkvæmdastjórinn setti upp rafrænt umsóknakerfi og er nú bæði hægt að senda inn umóknir og skila viðhorfskönnun á rafrænu formi. Eins var Vilborg okkur innan handar við undirbúninginn. Þökkum við þeim fyrir þeirra störf.
Sumarið lítur sem sagt vel út og skólastýrur hlakka mikið til að njóta þess að fylgja nemendum eftir eitt árið enn. Segi ég þá lokið skýrslu skólanefndar. Takk fyrir!

Guðfinna spurði hvort það væru laus pláss í skólann í sumar. Dýrleif svaraði að það séu mögulega laus pláss á Leiklist 1 og Sérnámskeiði í leiklist. Aldrei of seint að sækja um í skólann því það er alltaf möguleiki á að einhver detti út.

Fundarstjóri dásamaði leiklistarskólann og lýsti því hversu gaman væri að kynnast þar fólki. Hélt því einnig fram að þátttaka í skólanum geti komið í stað sálfræðitíma.

Dýrleif kom aftur í pontu og fjallaði meira um skólann. Hún benti á að Leiklist 1 sé ekki bara fyrir óreynda leikara heldur fyrir alla og þessvegna hægt að fara oft á sama námskeið hjá mismunandi kennurum. Sama gildir um sérnámskeiðin sem hægt er að fara aftur og aftur á því þau eru aldrei eins og hópurinn sem tekur þátt hefur alltaf áhrif á hvernig námskeiðið verður.

Hægt er að sækja um styrki fyrir námskeiðum til flestra stéttarfélaga og leikfélögin veita líka flest einhverja styrki til þeirra sem sækja skólann. Kennarasambandið veitir td. Endurmenntunarstyrki.

Ásgeir spurði hversu marga þarf til að fylla námskeið og svaraði Dýrleif því að það sé mismunandi eftir námskeiðum. Td. komast aðeins 14 á Leikritun 2 en fleiri pláss séu á öðrum námskeiðum.

Gunnar Björn spurði hvort hægt væri að hafa líka höfunda í heimsókn fyrst leikritunarnámskeiðið er fullt. Dýrleif lýsti yfir áhyggjum yfir því að mögulega myndi þátttaka á Leikritunarnámskeiðinu minnka ef boðið væri upp á höfunda í heimsókn en þó væri möguleiki á því að það yrði boðið upp á það þegar nær drægi.

Sigga Lára talaði um að hún myndi ekki vera að sækja það sama á námskeiði og sem höfundur í heimsókn.

Elli lýsti yfir ánægju yfir því að það séu tveir nýir kennarar til að busa.

Utan dagskrár:
Hörður kynnti yfirlit yfir þróun styrkja til Þjónustumiðstöðvar Bandalagsins og Leikfélaganna frá árinu 2000. Þar sást að frá árinu 2000 hefur styrkur til þjónustumiðstöðvar hækkað frá 3 miljónum í 6 milljónir og styrkur til leikfélaganna hefur hækkað úr 17,2 milljónum í 18,2 milljónir. Ekki var búið að reikna út áhrif vísitölu á þessar upphæðir en Gísli ætlaði að skoða það.

10.

Drög að starfsáætlun næsta árs kynnt og skipað í starfshópa.

Guðfinna kynnti umræður um starfsáætlun og skipaði í hópa. Gert var hádegisverðarhlé. Hist verður aftur hér kl. 13:30.

Fundi var fram haldið kl. 13:34 með því að Hörður minnti á Facebookhópa tengda BÍL og skipaði fólki að líka við þá hið snarasta hafi það ekki gert það nú þegar. Hvatti hann fólk til að senda til hans skemmtilegar myndir frá þinginu svo hægt sé að birta þær á Facebooksíðu BÍL.

Starfshópar kynntu því næst niðurstöður sínar.

Hópur 1

Hópstjóri Gunnar Björn Guðmundsson
Ármann Guðmundsson, Sigrún Sighvatsdóttir, Óðinn Björnsson, Hanna Margrét Kristleifsdóttir, Regína Sigurðardóttir, Ásgeir Hvítaskáld, Magnþóra Kristjánsdóttir, Kjartan Rúnarsson.

1. Áhuga- og þekkingarleysi stjórnvalda á starfsemi áhugaleikfélagana er viðvarandi vandamál. Vekja þarf stjórnvöld til meðvitundar um það ómetanlega grasrótarstarf, sem að langmestu leyti er unnið í sjálfboðavinnu og er grundvöllur hins öfluga menningarlífs sem þrífst í landinu.

Hugmynd okkar er að öll leikfélög sendi sveitarstjórnum sínum kynningu á hvað fer fram í leikfélaginu og hvaða þýðingu það hefur fyrir sveitarfélagið, bæði beint og óbeint.

Með þessu viljum við auka meðvitund þjóðarinnar um ótvírætt mikilvægi áhugaleikhússins í íslensku samfélagi.

Einnig að fá þekkt leikhúsfólk til að „vitna“ um rætur sínar í áhugaleikhúsinu og hvernig það fékk eldskírn sína þar og hvatningu til að gera leiklistina að ævistarfi sínu. #égeráhugaleikari herferðin.

2. Sérverkefni:
Hópnum líst mjög vel á hugmyndir stjórnar um leiklistarhátíð og hefur engu við hana að bæta.

Hópur 2

Hópstjóri: Stefanía Elísabet Hallbjörnsdóttir
Kristín Ólafsdóttir, Unnur Lilja Erlingsdóttir, Jóhanna Hafdís Leifsdóttir, Ása Gísladóttir, Stefán H. Jóhannesson, Jónheiður Ísleifsdóttir, Axel Vatnsdal, Jóhanna S. Ingólfsdóttir

Rætt um mikilvægi þjónustumiðstöðvar og þá góðu þjónustu sem leikfélögum stendur þar til boða sem og grunnskólum, framhaldsskólum og fleiri aðilum. Þá lýsa þátttakendur mikilli ánægju með Leiklistarskóla og Leiklistarvef. Undir þessum lið rætt um hvatningu til annarra félaga til að sækja t.d. þing, bæði okkur og þeim til aukinnar ánægju en einnig til að styrkja okkur innanfrá. Leikhúsið snýst að svo mörgu leiti um tengsl. Þéttum tengsl aðildarfélaga.
Rætt um leiðir til aukinna fjárframlaga. Hugmynd um að fá þekkta aðila til að ræða reynslu sína af áhugaleikhúsi á opinberum vettvangi. Þá má auðveldlega setja umræðuna í samhengi við umræðu um geðheilbrigði sem er svo áberandi í dag, nýta reynslusögur þeirra sem því vilja deila um hvernig leikhús hafi hjálpað (ungu) fólki útúr félagslegri einangrun, þunglyndi, kvíða o.s.frv. Beina athygli af mikilvægi leikhússins sem forvörn á sama hátt og t.d. íþróttaiðkun. Mikilvægur punktur að þátttaka í leikfélagi er viðkomandi oftast að kostnaðarlausu utan félagsgjalds, framlag einstaklingsins í viðveru, vinnu og samskiptum er það sem skiptir máli.

Sérverkefni
Hópnum líst að öllu leiti vel á hugmyndir undirbúingsnefndar um leiklistarhátíð 2020.

Rætt um hvort einhver leikfélög gætu séð það sem hindrun ef krafa verði um að leikverk á stutthátíð séu frumsamin. Því yrði að mæta á einhvern hátt, verði sú leið farin.

Einnig rætt um dagsetningu, hvort gæti komið skemmtilega út að þematengja hátíðina með einhverjum hætti 1. maí. Kannski með orðinu barátta, svo dæmi sé tekið.

Rætt um sem viðbót við leiklistarhátíð að setja fyrir hátíðina af stað einhvers konar samsettu leikverki sem aðildarfélög taki þátt í. Þá myndi hvert leikfélag sem tekur þátt, bjóða fram einn aðila til að leika í þessu leikverki, hlutverkum yrði úthlutað, texta viðkomandi og eftir atvikum fyrirmælum sem þurfa að vera til staðar, en engin fái að vita hver leikur hvað eða hver önnur hlutverk séu nema að því leyti sem nauðsynlegt er. Hver leikari komi svo til með að undirbúa sig heimavið með stuðningi síns félags og mögulega leikstjóra með því að læra texta, þróa karakter, útbúa búning og leikmuni. Leikverkið yrði svo sett á svið á leiklistarhátíð án sameiginlegs undirbúnings. Útfærsluatriði hvort samsetta leikverkið yrði frumsamið eða bútur/bútar úr eldra verki/verkum. Einnig útfærsluatriði hvaða fyrirmæli hver leikari fái eða hvaða upplýsingar verði gefnar upp. Hugmyndin er sú að tengja leikfélögin saman með sameiginlegu verkefni.

Hópur 3
Elli (Leikfélag Selfoss, hópstjóri), Ágúst (Leikfélag Hólmavíkur), Sigga Lára (Leikfélag Fljótsdalshéraðs), Guðrún Einars (Leikfélag Húsavíkur), Benoný (Leikfélag Húsavíkur), Ingólfur (Freyvangsleikhúsið), Guðrún Eysteins (Hugleikur), Sigurður (Leikfélag Hörgdæla), Erla (Leikfélag Ölfuss).

Þjónustumiðstöð

Erum ánægð og fáum þá þjónustu sem við þurfum. Viljum auka veg miðstöðvarinnar og virðingu og hvetjum alla áhugaleikara og öll leikfélög til að nýta t.d. samfélagsmiðla til að dreifa auglýsingum af vefnum um verslunarvörur fyrir Öskudag og Halloween, og nefna handritasafnið við öll möguleg tækifæri. Fram kom hugmynd um að útbúa Youtube video með sketsum þar sem einhverjir koma á þjónustumiðstöðina og fá úrlausn sinna mála, fá handritið sem vantaði eða kaupa t.d. förðunarvörur og ganga út sem nýjar manneskjur!

Hugmyndir voru ræddar um leiðir til aukinnar fjármögnunar, t.d. að bjóða upp á einstaklingsaðild að Bandalaginu (sem áður hefur verið rætt), og/eða senda út valgreiðslur til einstaklinga, t.d. upp á ca 2000 kr.

Við leggjum til að skipuð verði nefnd til að taka saman gögn a.m.k. aftur fyrir leiklistarlög sem sett voru um eða fyrir miðjan 10. áratug sl. aldar, um fjármögnun og starfsemi leikfélaganna, greina og skila skýrslu á næsta aðalfundi.

E.t.v. væri gagnlegt að skipuleggja og framkvæma bréfaherferð – gjarnan með sveitarfélögin í liði. T.d. að einstaklingar, leikfélög og sveitarstjórnir skrifi kjörnum fulltrúum sinna kjördæma, og líka til fjárlaganefndarfulltrúa, til að færa rök fyrir mikilvægi starfseminnar, mikilvægi þjónustumiðstöðvarinnar fyrir Bandalagið og þjóðfélagið, muna eftir þjónustunni sem miðstöðin veitir líka skólakerfinu og atvinnuleikhúsunum og sjálfstæðu leikhópunum. Nota má gögnin og skýrsluna sem fyrrnefnd nefnd skilar.

Skólinn, skólinn er fínn, allir að fara í skólann, muna eftir stéttarfélagastyrkjum, oft hægt að fá styrki jafnvel þótt svo sé ekki að sjá á reglum félaganna. Alltaf að tékka.

Sérverkefni: Leiklistarhátíð 2020
Forsendur:
Stuttverkahátíð.
Tengja við aðalfund, halda föstudaginn 1. maí
Haldið í Reykjanesbæ, eða annarsstaðar á Suðurnesjum
Leikþættir 15 – 25 mín að lengd
Fá utanaðkomandi til að fjalla um sýningar
Möguleiki á að hafa sameiginlega leikhúsveislu á föstudagskvöldinu

Við erum hlynnt öllum þessum hugmyndum. Sérstaklega að hafa neðri tímamörk og efri á lengd verka, það hvetur til góðs undirbúnings. Einnig líst okkur mjög vel á að hafa „utanaðkomandi“ aðila í gagnrýni verkanna/umfjöllun, t.d. Berg Ingólfs, m.a. vegna tengingar við Suðurnes.

Við skorum á félögin að taka þátt og að virkja höfunda til að skrifa verk af þessari lengd, og deila milli félaga.
Er hægt að forvinna og fiska út úr handritsafninu? Hefur einhver tíma til þess, hver getur gert það?
Geta leikfélögin sem eiga eitthvert handritasafn sjálf gert það sama, fengið heimild höfunda til að nota verkin og lagt þau fram?
Getum við útbúið sameiginlega handritageymslu sem öll leikfélögin geta komist í til að setja inn þessi handrit og önnur sem kunna að verða skrifuð.
Finna þyrfti kerfi til að útdeila verkunum, þannig að hægt sé að taka þau frá til sýninga. Ath. höfundarlaun og réttindi.
Einnig væri hægt að velja 1 – 3 verk sem allir þurfa að nota og setja upp, sbr. Þjóðleikur.
Þetta krefst sennilega rafrænnar lausnar, og þyrfti að vera komið til framkvæmda snemma hausts. Við beinum þessum hugmyndum til undirbúningsnefndar.

Hópur 4
Hulda Gunnarsdóttir hópstjóri
Úlfhildur Örnólfsdóttir, Stefán Ólafsson, Stefanía Björk Björnsdóttir, Kolbrún Ada Gunnarsdóttir, Sólveig Heiðrún Stefánsdóttir, Hugrún Ásta Óskarsdóttir, Þórdís Sigurgeirsdóttir og Berglind Ósk Ingólfsdóttir.

1. Góð þjónusta sem er algjörlega ómissandi í starfsemi leikfélaga á landinu. Leiklistarskólinn ómissandi og vefurinn einnig. Allt algjörlega dásamlegt. Vefurinn hefur orðið aðgengilegri og virkari að undanförnu. Minnum leikfélög á að auglýsa leiklist.is á meðal sinna leikfélaga og inni á sínum vefum og Facebooksíðum. Minnum stjórnir leikfélaga á að senda uppfærðar upplýsingar um sín félög til lénsherra (t.d. heimasíður og annað), gott að geta farið inn og fundið heimasíður.
Þið standið ykkur vel og við elskum ykkur öll.

2. Við þurfum að vera sýnilegri og láta í okkur heyra á opinberum vettvangi. Lýsa starfseminni og höfum samband við Kveik, Menningu, Kastljós, Landann og þrýstum á miðla að fjalla um okkur. Mælum með þvi að hvert félag fyrir sig hafi hátt og heimti athygli. Leikum sama leikinn sem stjórnmálamenn leika og ljúgum fyrir atkvæði/fjárframlög. Löglegt en siðlaust! ?

Sérverkefni
Okkur finnst þetta hljóma eins og gott partý. Sjáum fyrir okkur að það sé leiklistarhátíð allan föstudaginn þar sem leikfélögin sýna sín verk (15-20) mín hvert. Um kvöldið yrði svo gott partý. Á laugardeginum yrði aðalfundur og hátíðarkvöldverður. Leikfélögin hvött til að koma með sitt og sína, enda ætlum við öll að reyna að vekja meiri athygli á Bandalaginu og fá umfjöllun. Hafa verkin færanleg og einföld.
Hugmynd að hafa fundinn á föstudeginum og hátíðina á laugardeginum.
Hafa mini workshop – geta valið eftir áhugasviði – smink, lýsing, leikstjórn, leikur, búningar, markaðssetning ofl.
Eftir það geta hóparnir farið á milli og skoðað hvað hinir voru að gera.
Hvert leikfélag skilar inn poster með kynningu á sér sem hægt er að hengja upp.
Leggja áherslu á hópefli og að tengja saman félög og félaga.

11.

Kjörnefnd tilkynnir niðurstöður sína og mælir með að minnsta kosti einum aðila í hvert sæti sem kjósa skal í.
Sigga Lára sagði frá því að kjósa ætti um formann og einn aðalmann. Einnig að þrjú sæti væru í boði í varastjórn. Guðfinna Gunnarsdóttir Leikfélagi Selfoss gefur kost á sér til áframhaldandi formennsku. Gísli Björn Heimisson Leikfélagi Hafnarfjarðar gefur einnig kost á sér áfram í aðalstjórn. Óskaði hún eftir mótframboðum. Í varastjórn gefa kost á sér Hanna Margrét Kristleifsdóttir Halaleikhópnum, Þórvör Embla Guðmundsdóttir Leikdeild Umf. Reykdæla, Þrúður Sigurðardóttir Leikfélagi Ölfuss, Jónheiður Ísleifsdóttir Leikfélagi Selfoss, Ágúst Jónsson Leikfélagi Hólmavíkur.

12.

Lagabreytingar.
Engar lagabreytingar voru lagðar fyrir fundinn.

13.

Tillögur lagðar fyrir fundinn.
Ólöf Þórðardóttir varaformaður lagði eftirfarandi tillögu fyrir fundinn:

“Stjórn BÍl leggur til að 2,5 milljónir króna af verkefnastyrk aðildarfélaganna verði látin ganga til rekstrar þjónustumiðstöðvar Bandalagsins.”

Ólöf áréttaði það sem fram kom í niðurstöðum hópanna um mikilvægi þjónustumiðstöðvarinnar og bað fólk að hugsa málið vel og vandlega. Hún nefndi að ef framlagið yrði hækkað upp í 3.000.000 myndi það aðeins lækka styrk til félaganna um 10.000 krónur. Það myndi hins vegar gera gæfumuninn fyrir Þjónustumiðstöðina.

Dýrleif tók undir þessar hugleiðingar og hvatti fólk til þess að samþykkja að hækka framlagið upp í 3.000.000.

Axel Vatnsdal kvaðst þessu sammála. Þó það sé ömurlegt að þurfa að taka af verkefnastyrknum þá er Bandalagið okkar og til þess að það lifi þarf að fara í aðgerðir sem þessar. Hann lagði fram eftirfarandi tillögu:

“Aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga haldinn á Fosshótel Húsavík 4. maí 2019 samþykkir að kr. 3 milljónir renni til skrifstofu Bandalagsins af verkefnastyrk félaganna.”

Hörður kom í pontu og skýrði betur stöðu Þjónustumiðstöðvarinnar og nefndi að staðan færi einungis versnandi.

Jónheiður spurði hvort 3 milljónir væri nóg. Þurfum við meira?

Breytingatillaga Axels borin upp og samþykkt með 13 atkvæðum. Einn á móti.

14.

Starfsáætlun afgreidd.

Starfsáætlun Bandalags íslenskra leikfélaga leikárið 2019-2020 borin upp fyrir fundinn og samþykkt samhljóða.

Hún hljóðar svo:

Starfsáætlun Bandalags íslenskra leikfélaga leikárið 2019-2020

Almenn starfsemi
1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.
2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.

Sérverkefni
1. Halda leiklistarhátíð í tengslum við 70 ára afmæli BÍL árið 2020.

Hlé gert á fundi til kl. 14:45. Kaffi og með því.

15.

Stjórnarkjör.
Guðfinna Gunnarsdóttir kynnti sig og sagðist tilbúin að bjóða sig fram til formanns áfram. Hlaut hún klapp að launum og var með því sjálfkjörin í embættið.

Gísli Björn Heimisson steig í pontu og kynnti sig. Hann gefur einnig kost á sér áfram í aðalstjórn. Hann var einnig kjörinn með lófaklappi.

Framboð til varastjórnar voru kynnt. Hanna Margrét, Jónheiður og Ágúst kynntu sig, Magnþóra talaði fyrir hönd Þrúðar og Dilla fyrir hönd Emblu. Gengið til kosninga.

Úrslit: Jónheiður hlaut flest atkvæði, Hanna Margrét næstflest og eru þær því kjörnar í varastjórn. Jafnt var á atkvæðum næstu manna og var því kosið að nýju milli þeirra þriggja sem eftir stóðu. Ágúst hlaut flest atkvæði úr þeirri kosningu og er því kjörinn í varastjórn.

16.
a. Kosning þriggja manna kjörnefndar og eins varamanns til eins árs
Dýrleif Jónsdóttir, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir og Gerður Halldóra Sigurðardóttir voru kjörnar aðalmenn og Axel Vatnsdal til vara.

b. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara til eins árs.
Dýrleif Jónsdóttir og Oddfreyja H. Oddfreysdóttir voru kjörnar aðalskoðunarmenn og Ásgeir Hvítaskáld til vara.

17.

Ákveðið árgjald til Bandalagsins.
Gísli Björn Heimisson kynnti tillögu stjórnar.

Tillaga stjórnar að árgjaldi leikárið 2019-2020
Stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga leggur til að árgjöld aðildarfélaga fyrir leikárið 2019-2020 verði kr. 75.500.
Félög sem setja upp tvær styrkhæfar sýningar á leikárinu borgi eitt og hálft gjald eða kr.113.250 og félög sem setja upp þrjár sýningar eða fleiri borgi tvöfalt gjald eða kr. 151.000.
Félög sem setja ekki upp styrkhæfa sýningu á leikárinu borgi hálft árgjald eða kr. 37.750.
Gísli útskýrði að hækkunin væri í samræmi við launavísitölu milli áranna 2018-2019 eða 5,4%.

18.

Önnur mál.
Sigga Lára steig í púlt og sagði frá samanburðarrannsókn sem verið er að gera á nokkrum litlum leikfélögum víða um Evrópu. Hún mun senda út spurningalista á öll leikfélög í tengslum við rannsóknina. Verður það gert áður en félögin senda inn umsókn um styrk í júní. Hvatti hún fundarmenn til að svara könnuninni.

Ada bað fólk að láta vita ef það hygðist vera með skemmtiatriði eða ræður á hátíðarkvöldverðinum. Hún sagði einnig frá því að hádegismatur yrði borinn fram kl. 11:00 á sunnudagsmorgun. Að lokum benti hún á að það er Happy Hour á hótelbarnum milli kl. 17:00 og 19:00.

Anna María þóttist vilja bresta í söng en ákvað svo að vekja athygli á opinni handritasamkeppni sem Freyvangsleikhúsið stendur fyrir. Hún hvatti alla til að senda inn handrit.

Halla sagði frá því að fólk sem á að mæta í fyrra flug á sunnudegi yrði sótt kl. 11:40 og keyrt á völlinn. Þeir sem eiga seinna flug verða sóttir kl. 15:40.

Stefanía Björk Björnsdóttir frá Halaleikhópnum spurði hvort til væru einhverjar reglur um fríðindi fyrir heiðursfélaga innan leikfélaga. Flest leikfélög hafa þann háttinn á að heiðursfélagar fái frítt á sýningar. Engar samræmdar reglur eru til um þetta.

Hörður bað fundargesti að færa sig yfir í hliðarsalinn þar sem hann fór ítarlega yfir Leiklistarvefinn leiklist.is.

Næsti aðalfundur. Hugmyndir reifaðar um stað og stund.

Næsti aðalfundur verður haldinn í Reykjanesbæ 1.-2. maí 2020 eins og fram hefur komið.

Guðfinna þakkaði Emblu og Þrúði fyrir samstarfið í stjórn og bauð nýja stjórnarmenn velkomna. Einnig þakkaði hún Leikfélagi Húsavíkur kærlega fyrir höfðinglegar móttökur, fundarstjórum fyrir góða fundarstjórn og fundarmönnum fyrir frábæran fund. Í lokin minntist hún á að það er ekki lúxus að eiga góða aðstöðu líkt og við fengum að sjá hjá Leikfélagi Húsavíkur á þessu þingi. Það á að vera sjálfsagt og vel mögulegt að ná því fram með góðu samstarfi við ráðamenn. Síðan sleit hún fundi kl. 16:02.

Fundarritarar
Magnþóra Kristjánsdóttir og Jónheiður Ísleifsdóttir