Nokkur aðildarfélög BÍL hafa frestað aðalfundum sínum fram á haustið vegna Covid-19. Önnur hafa hinsvegar haldið aðalfundi síðustu daga og vikur.

Aðalfundur Leikfélags Selfoss var haldinn í Litla leikhúsinu við Sigtún þann 3. júní síðastliðinn. Mæting á fundinn var mjög góð, létt yfir fólki og fundinum að vanda. Farið var yfir starfið á leikárinu sem var að ljúka, fjölmargir nýir félagar voru teknir inn og kosið í nýja stjórn.
Farið var yfir erfiðan vetur í skugga samkomubanns og heimsfaraldurs og öllum til mikillar gleði var tilkynnt að Djöflaeyjan mun rísa aftur í haust og áætlað að sýningar muni standa út október og byrjun nóvember.
Sitjandi formaður Guðný Lára Gunnarsdóttir bauð sig áfram til formanns og fékk dynjandi lófaklapp allra viðstaddra í embættið. Ný stjórn hefur nú skipt með sér verkum og er þannig skipuð:

Formaður – Guðný Lára Gunnarsdóttir
Varaformaður – Sigrún Sighvatsdóttir
Ritari – Sigríður Hafsteinsdóttir
Gjaldkeri – Svanhildur Karlsdóttir
Meðstjórnandi – Birgitta Brynjarsdóttir

Í varastjórn sitja: Finnur Hafliðason, Hafsteinn Óskar Kjartansson og Stefán Ólafsson.

Leikfélag Kópavogs hélt einnig sinn aðalfund 15. júní. Breyting var gerð á lögum og var fækkað í aðalstjórn úr 5 í 3 auk þess sem formaður er ekki lengur kosinn beint heldur skipar stjórn með sér verkum að fullu. Ný stjórn félagsins er þannig skipuð:
Anna Margrét Pálsdóttir, Þórdís Sigurgeirsdóttir og Örn Alexandersson í aðalstjórn en í varastjórn eru Valdemar Lárus Júlíusson, Sunneva Ólafsdóttir og Ellen Dögg Sigurjónsdóttir.

Félagið áformar að taka aftur upp sýningar á Fjallinu í haust en hætta þurfti leik eftir fáar sýningar.