ImageHeimildarmynd um Act alone er nefnist Leikur einn verður sýnd í Sjónvarpinu í kvöld, þriðjudaginn 10. október kl. 21.10. Það er Ísfirska kvikmyndafyrirtækið digi-Film sem gerir myndina sem er í leikstjórn Jóhannesar Jónssonar, kvikmyndagerðamanns og aðal digimanns. Myndin var gerð á Act alone 2005.


Fjallað er um hátíðina og einleikjaformið almennt. Rætt er við þátttakendur á hátíðinni og hátíðarhaldara, Elfar Loga Hannesson, leikara. Fjölmargir kunnir listamenn koma við sögu í myndinni m.a. Brynja Benediktsdóttir, Eggert Kaaber, Hallveig Thorlacius, Helga Arnalds, Hörður Torfa og Jón Viðar Jónsson.

Nafn myndarinnar er eins og áður segir Leikur einn en til gamans má geta þess að Act alone hét upphaflega því nafni þegar hátíðin var fyrst haldin árið 2004. Hér er á ferðinni metnaðarfull og vönduð mynd úr smiðju digi-Film enda ekki á hverjum degi sem gerðar eru heimildarmyndir um íslenskt leikhús.

Það er ekki amalegt fyrir jafnunga hátið og Act alone að gerð sé heimildarmynd um hátíðina sem mun um leið vekja áhuga og umræðu um nauðsyn slíks ævintýris. Act alone er jú ein af fáum leiklistarhátíðum sem haldnar er árlega á Íslandi.

Heimildarmyndin Leikur einn er 30. mín. löng og verður eins og áður var getið sýnd í Sjónvarpinu þriðjudaginn 10. október kl. 21.10. Myndin verður síðan endursýnd á sunnudaginn 15. október kl. 15.20.

Meðfylgjandi mynd er úr sýningu Kómedíuleikhússins á Dimmalimm frá liðnum vetri.