Leikhópurinn Miðnætti frumsýnir í samstarfi við Lost Watch Theatre, Á eigin fótum, nýja íslenska Bunraku brúðusýningu, í Tjarnarbíói 29. apríl kl 15:00.

Á eigin fótum er falleg, fræðandi og fjörug Bunraku brúðusýning um hugrekki, ætluð allra yngstu áhorfendunum og fjölskyldum þeirra. Sýningin er 40 mínútur að lengd. Við sýningartímann bætist síðan leikstund þar sem börnunum gefst tækifæri á að hitta brúðuna, leikara og skoða leikmyndina. Leyfilegt er að taka myndir í leikstundinni.

Á eigin fótum fjallar um Ninnu, sex ára uppátækjasama stelpu sem býr í Reykjavík á millistríðsárunum og er send ein í afskekkta sveit sumarlangt. Nýju heimkynnin eru henni framandi og umhverfið alger andstæða þess sem hún þekkir. Erfiðar aðstæður, ofsaveður og einmanaleiki reyna á Ninnu, sem óttast mest að hitta foreldra sína aldrei aftur, en með forvitni og hugrekki eignast hún nýja vini og lærir að standa á eigin fótum. Umhverfi Ninnu er töfrum gætt og öðlast hversdagslegir hlutir líf og nýtt hlutverk í sýningunni.

Aðstandendur:
Leikstjóri: Agnes Wild
Höfundar: Leikhópurinn Miðnætti og Lost Watch Theatre Company
Höfundar tónlistar og tónlistarflutningur: Sigrún Harðardóttir og Margrét Arnardóttir
Leikmynd/búningar/brúðugerð: Eva Björg Harðardóttir
Leikarar: Nick Candy, Þorleifur Einarsson, Olivia Hirst og Rianna Dearden
Framleiðandi: Bergdís Júlía Jóhannsdóttir
Ljósahönnuður: Kjartan Darri Kristjánsson

“Þetta er saga byggð á endurminningum Signýjar Óskarsdóttur, eða Ninnu, ömmu minnar en sagan er um hugrekki og vináttu. Hún tengir saman gamla tíma og nýja, er fræðandi en á sama tíma skemmtileg og töfrandi að horfa á. Þetta er verk sem kynslóðirnar geta notið saman.”
-Agnes Wild

Tónlist leikverksins er frumsamin af Sigrúnu Harðardóttur og verður í lifandi flutningi í sýningunni af henni sjálfri og harmonikkuleikaranum Margréti Arnardóttur. Eitt af sérstöðum sýningarinnar er að hún er án orða og áhersla er á sjónræna upplifun og aðgengi fyrir alla.