Sunnudaginn 4. mars næstkomandi, frumsýnir Sviðslistahópurinn 16 elskendur stórvirkið Sýningu ársins, sviðslistaviðburð fyrir alla Íslendinga. Eins og titillinn gefur til kynna er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur en í sýningunni leitast hópurinn við að koma til móts við „leikhúsþarfir Íslendinga.“  Í því skyni hefur leikhópurinn látið gera skoðanakönnun á því hvað Íslendingar vilja sjá á sviði. Til að niðurstaðan væri sem vísindalegust gekk hópurinn til samstarfs við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands sem framkvæmdi könnunina með 1400 manna úrtaki. Sýningin er unnin beint upp úr niðurstöðum rannsóknarinnar.

Hvað vilja Íslendingar sjá í leikhúsi? Hvað vilt þú sjá í leikhúsi? Hvað vilja konur helst sjá? En karlar? Vilja vinstri grænir og sjálfstæðismenn sjá það sama? Hvað vilja Íslendingar að meðaltali ekki sjá? Ert þú meðalmaður? Sýning ársins er könnun sviðslistahópsins 16 elskenda á áhrifum skoðanakannanna í samfélaginu, en um leið rannsókn á tengslum almennings við leikhúsið og væntingum til þess. Gleði, dans, söngur, texti, frægir leikarar, lifandi tónlist, sumar og sól – eitthvað fyrir alla. Samhliða sýningunni verða niðurstöður rannsóknarinnar gefnar út á bók. Jafnframt verður sérstakt málþing um rannsóknina haldið í mars. Verkefnið er styrkt af Mennta- og menningarmálaráðuneyti, Auroru velgerðarsjóði og Reykjavíkurborg.

Sviðslistahópurinn 16 elskendur er samstarf listamanna úr ólíkum geirum, leiklist, myndlist, tónlist, danslist og gjörningalist. 16 elskendur setja upp sýningar þar sem mörk hefðbundinna leiksýninga eru máð og þannig látið reyna á mæri raunveruleika og sýningar. Í efnistökum sínum leitast 16 elskendur við að prófa og teygja orðræðu líðandi stundar og bjóða áhorfendum í „tilraunastofu“ þar sem þeirra eigið samfélag, hugsjónir og gildi eru krufin, þar sem áhorfendur og leikendur skoða samsetningu þjóðfélagsins í sameiningu. 16 elskendur hafa sýnt verk sín á Listahátíð í Reykjavík og á alþjóðlegu leiklistarhátíðinni Lókal, auk þess sem hópurinn hefur tekið þátt í samstarfi við Þjóðleikhúsið, Þjóðmenningarhúsið og nú síðast Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Aðferðafræði 16 elskenda byggir á hugmyndinni um beint lýðræði og eru verkin alltaf unnin í þverfaglegri vinnustofu án þess að eiginlegur leikstjóri eða höfundur komi við sögu.

16 elskendur eru: Aðalbjörg Árnadóttir, Brynja Björnsdóttir, Davíð Freyr Þórunnarson, Eva Rún Snorradóttir, Friðgeir Einarsson, Gunnar Karel Másson, Hlynur Páll Pálsson, Karl Ágúst Þorbergsson, Ragnar Ísleifur Bragason, Saga Sigurðardóttir, Ylfa Ösp Áskelsdóttir.

Aðrir sem að sýningunni koma: Leikskáldin Hrafnhildur Hagalín og Jón Atli Jónasson, leikstjórarnir: Kristín Eysteinsdóttir og Stefán Jónsson, leikararnir:  Ilmur Kristjánsdóttir og Örn Árnason

Frekari upplýsingar www.16lovers.com

Miðapantanir: syning.arsins@gmail.com og í síma 778-1316.

Miðaverð: kr. 2.500,- (nemar og öryrkjar kr. 2.000,-) Ath. takmarkaður sýningarfjöldi og knappur sýningartími!

{mos_fb_discuss:2}