Þann 20. janúar verður leikritið Svartur köttur eftir Martin McDonagh frumsýnt hjá LA. Leikritið er margverðlaunað og hefur víða vakið athygli. Sömu sögu er að segja um mörg fyrri verka McDonaghs, s.s. Koddamanninn, Halta Billa frá Miðey og Fegurðardrottninguna frá Línakri sem öll hafa verið sýnd hérlendis. Um sérstaka hátíðarfrumsýningu er að ræða í tilefni af því að þann 20. janúar eru 100 ár frá fyrstu frumsýningu í Samkomuhúsinu.

Þetta hófst allt með því að dauður köttur fannst á veginum – besti vinur Patreks í öllum heiminum. Hann leitar hefnda, Mairead leitar að ástinni, allir leita að Patreki nema Davey sem leitar að leið út úr klandrinu. 

svartur-kottur.png

Martin McDonagh á mikilli velgengni að fagna sem höfundur um þessar mundir. Verk hans hafa verið sett upp um allan heim en íslenskir áhorfendur hafa barið þrjú verka hans augum, Fegurðardrottninguna frá Línakri (Borgarleikhúsið), Halta Billa (Þjóðleikhúsið) og Koddamanninn (Þjóðleikhúsið).  Svartur köttur (The Lieutenant of Inishmore) ber sterk höfundareinkenni McDonagh þó húmorinn sé ef til vill fyrirferðarmeiri í þessu verki en í öðrum leikritum hans.

Leikstjóri er Magnús Geir Þórðarson. Filippía Elísdóttir hannar leikmynd og búninga. Þórður Orri Pétursson hannar lýsingu. Hljómsveitin SKE semur, útsetur og flytur tónlist og þýðingu annaðist Hávar Sigurjónsson. Ragna Fossberg hannar gervi.
Leikarar eru: Guðjón Davíð Karlsson, Þráinn Karlsson, Ívar Örn Sverrisson, Gísli Pétur Hinriksson, Ólafur Steinn Ingunnarson, Páll S. Pálsson og Þóra Karítas Árnadóttir.